24.05.1960
Efri deild: 83. fundur, 80. löggjafarþing.
Sjá dálk 2591 í B-deild Alþingistíðinda. (979)

169. mál, Búnaðarbanki Íslands

Hermann Jónasson:

Herra forseti. Það var um stofnun útibúsins. Hilmar Stefánsson bankastjóri greiddi alls ekkert atkv. um það. Það er eins og venjulega, þessi hæstv. ráðh. þarf alltaf að vera að reyna að smeygja sér út úr því, sem hann hefur sagt, og talar þannig, að hann kannast ekki við það, sem hann hefur talað, því að hann sagði hér í allra áheyrn, að þetta hefði verið samþ. með 2 atkv. gegn 2. Það er eitt út af fyrir sig, sá hugsunargangur að álíta, að það sé hægt að samþ. eitthvað með 2 atkv. gegn 2. Ef það hefði verið svo, hefði vitanlega ekki verið stofnað útibú, því að það hefði verið fellt með 2 atkv. gegn 2, svo að það er í þessu margþætt vitleysa.

Um ráðningu útibússtjórans á Akureyri skal ég það eitt segja, að það var gert af bankaráðinu og á þess ábyrgð, og ég get fullyrt það, að það er óþarfi að vera að lasta þennan mann, hann hefur reynzt alveg ágætlega, eins og hann hafði reynzt, þegar hann hafði gripið í þetta mjög oft um lengri eða skemmri tíma hjá föður sinum: Ég ætla ekki að fara í karp um ráðningar á mönnum í bankastjórastörf, en ef það væri farið í meting um það við Sjálfstfl., hvernig þeir hafa reynzt, bankastjórar þess flokks og bankastjórar Framsfl., þá hygg ég, að þessi hæstv. ráðh. kysi alls ekki að hafa yfirleitt neinar umr. um það.

Ef ég fer að segja fleira, eru það endurtekningar, og ég skal ekki misnota þann rétt, sem ég hef haft til að gera þessa aths.