27.05.1960
Efri deild: 85. fundur, 80. löggjafarþing.
Sjá dálk 2593 í B-deild Alþingistíðinda. (983)

169. mál, Búnaðarbanki Íslands

Frsm. minni hl. (Karl Kristjánsson):

Herra forseti. Um leið og ég skírskota til nál. míns á þskj. 530, vil ég fara nokkrum orðum um frv. og afstöðu mína.

Aðalefni frv. er, eins og kemur fram í aths., sem því fylgja, og hv. frsm. meiri hl. (MJ) lýsti líka, í fyrsta lagi að fjölga bankaráðsmönnum úr 3 í 5 og í öðru lagi að fjölga bankastjórum Búnaðarbankans. Ástæðurnar til þessara breytinga eru taldar vera þær að styrkja aðstöðu bankans og skipa honum svipaða stjórn að mannatölu og öðrum ríkisbönkum. Þetta lítur í fljótu bragði mjög eðlilega út. En ef skoðað er ofan í kjölinn og sá kunnugleiki notaður, sem allir hv. þm. þessarar d. hljóta nú að hafa, þá er tilgangurinn undir niðri sá að fjölga bankaráðsmönnunum til þess, að stjórnarflokkarnir, sem nú fara með völdin í landinu og vilja gjarnan auka þau, fái meiri hluta í bankaráðinu. Og fjölgun bankastjóra er einnig til þess, að sömu flokkar geti fengið þar sæti fyrir sína fulltrúa. Samkvæmt frv. var ekki tekið fram, hvað bankastjórarnir mættu verða margir. Nú er komin fram brtt. frá meiri hl. — og stjórnarflokkunum þar með — um það, að ekki megi fjölga þeim nema í tvo.

Ef maður athugar nú, hvort þetta muni verða til þess að styrkja aðstöðu bankans, að stjórnarflokkarnir fái þar meiri hluta og fái þar tvo bankastjóra, þá virðist svo, að það hefði verið hægt fyrir stjórnarflokkana að styrkja aðstöðu bankans á annan hátt. Hæstv. landbrh. orðaði þetta eitthvað á þá leið, að með því að fjölga bankaráðsmönnunum væri tryggð samúð með bankanum frá öllum flokkum þings. En það er ekki í raun og veru það, sem vantað hefur, að flokkarnir ættu fulltrúa í bankaráðinu, til þess að Alþingi sýndi Búnaðarbankanum umönnun. Við framsóknarmenn höfum hvað eftir annað flutt till. um það að létta skuldabyrðar bankans á þann hátt, sem hefur verið gert að undanförnu og má telja að hafi verið regla síðan bankinn var stofnaður. Ef nú Sjálfstfl. hefði viljað styðja þessar till. okkar, vantaði sannarlega ekki stuðning á Alþingi. Við fluttum hér í þessari hv. d. snemma í vetur frv. um, að ríkissjóður yfirtæki þær skuldir bankans, sem hvíla nú þyngst á honum. Þetta frv. hefur legið óafgreitt hjá fjhn. d., vitanlega af því, að stjórnarflokkarnir hafa stutt að því, að það kæmi ekki fram, og hinn ágæti formaður n., hinn velviljaði og ágæti maður, 11. þm. Reykv. (ÓB), hefur setið á þessu frv. fyrir stjórnarflokkana, og sýnir það út af fyrir sig, hvað ríkt þeim er í hug að veita bankanum stuðning. Framsóknarmennirnir í fjvn. fluttu í vetur till. sama efnis. Sú till. var felld. Það þarf þess vegna ekki fjölgun í bankaráði Búnaðarbankans til þess, að Alþ. veiti bankanum stuðning. Það þarf hugarfarsbreytingu. En hvort hugarfarsbreytingin kemur með fjölgun í bankaráði, það er ósannað mál, en ég fyrir mitt leyti hef ekki mikla trú á því út af fyrir sig.

Það er talið af sömu ástæðu, að fjölga eigi bankastjórum. Ég sé á brtt., sem meiri hl. hefur flutt, að fjölgun bankastjóranna á þó ekki að vera nema upp í tvo. Ég, sem tel, að ekki þyrfti að fjölga bankastjórunum, tel þetta auðvitað til bóta. En hins vegar sé ég í gegnum það tilgang stjórnarflokkanna, að þeir láta sér nægja að koma sínum manninum hvor í þessar stöður. Og það var þá auðvitað ekki, að því er þetta snertir, sú ástæðan að skipa bankanum stjórn eins og hinum bönkunum, sem hafa 3 bankastjóra. Þetta virðist vera full sönnun fyrir því, að það, sem fyrir stjórnarflokkunum vakir, er að fá stóla handa sínum mönnum, en ekki hitt, að koma bankanum undir stjórn þriggja bankastjóra, eins og hinir bankarnir hafa.

Ég held fyrir mitt leyti, að það sé ástæðulaust að fjölga bankaráðsmönnum upp í 5 til þess að hafa þá eins marga og í Landsbankanum og Útvegsbankanum og enn síður ástæða til þess þó að fjölga bankastjórunum. Ég tel mjög vafasamt í raun og veru, að þrír bankastjórar vinni miklu betur fyrir bankann en færri, og ég tel, að fjárhagslega mundi það vera sparnaður fyrir Búnaðarbankann að hafa áfram einn bankastjóra. Mér er tjáð, að bankastjórar telji það ekki skyldu sína að ganga að bókhaldsstörfum, eins og t.d. fulltrúar gera, og þess vegna hygg ég, að það fyrirkomulag sé betra, sem í Búnaðarbankanum er, að bankastjórinn hafi fulltrúa á bak við sig. Bæði vinna þeir fyrir lægri laun en bankastjóri, og einnig er það, að þeir ganga meira að bókhaldsverkum en bankastjórar. Þar að auki tel ég, að Búnaðarbankinn sé ekki fullkomlega sambærilegur við hina bankana. Verkefni hans eru töluvert á aðra leið en viðskiptabanka Landsbankans og Útvegsbankans. Hann hefur ekki verzlun gjaldeyris með höndum, og hann starfar í stofnlánadeildum, sem hafa ákveðnar reglur, sem unnið er eftir og útheimtar því minni bankastjóraforstöðu daglega.

Einnig er á það að líta, að því er bankaráðið snertir: Þurftu stjórnarflokkarnir á því að halda til þess að ná meiri hluta að fá lögunum breytt? Jú, þeir þurftu þess með, af því að þeim var svo brátt að ná í þann meiri hluta, að þeir töldu, að þeir yrðu að fá hann fyrir næstu áramót, fá hann strax, til þess að geta tekið þarna sæti fyrir sína fulltrúa þá mánuði, sem eftir eru af þessu ári. Af því að þeim var svo brátt, þurftu þeir þessa löggjöf, en um næstu áramót er útrunnið kjörtímabil formanns bankaráðsins, og þá gátu þeir eðlilega látið ráðh. sinn skipa mann úr sínum flokki og þannig fengið meiri hl. Hvernig sem á þetta er litið, er það þess vegna frá mínu sjónarmiði óþarfi, sem hér er verið að gera.

Það fyrirkomulag hefur verið haft á kosningu til bankaráðsins, að tveir mennirnir eða meiri hl. bankaráðsins hefur verið kosinn af landbn. Alþingis. Þetta hefur vafalaust verið gert vegna þess, að Búnaðarbankinn er í raun og veru stéttarbanki. Hann er í raun og veru banki bændastéttarinnar, þó að ríkið annist rekstur hans og beri ábyrgðina. Hv. 11. þm. Reykv. sagði áðan um Verzlunarbankann, að hann yrði einkabanki. Hann sagði það um Iðnaðarbankann, sem rétt var, að hann væri blandaður, hann væri ekki fullkomlega einkabanki vegna þátttöku ríkisins að því er stofnfé hans snertir. En þessi banki, Iðnaðarbankinn, er samt óháður ríkinu um stjórnarkjör, að ég held. Er það ekki rétt? (Gripið fram í: Nei, nei.) Það er blandað kjör. Þá bið ég afsökunar á því. En þetta haggar ekki nema að litlu leyti því, sem ég ætlaði að segja, vegna þess að þar sem ríkið og einkaaðilarnir kjósa stjórnina í þeim banka, er mjög eðlilegt, að bændastéttin hafi sérstaka íhlutun um skipun bankaráðs Búnaðarbankans að einhverju leyti. Og með því að láta nefndir þær, sem starfa að landbúnaðarmálum á Alþingi, velja meiri hluta bankaráðsins, hefur löggjafinn sýnilega á þeim tíma, þegar það var upp tekið, haft þá hugsun, lagt hana til grundvallar, að með því móti væru bankanum tryggð í bankaráðinu áhrif bændastéttarinnar, þar sem í landbn, á Alþ. veljast venjulega áhrifamenn um landbúnaðarmál og menn, sem hafa þekkingu á þeim atvinnurekstri og fylgjast með hag bændastéttarinnar. Nú á að breyta þessu, og ég tel það fyrir mitt leyti til skemmda að breyta því. Nú eiga hinir pólitísku flokkar að kjósa mennina hlutbundinni kosningu. Með því móti eru rýrð þau óbeinu áhrif, sem bændastéttinni voru tryggð áður með fyrirkomulagi kosninganna, og ég hef þess vegna leyft mér að leggja fram brtt. á þskj. 531, sem er brtt. við brtt. hv. meiri hl., og hún er á þessa leið, með leyfi hæstv. forseta:

„2. efnismgr. till. orðist svo:

Sameinað Alþ. kýs fjóra bankaráðsmenn hlutbundinni kosningu til 4 ára í senn og jafnmarga varamenn á sama hátt til sama tíma, einn fyrir hvern aðalmann. Stjórn Stéttarsambands bænda kýs fimmta bankaráðsmanninn, einnig til 4 ára, og varamann hans til sama tíma. Varamenn taka sæti í bankaráðinu í forföllum aðalmanna. Ráðh. skipar formann og varaformann bankaráðs úr hópi kjörinna aðalmanna eða varamanna, til 4 ára í senn.“

Með þessari till. er stjórn bændasamtakanna í landinu, stéttarsambands þeirra, gefið vald til þess að velja fulltrúa í bankaráðið. Þannig fær bændastéttin þar beinan fulltrúa, ef þessi till. verður samþ. og frv. verður að lögum. Mér finnst alveg nægilegt fyrir þingflokkana að kjósa fjóra hlutbundinni kosningu og mjög sennilegt, að hér í þessari hv. d. og á Alþ. yfirleitt séu svo margir menn bændavinir og í raun og veru að meira eða minna leyti fulltrúar bænda í þinginu, að þeir vilji styðja þessa till. og tryggja þannig kjósendum sínum þennan eðlilega rétt til þess að hafa mann í bankaráði þessa banka, sem verður að teljast að verulegu leyti stéttarbanki, þó að ríkið annist hann og ábyrgist hann af þeim ástæðum, að bændastéttin, sem er dreifð um allt landið, á mjög örðugt með það að standa um slíkan banka á sama hátt og þéttbýlið getur staðið um þá banka, sem stéttarsamtök þess setja á stofn.

Ég veit það, að t.d. hv. 6. þm. Norðurl. e. mun telja sig fulltrúa bænda að nokkru leyti og nægilega mikinn fulltrúa þeirra til þess að telja sanngjarnt, að þeir hafi þarna sinn fulltrúa til að gæta réttar síns og koma fram með kunnugleika þeim sjónarmiðum, sem þurfa þar að vaka á hverjum tíma frá hendi stéttar þeirrar, sem bankinn á að starfa fyrir. Ég vænti þess vegna, að þessi till. verði samþykkt um leið og aðaltill. eða inn í aðaltill.

Um aðaltill. vil ég segja það sérstaklega, að ég tel til mikilla bóta, að breytt hefur verið síðustu grein 1. gr. frv., að gerð hefur verið brtt. við hana um eftirlaun bankastjórans eða bankastjóranna væntanlega nú, því að þau ákvæði, sem þar voru, má telja að hafi verið úrelt, þó að ég búist við því, að ekki komi að sök, vegna þess að það hefði þótt sjálfsagt að bæta úr í framkvæmd og þess vegna hefði ekki þurft að breyta l. vegna þeirra ákvæða. En hins vegar er gott, að þingmeirihl. hefur tekið þessa breyt. upp, og ég er henni samþykkur.

Ég var að líta yfir frv. áðan í sæti mínu, og þá uppgötvaði ég það, að í raun og veru væri rétt af mér að flytja aðra brtt., en ég mun þá gera það við 3. umr. Það er lítil brtt., en hún er um það, að inn í bráðabirgðaákvæðið komi viðbót á þá leið, að kjörtími bankaráðsmanna, sem væntanlega verða kosnir á þessu þingi, og fimmti maðurinn fljótt af Stéttarsambandinu, hefjist ekki fyrr en um næstu áramót. Að vísu sé ég þá, að það getur farið eftir því, hvort menn vilja fallast á þá till., hvort ég hef rétt fyrir mér í því, að frv. sé flutt með þeim hætti og í því formi, sem það er, miðað við það, að stjórnarflokkarnir fái strax meiri hl. Ef till. verður samþ., geta þeir sannað það, að ég hafi þar verið með rangar getsakir. En ég er fús til þess að þola það að hafa haft rangt fyrir mér í þessu, ef með því er hægt að bæta frv. lítils háttar. Að öðru leyti vil ég taka það skýrt fram, að ég er andvígur þessu frv, í heild, þó að ég flytji við það breytingartillögur í einstökum atriðum.