28.05.1960
Efri deild: 86. fundur, 80. löggjafarþing.
Sjá dálk 2614 í B-deild Alþingistíðinda. (994)

169. mál, Búnaðarbanki Íslands

Landbrh. (Ingólfur Jónsson):

Herra forseti. Ég var við atkvgr. í Nd. og hef þess vegna ekki fylgzt með öllum umr. við þessa umr. hér um málið, en ég heyrði þó nokkuð af ræðu hv. 2, þm. Vestf. (HermJ), og gefur það mér tilefni til þess að segja aðeins örfá orð.

Það er auðfundið, þegar þessi hv. þm. ræðir um þetta mál, að hugur hans fylgir ekki allur máli. Hann finnur á sér, að það, sem hann er að bera hér á borð sem rök gegn þessu frv., er harla léttvægt. Hann talar um tvo aðalríkisbanka þjóðfélagsins, sem séu Útvegsbankinn og Landsbankinn. Ég hef hins vegar alltaf fram að þessu heyrt talað um þrjá ríkisbanka landsins og þrjá aðalbanka, þ.e. Búnaðarbankann, Útvegsbankann og Landsbankann, og ég segi það, að Búnaðarbankinn hefur ekki minna hlutverki að gegna í þjóðfélaginu en t.d. Útvegsbankinn og á þess vegna alls ekki að vera settur skör lægra að neinu leyti.

Það er þess vegna eðlilegt, að kjör bankaráðs Búnaðarbankans fari fram með sama hætti og hinna aðalbankanna, Landsbankans og Útvegsbankans, þar sem það er alls ekki stefnan að draga saman rekstur Búnaðarbankans, heldur miklu fremur að efla hann, eftir því sem auðið er, og vinna að því að auka tiltrú hans, ekki aðeins hjá bændum, heldur einnig hjá öðrum þjóðfélagsborgurum: Og það er einnig þannig, að sparisjóðsdeild Búnaðarbankans byggist ekki upp nema að örlitlu leyti af sparifjármyndun frá bændastéttinni, heldur miklu fremur af sparifé Reykvíkinga og annarra manna, sem eru ekki búsettir á grasi. Og sparisjóðsdeild Búnaðarbankans er annar meginþátturinn í rekstri bankans. Hinn þátturinn er fjárfestingarsjóðirnir, sem snúa að bændum. Og nú hefur verið á það minnzt, að fjárfestingarsjóðirnir eru þannig settir í dag, að það þarf átök til þess að rétta þá við og gera þeim mögulegt að fullnægja því hlutverki, sem þeim er ætlað. Og ég hef ekki trú á því, að það megi takast nema með sameinuðu átaki, og ég hygg og reyndar veit, að skilyrði til þess er það, að stjórn þessa banka sé kosin með eðlilegum hætti og á lýðræðislegan hátt.

Það var minnzt á það hér áðan, hversu mikill reginmunur er á þeirri stefnu, sem þetta frv. felur í sér, og þeim frv., sem vinstri stjórnin lagði fram á sínum tíma til breytinga á bankalöggjöfinni. Það var réttilega sagt, að þá var verið að lögfesta ranglætið með því að útiloka stærsta stjórnmálaflokk þjóðarinnar frá því að hafa rétta hlutdeild í stjórn þessara banka. En með þessu frv. er verið að tryggja það, að bankaráð bankans verði á hverjum tíma skipað í réttu hlutfalli við styrkleika flokkanna á Alþingi. Þetta er vitanlega reginmunur, og ég vil ekki, að þessum umr. verði slitið án þess, að vakin sé athygli á yfirlýsingu formanns Framsfl. hér áðan, hv. 2. þm. Vestf., þar sem hann fullyrðir, að það sé útilokað, það sé ómögulegt fyrir neina ríkisstj. að búa við það, að stjórnarandstaðan hafi meiri hluta í aðalbönkunum. Þessi yfirlýsing frá hv. formanni Framsfl., hv. 2. þm. Vestf., gefur það til kynna, að honum finnst eðlilegt, að núv. ríkisstj. breyti t.d. löggjöfinni um Seðlabankann, þar sem stjórnarandstaðan hefur þar meiri hl. Og það er ekki nema eðlilegt, að þessi fullyrðing af hendi hv. 2. þm. Vestf. sé heyrð, án þess að ég ætli hér að fara að ræða um Seðlabankann.

Hv. þm. talaði hér áðan um einkabanka og fannst það jafnvel áhættusamt og undarlegt, að þeir skyldu vera hér. En þess ber að geta, að einkabankar eru starfandi hjá öllum frjálsum þjóðum, og það verður að eiga það undir dómgreind og trausti borgaranna á þessum stofnunum, hvar þeir vilja ávaxta fé sitt. Sem betur fer er það nú svo, að það hefur örsjaldan komið fyrir í okkar þjóðfélagi, að skaði hafi skeð, þótt ekki hafi verið ríkisábyrgð fyrir sparifé. Það eru ekki aðeins þessir einkabankar, Iðnaðarbankinn og hinn væntanlegi Verzlunarbanki, heldur og allir sparisjóðir landsins og innlánsdeildir kaupfélaga, sem ávaxta sparifé landsmanna án þess, að ríkisábyrgð sé þar á bak við, og það er sem betur fer svo sjaldan, að það hafi viljað til slys af þessu, að það er ekki sérstök ástæða til nú að vera að vara menn við þessu. Eigi að síður er það svo mikils virði fyrir eina stofnun eins og Búnaðarbankann að hafa ríkisábyrgð — og ekki aðeins ríkisábyrgð, heldur að hafa fengið þá fyrirgreiðslu, sem bankinn hefur fengið á undanförnum árum, að það er vitanlega ekkert sambærilegt við hina svokölluðu stéttarbanka, Iðnaðarbankann og Verzlunarbankann. Og það er vitanlegt, að Búnaðarbankinn þarf á slíkri fyrirgreiðslu að halda í framtiðinni eins og áður og með allt öðrum hætti en stéttarbankarnir hafa farið fram á eða geta vænzt.

Það hefur verið minnzt á það hér áður, að bankinn væri á þennan hátt, með því að kjósa bankaráðið eins og hér er gert ráð fyrir, slitinn úr tengslum við bændastéttina. Þetta er vitanlega alger fjarstæða, vegna þess að þótt Alþingi kjósi bankaráðið beinni kosningu í staðinn fyrir landbn. áður, þá er þar í rauninni ekki um neina breyt. að ræða. Þingflokkarnir hafa alltaf ráðið því, hverjir hafa verið kosnir í bankaráðið, og þingflokkarnir ráða því nú eftir hinni nýju skipan, og það er undir þeim komið nú eins og áður, hvort kosnir verða í bankaráðið menn, sem hafa sérstakan kunnugleika á málefnum landbúnaðarins eða eru í tengslum við hann. Það eru þess vegna alls ekki nein rök, þegar talað er um, að þessi væntanlega löggjöf slíti bankann úr tengslum við landbúnaðinn.

Ég sé ekki ástæðu til að segja meira um þetta. Till. á þskj. 551 hefur verið rædd, og eins og fram hefur komið, virðist vera alveg ástæðulaust að samþykkja hana.