27.05.1960
Efri deild: 85. fundur, 80. löggjafarþing.
Sjá dálk 2597 í B-deild Alþingistíðinda. (984)

169. mál, Búnaðarbanki Íslands

Frsm. meiri hl. (Magnús Jónsson):

Herra forseti. Það voru aðeins nokkur orð út af ummælum hv. frsm. minni hl. nefndarinnar.

Í nál. hv. minni hl., sem er, eins og hv. nm. er von og vísa, sums staðar með dálítið skáldlegum blæ, er að finna ýmis atriði, sem væri fróðlegt að taka til nánari athugunar, en ég skal aðeins staðnæmast við örfá í grg. og ræðu hans.

Ég held, að það sé alveg ástæðulaust fyrir okkur hv. 1. þm. Norðurl. e. (KK) að vera með nokkra vafninga um það, hvers eðlis þessi breyt. hér er og hvers eðlis jafnframt till. hv. minni hl. fjhn. er. Það er vitanlega alveg rétt, að hæstv. ríkisstj. telur ekki viðunandi þá skipan, sem nú er á bankaráði Búnaðarbankans, og hæstv. landbrh. vék að því í frumræðu sinni við 1. umr., að það hefðu gerzt ýmis atvik, sem staðfestu það, að slík skipan væri óhæf. Það kemur dálítið einkennilega út, þegar hv. framsóknarmenn nú telja það sjálfsagðan og eðlilegan hlut, að einn flokkur hafi hreinan meiri hluta í bankaráði eins bankans, því að ég man ekki betur en það hafi verið fært fram sem meginástæða fyrir þeim víðtæku breytingum, sem vinstri stjórnin gerði á bankakerfinu, að það væri alger óhæfa, að einn flokkur hefði jafnmikil áhrif og þar væru í þann tíð, og var þá vitanlega átt við þau áhrif, sem Sjálfstfl. hafði þá í ýmsum bönkum, að talið var, og áhrif, sem til voru komin beinlínis fyrir áhrif löggjafar, sem Framsfl. á sínum tíma hafði staðið að, en sjálfstæðismenn ekki sjálfir gert neitt til þess nema fylgja ákvæðum þeirrar löggjafar. Ég skal taka undir þá skoðun, sem þá kom fram, að það sé ekki heppilegt, að einn flokkur hafi meiri hluta í bankaráði eins banka, úr því að bankaráð ríkisbankanna á annað borð eru kosin pólitískri kosningu, nema því aðeins að þannig standi sakir, að viðkomandi flokkur hafi meirihlutafylgi á Alþ., þá horfir málið allt öðruvísi við.

Það er vafalaust kunnugt hv. 1. þm. Norðurl. e., hvernig stóð á því, að bankaráði Búnaðarbankans var ekki breytt um leið og bankaráðum annarra banka, en það byggðist einfaldlega á því, sem upplýst hefur verið af samstarfsmönnum Framsfl., að þeir hafa ekki verið viðmælanlegir að breyta því bankaráði, af því að þeir höfðu þar tryggðan meiri hluta. því er haldið fram, að það sýni bráðræði hæstv. ríkisstj. og jafnvel beri vott um, að hún telji sig ekki fasta í sessi, að hún skuli ekki bíða til næstu áramóta með að fá meiri hluta í bankaráði. Ég geri ráð fyrir því, að eftir þeirri skipan, sem nú gildir, mundi Sjálfstfl. um næstu áramót geta fengið hreinan meiri hluta í bankaráði Búnaðarbankans. En þetta frv. sýnir einmitt, að Sjálfstfl. sem slíkur og hann fyrir sitt leyti stefnir ekki að því marki. Hann telur sjálfsagt og eðlilegt, eins og ríkisstj. hér leggur til, að þeirri skipan verði komið á bankaráð þessa banka, að áhrif flokka innan bankaráðsins verði í samræmi við það fylgi, sem þeir á hverjum tíma hafa á Alþ., og er þá um leið fyrir það girt, eins og nú standa sakir, að Sjálfstfl. gæti fengið meiri hluta í þessu bankaráði, enda þótt hann vel hugsanlega gæti fengið þann meiri hluta um næstu áramót, ef löggjöfin væri óbreytt.

Það er því beinlínis vegna þess, að það er skoðun ríkisstj. og það er skoðun meiri hl. fjhn., að rétt sé sú stefna, að það eigi að koma sömu yfirstjórn á þennan ríkisbanka og aðra ríkisbanka í landinu, að þetta frv. er flutt, sem við í meiri hl. n. teljum rétt og eðlilegt að styðja.

Hv. 1. þm. Norðurl. e. sagði, að það væri einkennilegt, að það væri talað um, að bankinn nyti ekki nægilegs trausts á Alþ., ef bankaráðið væri skipað eins og það er nú. Ég held, að það liggi fullkomlega í augum uppi, að það séu meiri líkur til þess, að stofnun, hvort sem það er Búnaðarbankinn eða aðrar stofnanir, eigi auknum stuðningi að fagna innan þings eftir því sem fulltrúar fleiri flokka fá þar aðild að. Þetta held ég liggi í augum uppi.

Ég ætla ekki að fara út í að ræða sérstaklega um fjármál Búnaðarbankans og hina sérstöku umhyggju Framsfl. fyrir bankanum. Það eru áreiðanlega skiptar skoðanir um það, hversu happasæl sú umhyggja hafi verið, en við getum látið það í þessu sambandi liggja milli hluta.

Það er talað um, að það sé óeðlilegt, að bankastjórar séu fleiri en einn, vegna þess að bankinn starfi í deildum og hafi ekki gjaldeyrissölu, og þar af leiðandi sé verksvið hans harla lítið. Nú má það öllum hv. þm. vera kunnugt, að Búnaðarbankinn hefur stóra sparisjóðsdeild, og að sjálfsögðu er starf hans á miklu víðari grundvelli en á vettvangi hinna föstu sjóða bankans, og það er eitt út af fyrir sig, sem ber ekki að telja sem neina frambúðarskipan, að Búnaðarbankinn fái ekki rétt til þess að verzla með gjaldeyri.

Því er haldið fram, að það sé eðlilegt, að bændastéttin, eins og það er orðað, hafi aðild að Búnaðarbankanum, og þá vitnað til Verzlunarbankans og Iðnaðarbankans. Nú er það vitanlega ekki sambærilegt um þessa banka. Verzlunarbankinn er banki, sem fær ekki einn eyri af opinberu fé, og allt fé hans er lagt til af hluthöfum bankans og bankinn hefur ekki einu sinni ríkisábyrgð, þannig að það væri auðvitað fráleitt með öllu, að ríkið hefði aðild að þeim banka. Í Iðnaðarbankanum hefur ríkið ekki önnur og meiri áhrif en þau, sem leiðir af hlutafjáreign ríkisins í bankanum, og er það einnig að sjálfsögðu með eðlilegum hætti, að hluthafar í þeim banka ráði að sínu leyti, svo sem hlutabréf þeirra og hlutafé heimilar lögum samkvæmt.

Um Búnaðarbankann vita allir, að Búnaðarbankinn er alger ríkisbanki, og það þótti eðlilegt af hálfu vinstri stjórnarinnar að breyta t.d. Útvegsbankanum, sem var hlutafélag, í ríkisbanka, til þess að ríkið næði öllum tökum í þeim banka. Og það verður ekki séð, að það sé ástæða til þess að útiloka áhrif útgerðarmanna úr Útvegsbankanum, sem upphaflega er hugsaður, eins og nafnið ber með sér, sem banki útgerðarinnar, en eiga að hafa sérstaka aðild stéttarsamtaka bænda að Búnaðarbankanum, þegar ríkið á bankann að öllu leyti, hefur lagt fram allt það fé, sem bankinn hefur yfir að ráða, og það hefur, að því er mér hefur skilizt, alla tíð verið talið eðlilegt, að þessi banki væri alger ríkisbanki.

Það felur því ekki í sér á neinn minnsta máta neina andstöðu gegn áhrifum bændastéttarinnar eða sýnir óvilja í þá átt, að bankinn eigi að vera í þjónustu hennar, að menn skuli ekki vilja telja eðlilega þá skipan, sem nú er, að landbúnaðarnefndir Alþingis kjósi bankaráðsmenn, né heldur eðlilega þá till., sem flutt er nú af hv. minni hl. fjhn., að Stéttarsamband bænda eigi að tilnefna einn mann í bankaráð Búnaðarbankans. Slík skipan væri í fyllsta máta óeðlileg.

Hv. frsm. sagðist vænta þess, að svo margir fulltrúar bænda væru í þingi, að þeir mættu samþ. þessa tillögu. Ég ætla að vænta þess á móti, einmitt vegna þess, hve margir fulltrúar bænda eru hér í þingi, að Alþingi sé fullkomlega treystandi til þess að kjósa bankaráð þessa banka og velja í það menn, sem eru velviljaðir bændastéttinni og munu sjá um að gæta hagsmuna hennar jafnvel og þó að sett væri ákvæði hér inn í lögin, að Stéttarsamband bænda ætti að tilnefna einn mann af fimm.

Kem ég þá að því atriðinu, sem ég minntist á í upphafi máls míns, að á sama hátt og ég segi það ákveðið, að ástæðan til þessara breytinga er m.a. sú, að það er talið óeðlilegt, að bankaráð þessa banka, eins og annarra ríkisbanka, sé ekki skipað þannig, að ekki komi beinlínis til árekstra við ríkisstj. á hverjum tíma, heldur séu bankaráðin í samræmi við það vald, sem hverju sinni er ráðandi á Alþ., á sama hátt ætti þá vitanlega hv. 1. þm. Norðurl. e. að sýna þá hreinskilni að játa það, að vitanlega liggur ekki að baki tillögu hans nokkur skapaður hlutur annar en að tryggja, að Framsfl. geti áfram haft tvo menn í bankaráði. Það liggur svo í augum uppi, að ég býst ekki við, að neinn gangi neinar grafgötur um það, né heldur að flm. till. ætlist til þess, að menn líti á hana öðrum augum í alvöru, og er þá að sjálfsögðu komin sú óeðlilega skipan, þó að hún að vísu sé ekki eins mikil og nú er, en sú óeðlilega skipan, að bankaráð þetta sé í algeru ósamræmi við skipun Alþingis á hverjum tíma. Og þar sem þetta er að öllu leyti ríkisbanki, verðum við að telja það fullkomlega eðlilegt, eins og er um alla aðra ríkisbanka, að bankaráð þeirra séu skipuð á þann hátt, að það komi ekki til beinna árekstra við ríkisstj., sem er á hverjum tíma, hvort sem það er núv. ríkisstj. eða önnur ríkisstj., því að ef bankaráðin eru skipuð á þann veg, sem hér er lagt til, þannig að þau séu í samræmi við fylgi flokkanna á Alþ., eru mjög litlar líkur til þess, hvernig sem ríkisstj. yrði samsett, að það mundi ekki leiða til þess, að hún hefði stuðning bankaráða ríkisbankanna hverju sinni.

Ég skal svo, herra forseti, ekki eyða fleiri orðum um þetta mál. Þetta er einföld breyting, sem hér er um að ræða, svo sem bent hefur verið á. Það eru skiptar skoðanir um þetta, eins og vænta hefði mátt. Það er mannlegt vafalaust, að flokkur eins og Framsfl. haldi í þau óeðlilegu forréttindi, sem hann hefur í sambandi við yfirstjórn þessa banka, og skal ég ekkert lá honum það út af fyrir sig eða talsmönnum þess flokks hér. En ég hygg, að það muni þó, enda sýnir nál. meiri hl. það, vera mikið meirihlutafylgi fyrir því hér í Alþ., og raunar er það fylgi innan Framsfl. einnig, að þessi skipan mála sé óeðlileg og sá háttur, sem hér er tekinn upp með yfirstjórn bankans, sé á allan hátt eðlilegri og meira í samræmi við hagsmuni bankans sjálfs.