07.03.1961
Sameinað þing: 47. fundur, 81. löggjafarþing.
Sjá dálk 323 í D-deild Alþingistíðinda. (10003)

204. mál, lausn fiskveiðideilunnar við Breta

Forseti (FS):

Fundi verður enn fram haldið. Ég spyr hv. þm., hvort honum hafi ekki snúizt hugur, hvort hann vill víkja úr ræðustól og láta af því að hindra eðlileg störf þingsins? (HV: Það er fjarri því, að ég vilji hindra eðlileg störf þingsins. Ég vil greiða fyrir þeim. Mér finnst þingstörfin ekki ganga fyrir sig með eðlilegum hætti. nema með því, að þeir menn, sem maður þarf að ræða við, séu viðstaddir og forseti geri einhverja tilraun til þess að kveðja þá til.) Hefur hv. þm. kannske aldrei verið fjarstaddur þingfund? (HV: Jú, komið hefur það fyrir, en oftast nær hef ég beðið forseta leyfis. Ég hef sjaldan verið í leyfisleysi fjarverandi frá þingfundi. En ef forseti vill bera fram á mig ákærur út af því, að ég sæki öðrum þm. verr þingfundi og hafi verið hér án leyfis fjarverandi af fundum, þá er ég reiðubúinn til þess að ganga undir þann dóm. En það hygg ég að sé ekki rétt.) Þar sem hv. þm. hefur með einstæðum hætti hindrað eðlileg störf þingsins, sem ég ætla að muni vera einsdæmi í þingsögunni jafnvel, þá verður umr. um málið frestað og það tekið af dagskrá og fundinum slitið. Næsti fundur verður boðaður með dagskrá á venjulegan hátt.