28.05.1960
Efri deild: 86. fundur, 80. löggjafarþing.
Sjá dálk 2616 í B-deild Alþingistíðinda. (995)

169. mál, Búnaðarbanki Íslands

Frsm. minni hl. (Karl Kristjánsson):

Herra forseti. Hv. 6. þm. Norðurl. e. (MJ) sagði, að ég hefði — óbeint að vísu — viðurkennt, að það hefði verið rangt af vinstri stjórninni að gera þær breytingar á lögum ríkisbankanna, Landsbankans og Útvegsbankans, sem hún hefði gert að því er bankaráð þeirra stofnana snertir og bankastjóraskipan. Ég viðurkenndi þetta ekki, og ég vil vitna í skilgreiningu hv. 2. þm. Vestf. (HermJ) um muninn á nefndum bönkum og Búnaðarbankanum, og ég vil bæta því við, að þegar borið er saman tilefni um skipan bankastjóranna, þá virðist alls ekki vaka það sama fyrir hv. stjórnarflokkum nú og vakti fyrir vinstri stjórninni áður, að láta alla flokkana koma til greina um sæti bankastjóra. Flokkarnir hafa samþykkt nú, að bankastjórarnir megi vera tveir í Búnaðarbankanum. Það er ekki ástæða til að ætla, að það sé miðað við jafnrétti í þeim efnum, heldur við rétt þeirra tveggja stjórnarflokka, sem fara nú með völd í landinu og stýra málum hér á hv. Alþingi.

Ég hef með till. minni, eins og ég gat um áðan, aðeins gefið þessum hv. flokki, Sjálfstfl., sérstaklega tækifæri til þess að sýna, hvort það var af sannfæringu, að hann hneykslaðist á löggjöfinni, sem sett var um bankana af völdum vinstri stjórnarinnar og þeirra flokka, sem hana studdu. Alþfl. hef ég þá gefið tækifæri líka til þess að sýna, hvort hann skilur ekki muninn á þessum stofnunum. Þó að hæstv. landbrh. haldi því fram, að það gildi alveg sama um Búnaðarbankann og hina bankana gagnvart stjórn og Alþingi, þá tekst honum aldrei að sanna það, það er aðeins orðið „ríkisbanki“, sem hann vill láta skilning sinn fljóta á. Starfsemi bankanna er svo ólík, og var rækilega bent á það í gær, að hinir tveir bankarnir fara með einn allra þýðingarmesta þáttinn í peningamálum þjóðarinnar, þar sem eru gjaldeyrisviðskiptin, sem Búnaðarbankinn er alls ekki með. Búnaðarbankinn er settur upp sem stéttarbanki, og þó að ríkið ábyrgist hann og annist stjórn hans, þá er það fyrir það, hvernig bændastéttin er sett til þess að reka peningastofnun, eins og ég tók fram í gær. Og það er skilningsleysi og tillitsleysi af stjórnarflokkunum nú að ætla að leika bankann þannig að taka hann undan þeim áhrifum, sem bændastéttin hefur haft, minnka þau áhrif, sem bændastétttin hefur haft, og neita því að láta stjórn Stéttarsambands bænda fá tækifæri til þess að setja fyrir hönd bændastéttarinnar einn fulltrúa inn í bankaráðið.

Hæstv. landbrh. endurtók hér það sama, sem hann sagði, þegar hann flutti framsöguræðu fyrir þessu frv., að þessi skipan væri gerð til þess að auka og tryggja umhyggju Alþingis og flokkanna á Alþingi fyrir bankanum. Hann sagði, að það þyrfti einmitt eins og nú stæðu sakir hörð átök til þess að hjálpa stofnlánadeildum bankans. Það er rétt, það þarf að gera átök til þess, og sams konar átök hafa áður verið gerð. En Sjálfstfl. hefur hafnað því að gera þau átök með Framsfl., og var sannarlega nógur liðskostur til þess á Alþ., ef Sjálfstfl. hefði viljað ganga til liðs við í ramsfl. Þar á ég við það, að hann hefur fellt till. framsóknarmanna um, að ríkið yfirtaki skuldir stofnlánadeildanna, eins og regla hefur verið að gera í áföngum að undanförnu, og það hefur verið setið á frv., sem við framsóknarmenn lögðum fram í þessari hv. d. snemma í vetur. Ég tek þess vegna ekki alvarlega þessar ástæður, sem hæstv. landbrh. endurtekur hér.

Það eru veik rök að halda því fram, eins og hv. 6. þm. Norðurl. e. og hæstv. landbrh. gerðu, að með þeirri skipan, sem gert er ráð fyrir í 1. gr. frv. um kosningar á bankaráðinu, sé tryggt, að það verði jafnan skipað í sama hlutfalli, kraftahlutfalli, og flokkarnir hafa á Alþingi, jafnvel þó að skipti um ríkisstj. Með þessu móti er því slegið föstu, að flokkarnir séu einhverjar heildir, sem ekki geti raskazt. Og þegar farið er að reikna með slíku, þá er eiginlega komið út fyrir að treysta á það, að pólitísk þróun geti átt sér stað í landinu. Það má vera, að stjórnarflokkarnir þykist hafa nokkurn veginn tryggt það með kjördæmabyltingunni, sem gerð var, að engin heilbrigð þróun geti átt sér stað í þá átt, að flokkarnir breytist, að með því hafi eiginlega pólitíkin staðnað í fjórum flokkum. Það getur vel verið, að þeir þykist hafa tryggt það. En líklega verður það nú ekki, þó að því miður hafi verið stofnað til þess með kjördæmabreytingunni, að heilbrigt pólitískt líf verði torveldara í landinu en hefði getað orðið með annarri skipan.

Ég held, að hæstv. landbrh. hafi ekki heyrt, vegna þess að hann var ekki inni hér, á hvað ég lagði sérstaka áherzlu, þegar ég gerði grein fyrir till. minni upphaflega. Ég lagði áherzlu á það, að eins og bráðabirgðaákvæði frv. eru, er stofnað til þess að ógilda bréf, sem landbrh. gaf áður, þegar hann skipaði formann bankaráðsins, og ég taldi, að það væri mjög líklegt, að hæstv. núv. ráðh. kynni betur við að geta hugsað til þess, að slík bréf, sem hann gæfi út til bankaráðsmanns og annarra í þjóðfélaginu, meðan hann situr að völdum, gætu orðið áreiðanleg og yrðu ekki rifin niður, áður en gildistími þeirra væri liðinn. Og ég lagði áherzlu á það, að með þessari lagasetningu væri verið að skapa fordæmi, að allt sem þetta væri talið til fordæma eftir á. Hv. stjórnarflokkar segja, að þeir fari að fordæmi vinstri stjórnarinnar, sem ekki er rétt, eins og hv. 2. þm. Vestf. hefur rækilega sýnt fram á hér í hv. þd. En ef þeir líta svo á, ættu þeir að hnekkja því fordæmi með því að setja annað fordæmi til þess að geta vitnað í það, þegar að því kemur, að aðrir taka við. Ég held þess vegna, að þeir geti aldrei komizt fram hjá því, þó að ég hafi ekki lýst því yfir, að vinstri stjórnin hafi gert rangt. Þeir höfðu, sjálfstæðismennirnir, slegið því föstu, að það væri rangt. Og þess vegna er það sama, hvernig á málið er litið. Hér er annaðhvort um það að ræða að fylgja slæmu fordæmi frá sjónarmiði sjálfstæðismanna eða setja nýtt betra fordæmi, og ég hef boðið þeim upp á tækifæri til hins betra, sem kostar þá ekki neitt, því að völdin fá þeir um næstu áramót til þess að gefa út bréf, sem er á réttum tíma út gefið og þeir geta þá eftir á gert kröfu til að fái að gilda sinn tíma.