27.05.1960
Efri deild: 85. fundur, 80. löggjafarþing.
Sjá dálk 2602 í B-deild Alþingistíðinda. (986)

169. mál, Búnaðarbanki Íslands

Páll Þorsteinsson:

Herra forseti. Það er að mínum dómi tvennt, sem er eftirtektarverðast og alvarlegast í sambandi við þetta frv. Annars vegar, hvaða stefnu í bankamálum það boðar og látið er uppí að eigi að koma í kjölfar þessa, og hins vegar, hvernig þetta mál ber hér að nú á hv. Alþ. rétt undir þinglokin. Það hefur komið fram í umr. um þetta frv., að það þykir eðlileg skipan, að bankaráðið sé kosið hlutfallskosningum í sameinuðu Alþingi til þess að tryggja svo sem auðið er, að yfirstjórn þessa banka sé á hverjum tíma í samræmi við vilja ríkisstj. og þess þingmeirihluta, sem fer með völd, og það er gefið í skyn, að þetta sé aðeins byrjun á því, sem koma skal, þetta sé hin eðlilega skipan um allt bankakerfl landsins, þ.e.a.s. ríkisbankana. En í sambandi við þetta mál og nú síðustu dagana, síðan þetta frv. var flutt, hefur einnig verið að þessu vikið í málgagni annars stjórnarflokksins, málgagni þess stjórnarflokksins, sem fer með yfirstjórn bankamála í núv. ríkisstj., og þar er sagt berum orðum og afdráttarlaust, að það sé óhjákvæmilegt og eðlilegt, að skipan bankaráðanna sé í svipuðum hlutföllum og skipan Alþingis, þ.e.a.s. að meiri hluti Alþ. á hverjum tíma eigi að hafa vald á því, hverjir skipa meiri hluta bankaráðanna. Og þetta er áréttað í þessu málgagni bankamálaráðherrans með því að benda á, að nú standi sakir svo, að ríkisstj. hefur ekki meiri hluta í þremur bankaráðum, þ.e. í Seðlabankanum, Framkvæmdabankanum og Búnaðarbankanum, og síðan í framhaldi af þessu er minnzt á það í Alþýðublaðinu, að þetta hafi ekki enn þá komið að sök gagnvart núverandi ríkisstj., þar sem meiri hl. í bankaráðum Seðlabankans og Framkvæmdabankans hafi ekki tekið afstöðu gegn ríkisstj. Hins vegar hafi það í einu atriði komið fyrir, að bankaráð Búnaðarbankans hafi ekki beygt sig eða látið að vilja núv. ríkisstj., og þess vegna beri nú brýna nauðsyn til að ryðja þeim meiri hluta úr vegi nú, áður en þessu þingi lýkur.

Hér er vissulega boðuð ný stefna, sem getur ekki farið fram hjá a.m.k. þm. og mun ekki fara fram hjá þjóðinni, áður en langt um líður. Hér er boðuð ný stefna í fjármálakerfi landsins. Það er kunnara en frá þurfi að segja, að Landsbankinn hefur eiginlega frá því að hann var stofnaður og a.m.k. sérstaklega nú á síðari áratugum haft sérstöðu sem þjóðbanki, bankinn, sem ræður seðlaútgáfunni og hefur haft það hlutverk að vera eins konar miðstjórn bankastarfseminnar í landinu. Skipan Landsbankans hefur verið við það miðuð, með tilliti til þess, að hann er seðlabankinn, þjóðbankinn, að það væri til í landinu sjálfstætt fjármálavald annað en ríkisstj. á hverjum tíma. Sú eldri skipan, sem gilti um yfirstjórn Landsbankans og var þannig í stórum dráttum, að Alþingi kaus landsbankanefnd, þó ekki nema þriðjung hennar í hvert sinn, og landsbankanefnd kaus síðan bankaráðin, sem réðu bankastjórana, — sú skipan var við það miðuð, að í þjóðbankanum væri til sjálfstætt fjármálavald, sem væri ekki háð beinum afskiptum eða fyrirmælum ríkisstj. á hverjum tíma. Og sú skipan, sem nú er á þessu, er einnig miðuð við þetta, og er sú sérstaka tilhögun, sem nú er á skipan yfirstjórnar Seðlabankans, miðuð við það.

En það, sem boðað er, er gerbreyting í þessu efni, og þetta er fyrsta merki þess, eins og ég hef þegar drepið á. Það hefur verið minnzt á það í þessum umr„ að Útvegsbankinn og Búnaðarbankinn séu hliðstæður fremur en t.d. Búnaðarbankinn og Iðnaðarbankinn. Þetta er ekki rétt, a.m.k. nema að litlu leyti. Útvegsbankinn hefur hátt á þriðja áratug starfað undir hlutafélagsformi, en þetta hlutafélagsform var í raun og veru nafnið eitt, vegna þess að ríkið tók ábyrgð á innstæðufé Útvegsbankans og ríkið veitti Útvegsbankanum einnig sérstök fríðindi, þar sem hann hefur í skjóli ríkisvaldsins og fyrir áhrif þess haft á hendi um mjög langt árabil þriðja hlutann af gjaldeyrisviðskiptum þjóðarbúsins. En það er vitanlega samkv. löggjöf, sem lengi hefur gilt, skylt að skila til ríkisvaldsins í raun og veru þeim gjaldeyri, sem þjóðarbúið aflar, og það er því í þess höndum og á þess vegum að ráðstafa því, hvaða peningastofnanir hafa gjaldeyrisviðskiptin með höndum. Búnaðarbankinn hefur aldrei haft þessa starfsemi, gjaldeyrisviðskipti fyrir þjóðarbúið. Hann er að því leyti fremur hliðstæða við Iðnaðarbankann en við Útvegsbankann. En það eru engin smávegis viðskipti, og því fylgir ekki lítill vandi og ekki lítil umsvif í yfirstjórn banka að hafa slíkt á hendi, þar sem þjóðarbúið framleiðir gjaldeyri, svo að hundruðum milljóna skiptir árlega, eins og kunnugt er. Nú er boðuð þessi nýja stefna í bankamálum, að ríkisstj. þurfi að auka þar áhrif sín, og það er beinlínis sagt, að það sé óhjákvæmilegt og eðlilegt, að skipan bankaráðanna í ríkisbönkunum sé í svipuðu hlutfalli og skipan Alþingis á hverjum tíma, og þetta er áréttað í Alþbl., sem ég hef vitnað til orðrétt, þannig, að hver ný ríkisstj. þarf að geta treyst hollustu bankaráðanna. Það fer ekki dult, hvað fyrirhugað er. En hvort þetta er gerhugsað, það er mér nokkur ráðgáta, vegna þess að þó að það eigi að tryggja þetta, hollustu bankanna við sérhverja ríkisstj., með því að hafa kjörtímabil bankaráðanna hið sama og kjörtímabil Alþ., þá er það kunnara en frá þurfi að segja, að stjórnarskipti verða stundum á kjörtímabili, og það er ekki ávallt hinn sami þingmeirihluti, sem ræður á Alþ. frá upphafi kjörtímabils til enda þess. En það mun væntanlega skýrast síðar, hvernig við þessu verður snúizt á sinum tíma.

Nú virðist í fljótu bragði eðlilegt að líta svo á, ef það er ásetningur, svo sem ótvírætt er, þess þingmeirihluta, sem nú fer með völd í landinu, að ná meirihlutaáhrifum í bankakerfinu, þannig að það sé ekki lengur til í þjóðfélaginu sjálfstætt fjármálavald annað en ríkisstj., að það væri eðli málsins samkvæmt nóg, að þingmeirihlutinn næði þessu valdi yfir Seðlabankanum, þeirri stofnun, sem er eins konar miðstjórn í bankakerfinu og hefur seðlaútgáfuréttinn. Og ég verð að segja, að ég fæ ekki séð, að það sé samræmi í þeirri stefnu hæstv. ríkisstj., sem virðist koma fram annars vegar í þessu frv. um Búnaðarbankann, að auka áhrif þingmeirihlutans yfir þeirri stofnun, og hins vegar í því að beita sér fyrir stofnun einkabanka. Ég fæ ekki séð, að það sé samræmi í þessu tvennu, annars vegar að beita sér fyrir stofnun einkabanka, sem eiga ekki að vera háðir afskiptum ríkisins, en geta þó fengið til ráðstöfunar mikið af sparifé þjóðarinnar, og hins vegar í því að ætla ekki að eira neinu sjálfstæðu fjármálavaldi í bönkum ríkisins öðru en því, sem ríkisstj. sjálf ræður yfir. Og ég vænti þess, að sá hæstv. ráðh., sem hér er viðstaddur, skýri það fyrir þd., hvernig ríkisstj. túlkar eða vill skýra stefnu sína að þessu leyti.

Hér er vissulega stefnt í gagnstæðar áttir. Það eru hér tvö mál á dagskrá þessa fundar, annað um einkabanka, þar sem stefnt er að því að hafa fjármagn í umferð í þjóðfélaginu algerlega í einkaeign, losa það undan áhrifum ríkisvaldsins, og hins vegar er annað frv., sem miðar að því að tryggja þingmeirihluta áhrif yfir annarri bankastofnun, sem ríkið að sönnu á, en þykir ekki nægilega tryggt að sé undir yfirstjórn eða í höndum þess þingmeirihluta, sem nú situr.

Nú hefur það komið fram, að það lægi fyrir að endurskoða bankalöggjöfina í heild, en það yrði að bíða haustsins. Þá kem ég að því, hvernig þetta mál ber að hér á þessu þingi. Þegar þessu er yfir lýst af hálfu núverandi stjórnarflokka, að stefnt sé að því að endurskoða bankalöggjöfina í heild og það muni ekki dragast nema til haustsins, hefði þá ekki verið eðlilegast, að Búnaðarbankinn félli inn í þá heildarendurskoðun? Til viðbótar þessu má benda á, að að frumkvæði þm. úr öðrum stjórnarflokknum hefur verið samþykkt hér á hv. Alþ. ályktun um að fela ríkisstj. að láta fara fram athugun á því að efla veðdeild Búnaðarbankans. Þetta er ályktun, sem nýlega er afgreidd hér á hv. Alþ. Nú kann að vera, að með því sé aðallega átt við að leggja veðdeildinni aukið veltufé, en mér finnst þó ekki útilokað, að í því sambandi þurfi að athuga löggjöfina sjálfa og e.t.v. að endurskoða að einhverju leyti þann kafla búnaðarbankalaganna, sem fjallar um veðdeildina. Um þetta eru bein fyrirmæli frá hv. Alþ., gefin nú fyrir fáum dögum. En það má ekki láta þetta frv. bíða eftir því, að ríkisstj. framkvæmi þessi fyrirmæli þingsins, sem hún væntanlega gerir nú á þessu ári, og þá hefði gefizt tækifæri til þess að endurskoða búnaðarbankalöggjöfina alla í heild. Hvers vegna ber þá þetta mál svona að, að þetta þarf að taka út úr heildarendurskoðun og slíta úr samhengi við endurskoðun á einum kafla búnaðarbankalaganna? Ég hygg, að frsm. minni hl. fjhn. hafi gefið nægilega glögga skýringu á því, hvers vegna þetta mál ber svona að, svo glögga, að ég þurfi í raun og veru ekki að bæta neinu við það eða endurtaka það, sem hann sagði. Tilgangurinn er sá umbúðalaust með þessu frv. að veita þingmeirihlutanum, sem nú situr, tækifæri til þess nú þegar að fá meiri hl. í bankaráði Búnaðarbankans. Og það er alveg umbúðalaust ástæðan fyrir því, að þetta frv. er tekið út úr samhengi við heildarendurskoðun bankalöggjafarinnar, sem fyrirhuguð er.

Það hefur verið minnzt á, að Framsfl. hafi meiri hluta í bankaráði Búnaðarbankans, og frsm. meiri hl. fjhn. komst þannig að orði í ræðu sinni hér áðan, að það væri óeðlilegt, að einn flokkur hefði meiri hluta í bankaráði eins banka. Í þessu sambandi minnist ég þess, að sjálfstæðismenn virtust ekki líta þannig á 1957, þegar bankalöggjöf um tvo aðalbanka landsins var breytt, því að mig minnir, að þeir greiddu þá atkv. gegn þeirri breyt., sem miðaði að því að hnekkja meirihlutavaldi Sjálfstfl. í bankaráðum þeirra, svo að ef það hefur ekki verið óeðlilegt þá, fæ ég ekki séð, að það sé sérstaklega óeðlilegt nú, þó að svo sé um stundarsakir, að Framsfl. hafi meiri hluta í bankaráði Búnaðarbankans, og eins og fram hefur komið, hefði biðin ekki þurft að verða mjög löng til þess að fá breyt. á því, þar sem um næstu áramót hefði komið tækifæri alveg sjálfkrafa að óbreyttri löggjöf til þess að skipa nýjan formann í bankaráði bankans. Enn fremur má benda á það, að í sjálfu sér tryggir sú skipan, sem nú er á þessu, á engan hátt Framsfl. meirihlutavald í bankaráðinu. Framsfl. hefur ekki nema 3 eða mest 4 af 10 mönnum í sameinuðum landbn. Alþ., t.d. nú á þessu þingi aðeins 3 menn móti 7, þannig að sú skipan, þó að henni væri haldið, sem tryggir tengsl við bændastéttina, leggur Framsfl. alls ekki upp í hendur neitt meirihlutavald yfir Búnaðasbankanum.

Það hefur komið fram í umr. um þetta mál og í málgagni annars stjórnarflokksins, sem ég hef vitnað til, að eitt af því, sem knýi á um að gera þessa breyt. nú, sé það, að bankaráð Búnaðarbankans hafi ekki í einu atriði viljað hlíta ábendingum eða jafnvel fyrirmælum núv. ríkisstj., og er þar átt við stofnun útibús á Austurlandi. Ég ætla ekki af þessu tilefni að fara að rifja upp sögu þess máls alls ekki. En ég ætla aðeins að segja það að gefnu tilefni í þessum umr., að saga þess máls er orðin löng heima í héraði. Hún er a.m.k. 10 ára gömul, og ef sú saga verður rakin, tilefni verður gefið til þess, þá koma þar við sögu margir mætir menn í héraði, sem skipa sér í ýmsa stjórnmálaflokka og hafa komið þar við sögu á ýmsum tímum. En það, sem ég vildi segja í þessu sambandi nú og leggja áherzlu á, af því að það er eitt hið alvarlegasta, sem fram hefur komið í sambandi við þetta mál, er það, að það er látið liggja að því, að vegna þess að þeir, sem áður hafa farið með völd, yfirráð banka hér í landi og meirihlutavald í Búnaðarbankanum, hafa leyft sér að taka ákvarðanir, sem e.t.v. falla ekki að öllu leyti í geð núv. hæstv. ríkisstj., þá Sé ástæða til að staldra við og jafnvel hindra, að þær ákvarðanir komist í framkvæmd. Hér er sem sé gripið á máli, sem að vissu leyti boðar nýja stefnu eða er í samræmi við nýja stefnu, svipaða og boðuð er í bankakerfinu í heild. Það dylst ekki þm. og mun skýrast fyrir þjóðinni æ betur, eftir því sem frá líður, sú ríka tilhneiging núv. ríkisstj. að draga til sín vald, sem að eðlilegum hætti og hefðbundinni venju hefur legið í höndum löggjafarvaldsins, og tilhneiging til þess að breyta ráðstöfunum, sem fyrirrennarar ríkisstj. hafa gert.

Ég ætla ekki að fara að rekja þetta hér, en ég segi aðeins, að tilhneiging ríkisstj. til þess að haga málum á þessa lund dylst ekki í ýmsum greinum. Þingmeirihlutinn ræður vitanlega á löggjafarsviðinu hverju sinni, og þingmeirihluti getur með löggjöf breytt lagasetningu, sem áður hefur verið í gildi, en það þarf að gera hér á hv. Alþ. með gaumgæfilegri athugun, minnst 6 umr. í þingi og má segja fyrir opnum tjöldum fyrir þjóðinni. En skipting valdsins milli löggjafarvalds og framkvæmdavalds leiðir það af sér, að ákvörðun handhafa framkvæmdavalds á hverjum tíma er gild stjórnarathöfn. Þetta er eitt af grundvallaratriðum stjórnskipulags ríkisins, og það er næsta alvarlegt, ef nýr handhafi framkvæmdavaldsins leyfir sér og gengur á það lagið að ógilda e.t.v. með stuttu bréfi eða einum pennadrætti löglega gerðar stjórnarathafnir fyrrv. handhafa valdsins. Það er kunnara en frá þurfi að segja, að ríkisstj. og ráðherrar, án tillits til flokka, framkvæma oft margvíslegar stjórnarathafnir á síðustu vikunum eða jafnvel síðustu dögunum, sem þeir sitja í ríkisstjórn, veita stöður og því um líkt. Og það er kunnara en frá þurfi að segja, að slíkar stjórnarathafnir sæta oft gagnrýni með þjóðinni, bæði í blöðum og umræðum. En að það sé ekki gilt, þær stjórnarathafnir, sem þannig eru gerðar, það er nýjung, ef út af því væri brugðið. Og satt að segja fæ ég ekki séð, hvar við værum þá staddir, ef ráðherra, sem við tekur, á að geta leyft sér jafnvel að ógilda t.d. embættaveitingu eða annað slíkt, sem fyrirrennarinn hefur gert, ef hann kynni að líta öðrum augum á en fyrirrennarinn gerði.

Ég taldi og tel rétt að vekja eftirtekt á þessu í sambandi við þau ummæli, sem komið hafa fram í umr. um þetta mál um afskipti núv. bankaráðs Búnaðarbankans af vissu atriði. Og ég endurtek það og legg á það áherzlu, að það mál er ekki nýtt, það er gamalt mál, og þar koma margir við sögu, þó að það kunni e. t. v. að vera svo, að ekki sé ýkjalangt síðan formlega var frá því gengið bréflega.

Þá ætla ég að lokum að minnast á það, sem fram hefur komið í þessum umr., hvort Búnaðarbankinn sé ekki hliðstæður Iðnaðarbankanum og Verzlunarbankanum, sem verið er að stofna, að því leyti til, að hann sé stéttarbanki bændanna. Ég hef áður drepið á það, að Búnaðarbankinn hefur aldrei haft gjaldeyrisviðskipti með höndum. Hann starfar í fjórum deildum, þ.e. byggingarsjóður, ræktunarsjóður, veðdeild og sparisjóðsdeild. Hinar föstu stofnlánadeildir bankans starfa í þágu landbúnaðarins, og ég ætla, að veðdeildarlánin séu því aðeins veitt, að þau séu tryggð með veði í jörðum. Ég ætla, að það sé rétt. Þetta sýnir, svo langt sem það nær, að bankinn er fyrst og fremst stéttarbanki, sem á að styðja landbúnaðinn. En hér kemur fleira til. Landsbankinn og Útvegsbankinn hlíta yfirstjórn þess ráðh„ sem fer með bankamál hverju sinni. Það er beinlínis tekið fram í l. um Útvegsbankann, að yfirstjórn hans sé í höndum þess ráðh., sem fer með bankamál. Gagnstætt þessu er það tekið fram í gildandi lögum um Búnaðarbankann, og því er enn haldið í þessu frv., að ráðh. sá, sem fer með landbúnaðarmál, hafi yfirstjórn bankans. Það er til þess að leggja áherzlu á, að Búnaðarbankinn sé stéttarbanki fyrir landbúnaðinn. Hliðstæða þessa er hjá Iðnaðarbankanum. Í lögum um hann er svo fyrir mælt, að iðnmrh. eigi að samþykkja reglugerð hans og samþykktir, og í frv. um Verzlunarbankann, sem á að verða stéttarbanki fyrir hluta af verzlunarstéttinni, segir, að samþykktir og reglugerð bankans skuli vera háð staðfestingu viðskmrh. Nú er það að sönnu svo í núv. ríkisstj., að það mun vera sami ráðh., sem fer með bankamál og viðskiptamál, en það er bara forsetaúrskurður, sem gildir um þessa ríkisstj. Það er alls ekki sjálfsagt, að það fari saman. En til þess að leggja á það áherzlu og gera það skýrt, að Verzlunarbankinn sé stéttarbanki fyrir hluta af verzlunarstéttinni, þá er það beinlínis tekið fram í frv., að samþykkt og reglugerðir þess banka skuli háð staðfestingu viðskmrh. Að þessu leyti er það augljóst, að hér er hliðstæða milli þessara stéttarbanka iðnaðarins og verzlunarinnar og Búnaðarbankans, sem beinlínis er með l. falinn yfirstjórn landbrh. hverju sinni, en ekki þess ráðh., sem fer með hin almennu bankamál í landinu. Og þegar þetta er svo augljóst og ótvírætt sem ég hef bent á, þá er á það að líta, hvernig stéttirnar, sem standa að Verzlunarbankanum og Iðnaðarbankanum, tryggja tengsl þeirra stofnana við þær stéttir, sem bankarnir eiga að starfa fyrir. Þær gera það í fyrsta lagi á þann hátt, sem ég hef greint með því að fela ráðuneytum þeim, sem fara með hin stéttarlegu málefni þessara atvinnugreina, yfirstjórn peningastofnananna á hverjum tíma. Í öðru lagi gera þær það með því að mynda hlutafélög og takmarka valdið yfir peningastofnunum í samræmi við hlutafjáreign hvers aðila á hverjum tíma. Nú eru hlutafélög með fleiri en einum hætti. Sum hlutafélög eru þannig, að það er efnt til almennrar hlutafjársöfnunar, eins og var með Eimskipafélag Íslands á sínum tíma. En önnur hlutafélög eru að mestu leyti lokuð, þannig að vissir aðilar hafa forgangsrétt um hlutafjársöfnun og þá um leið forgangsrétt um valdið yfir þeirri stofnun, sem hlutafélagið á og rekur.

Um báða þessa banka, Iðnaðarbankann og Verzlunarbankann, er því þannig háttað, að þar eru vissum aðilum tryggð forréttindi um að leggja fram hlutafé og þá um leið forréttindi um það að hafa meirihlutavaldið í þessum bönkum. Á þennan hátt tryggja þessar stéttir tengsl þessara stéttarbanka við þær stéttir, sem þeir eiga að vinna fyrir. Þegar á þetta er litið, virðist það mjög eðlileg ósk og þeirri kröfu mjög í hóf stillt, sem gerð er í brtt, minni hl. fjhn., að Stéttarsamband bænda fái rétt til þess að kjósa einn mann af fimm í bankaráð Búnaðarbankans, stéttarbanka landbúnaðarins. Það verður ekki um það deilt, að þessi till. er fullkomlega réttmæt og að það er mjög eðlileg ósk, sem þar er fram borin og miðar að því að tryggja betur en gert er í frvgr., eins og hún liggur fyrir, tengsl bændastéttarinnar sjálfrar við þá peningastofnun, sem hún á fyrst og fremst aðgang að.

Ég drap á það fyrr í þessari ræðu, að það væri annað atriðið, sem mjög væri eftirtektarvert við þetta frv., hvernig það er látíð bera að hér á hv. Alþ. þessa daga undir þinglokin. Þetta er slitið út úr samhengi við heildarendurskoðun á bankalöggjöfinni, eins og ég hef áður rætt um. En til áréttingar því vil ég að lokum spyrjast fyrir um það, hvort það liggi fyrir óskir frá hálfu bændastéttarinnar um að gera þessa skipulagsbreytingu nú og svo í skyndi sem fyrirhugað er. Og ég spyrst fyrir um það, hvort þetta mál hafi verið lagt fyrir búnaðarþing, eins og venja er með hin meiri háttar málefni, sem snerta landbúnaðinn. Mér er það ekki kunnugt, en ef það hefur ekki verið gert, sýnir það enn betur en margt annað, hve óeðlileg vinnubrögð það eru að taka þetta mál þeim tökum, sem nú er stefnt að, því að vissulega er þetta mál, sem bændastéttina varðar og væri fullkomlega þess vert að vera lagt fyrir búnaðarþing og fyrir lægi álit þess, áður en skipulagsbreyting á Búnaðarbanka Íslands er lögfest.

Og það væri í raun og veru hið skynsamlegasta, sem hæstv. landbrh. gerði nú, að knýja ekki á um samþykkt þessa máls nú á þeim fáu dögum, sem þing á ósetið, heldur að fresta því og leggja það fyrir búnaðarþing og taka það til endurskoðunar á næsta þingi, ef þurfa þætti, í sambandi við heildarendurskoðun á bankalöggjöfinni.