04.12.1959
Neðri deild: 11. fundur, 80. löggjafarþing.
Sjá dálk 183 í B-deild Alþingistíðinda. (98)

16. mál, bráðabirgðafjárgreiðslur úr ríkissjóði 1960

Fjmrh. (Gunnar Thoroddsen):

Herra forseti. Það eru aðeins nokkur orð út af ummælum hv. 7. þm. Reykv. varðandi þingræðið. Hann hefur nú komizt að þeirri niðurstöðu, að ég sé fjandmaður þingræðisins, óvirði það og fyrirliti og vilji helzt losna við þingið. Það undrar mig ekkert, að hv. þm. komist að þessari niðurstöðu, þegar athugað er, að hér á í hlut maður, sem hefur haft framfæri sitt af því nú líklega undir aldarfjórðung að hagræða sannleikanum á sama hátt og hið þekkta málgagn hans, Tíminn, hefur gert. Slíkur maður er orðinn svo vanur því að hagræða sannleikanum á sinn hátt, snúa honum alla vega eftir geðþótta, að það er honum miklu tamara og kærara að segja hálfan sannleika en allan.

Við skulum aðeins líta á virðingu hans og hans flokks og vinstri stjórnarinnar undir forustu Framsfl., — virðingu og tillit gagnvart þinginu. Eitt fyrsta verk vinstri stjórnarinnar haustíð eða sumarið 1956 var að gefa út brbl. um bindingu verðlags og kaupgjalds í landinu. Vinstri stjórnin byrjaði ekki á því að bera slíkt undir þingið, þó að hún stigi þar sín fyrstu spor í efnahagsmálunum. Nei, hún gaf út brbl., án þess að henni dytti í hug að kalla hið nýkjörna þing saman eða gefa því kost á að segja álit sitt um þetta. Þegar svo á næstu tveim árum þingið sat að störfum, hvernig voru þá vinnubrögðin í efnahagsmálunum? Ég lýsti þeim að nokkru hér áðan. Mánuðum saman var þinginu haldið aðgerðalitlu. Hvað var ríkisstj. að gera á meðan, vinstri stjórnin? Hún var að semja við einhverja 19 manna nefnd frá Alþýðusambandinu, reyna að ná samkomulagi í einhverri 6 manna nefnd frá sömu samtökum og símandi hingað og þangað landshornanna á milli til þess að fá stjórnir einstakra stéttarfélaga til þess að fallast á eitthvað, sem vinstri stjórnin hafði í undirbúningi, en Alþingi sat á sama tíma mánuðum saman aðgerðalaust, án þess að nokkuð af þessum málum eða þessum bjargráðum væri undir það borið. Þetta var virðing vinstri stjórnarinnar fyrir Alþingi.

Ég minntist á það áðan, að það er ekki til þess að auka virðingu og sæmd Alþingis að láta það sitja 7—8 mánuði ársins og meginhluta þess aðgerðalaust. Þjóðin horfir öll upp á það, og fátt er öruggara en þetta til þess að gera Alþingi að athlægi og draga niður virðingu þess í augum þjóðarinnar.

Núv. ríkisstjórn vill vissulega hafa önnur vinnubrögð en þessi vinnubrögð vinstri stjórnarinnar. Hún telur það skyldu sína að undirbúa stærstu mál, eins og efnahagsmálin og fjárlögin, sem bezt fyrir þingið og að þingið komi því saman til fundar að nýju, þegar þessi mál liggja fyrir, til þess að þingið geti síðan fjallað um þau og lagt sinn dóm á þau. Við teljum þetta heppilegri og skynsamlegri vinnubrögð, vænlegra fyrir virðingu Alþingis og hentugri vinnubrögð á alla lund fyrir þjóðina.

Hv. þm. sagði, að það lýsti m.a. fyrirlitningu minni á þingræðinu, að ég hefði haft þau orð, að fjvn. væri að dunda yfir fjárlögunum. Orð mín voru á þá leið, að ég tel það óheppileg og vansæmandi vinnubrögð, að í stað þess að fjvn. fái í hendur vel undirbúið fjárlagafrv. og þingið taki sér um það bil mánaðartíma til að fjalla um fjárlagafrv., — að í stað þessara skynsamlegu og eðlilegu vinnubragða séu málin svo illa undirbúin af hendi stjórnarinnar, eins og var af hendi vinstri stjórnarinnar, að fjvn. sé í fjóra mánuði að vinna að fjárlagafrv., ýmist þannig, að frv. er svo illa undirbúið, að það tekur svo langan tíma að leiðrétta það og lagfæra, eða vegna þess að ekki er hægt að leggja síðustu hönd á verkið, vegna þess að vinstri stjórnin er úti um hvippinn og hvappinn að spyrja Pétur og Pál, hvort hann vilji samþykkja einhverjar og einhverjar dýrtíðarráðstafanir og bjargráð, án þess að Alþingi sé látið segja sitt orð um það.

Vinstri stjórnin, sem sat fimm missiri, er að áliti hv. 7. þm. Reykv. bezta stjórn á jarðríki, vafalaust, og þegar maður hefur í huga þessi vinnubrögð hennar og hennar óvirðingu gagnvart löggjafarvaldinu og Alþingi, þá sætir það nokkurri furðu, að núv. ríkisstj. skuli verða fyrir ámæli fyrir það, að þegar hún tekur til starfa sama dag og Alþ. er sett, þá skuli vera talin rétt og skynsamleg vinnubrögð, að nokkrar vikur séu teknar í þinghlé eða þingfrestun, til þess að stjórnin geti undirbúið þessi mál, til þess að alþm. sjálfir fái gögnin og málin betur í hendur búin. Og þegar hv. þm. leyfir sér, eins og fleiri flokksbræður hans, að tönnlast á því, að stjórnin sé með eitthvert ofbeldis- og fantabragð að senda þingið heim, þá snýr maðurinn þessu svo gersamlega við, því að þingfrestun verður að sjálfsögðu ekki eftir ákvörðun stjórnarinnar, heldur því aðeins að Alþingi ákveði sjálft að taka sér fundarhlé. Það liggur fyrir till. frá ríkisstj. um það, að hv. Alþingi fallist á það sjálft, að það séu eðlileg vinnubrögð og hyggileg að fella niður þingfundi um skeið. Það er á valdi Alþingis sjálfs og þess eins að ákveða, að fundirnir falli niður um tíma. Það er svo venjulegur Tímasannleikur og málinu snúið eins kyrfilega við og hægt er, þegar sagt er, að ríkisstj. ætli að senda þingið heim gegn vilja þess sjálfs, því að þetta veltur eingöngu á því, hvort meiri hl. Alþingis ákveður sjálfur að taka sér frí frá störfum um hríð.