28.05.1960
Efri deild: 86. fundur, 80. löggjafarþing.
Sjá dálk 2618 í B-deild Alþingistíðinda. (996)

169. mál, Búnaðarbanki Íslands

Landbrh. (Ingólfur Jónsson):

Herra forseti. Það eru aðeins fáein orð í tilefni af því, að hv. þm, var að tala um, að það væri óviðeigandi að ógilda bréf ráðh. og þess vegna hefði hann flutt þessa till. Við sjálfstæðismenn töldum, að vinstri stjórnin hefði gert margt rangt. En þegar einn bankaráðsformaður kom til mín um það leyti, sem vinstri stjórnin var að breyta bankalöggjöfinni, og sagði mér frá því: Nú verð ég að fara úr bankaráðinu, enda þótt bréf, sem ég hef í vasanum frá þér, gefi til kynna, að ég eigi að vera áfram, — þá datt hvorki mér né öðrum sjálfstæðismönnum í hug að undrast það. En það vill svo til, að þegar ég var ráðh. í fyrra sinn, skipaði ég formann bankaráðs Landsbankans og formann bankaráðs Útvegsbankans, og þessi bréf voru ógilt með lögum. Það datt engum manni í hug að finna neitt að því, vegna þess að lög frá Alþingi hljóta að geta breytt slíku. Þess vegna er þetta ekkert nema fyrirsláttur hjá þessum ágæta þm., sem var að tala hér áðan. Hann meinar ekkert með því, að þetta sé óviðeigandi. Ef það væri sannfæring hans, þá þekki ég hann svo, að hann hefði ekki verið með í því að setja mætan mann eins og Magnús heitinn Jónsson, fyrrv. prófessor, frá því að vera formaður bankaráðs Landsbankans, eins og bréf frá mér gerði ráð fyrir að hann yrði. Ég trúi því ekki, að ef þessi hv. þm., sem talaði hér áðan, hefði talið rangt að ógilda þetta bréf, þá hefði hann gert það. Þess vegna á hann ekki nú að vera að flytja svona till. og tala alveg gegn því, sem hann í rauninni meinar. Það er ekki nema það, sem viðgengizt hefur og oft með eðlilegum hætti, að lögum hefur verið breytt og menn hafa ekki haldið embætti sínu, eftir að löggjöfin hefur komið þar í bága.

Ég tel ekki ástæðu til þess að segja meira. Það var aðeins þetta, sem ég vildi minnast á.