24.05.1960
Efri deild: 83. fundur, 80. löggjafarþing.
Sjá dálk 2589 í B-deild Alþingistíðinda. (978)

169. mál, Búnaðarbanki Íslands

Landbrh. (Ingólfur Jónsson):

Herra forseti. Það er eiginlega ekki nein ástæða til þess að vera að taka til máls eftir þessa ræðu hv. þm. Tilefni er tæplega til þess. Hann endaði ræðu sína með því, að það gæfist tækifæri til að sjá, hvort bændur fái að láta rödd sína heyrast í bankaráðinu, eftir að þetta frv. er orðið að lögum. Ég er alveg víss um það, að bændur geta látið rödd sína heyrast í bankaráðinu á eftir, alveg eins og nú. Eins og ég sagði áðan, þótt bankaráðið sé kosið af sameinuðu þingi eftir þessu frv., en af landbn. Alþ. áður, þá er það út af fyrir sig engin breyting, vegna þess að landbn. sjálfar hafa ekki ráðið kosningu þeirra, sem í bankaráðið fóru, heldur hafa þingflokkarnir gert það. Þeir hafa eðlilega gert það, og það er ekkert við því að segja. En hitt er alveg víst, eins og ég sagði áðan, að úr því að bankinn þarf nú alveg sérstaklega á miklu fjármagni að halda, þá styrkir það aðstöðu hans, að fleiri en bændur hafi áhuga á því að efla þessa stofnun, því að það er nú einu sinni svo, að þegar menn eru komnir í stjórn og farnir að bera ábyrgð á einni stofnun, vex áhugi þeirra á því, að stofnunin geti dafnað.

Hv. þm. var að tala um óþolinmæði hjá okkur sjálfstæðismönnum að geta ekki beðið í hálft ár eftir því að fá meiri hluta í bankaráðinu. Ég sagði áðan, að það væri ekki það, sem fyrir okkur vekti. Við teljum, að þótt við gætum fengið tvo af þremur bankaráðsmönnum við Búnaðarbankann, væri ekki þar með nægilega að gert, vegna þess að stofnunin næði ekki þeim áhrifum eða þeim tökum, sem hún sérstaklega þarf að ná nú eftir að fjárfestingarsjóðirnir eru komnir í það öngþveiti, sem þeir eru í.

Hv. þm. minntist hér á bréf, sem ég hafði skrifað Búnaðarbankanum um útibúið á Egilsstöðum. Það er rétt, að ég átti við útibúið á Egilsstöðum í öðru dæminu, sem ég nefndi áðan. En það kemur mér ókunnuglega fyrir eyru, þegar hv. þm. fullyrðir, að útibúið á Egilsstöðum hafi verið stofnað með vilja og samþykki Jóns Pálmasonar, því að ég hef það eftir alveg áreiðanlegum heimildum, að Jón Pálmason, bankaráðsmaður Búnaðarbankans, og Hilmar Stefánsson bankastjóri greiddu báðir atkv. á móti því að stofna þetta útibú. Þeir greiddu báðir atkv. á móti því. Hitt er svo rétt, að hv. l. þm. Vestf. skrifaði Búnaðarbankanum bréf, að mig minnir 19. des. 1958, eða rétt um það leyti sem hann var að fara úr stjórninni, og heimilaði að stofna útibú á Austurlandi. En hafi Jón Pálmason gert það í sinni ráðherratíð, hefur það verið fyrir 10 árum, og hann hefur þá verið búinn að skipta um skoðun á þessum 10 árum, því að ég hef sannar heimildir fyrir því, að hann greiddi atkv. á móti því, að útibúið yrði stofnað. Nú var með mínu bréfi ekkert sagt um það, hvort ég út af fyrir sig væri á móti því, að þetta útibú væri stofnað á Egilsstöðum. En þegar ég frétti um, hvernig þetta hefði borið að, að tveir bankaráðsmenn hefðu samþykkt þetta og einn bankaráðsmaður var á móti og bankastjórinn, þannig samþykkt með 2 atkv. gegn 2, fannst mér eðlilegt, að þetta mál væri athugað nánar og það nýja bankaráð, sem á að kjósa við Búnaðarbankann, fengi tækifæri til þess að fjalla um þetta og láta skoðun sína í ljós. Það fannst mér eðlilegast. Ég nefni ekkert ástæðuna fyrir því, hvers vegna ég skrifaði þetta bréf, að öðru leyti en ég hef nú talið. Það er rétt, sem hv. þm. sagði hér áðan, að tveir bankaráðsmenn af þremur, löglega kosnir, hafa formlega valdið, en hvort það er hyggilegt að beita valdinu þannig, það er svo annað mál, og ekki getur verið eðlilegt að gera það. Í því bréfi, sem ég skrifaði Búnaðarbankanum 4. apríl s.l., segir orðrétt, með leyfi hæstv. forseta:

„Með því að vænta má breytinga á skipan bankaráðs Búnaðarbanka Íslands á yfirstandandi Alþ., þykir eðlilegt, að undirbúningur að stofnun fyrirhugaðs bankaútibús á Egilsstöðum verði ekki hafinn fyrr en nýtt bankaráð fær tækifæri til þess að ákveða, hvernig þessum undirbúningi skal hagað.“

Þetta er skrifað vegna þess, að það voru tveir, sem vildu stofna útibúið, en einn bankaráðsmaðurinn og bankastjórinn vildu ekki gera það, greiddu atkv. á móti því. Þess vegna er eðlilegt, að ráðh., sem þessi stofnun heyrir undir, telji eðlilegt að athuga þetta mál frekar. En ég hef ekkert sagt um það, að ég væri endilega á móti því, að þetta útibú yrði stofnað, og ég segi: hvers vegna mátti nú ekki bíða til vorsins með þetta? Voru það hagsmunir bankans, eða voru það hagsmunir Austfirðinga? Hvers vegna hafa þessir menn, sem hafa ráðið bankanum nú undanfarið, ekki stofnað útibú á Austurlandi fyrr, ef það hefur verið heimilað af ráðh. fyrir 10 árum? Mér hefur verið sagt, að það væri búið að ráða bankastjóra að útibúinu á Austurlandi. Við skulum ekki fara frekar út í það, en það er ekkert víst, að nýtt bankaráð, sem hefur verið kosið í samræmi við vilja Alþ., hefði kosið þennan mann, án þess að ég ætli nokkuð að lasta hann út af fyrir sig.

Þetta er það, sem ég vildi segja um útibúið á Egilsstöðum, af því að það var beinlínís nefnt hér og vitnað í bréf mitt. En ég hef fleiri dæmi, sem líkt stendur á um og hægt væri að nefna, sem er vafasamt og er ekki til þess að auka álit eða traust bankans.

(HermJ: Hvað er það?) Á ég að nefna það? Ja, það er t.d. ráðning útibússtjórans á Akureyri í haust. Hann var ráðinn með atkv. framsóknarmanna gegn atkv. eins bankaráðsmannsins og gegn vilja bankastjórans. (HermJ: Þetta er rangt.) Þá hef ég fengið skakkar upplýsingar, því að ekki bý ég þetta til, en ég hef fengið þetta frá þeim mönnum, sem ég trúi að hafi sagt mér satt, og þessi ráðstöfun þótti mjög hæpin, mjög vafasöm, vegna þess að annars vegar var vanur bankamaður, sem hafði gegnt bankastjórastarfi í fjarveru útibússtjórans, er sat á Alþ., hins vegar var óvanur bankamaður, barnakennari að menntun, sem þekkir ekki full skil á bankastarfsemi. Ég segi, án þess að lasta þennan mann, sem var ráðinn, hann getur verið ágætur út af fyrir sig, að þessi aðferð var ekki til þess að styrkja eða auka álit manna á stjórn bankans, og einmitt svona dæmi ýtir miklu frekar undir breytingu og sannar, . að það er þörf á því, að stjórnin sé kosin á lýðræðislegan hátt.

Hv. 2. þm. Vestf. sagði áðan, að við gætum átt von á þessu eftir hverjar kosningar, að það verði breytt um í bankaráðinu. Ekki skal ég fullyrða neitt um það. En ég vil aðeins minna á, að það, sem hér er verið að gera í sambandi við Búnaðarbankann nú, er að tryggja það, að bankaráð Búnaðarbankans verði kosið á sama hátt og annarra ríkisbanka, og eðlilega verður þá bankaráðið í hverjum banka skipað í samræmi við styrkleika flokkanna í Alþ. Það er þetta, sem hv. 2. þm. Vestf. virðist ekki vilja una. Hann talar um, að bankinn sé slitinn úr tengslum við bændur, ef þannig er að farið.

Það, sem ég vil fullyrða í þessu sambandi, er, að bændur spyrja ekki að því, hvernig bankaráðið er kosið. Þeir spyrja ekki heldur að því, hvað bankaráðsmennirnir heita. Þeir spyrja að því, hvort þeir geti fengið lán í bankanum og með hvaða kjörum þeir geti fengið það. Þessi breyting á bankaráðslögunum miðar að því að tryggja, að bændur geti verið í þeim tengslum við bankann, sem þeir sjálfir óska helzt eftir, á þann hátt, að bankinn fullnægi því hlutverki, sem honum hefur ætíð verið ætlað, þ.e. að hafa fjármagn til að lána til landbúnaðarins, og það verður bezt gert með því, að sem flest öfl í þjóðfélaginu telji, að þessi stofnun hafi mikilvægu hlutverki að gegna.