06.03.1961
Sameinað þing: 46. fundur, 81. löggjafarþing.
Sjá dálk 98 í D-deild Alþingistíðinda. (10007)

204. mál, lausn fiskveiðideilunnar við Breta

Frsm. 2. minni hl. (Einar Olgeirsson):

Herra forseti. Það hefur nú í meir en hundrað ár verið starf okkar þjóðar og beztu stjórnmálamanna hennar að reyna að hefja Ísland upp úr gömlu nýlenduánauðinni og þurrka burt leifar hennar af íslenzku landi og íslenzkum sjó. Við vorum einu sinni fyrir löngu frjálst land og réðum okkar landgrunni. Við urðum í sex aldir að þola það, að aðrar þjóðir réðu yfir okkar landi og kúguðu okkar þjóð, og við hófum baráttuna fyrir því að vinna okkar land og okkar sjó aftur úr höndum þessara aðila. Við höfum farið langt með að vinna landið, þó að við höfum misst nokkuð af því aftur. Um vinninga okkar viðvíkjandi landgrunninu stóð svo, að meira að segja á okkar mestu niðurlægingartímum, 17. öldinni og þar í kring, voru þó okkar landhelgis- og fiskveiðitakmörk talin frá 32 og niður í 16 mílur. Meira að segja þegar við vorum allra aumastir og ofurseldir erlendu einveldi, þá réðum við þó, a.m.k. að nafninu til, yfir slíku landgrunni. Dýpst sukkum við, þegar Danir seldu okkar landhelgi Bretum fyrir sinn svínakjötsmarkað 1901 gegn mótmælum Íslendinga. Við hétum því þá, Íslendingar, að þegar við fengjum frelsi og aðstöðu til þess, þá skyldum við vinna aftur allan þann rétt, sem við á öldum kúgunarinnar höfðum tapað.

Við endurreistum lýðveldið 1944 með sterkustu samtökum, sem okkar þjóð nokkru sinni hefur séð. Við vorum ákveðnir í því þá að vinna aftur í okkar hendur íslenzkt land og íslenzkan sjó. Aðeins eitt af þeim ríkjum, sem viðurkenndu okkur, gerði það með skilyrðum. Það var Bretland, sem tilkynnti, þegar það viðurkenndi okkur, að það væri gengið út frá því, að við héldum þá samninga, sem Danir hefðu gert fyrir okkar hönd, sem við út af fyrir sig vel gátum gert þá, því að við fengum þá uppsagnarréttinn í okkar hendur.

Sú þjóðfrelsisalda, sem gagntók okkar þjóð í sambandi við lýðveldisstofnunina og kvað að í okkar löggjöf á árunum næstu á eftir og markaól með sínum stórhug þá löggjöf, sem þá var sett, hann lýsti sér, þessi stórhugur, í því, að 1948, fyrir réttum 13 árum, — það var líka í marz, 23. marz, — þá lýstum við yfir lögsögu Alþingis yfir landgrunni Íslands. 1. gr. þeirra laga, sem við settum, hljóðaði svo, með leyfi hæstv. forseta:

„Sjútvmrh. skal með reglugerð ákvarða takmörk verndarsvæða við strendur landsins innan endimarka landgrunnsins, þar sem allar veiðar skuli háðar íslenzkum reglum og eftirliti, enda verði friðun á landgrunninu á engan hátt rýrð frá því, sem verið hefur.“

Þetta var okkar lögsöguyfirlýsing um landgrunnið. Þegar þetta var samþ. hér á Alþ., var þriggja flokka stjórn hér. Sósfl. — ég var þá formaður fyrir þingflokki hans — var í stjórnarandstöðu, og sá ráðh., sem hafði með þetta mál að gera, kom til mín og óskaði þess við þingflokkinn, að um þetta næðist algert samkomulag, þannig að engar umr. færu fram í þinginu um þetta mál. Það hafði verið hafður hinn sami háttur á 10. apríl 1940, þegar við tókum konungsvaldið inn í landið. Það var óskað eftir því af hálfu ríkisstj., að allir þingflokkar stæðu saman um þetta, þannig að þjóðin stæði sem ein heild að þessum verknaði, að því að lýsa yfir lögsögu Alþingis Íslendinga yfir landgrunninu kringum Ísland. Okkar flokkur hét því, og því var lofað þá, að allt, sem gert yrði í þessum málum, skyldi ávallt gert í samráði við alla flokka Alþ., og hefur það heit verið haldið þar til nú.

Af hverju vorum við sammála um þetta, jafnsammála um þetta og að flytja konungsvaldið inn í landið? Við vorum sammála um það af því, að okkur var ljóst, að það var lífsskilyrði fyrir Íslendinga að ráða þessu. Það var pólitísk og efnahagsleg nauðsyn fyrir Ísland að hafa lögsögu yfir landgrunninu, a.m.k. hvað fiskistofninn yfir því landgrunni snerti.

Síðan voru undirbúin skrefin hvert af öðru til þess að framkvæma þessa lögsöguyfirlýsingu, framkvæma þessi lög. Það var í fyrsta lagi undirbúin uppsögn samningsins við Breta. Það var í öðru lagi sett og framkvæmd reglugerðin 1952 um fjögurra mílna fiskveiðilandhelgina, og það var síðan 1. sept. 1958 sett fiskveiðilögsagan 12 mílur. eins og öllum er kunnugt.

Það, sem við höfum rekið okkur á, og það, sem þarf að verða ekki aðeins öllu Alþ., heldur og þjóðinni ljóst, það er, hvaða fjandmann við höfum átt við að etja í þessari baráttu. Við erum svo vanir því, Íslendingar, að líta ekki á annað ríki en Danmörku, sem hafi kúgað okkur og hafi þrengt okkar kosti. Og jafnvel okkar uppeldi í skólabókunum er enn svo, að það er eins og það sé eini aðilinn, sem við höfum átt við að stríða af þjáðum, sem við höfum þurft að berjast við fyrir okkar frelsi og fyrir okkar umráðum yfir okkar landi. Það er þó svo raunverulega síðan 1916, að þá er það Bretland, brezka auðvaldið, sem fyrst og fremst hefur verið sá útlendur aðili fram á tímabilið nú í síðustu styrjöld, sem hefur haft heljartök á okkar landi og við höfum þurft að berjast við. Ég skal ekki rekja alla þá sögu hér frá 1916 og þar til Bretar hernámu landið 1940, en ég vil aðeins minna á, að einmitt í baráttunni um þetta mál, sem við ræðum nú, okkar fiskveiðilandhelgi, þar hefur Bretland og brezka auðvaldið sýnt sig að vera okkar harðvítugasti fjandmaður.

1952, þegar við færðum landhelgina út í 4 mílur, bjóst Bretland við því að geta komið okkur á kné. Bretland var aðili að efnahagssamvinnu Norðurálfu með okkur. Bretar höfðu heitið því að hafa við okkur góða samvinnu um efnahagsmál. Hvað gerði Bretland þá? Bretland tók upp verzlunarbann á íslenzkum fiski í þeirri trú að geta þar með brotið Ísland efnahagslega á bak aftur. Bretland rauf allar skuldbindingar, sem það hafði undirgengizt í alþjóðlegum samningum við okkur, og setti bann á sölu okkar fisks í Bretlandi.

Það var þá sú manndáð í þeirri ríkisstjórn, sem að völdum sat, að hún beygði sig ekki fyrir þessu banni. Hún mun máske hafa leitað til einhverra ríkja Atlantshafsbandalagsins um aðstoð, til einhverra ríkja efnahagssamvinnu Norðurálfu um aðstoð, um markaði, þegar Bretar ráku rýtinginn í bakið á okkur, bandamönnum sínum. Mér er ekki kunnugt um þær umleitanir né þær undirtektir. En hitt veit ég, að engan árangur báru þær. Þessi ríkisstjórn hafði þó manndáð, þó að allir vinir hennar svikju hana þá, að snúa sér til Sovétríkjanna og æskja eftir viðskiptasamningi við þau, og þessi ríkisstjórn, sem var ríkisstjórn Sjálfstfl. og Framsfl., fékk þann samning, og í krafti þess samnings gat Ísland boðið brezka stórveldinu byrginn, þannig að öllum heimi varð ljóst, að smáríkið Ísland lét ekki undan fyrir Bretlandi, heldur þvert á móti sýndi því í tvo heimana í því viðskiptastríði, sem þá hófst, og sigraði það.

1959 gerðust þau tíðindi, sem ég þarf ekki að rifja upp. Þau eru öllum þm. og allri þjóðinni í fersku minni. Bretar beittu okkur ofbeldi aftur eins og 1940, héldu með sinn her gegn okkur. Við skulum gera okkur ljóst, hvað það er, sem hefur verið að gerast í sambandi við þessa baráttu okkar gagnvart Bretaveldi. Þessi barátta okkar hér á Íslandi er ekki neitt einstakt fyrirbrigði í veröldinni núna. Það, sem er að gerast, er, að við sem smáþjóð, sem gömul, kúguð nýlenduþjóð, erum að rísa upp og heimta fornan rétt í okkar hendur. Og slíkar uppreisnir nýlenduþjóða, slík frelsisbarátta þeirra, slík sjálfstæðisbarátta þeirra fyrir að ná aftur því, sem þær áður höfðu glatað, stendur nú um allan heim, bæði gagnvart Bretum og öðrum. Það, sem er að gerast í okkar tilfelli gagnvart Bretlandi, er frelsisbarátta gamallar nýlendu gegn kúgara, og þessi frelsisbarátta hinna kúguðu þjóða í heiminum hefur magnazt með hverju árinu sem líður. Það skipta tugum þau ríki, sem verða sjálfstæð nú á hverju ári og heimta aftur í sínar hendur þær auðlindir, sem auðvaldsríki Evrópu hafa árum, áratugum og jafnvel öldum saman ausið af.

En það, sem hefur gerzt, og það sem nú gerir okkar aðstöðu erfiða í þessum málum og rétt er að horfast alveg í augu við, það er, að 1949 sverjast þessi nýlenduveldi í bandalag, Atlantshafsbandalagið, til þess að reyna að standa á móti frelsisbaráttu þjóðanna í veröldinni, til þess að reyna að halda niðri þeim þjóðum, sem eru að berjast fyrir sínu frelsi. Gömlu nýlenduveldin, sem fundu, að uppreisnir smáþjóða, frelsisbarátta smáþjóða jafnvel eins og okkar, ógnuðu þeirra valdi, þau sórust í þetta fóstbræðralag sem Atlantshafsbandalagið er á milli þessara voldugu auðvalda til þess að reyna að halda sinni fornu yfirdrottnun. Frakkland í Atlantshafsbandalaginu hefur haldið sínu stríði nú í 6 ár í Alsír eftir að hafa tapað í Indókína. Hollendingar og Belgir sýndu okkur strax í byrjun Atlantshafsbandalagsins og Belgíumenn núna alveg nýlega, hvar þeir standa. Og Englendingar hafa þurft allan þennan tíma að berjast við þau lönd, eins og Kenýa og önnur slík, sem þeir eru enn þá að reyna að halda undir kúgunararminum. Það, sem gerir okkur erfitt nú, er að Bretland á sterka bandamenn í þessu bandalagi gömlu kúgaranna, nýlenduveldanna, í þessu bandalagi auðhringanna í heiminum sem vilja fá að halda í þær auðlindir, sem þeir hafa sölsað undir sig.

Einn af voldugustu auðhringum heimsins, sjötti voldugasti auðhringur veraldarinnar, sterkasti auðhringur, sem til er utan Bandaríkjanna, er sá auðhringur, sem við höfum átt í höggi við í þessum efnum, það er Unilever-hringurinn, — Unileverhringurinn, sem ræður svo að segja allri fisksölu í Bretlandi, sem ræður meiri hlutanum af öllum togaraflota Bretlands og er sami hringurinn og sá, sem á mestar eignir allra brezkra auðhringa í Afríku. Sömu aðilarnir sem eru að berjast gegn sjálfstæðisbaráttu nýlenduþjóðanna í Afríku nú eru þeir, sem eru að reyna og hafa verið að reyna undanfarið með hervaldi að kúga okkur. Þessir auðhringar finna, að þeir eru að missa völdin, hvort svo sem það var vald yfir fiskimiðum Íslands eða yfir pálmalundum Afríku, hvort sem það var vald yfir námum suður í Afríku eða hafi, — úthafi, eins og þeir kalla það, — út við Ísland. Það eru þessir voldugu auðhringar, sem stjórna þessari harðvítugu pólitík, sem rekin er af hálfu Breta og Atlantshafsbandalagsins til þess að reyna að halda þessum gömlu nýlendum, jafnvel þótt þær séu orðnar frjálsar, pólitískt undir gamla kúgunararminum. Því var það svo, að þegar við færðum fiskveiðilögsöguna út í 4 mílur 1952, þá var það ekkert ríki úr Atlantshafsbandalaginu, sem studdi okkur, ekkert. Níðingarnir halda saman gagnvart þeim smáu. Auðveldin í heiminum, gömlu nýlenduveldin reyna að sjá um, að enginn, hversu smár sem hann er, hvort það eru Íslendingar úti á hjara veraldar eða svartir menn suður í Kenýa, fái sinn rétt.

Þegar við færðum út fiskveiðilögsöguna í 12 mílur 1958 og öll þjóðin stóð á bak við það, þá voru það ríki Atlantshafsbandalagsins hvert á fætur öðru, sem mótmæltu, þó að ekkert þeirra gerðist svo ósvífið, að það léti hafa sig til níðingsverka nema Bretland, að ráðast á varnarlausa smáþjóð, sem þar að auki átti að heita bandamaður þess.

Bretar biðu ekki aðeins ósigur fyrir okkur óvopnuðum í því þorskastríði, eins og þeir hafa kallað það. Þeir biðu enn tilfinnanlegri ósigur fyrir almenningsálitinu í veröldinni. Og sjaldan mun Ísland hafa átt meiri samúð í heiminum en þegar t.d. grísku blöðin lýstu því sem baráttunni á milli Davíðs og Golíats, baráttu okkar við Bretland. Við stóðum því sterkt. Það, sem var okkar veikleiki, var að Ísland hafði verið vélað inn í Atlantshafsbandalagið, inn í þetta bandalag nýlenduræningjanna, inn í þetta bandalag auðhringanna, sem stóð saman á móti okkur, hvenær sem á reyndi. Þessi veikleiki er orsök þess sorgarleiks, sem við höfum upplifað í dag. Bretland er að reyna að halda í úrelt yfirráð, pólitísk yfirráð sín yfir landgrunninu við Ísland. Við erum að heyja okkar pólitísku sjálfstæðisbaráttu gagnvart því. En ítök Atlantshafsbandalagsins í valdhöfum þjóðarinnar valda því nú, að þeir láta undan síga í þessari sjálfstæðisbaráttu þjóðarinnar.

Við skulum gera okkur ljóst í fyrsta lagi, þegar við ræðum þetta mál, að hér er háð stjórnmálaleg frelsisbarátta Íslands um valdið yfir sínu landgrunni, — frelsisbarátta, sem er hliðstæð allri þeirri baráttu, sem við höfum háð fram að þessu, hliðstæð barátta allri þeirri baráttu, sem aðrar þjóðir, sem áður hafa verið eins og nýlendur, eru að heyja í heiminum nú, — frelsisbarátta, þar sem við stóðum mjög vel að vígi, svo framarlega sem ekkert brysti hjá okkur sjálfum. En þessi barátta okkar er ekki aðeins pólítísk sjálfstæðisbarátta Íslendinga. Þessi barátta er efnahagsleg hagsmunabarátta okkar þjóðar.

Ég þarf ekki að ræða um gildi fiskimiðanna við Ísland við þessa samkundu. Það er öllum alþm. jafnljóst. En annað vil ég segja. Ef einhverjum dytti það í hug, sem ég gæti jafnvel helzt trúað að hlyti að vera á bak við hjá einhverjum þeirra, sem gera sér ljóst, hvert þetta skref leiðir, sem nú á að stíga, — ef einhverjum dytti í hug, að það væri óhætt að eyðileggja fiskimiðin við Ísland vegna þess, að Ísland hefði nógar aðrar auðlindir, þar sem fossarnir eða annað slíkt væri, hitinn í okkar jörðu eða annað slíkt, þá er það misskilningur. Ef það eru einhverjir menn í dag, sem halda, að það geri ekki svo mikið til, þó að Bretar og bandamenn þeirra í Atlantshafsbandalaginu ráðist á fiskimiðin við Ísland og þurrki þau upp, amerískir alúminíumhringar muni lána okkur fé til að virkja fossana og koma upp iðjuverum, svo að Íslendingar geti fengið að vinna þar, við skulum því engu kvíða, — ef einhverjum af þeim valdhöfum, sem taka á sig ábyrgðina af því að pína þetta fram nú, dettur slíkt í hug, þá vil ég segja við þá: Þetta er misskilningur. Fiskimiðin við Ísland eru og verða um alla framtíð langmesta auðlindin, sem Ísland getur hagnýtt sér. Við erum ekki farnir að hagnýta nema hverfandi lítið af þessum fiskimiðum enn þá. Við erum ekki farnir að hjálpa sjálfri náttúrunni með klaki í stórum stíl til þess að margfalda þann fiskistofn, sem hér elst upp. Við höfum svo að segja rekið rányrkju í þúsund ár hérna og eigum fram undan núna tímabil, þar sem við getum látið þennan fiskistofn margfaldast. Það er greinilegt af allri okkar reynslu, að vinnuafl íslenzkra manna, hvað mikið sem við kynnum að búa til af verksmiðjum í framtíðinni, þá eru afköstin, sem við getum skapað við fiskveiðar á Íslandi, ef við höldum þeim miðum, sem þar hafa verið, meiri en við getum vænzt í náinni framtíð að iðnaðarverkamenn í verksmiðjum komi til með að sýna af sér. Það er ekki út í bláinn, þegar við tölum um, að afköst íslenzks sjómanns við að veiða fisk séu tíföld á við þann sjómann annarra þjóða, sem næstur kemur í veröldinni. Við skörum svo stórkostlega fram úr í afköstum hvað þetta snertir, að eigi að eyðileggja þessi fiskimið, þá hrynur þar með ekki aðeins efnahagslegur grundvöllur Íslands, heldur líka allur afkastamöguleiki íslenzkra verkamanna, í hvað svo sem þeir eru settir. Og taki íslenzk auðmannastétt þá ákvörðun og á sig þá ábyrgð að stíga þau skref, sem þetta leiðir af, þá verður hún sjálf að fá að bera afleiðingarnar af því. Það þýðir ekki fyrir íslenzka auðmannastétt að koma þá seinna og segja við íslenzka verkamenn: Ja, því miður, það veiðist nú ekki betur en þetta í ár, þjóðarbúið gefur nú ekki meira af sér en þetta í ár, við getum ómögulega borgað hærra kaup. — Það þýðir ekki að taka á einum tíma þá ákvörðun við mótmæli alls verkalýðsins í landinu að ráðstafa auðlindum þjóðarinnar á þann máta, sem hér á að gera, og ætla svo seinna meir að afsaka sig með, að þessar auðlindir gefi ekki nægilegt til þess, að auðmannastéttinni finnist hún geta greitt verkamönnum sæmilegt kaup. Auðmannastéttin verður sjálf að taka afleiðingunum af því, sem hún gerir, þegar hún hagar sér þannig. En hún er hins vegar ekki maður til þess að bæta úr því tjóni, sem hún getur unnið þjóðinni. Þess vegna erum við ekki aðeins að heyja pólitíska sjálfstæðisbaráttu, þegar við erum að berjast fyrir okkar valdi yfir landgrunninu og stjórn okkar Íslendinga á fiskimiðunum umhverfis þetta land, við erum líka að heyja efnahagslega lífsbaráttu okkar fyrir alla framtíð.

Það var þetta tvennt, hin pólitíska sjálfstæðisbarátta, sem vildi útrýma leifum nýlendudrottnunarinnar úr okkar landi, og hagsmunabarátta fiskimannaþjóðarinnar, sem fór saman og skóp þá þjóðareiningu, sem kom fram í l. um vísindalega verndun fiskimiða frá 1948 og kom skýrt fram árið 1958, þegar reglugerðin um 12 mílurnar var sett. Einróma fordæmdu allir Íslendingar Breta. Og ég býst við, að síðan á þeim dögum, þegar hatur gegn Dönum var mest hér á Íslandi, og er þó rangt að kenna allri brezku þjóðinni það, sem brezka auðvaldið gerir, — þá hafi ekki annað ríki verið meira hatað en Bretland var hér á árinu 1958.

Það fóru fram kosningar 1959. Við fulltrúar Alþb. vöruðum þjóðina þá við því, hver hætta væri yfirvofandi, ef hún athugaði ekki sinn gang. Við birtum henni í bók, sem hét „Átökin um landhelgismálið“, allan gang landhelgismálsins, eins og hann hafði verið, til þess að vara hana við, að tveir flokkar, Sjálfstfl. og Alþfl., sætu á svikráðum við þjóðina í þessum efnum. Hvert var svarið frá hálfu þessara flokka í þeim kosningum? Svarið var: Hvílíkur óhróður er þetta! Því er verið að gruna okkur um annað eins? Við stöndum þó sannarlega allir saman um að hvika ekki frá 12 mílunum. Það er að rjúfa þjóðareininguna að láta svona rödd heyrast, að það sé nokkuð, sem ætlar að hvika frá þessu. Það var sagt jafnvel, að við værum vargar í véum að vara við að þetta kynni að koma. Við vissum hins vegar, að við höfðum við voldugan óvin að berjast. Við vissum, að sá óvinur var ekki aðeins þeir veikgeðja stjórnmálaandstæðingar okkar hér heima á Íslandi, — við vissum, að það var sjálf miðstöð Atlantshafsbandalagsins, sem allan tímann lá í stjórnmálamönnum Íslands til þess að reyna að beygja þá, til þess að reyna að skírskota til alls konar hollustu við Atlantshafsbandalagið og annað slíkt, til þess að fá þá til þess að beygja sig í þessu hagsmunamáli Íslands. Og við vissum, að eins og danskir konungar forðum og dönsk hirð hafði oft áhrif á þá Íslendinga, sem heimsóttu Dani, eins vissum við, að Atlantshafsbandalagið og miðstöð þess í París hafði oft áhrif á þá Íslendinga, sem stefnt var þangað utan. Við vissum þess vegna jafnvel betur kannske en mikill hluti af þjóðinni, hver hætta var á ferðum, hve voldugur andstæðingur það var, sem Ísland var að berjast við, þar sem var bandalag auðvaldsins í heiminum. Og jafnvel þó að okkar landar í Sjálfstfl. og Alþfl. kynnu margir hverjir að vilja vel, eins og við efuðumst ekki um, þá óttuðumst við, að þegar til lengdar léti, þegar þrýstingurinn yrði sterkari frá þessu volduga bandalagi, þá létu þeir undan. Þess vegna vöruðum við þjóðina við. Miðstöð nýlendudrottnunarinnar í heiminum, Atlantshafsbandalagið, hafði verið allan þennan tíma að reyna að beygja Ísland. Það gengu meira að segja svo langt þeirra tilraunir til slíks, að jafnvel blindir fengu sýn. Ég býst við, að það hafi verið hæstv. utanrrh., sem í ágúst 1958 gaf út lítinn bækling á ensku, sem hét „The Icelandic Fishery Limits“ — Fiskveiðitakmörk Íslands, þar sem var verið að ræða um þá kröfu Breta, að vegna þess að þeir hefðu fiskað áður allt upp að þrem mílum við Ísland, þá ættu þeir hér sögulegan rétt, — meira að segja hæstv. utanrrh. lét svara þessu á þann hátt, að slíkt væri ekkert annað en snefill af gamaldags eða úreltri nýlendustefnu. Meira að segja þeir, sem þægastir hafa verið Bretum og Atlantshafsbandalaginu í þessari frelsisbaráttu Íslendinga. meira að segja þeir sáu, að það var ekkert annað en úrelt nýlendustefna af hálfu Atlantshafsbandalagsins og Bretlands, sem þarna var á ferðinni gagnvart Íslandi, sáu þetta og sögðu þetta í bæklingi, sem var útbýtt um allan heim til að verja málstað Íslands. En það var í ágúst 1958, og þjóðin var heit, og kosningar voru fram undan. Nú er verið að láta undan fyrir þessari úreltu nýlendustefnu Breta, því að það, sem hér er lagt til að gera, er ekkert annað en það að taka nokkurt tillit til þess, sem Bretar með slæmu orðalagi hafa kallað sinn sögulega rétt, það, sem við köllum þeirra gamla ránsrétt. Nú er árangurinn af öllum fortölum Atlantshafsbandalagsins, öllum kúgunartilraunum brezka auðvaldsins við okkur að koma í ljós. Í því ljósi skulum við athuga þetta samningsuppkast, sem nú liggur fyrir.

Þá skulum við fyrst athuga 1. gr. í orðsendingunni, þar sem því er haldið fram, að Bretar viðurkenni okkar 12 mílna fiskveiðilögsögu. Hæstv. utanrrh. hafði, að ég held í útvarpsumr., það orðalag um þetta, að hann áliti, að með 1. gr. féllu Bretar endanlega og óafturkallanlega frá mótmælunum, þeir viðurkenndu endanlega og óafturkallanlega 12 mílna lögsögu Íslands. Ég spurði hæstv. utanrrh. að þessu í utanrmn., og ég tók eftir, þegar hann svaraði, að hann lagði áherzlu á, — hann sagði, held ég, nokkurn veginn orðrétt, þegar hann var að ræða þetta: Mín skoðun er. Við vorum að ræða um, hvort það væri ekki betra að breyta þessu orðalagi og segja, að Bretar viðurkenni endanlega og óafturkallanlega — eða eitthvað annað slíkt — 12 mílna fiskveiðilögsögu, en hans skoðun var, utanrrh., að þetta þýddi það.

Að vísu höfum við orðið þess varir, að það virðist ekki vera algert samkomulag um skilninginn á þessum atriðum innan hæstv. ríkisstj. Hæstv. utanrrh. segir sem sagt, að þetta þýði alveg hreint og beint og ótvírætt endanlega og óafturkallanlega viðurkenningu. Hæstv. dómsmrh. hefur hins vegar sagt í umr. á Alþingi, útvarpsumræðum, svo hljóðandi, með leyfi hæstv. forseta: „Hitt er annað mál, að Alþingi hefur aldrei falið ríkisstj. að afla viðurkenningar Breta um 12 mílna fiskveiðilögsöguna, þegar af því að það taldi rétt okkar til hennar ótvíræðan og þess vegna óþarfar aðrar viðurkenningar Breta en þá, að þeir hættu ofbeldisaðgerðum.“ Hæstv. dómsmrh., sem er skarpur maður og gamall lagaprófessor, skildi auðsjáanlega betur en hæstv. utanrrh., hvað þarna var um að ræða.

En þarna er ekki bara um það að ræða, á hvern hátt ráðherrar í íslenzkri ríkisstj. skilji þessa hluti. Hér eru miklu hættulegri hlutir á ferðinni, og þar vil ég eindregið mælast til þess, líka við hæstv. ríkisstj. og stjórnarsinna, að þeir athugi af reynslunni, hve erfitt er fyrir okkur Íslendinga, sem höfum ekki langa reynslu í samningum um utanríkismál að gera utanríkissamninga þannig, að við séum öruggir um, að þeir standi. Það er ekki nóg, að við skiljum orðalagið og að það sé okkar skoðun, að orðin merki þetta. Þetta þarf líka að vera skoðun þeirra, sem við erum að semja við, og það svo ótvíræð, að það sé ekki hægt að koma á eftir og segja: Nei, mínir herrar, þið hafið skilið þetta alveg rangt.

Það var gerður samningur hér á Alþingi Íslendinga, ef samning skyldi kalla, fyrir réttum 20 árum. Í þeim samningi — í upphafi hans — stóð, það var hinn svokallaði herverndarsamningur við Bandaríkin 1941, — með leyfi hæstv. forseta: „1. Bandaríkin skuldbinda sig til að hverfa burt af Íslandi með allan herafla sinn á landi, í lofti og á sjó, undireins og núverandi ófriði er lokið.“ Þetta skildum við Íslendingar, allir alþm. og allir ráðh., þannig, að Bandaríkin væru skuldbundin til þess að fara burt með sinn her, um leið og ófriðnum væri lokið, og samkvæmt þessum samningi gerði Alþingi Íslendinga og ríkisstj. þá kröfu, að Bandaríkin færu burt með sinn her hér, eftir að ófriðnum lauk 9. maí 1945. Þá sögðu Bandaríkin: Þetta er ekki rétt skilið hjá ykkur, við erum ekki skyldugir til þess að fara enn þá. — Og þeir skildu þetta öðruvísi en við. Þótt við þættumst vera öruggir með skilninginn á orðunum: „undireins og núverandi ófriði er lokið“, þá komu Bandaríkin með annan skilning. Sumir þeirra aðila virtust tala um, að á meðan undanþáguástand gilti í Bandaríkjunum, sem forsetinn hefði sett, — okkur þótti jafnvel ekki örgrannt um, að sumir þeirra vildu segja, að á meðan ekki væru gerðir friðarsamningar, þótt ófriðnum væri lokið, og vopnahlé væri gert, þá væru þeir ekki skyldugir til að fara. M.ö.o.: það sem við, hver einasti af öllum okkar lögfræðingum, öllum okkar lögspekingum, öllum okkar ráðherrum, vorum sammála um, það skildi viðkomandi ríki öðruvísi. Bandaríkin stóðu á því, að þau væru ekkert skyldug til þess að fara, og þau fóru ekki. Þau sögðu við ríkisstj. Íslands: Ég skal hins vegar gera samning við ykkur um að fara af Íslandi. — Og þau gerðu tilboð, sem þá snerti Keflavíkurflugvöll og ýmislegt fleira, og sá samningur, sem þá var gerður, hét samningur um niðurfellingu herverndarsamningsins. M.ö.o.: Bandaríkin notuðu sér túlkun sína, sem var önnur en vor Íslendinga, á ákveðnum þætti í samningi til þess að knýja Íslendinga til þess að gera nýjan samning og sögðust ekki fara fyrr. Og það leiddi meira að segja, eins og mönnum er kunnugt, til stjórnarslita milli þeirra, sem unnu þá saman á Íslandi. Sú ríkisstj., sem gerði þennan samning, lýsti því yfir, að hún sæi sig tilneydda að gera þennan samning til þess að fá herinn burt. M.ö.o.: fyrsti og aðalliðurinn í þessum herverndarsamningi, sem allir íslendingar túlkuðu eins, hann stóðst ekki álit hins samningsaðilans, og Bandaríkin, sem voru hinn samningsaðilinn, notuðu sér þessa aðstöðu til þess að knýja fram nýja samninga.

Af því að ég er nú orðinn einn af svo að segja elztu þingmönnunum hér á þingi, ásamt einum 6–7 öðrum, sem hafa verið á þingi, meðan svona samningar voru gerðir, þótt ég væri að vísu ekki staddur hér, þegar þessi samningur var gerður, þá vil ég minna þá þm. á, sem nú sitja hér og nú eiga að fara að taka á sína ábyrgð milliríkjasamning, að athuga þessa reynslu og þá þeirra, sem vilja taka þátt í því að gera milliríkjasamning, að ganga þannig frá orðalagi slíks samnings, að það sé ekki aðeins skýrt, að allir Íslendingar skilji hann eins, heldur líka hitt, að Bretland, sem þarna væri verið að semja við, skildi það eins, þannig að við skulum segja eftir þrjú ár, að svo miklu leyti sem partur af honum snertir þrjú ár, þá væri ekki komið á ný og sagt: Nei, mínir herrar, ég samdi um þetta, og ég samdi um þetta, en ekki þetta hérna, sem þið haldið.

Það að gera milliríkjasamning fyrir ríki eins og okkur er ekki hlutur, sem við eigum að hlaupa að, og sú litla reynsla, sem við höfum, síðan við tókum okkar utanríkismál í eigin hendur, sýnir okkur, að þegar við erum að gera slíka samninga við stórveldin, þá þurfum við að gæta okkar.

Það er því ekki nóg, þó að meira að segja hæstv. utanrrh. hafi þá skoðun, að þetta og þetta felist í samningnum. Nú er það svo, að meira að segja við Íslendingar erum ekki sammála um það, hvað þarna felst í. Við svo og svo margir leggjum til, að þetta orðalag sé gert ákveðnara, einmitt vegna þungrar reynslu af, hvað það er að semja við stórveldi eins og Breta. dýrkeyptrar reynslu.

Þess vegna vil ég vara þá við, sem vilja taka það á sína ábyrgð að gera þessa samninga, að athuga vel sinn gang áður. Það að viðurkenna og það að hætta að mótmæla aðgerðum er tvennt ólíkt, og við skulum ekki láta okkur til hugar koma, að það sé eitt og hið sama. Viðurkenningu á 12 mílna lögsögu eiga Bretarnir bágt með að taka til baka. Við vitum aldrei, hvenær þeir kunna að taka upp á ný mótmælaaðgerðir, þó að þeir láti þær niður falla um eitthvert ákveðið skeið.

Ég vil enn fremur vekja athygli á orðalaginu á þessari 1. málsgr. Hún er svo, með leyfi hæstv. forseta:

„Ríkisstjórn Bretlands falli frá mótmælum sínum gegn tólf mílna fiskveiðilögsögu umhverfis Ísland, sem mæld er frá grunnlínum samkvæmt 2. gr. hér á eftir, og er þá eingöngu átt við fiskveiðilögsögu.“

M.ö.o.: Bretar falla frá mótmælum gegn einni ákveðinni 12 mílna fiskveiðilögsögu, sem sé þeirri, sem miðast við þær grunnlínur, sem eru í 2. gr. Það þýðir: engri annarri. Það þýðir, að hvar sem við Íslendingar kynnum að breyta grunnlínu, þá hafa Bretar með þessu áskilið sér að falla ekki frá mótmælaaðgerðum gegn slíku. Það er einvörðungu þessi nána takmörkun, þessi fiskveiðilögsaga, sem skilgreinist eins og stendur í 2. gr. þýðir þetta á lögfræðimáli, að þeir áskilji sér að taka upp mótmælaaðgerðir gegn hverri annarri ráðstöfun, sem við gerum? Ég spyr þá, sem mér eru lögfróðari. Ef við einhvern tíma á komandi árum og jafnvel kannske ekki þið, sem hér sitjið núna, heldur aðrir en þið, drögum grunnlínu öðruvísi en greinir í þessari 2. gr., áskilja þá Bretar sér samkvæmt þessu að beita mótmælaaðgerðum, að halda með herskipaflota inn, og hafa þeir fengið staðfestingu frá ríkisstj. Íslands með þessum samningi, að þeir megi gera það, það sé elnvörðungu ætlazt til, að þeir falli frá mótmælum gegn þessu ákveðna, sem þarna er?

Ég vil eftir dýrkeyptri reynslu Alþingis af milliríkjasamningum við stórveldi hvetja hv. þm. til þess að vera á verði í þessum efnum. Við gætum okkar aldrei of vel, þegar við erum að semja við svona volduga aðila. Það er ekki nóg fyrir okkur að fá þá fullvissun, að það sé skoðun utanrrh., að þetta þýði þetta og þetta. Það, sem við þurfum að hafa svart á hvítu, er skoðun Breta, aðilans, sem við erum að semja við, að það sé þetta, þannig að dómstóll geti ekki efazt um á eftir. — [Fundarhlé.]

Herra forseti. Ég vildi óska þess við hæstv. forseta, að hann gerði ráðstafanir til þess, að einhver af hæstv. ríkisstj., sérstaklega hæstv. utanrrh. og dómsmrh., mætti hér á fundinum, því að ég býst ekki við, að það sé meining ríkisstj., að það eigi að halda áfram umr. hér, án þess að hæstv. ráðh. séu viðstaddir, um annað eins mál og þetta, og það er ekki að sýna þinginu tilhlýðilega virðingu, ef þessir hæstv. ráðh. eru ekki við. Vill ekki hæstv. forseti gera ráðstafanir til þess, að þeir viti, að þingfundur er að byrja á ný? (Forseti: Utanrrh. er að koma.) Nú, það er kannske rétt, að ég doki við af kurteisi við hann, svo að hann fari ekki á mis við það, sem þarf að segja við hann. Honum mun ekki af veita, og ekki er vert að þurfa að endurtaka það allt saman aftur, þegar hann kemur. Það bólar víst ekkert á honum enn þá. Þarna er hann kominn. Jæja, það er gott, þá er bezt að halda áfram.

Þá er það í öðru lagi viðvíkjandi þessari 3. gr. í orðsendingu utanrrh. Íslands til utanrrh. Bretlands, sem ég vildi segja nokkur orð.

Þar er gengið út frá, að ríkisstj. Íslands muni ekki á næstu 3 árum hindra, að skip, sem séu skrásett í Bretlandi, stundi veiðar á ákveðnum svæðum hér við Ísland. Það er nú í fyrsta lagi við þessu að segja, að með þessu móti er Bretum hleypt inn á viss stór svæði við Ísland, þar sem þeirra togarar m.a. fá tækifæri til þess að jafnvel stöðva allt að fiskigöngur. Og allt það, sem í þessari þriggja ára undanþágu felst, er náttúrlega mjög skaðlegt fyrir hagsmuni Íslendinga og óþarfi að veita Bretum þetta, vegna þess að á þessu voru þeir raunverulega guggnaðir, að reyna að beita okkur þarna hervaldi. Við vorum búnir að sigra þarna. En með þessum þriðja þætti er verið að láta undan við þá og verið að gefa þeim sigur, sem þeir höfðu ekki. En það er ekki nóg með það. Á fundi í utanrmn. beindi ég þeirri fsp. til hæstv. utanrrh., hvort það mætti ekki búast við, að aðrar þjóðir, sem hefðu þarna hagsmuna að gæta, mundu líka koma og fara fram á að fá að vera þessa samnings Breta aðnjótandi. Og hæstv. utanrrh. sagði: Við því má búast, að aðrar þjóðir hefðu uppi þessar kröfur, og það væri ekki hægt að neita þeim. — Þannig liggur þegar fyrir, að líka þær þjóðir, sem mótmæltu að vísu í orði kveðnu útfærslu í 12 mílur, en ekki beittu okkur ofbeldi eins og Bretar, þær koma þarna líka inn, þær fara fram á að vera aðnjótandi þessara sömu réttinda og Bretar, þær koma til með að fá þessi réttindi. Ég býst við, að frá sjónarmiði almennra milliríkjasamninga sé þetta alveg rétt hjá hæstv. utanrrh., það hefði ekki verið nægt að neita þeim um þetta, ef við veittum Bretum það. En við þurfum að gera okkur ljóst, hvað þetta þýðir. Það þýðir, að fyrir utan alla þá brezku togara, sem hingað koma, þá koma hér belgískir, vestur-þýzkir og allir mögulegir togarar, sem veiða á þessum sömu slóðum. M.ö.o.: öll gamla hersingin heldur aftur þarna inn í íslenzka landhelgi.

Öllum hlýtur náttúrlega að vera ljóst, að þetta er stórkostlegt tjón fyrir okkur. Þó að Bretar hefðu viljað reyna að halda áfram að standa í þessu þorskastríði, sem þeir hafa kallað það, og við við þá, þá var vitanlegt, að Bretar gátu aldrei sigrað í því stríði og þeir gátu ekki efnahagslega séð haft nokkurn skapaðan hlut upp úr þessu. Þeir viðurkenndu það. Þeirra eigin togaramenn hér viðurkenndu, að þetta var engin veiði, það var ómögulegt að veiða undir herskipavernd. Efnahagslega séð stóðst Bretland ekki þetta stríð, það var tap á því. Það eina, sem Bretland reyndi þarna að vinna á, er sem sé þetta, að þeir segja við Ísland: Þið eruð í Atlantshafsbandalaginu eins og við. Við verðum að halda saman. Það dugir ekki, að þetta verði til skammar fyrir Atlantshafsbandalagið. Það er ekki vegna þess, að þeir hafi raunverulega slegið okkur út í sjálfri landhelgisdeilunni hér heima, heldur einvörðungu þetta stórpólitíska atriði, sem þarna veldur því, að við erum látnir bíða þarna ósigur og Bretar vinna sigur. Þetta er nauðsynlegt að mönnum sé ljóst, að aðrar þjóðir koma þarna á eftir.

Þá kemur spurningin um, hvað verði eftir 3 ár. Hæstv. utanrrh, sagði, — ég held í útvarpsumræðunum, — að hann hefði yfirlýsingu brezku stjórnarinnar eða loforð brezku stjórnarinnar um það, að hún fari ekki fram á framlengingu á þessu. Ég bað um það á utanrmn.-fundinum að fá að sjá þessa yfirlýsingu eða að hún yrði lögð fyrir utanrmn. Hæstv. utanrrh. tilkynnti, að hann mundi ekki birta utanrmn. þessa yfirlýsingu eða þetta loforð. Hann neitaði að birta það. Hann segir, að það sé skýrt og ótvírætt. En ef það nú á annað borð er til og ekki skýrara og ótvíræðara en þessi samningur yfirleitt er, þá er ég nú hræddur um, að það sé ekki leggjandi sérstaklega mikið upp úr því. Sem sagt, þetta loforð Breta hefur ekki fengizt fram til þessa, og ég vil nú enn einu sinni koma fram með þau tilmæli, að það sé sagt nákvæmlega hér, hvernig þetta loforð er, í hvers konar formum, það og orðalagið á því. Mér sýnist satt að segja, að eftir orðalaginu á þessari orðsendingu. sem hér liggur fyrir, þá sé ekki vanþörf á því, að þm. gagnrýni þann hátt, sem hafður er á um orðalag í samningum við aðrar þjóðir.

En hvað getur svo gerzt annað? Segjum nú, að þetta væri rétt hjá hæstv. utanrrh., að hann hefði yfirlýsingu frá Bretastjórn um, að hún ætli ekki að fara inn aftur í landhelgina eftir 3 ár. En getur ekki ýmislegt annað gerzt? Við skulum segja, að við eigum fleiri bandamenn í Atlantshafsbandalaginu en Breta, fleiri vini, fleiri, sem vinna með okkur að efnahagssamvinnu, við skulum segja t.d. Belgíu, af því að hún er mikið á dagskrá núna og hún hefur sýnt, hvernig hún fer með gamlar nýlendur, — við skulum segja bara, að Belgir segðu eftir þrjú ár: Ja, ég hef aldrei lofað að virða þetta, sem hér er um að ræða, — og þeir segðu: Nú höldum við hér inn í landhelgina. — Þeir kæmu með sinn flota, hann er að vísu ekki mikill — meiri en okkar — og þá hafa þeir dæmið fyrir sér. Jú, Bretar þurftu bara að halda með flota inn í landhelgina, tala dálítið í París á fundum Atlantshafsbandalagsins, og svo beygði íslenzka ríkisstj. sig. Ef Belgíumenn eða Vestur-Þjóðverjar gerðu svo eitthvað svipað, — Vestur-Þjóðverjar hafa áður kúskað fram landráðasamninga við Ísland, t.d. 1935, sérréttindi, sem Bretar voru búnir að ná sér í hérna áður, þá er minnstur vandinn fyrir þessar þjóðir að koma á eftir, — þær sjá fordæmið núna. Það er bara að beita Íslendinga ofbeldi, þá er látið undan, jafnvel þótt menn séu að tapa, eins og Bretar í þessari ofbeldisbeitingu. Þess vegna er hættan með því að gefast upp núna svona fyrir Bretum, að haldið verði áfram að gefast upp.

Viðvíkjandi þessari þriggja ára undanþágu, þá er sem sé hætta á ferðum og orðalagið á þessari orðsendingu, hvað þriðja liðinn snertir, hefði átt að breytast þannig, að það væri alveg skýrt tekið fram, að framvegis kæmi þetta ekki til greina, að neinir flotar færu þarna eða farið væri fram á neinar undanþágur eða neitt slíkt.

Svo var enn fremur spurt að því í utanrmn., hvort íslenzkir togarar mundu þá ekki fara inn á þessi svæði líka og feta í fótspor þeirra útlendu, og því var lýst yfir af hæstv. dómsmrh., að náttúrlega mundi þessi milliríkjasamningur hafa í för með sér endurskoðun á rétti íslenzkra togara. Ég skil það náttúrlega mjög vel, að íslenzk ríkisstj. á bágt með að neita togurum okkar eigin þjóðar um þann rétt, sem hún veitir togurum annarra þjóða. Og við heyrðum hér áðan lesna yfirlýsingu frá Félagi íslenzkra botnvörpuskipaeigenda um, að þeir væru mjög ánægðir með þennan samning og þeir hvettu Alþingi mjög til þess að samþykkja hann. Það þótti mér satt að segja ekkert undarlegt. Ég minnist nú satt að segja varla þess, með allri virðingu fyrir okkar ágætu löndum í Félagi íslenzkra botnvörpuskipaeigenda, að þeir hafi haft mikinn áhuga fyrir íslenzkri landhelgi þessa áratugi. Ég er hræddur um, að ef farið væri að rekja alla söguna, þá mætti frekar finna dæmin um hitt, að það hefðu jafnvel verið menn úr því félagi, sem hefðu gefið útlendum togurum upplýsingar um, hvenær væri best að brjóta íslenzka landhelgi, þannig að ég skil ekki, að það veki neina sérstaka hrifningu hér hjá þm., meira að segja stjórnarliðsins, þó að það sé lesið upp, að stjórnin í Félagi íslenzkra botnvörpuskipaeigenda sé sérstaklega ánægð yfir þessu. Hún hefur aldrei verið brautryðjandinn í því að skapa íslenzkum fiskimiðum friðun.

Við sjáum þess vegna, að allur sá togarafloti, sem yfirleitt áður þjáði okkur, kemur nú til með að leggjast að fiskimiðunum aftur með þeim afleiðingum, sem við þurfum ekki að ræða um. Það er vafalaust enginn maður, sem lokar augunum fyrir því, hvaða afleiðingar það hefur fyrir íslenzk fiskimið. Þessi 3 ára undanþága er þess vegna stórhættuleg í sjálfri sér, þessi 3 ár, fyrir utan þá hættu, sem í því felst, að hún komi til með að gilda áfram.

Þá er viðvíkjandi öðrum punktinum, þar sem eru grunnlínurnar. Það er af hálfu þeirra, sem mæla með þessum samningi, gert að miklu atriði, að Bretar fallist á að samþykkja ákveðnar grunnlínur á Íslandi. Hvergi kemur það greinilegar fram, að verið er að afhenda útlendum aðilum vald yfir okkar eigin lögsögu, heldur en þarna. Í fyrsta lagi skv. lögunum frá 1948 og raunar samkvæmt miklu eldri lögum erum það við sjálfir, sem drögum grunnlínurnar og ráðum þeim. Í öðru lagi er það beinlínis eitt af því fáa, sem er algerlega viðurkennt í alþjóðareglum og nú seinast einmitt á fundunum í Genf, að grunnlínurnar hefur viðkomandi þjóð rétt til þess að draga sjálf, þannig að þarna er beinlínis verið að gefa stórhættulegt fordæmi með því að semja um ákveðnar grunnlínur. Það er verið að afsala valdi, sem okkur bæði að íslenzkum lögum og alþjóðarétti ber, í hendur Bretum, og með einmitt því, sem ég var að benda á hér áðan í sambandi við skilninginn á 1. gr., þar sem Bretarnir takmarka það að falla frá mótmælum eingöngu miðað við þessar grunnlínur, þá er alveg greinilegt, hve okkur er sniðinn þröngur stakkur með þessu móti og hvernig Bretar áskilja sér rétt til þess að hefja mótmælaaðgerðir að nýju, svo framarlega sem við ætlum að víkka þann stakk nokkurn skapaðan hlut út. Þetta er þess vegna stórhættulegt fordæmi, þar sem verið er að binda Íslendinga á höndum og fótum.

Það var verið að tala hér áðan um ýmsar yfirlýsingar. Skyldu nú allir útvegsmenn og skipstjórar á Íslandi vera búnir að átta sig á því, hvað er verið að gera með þeim grunnlínuákvörðunum og þeim samningum, sem hér er verið að gera? Ég er hræddur um, að þeir séu fyrst margir að vakna við vondan draum núna. Ég er hræddur um, að menn, sem fyrir nokkrum dögum gáfu yfirlýsingar í Mbl. um, að þeir væru þessu samþykkir, séu að lýsa því yfir nú, að þeir séu algerlega andvígir þessu. Það var seinast í gær t.d. fundur í Ólafsvík, þar sem allir útvegsmenn og skipstjórar allra bátanna, sem eru þar, skrifa undir alger mótmæli á móti þessu. Þeir sýna fram á, að með þessum samningi fengju Bretarnir nú næstu 3 árin að minnsta kosti rétt til þess svo að segja að sitja fyrir fiskinum í Kolluál, næstum því stöðva fiskgöngurnar inn Breiðafjörðinn. Eitt sinn var Breiðafjörðurinn einn fiskisælasti flói Íslands, og fyrir um 100 árum átti jafnvel íslenzk sjálfstæðísbarátta ekki sízt hauk í horni við Breiðafjörð vegna þess, hver uppgangur var í sjávarútveginum þar. Nú er alveg sérstaklega veitzt að þessum aðilum, — Ólafsvík, sem tvö undanfarin ár hefur horft upp á það, að það hefur farið stórvaxandi þar, — þeir standa núna frammi fyrir því, að það eigi aftur að byrja á með samningum íslenzkra stjórnarvalda við Breta, við árásarmennina, að eyðileggja þessi fiskimið. Jafnvel einn bátaformaður komst svo að orði, að eftir að Bretarnir væru komnir þarna aftur, mundu þeir ekki aðeins fá engan fisk, Íslendingarnir, heldur meira að segja enga trossu til baka. Það er engin tilviljun, að Breiðafjörðurinn hefur hvað eftir annað verið eins og vígvöllur í okkar átökum um landhelgismálin, og Bretarnir hafa ekki hvað sízt fyrir nokkrum áratugum beitt sínu ofbeldi þar, m.a. við ýmsa helztu stjórnmálamenn Íslands, og ég er hræddur um, að það fari svo, að mönnum þyki við Breiðafjörðinn, eins og víðar á Íslandi, nokkuð þröngt fyrir dyrum, eftir að þessi samningur — hefur verið gerður. Þessi ákvæði viðvíkjandi grunnlínunum eru stórhættuleg sem fordæmi.

Þá skulum við koma að 4. liðnum, bannsvæðunum, sem eiga að vera. Það byrjar svo einkennilega, það orðalag, sú grein, sem sagt: „Á áðurgreindu 3 ára tímabili er þá skipum ... óheimilt.“ Hví skyldi ekki standa þarna: Framvegis er? Af hverju er allt þetta miðað við 3 ára tímabil? Þarna á þó Bretum að vera bannað þetta alveg framvegis. Þetta á að vera lokað fyrir þeim um aldur og ævi. Af hverju er þá endilega sagt: „Á áðurgreindu 3 ára tímabili?“ Er gengið út frá nýjum samningum eftir 3 ár? Er gengið út frá því, ef þessir flokkar, sem þessa samninga gera og ábyrgð taka á þeim, sleppa fram yfir næstu kosningar, að þeir geti þá aftur byrjað að tala við Bretann og semja á ný, eftir að hafa kannske lofað öllu fögru í kosningunum, eins og þeir eru vanir? Þarna ætti líka að breyta til um orðalagið, — og um það verður útbýtt brtt. frá stjórnarandstöðunni, — þarna ætti að breyta orðalagi, svo framarlega sem þeir, sem svona samning vilja samþykkja, vilja virkilega ganga þarna tryggilega frá.

Það er rétt, áður en ég kem að síðasta punktinum, að ég minnist rétt á það hér, af því að það hefur verið notað mikið í umræðunum um þessi mál, hver viðbrögð okkar andstæðinga hafi verið út af þessu samningsuppkasti.

Það er að mínu áliti alveg greinilegt, að okkar andstæðingar skiptast í tvo hópa eins og venjulega, þegar um svona er að ræða, að það er verið að berjast við gömul nýlenduveldi um rétt nýfrjálsrar þjóðar, og yfirþjóðin gamla skiptist á um það, hvernig taka skuli á málunum. Þeir ofstækisfyllstu af okkar andstæðingum í Bretlandi eru mjög háværir og álíta, að það eigi í engu undan að láta, það eigi að standa fast við sínar 3 mílur og sína hnefa. Þetta eru þeir, sem vilja fram í rauðan dauðann halda í sérréttindin, þó að þeir eigi á hættu að tapa öllu, og enda þá líka venjulega með því, ef þeir fá að ráða, að þeir tapa öllu. Þetta eru þeir menn, sem ýmist sjálfir eru í yfirstétt eða tilheyra andlega gamalli yfirstétt og eru á annan hátt svo smitaðir af hennar hugsunarhætti, að þeir skilja ekki, hvenær er kominn tími til þess að láta undan. Og það eru þessir menn, sem eru háværir nú og bölsótast. Og það eru þeirra orð, sem mest eru nú tilfærð í stjórnarblöðunum, af því að þeim finnst, að aldrei hefði átt að láta neitt undan í nokkrum sköpuðum hlut, ekki einu sinni frá 3 mílum, og eru þess vegna mjög háværir nú. Það eru menn af sömu tegund og þeirra forustumaður í Suður-Rhódesíu, Roy Walensky, sem nú vill ekki láta undan svertingjunum, þegar þeir eru að heimta sinn rétt yfir sínu landi, og mun líklega enda með því að tapa öllu saman með því að sýna óbilgirni. Þetta eru ekki hættulegustu andstæðingar okkar.

Það er annað hljóð í þeim, sem hættulegastir eru, þeim klókari, eins og brezku ríkisstjórninni. Brezka ríkisstjórnin er sú, sem ber ábyrgð fyrir hönd brezka auðvaldsins um að tapa ekki öllu, um að láta undan í tíma og láta undan þannig, að maður græði um leið. Hennar aðferð hefur verið að reyna að fá áhrif á okkar stjórnarvöld, — hennar aðferð, brezku ríkisstjórnarinnar, hefur verið að reyna að beita Atlantshafsbandalaginu, samheldni innan þess og öðru slíku til þess að fá íslenzka stjórnmálamenn til þess að láta undan. Fyrir brezku ríkisstjórninni, sem er framsýn og vitur, er höfuðatriðið landgrunnið og að hindra frekari útfærslu Íslendinga. Þetta nákvæmlega sama kemur fram í allri afstöðu Breta til allra þeirra þjóða, sem þeir áður hafa kúgað. Þeir eru reiðubúnir að gefa þjóð eins og Indverjum frelsi, þegar þeir sjá, að þeir geta ekki haldið henni lengur niðri með hnefavaldi. En þeir eiga bara að tryggja sér um leið áframhaldandi tök á þeirra auðlindum. Unilever er reiðubúinn til þess að láta brezku stjórnina gefa þeim í Nígeríu og annars staðar frelsi. Þeir reyna bara um leið að tryggja sér áframhaldandi umráð yfir auðlindunum í landinu. Það er þessi aðferð, sem brezka auðvaldið og ríkisstjórn þess sér að er langskynsamlegasta aðferðin. Jú, jú, tala við viðkomandi forustumenn þjóðarinnar, viðurkenna þá jafnvel sem sjálfstæða ríkisstjórn, taka þá jafnvel með í sjálft Atlantshafsbandalagið, og sumir gangast upp við að komast í svo fínan félagsskap, ekki sízt veizluglaðir menn, og telja þá svo á að láta undan. Þetta eru aðferðir okkar andstæðinga, sem hættulegastir eru. Bretarnir hafa alltaf kunnað það undanfarið. Þeir réðu yfir fjórðungi veraldarinnar um síðustu aldamót. Þeir hafa kunnað að láta undan þannig í tíma að leyfa þeim þjóðum, sem voru að sækja fram, að verða stjórnarfarslega frjálsar, en reyna bara að halda í auðlindir þeirra. Og það er sú aðferð, sem þeir eru að beita gagnvart okkur núna. Þeir eru að þykjast vera að gefa eftir, þegar þeir hafa sjálfir tapað stríðinu, eftir að þeir vissu, að þeir gátu ekki haldið áfram að reyna að kúga okkur, en tryggja sér um leið, að þeir fái ekki aðeins opnaðar fyrir sig 12 mílurnar, sem var búið að loka fyrir þeim, heldur að þeir tryggi sér, að Íslendingar reyni ekki útvíkkun nema raunverulega með þeirra leyfi. Þannig snúa þeir á okkur.

Nú skulum við koma að því, sem er þýðingarmesta atriðið í þessum samningi og um leið hættulegast, og það er síðasti liðurinn, þar sem ríkisstj. Íslands skuldbindur sig til þess að tilkynna ríkisstj. Bretlands héðan af um útfærslu fiskveiðilandhelginnar með 6 mánaða fyrirvara, og rísi ágreiningur um slíka útfærslu, skal honum, ef annar hvor aðili óskar þess, skotið til alþjóðadómstólsins. Við spurðum að því í utanrmn., hvort þessi samningur, þessi orðsending, væri uppsegjanleg. Og hæstv. utanrrh. tók það greinilega fram, að þessi samningur væri ótímabundinn, hvorki við né Bretar gætum sagt honum upp, hann væri óuppsegjanlegur, þannig að það fer ekki neitt á milli mála um það. Og það er rétt nú fyrir okkur Íslendinga að athuga vel, hvað við erum að gera, þegar við erum að gera óuppsegjanlegan samning. Það er satt að segja ekki sérstaklega oft í íslenzkri sögu, sem slíkt hefur komið fyrir. Það hafa að vísu verið gerðir samningar hér upp á síðkastið, sem við höfum deilt mjög harðlega út af. Það var gerður hér hervarnarsamningur 1951, svokallaður. Honum átti að segja upp með hálfs annars árs fyrirvara. Það var gerður samningur 1949 um inngöngu Íslands í Atlantshafsbandalagið. Hann er þó takmarkaður við 20 ár. Það var gerður 1918 samningur við Dani.

Hann var takmarkaður við 25 ár. En hér á að gera samning, sem er óuppsegjanlegur. Þegar Gamli sáttmáli var gerður, stóð þó í honum, að ef við að beztu manna yfirsýn álitum, að sá samningur væri rofinn af okkur eða okkar eftirkomendum, þá værum við lausir allra mála. Það er aðeins einn einasti samningur, ef samning skyldi kalla, sem Íslendingar yfirleitt hafa ekki viljað fallast á að væri samningur, sem mér virðist eitthvað líkur þessum, og það er Kópavogssamningurinn fyrir rétt tæpum 300 árum, þegar Ísland var að afsala sér síðustu leifum sinna lýðréttinda í hendur einvaldskonungi. Það gerðu þá forustumenn þjóðarinnar, að því er sagt er, grátandi, og þeim hafði verið bent á hermennina, sem í kringum þá stóðu. Nú ætla valdhafar þjóðarinnar að gera þennan samning glaðklakkalegir, talandi um stórsigur um leið. Það er þess vegna það minnsta, sem hv. Alþingi getur gert, þegar svona samningur er lagður fyrir það, að kryfja hann þannig til mergjar, að enginn sá þm., sem greiðir atkv. um þennan samning, sé í neinum vafa um, hvað samningurinn merkir. Meira að segja þegar Danir gerðu „svínakjötssamninginn“ — landhelgissamninginn 1901 (þeir seldu okkur fyrir svínakjötsmarkaðinn), þá létu þeir þó vera í honum 3 ára uppsagnarfrest, sem við gátum notað okkur, þegar við vorum orðnir frjálsir.

Og nú skulum við athuga þau rök, sem bæði hæstv. utanrrh. og fleiri hafa fært fyrir því að gera þennan samning svona.

Þeir segja, að við verðum að treysta á alþjóðadómstól, — við Íslendingar eigum að geta treyst á alþjóðadómstól, og þess vegna verðum við að gera samning, sem sé óuppsegjanlegur. Hæstv. utanrrh. sagði: Þeir, sem neita alþjóðadómstól, vilja vinna á grundvelli valds og ofbeldis, en ekki á grundvelli laga og réttar. — Ég held, að það sé nokkurn veginn rétt eftir haft. Mér fannst satt að segja þetta orðalag hæstv. utanrrh. vera táknrænt fyrir þann skilningsskort á allri þróun réttar og laga í veröldinni, sem einkennir þá menn, sem þannig hugsa. Hvað er það, sem skapar alltaf að nýju lög og rétt? Lög og réttur eru alltaf að breytast hjá þjóðunum. Það, sem skapar að nýju lög og rétt, er barátta fólksins í viðkomandi löndum, hvort heldur undirokaðra stétta eða undirokaðra þjóða, — barátta þeirra á móti gömlum, úreltum lögum og rétti, lögum og rétti, sem einu sinni var kannske ekki einu sinni góður, en einu sinni var þó lög og réttur, en síðan verður úreltur fyrir baráttu fólksins og er afnuminn og fólkið skapar ný lög og nýjan rétt. Svona hefur það gengið í veröldinni allan tímann síðustu árþúsundin, og svona kemur það til með að ganga áfram. Það er talað um þetta af hálfu utanrrh. og ég held hæstv. menntmrh. líka, — hann hefur varla að minnast á þetta í sinni útvarpsræðu, — að það er rétt eins og að allt vald, sem fólkið verður að beita í slíku sambandi, væri af því illa, en það eina, sem væri gott, það eina, sem smáþjóðirnar gætu treyst á, það væri þessi lög og réttur. Það er nú helzt! Hefur ekki öll barátta einmitt þeirra undirokuðu í veröldinni einmitt verið á móti lögum og rétti þeirra stóru? Svo að ég taki land, sem þessum mönnum er kært og virðist vera kærara en Ísland, svo að ég taki Bandaríki Norður-Ameríku, urðu þau ekki sjálf að gera uppreisn til þess að öðlast sín eigin lög og rétt, til þess að afnema lög og rétt Englendinga í þeirra nýlendu, — og láta þau ekki sjálf standa í sinni stjórnarskrá, sinni frelsisyfirlýsingu, að þann rétt að gera slíkt hið sama hafi alltaf hver þjóð? Þess vegna skulum við gera okkur það ljóst, að hvort sem við metum lög og rétt, eins og stendur nú, eða alþjóðadómstólinn hátt eða lágt, þá er þetta hlutur, sem er breytingum undirorpinn. Það verður barizt fyrir því að breyta því, sem nú er lög og réttur. 3 sjómílur voru máske einu sinni skoðaðar lög og réttur, meira að segja alþjóðleg lög og réttur. Það er strax verið að breyta því nú. Nýlendukúgun var einu sinni skoðuð lög og réttur, og það er jafnvel kannske ekki fjarri því, að Hagdómstóll ætti til að dæma enn þá út frá slíkum kringumstæðum. Það eru ekki nema 100 ár síðan þrælahald var skoðað lög og réttur og dæmt samkvæmt lögum og rétti, að menn mættu selja konur og börn sem þræla. Það er ekki heldur nema öld síðan verkalýðsfélög voru bönnuð og verkamennirnir í Bretlandi, þeir smáu, þeir fátæku, þeir undirokuðu, þeir risu upp og börðust og knúðu fram, að það yrði lög og réttur, að slík félög fengju að vera til. Sem sagt, lög og réttur eru alltaf að breytast í heiminum, og þau breytast fyrir baráttu þeirra smáu, fyrir baráttu fjöldans, jafnvel fyrir valdbeitingu þessa fjölda. Sá gamli, úrelti réttur yfirstéttanna og yfirþjóðanna hverfur fyrir þessari baráttu. Þetta er það, sem við verðum að gera okkur ljóst. Það er ekki til neins að tala eins og fífl með einhverri fyrirlitningu þannig, að þeir smáu í veröldinni eigi ekki neina stoð nema í lögum og rétti. Lög og réttur hafa lengst af verið notuð á móti þeim smáu í heiminum, þótt þeir smáu séu hins vegar smátt og smátt að verða það sterkir nú, að þeir séu að skapa lög og rétt og umbreyta lögum og rétti meir og meir í sína þágu. En það er barátta, sem stendur, og barátta, sem heldur áfram.

Þetta vildi ég segja viðvíkjandi því, að það er ekki til neins að ætla að koma með slíkar mótbárur almennt séð: Við eigum bara að beygja okkur fyrir lögum og rétti, hvar eigum við aðstoð nema í alþjóðadómstól? — eða eins og hæstv. menntmrh. sagði í útvarpsumræðunum, að utan við alþjóðalögin væri aðeins vald. Og það virtist liggja í hans orðum, að valdið væri aðeins af því illa. Auðvitað getur valdið alveg eins verið af því illa og af því góða. En það, sem við verðum að gera okkur þarna ljóst, það er, að það stendur yfir barátta í heiminum fyrir að breyta lögum og rétti og sérstaklega þeim lögum og rétti, sem eru úrelt lög og úreltur réttur þeirra fáu og voldugu og ríku, og umskapa þetta í lög og rétt fyrir þá fátæku og fyrir þá smáu, sem eru undirokaðir. Það er þess vegna óviðkunnanlegt, að menn séu að slá um sig með einhverjum svona almennum slagorðum og hafa ekki hugmynd um þróunina í heiminum. Þetta er nú aðeins almennt, nema menn vilji fara að ræða þetta heimspekilega.

En hvað snertir svo okkur Íslendinga sjálfa, það, sem við stöndum í, — hvað höfum við verið að gera á síðustu áratugum og sérstaklega síðasta áratug? Við höfum verið að berjast fyrir að umskapa lög og rétt í veröldinni, við höfum verið að taka okkur sjálfum viss lög og rétt, við höfum verið að lýsa lögsögu yfir landgrunninu hjá okkur, og við erum að slást fyrir því í heiminum, að það sé skapaður nýr réttargrundvöllur svo að segja. Við höfum meira að segja verið að vinna á með þetta. Við höfum fengið nokkru áorkað í þessu efni. Við erum að vísu ekki búnir að sigra þarna, ekki einu sinni í baráttunni fyrir 12 mílum, og þótt við sigruðum í baráttunni fyrir 12 mílum á næstu sjóréttarráðstefnu, hver segir nema við förum upp í 16 mílur næst eða eitthvað annað slíkt og reynum að fá aðrar þjóðir inn á það? 12 mílur er ekki aldagamalt hugtak, það er ekkert eilífðarhugtak. 12 mílur er hugtak, sem skapazt hefur á síðustu áratugum. Eitt af því, sem m.a. hefur átt þar sinn þátt í, er kannske samningur Englendinga og Rússa frá gömlum tímum. Það er ýmislegt af tímabundnum sögulegum skilyrðum, sem veldur því. Þess vegna ættum við ekki að binda það sem eitthvert óuppsegjanlegt, tólf mílna fiskveiðilögsögu, og eiga það annars undir Bretum eða einhverjum alþjóðadómstól, hvernig um slíkt færi.

Viðvíkjandi þeim rökum, sem þannig hafa verið sett fram, hefur heyrzt annað hljóð úr horni, og það er það, að þeir, sem vildu þetta ekki, þeir vildu ofbeldi. Það, að við vildum reyna að ráða landgrunninu, lögsögunni á því hvað fiskveiðar snerti, það væri að við værum að leggja þetta undir okkur með ofbeldi. Voru lögin um lögsögu okkar yfir fiskveiðunum á landgrunninu 1948 ofbeldi, var það tilraun til ofbeldis frá Íslandi? Nei, það var viðleitni til þess að vinna aftur rétt, sem við einu sinni áttum, vinna okkur rétt, sem okkur var lífsnauðsyn vegna okkar lífsafkomu. Aðrar þjóðir hafa tekið sér þennan rétt. Í alþjóðalögum er meira að segja nú þegar viðurkennt, að á allt að 100 metra dýpi skuli viðkomandi strandríki ráða og eiga botninn. En það, sem deilan stendur um enn þá, er: Á strandríki líka að ráða því, sem á þessum botni er eða yfir þessum botni fer? Það er það, sem við berjumst fyrir. Hver segir, að við eigum ekki eftir að sigra þar, og við verðum að berjast fyrir þessu með því að standa á því sem rétti, halda þessu fram og sýna það í reyndinni, gefast ekki upp í þeirri baráttu, afsala okkur ekki þessum rétti í hendur neinum öðrum. Við sjáum, hvað við höfum komizt á síðasta áratug í þrotlausri baráttu í sambandi við fiskveiðilögsöguna. Ættum við núna í dag, 1961, að fara að segja: Hérna eigum við að stanza, gera óuppsegjanlegan samning um alla eilifð? Héðan af eigum við ekki að berjast á sama hátt. — Í hvert skipti, sem við höfum barizt á þennan hátt, hafa Bretar mótmælt, beitt okkur ofbeldi á einn eða annan hátt. Nei, það var okkar regla í gömlu sjálfstæðisbaráttunni að viðurkenna aldrei vald hinna, viðurkenna aldrei vald Dana, hopa aldrei frá okkar rétti, þótt við hefðum sjálfir aldrei vald til að beita þeim rétti, en semja hann ekki af okkur, umfram allt semja hann ekki af okkur, og það er það, sem við eigum að gá að nú. Þegar við lýstum lögsögunni yfir landgrunninu 1948, þá lýstum við því þar með yfir, að það væri okkar innanríkismál. Við höfum ekki samþykkt lög hér á Alþingi nema um það, sem var okkar innanríkismál. Við samþykkjum ekki lög hér á Alþingi um það, sem aðrar þjóðir snertir.

Við gefum ekki út lög um kolanámurnar í Bretlandi. Þar með lýstum við því yfir, að þetta væri okkar innanríkismál, okkar innanlandsmál. Hvað erum við að gera núna? Við erum að gefa Bretum þátt í lögsögu um okkar innanlandsmál, ef við gerum þennan samning. Þetta er það, sem er alveg nauðsynlegt að menn geri sér ljóst.

Svo er alþjóðadómstóllinn. Það, sem er síðasta vörn þeirra, sem standa með þessum samningi, er, að á alþjóðadómstólinn getum við treyst, hann sé eiginlega vörn þeirra smáu. Það sé eiginlega hálfgerður fíflaskapur af svona smáþjóð eins og Íslendingum að vera að standa á einhverjum rétti, sem meira að segja alþjóðadómstóllinn kannske viðurkenni ekki. Menn eigi að gefast upp við slíka baráttu. Við eigum bara að heyja þá baráttu almennt að reyna að sannfæra stórþjóðirnar um okkar rétt. Halda menn nú, að við hefðum nokkra 12 mílna lögsögu í dag, — og það er enn þá ekki búið að taka hana af okkur, — ef við hefðum átt að hugsa svona, ef við hefðum átt að hugsa þannig: Við skulum bara treysta á alþjóðadómstólinn. Við skulum bara sannfæra þessar 80–90 þjóðir í veröldinni, eða 100, um hvað rétt sé, en við skulum ekki færa út einhliða. Við skulum ekki taka okkur okkar rétt? — Nei, við værum ekki komnir langt. Það væri víst engu að slá af í dag, ef við hefðum alltaf hugsað þannig.

Hvað um alþjóðadómstólinn? Við eigum að fara að leggja undir alþjóðadómstól Sameinuðu þjóðanna mál. samning, sem á að vera óuppsegjanlegur. Hvað er alþjóðadómstállinn gamall? Ætli að hann sé ekki eitthvað 16 ára. Þetta er unglingur. Ég er hræddur um, að Ísland sé eitthvað eldra. Og Ísland ætti að fara að afsala sér í hendur þessa alþjóðadómstóls valdi yfir okkar landgrunni. Hvað vitum við, hvað verður um alþjóðadómstólinn? Hvað vitum við meira að segja, hvað verður um Sameinuðu þjóðirnar, þó að við höfum allir vonir um, að þær blessist vel? En um Ísland verðum við þó a.m.k. að sjá, hvað sem alþjóðadómstól eða Sameinuðu þjóðunum líður. Það er okkar skylda. Hvaða ástæða er þess vegna til þess, að alþjóðadómstóllinn geti fjallað um innanríkismál Íslands? Þar að auki er þessi alþjóðadómstóll þannig skipaður, að ég býst við, að við eigum þar frekar andstæðinga en vini. Stórveldin í veröldinni móta enn sem komið er lög og rétt, eins og þau kalla, það mikið í veröldinni, að þau munu eiga þar hauk í horni. Það er ekkert öryggi þar fyrir okkur. Það nær ekki nokkurri átt að selja rétt smáþjóðar í hendur stórveldanna, sem þar eru.

Hv. frsm. meiri hl., hv. 5. þm. Reykv. (JóhH), kom nokkuð inn á alþjóðadómstóllinn í sinni ræðu, og þar virtist mér kenna misskilnings, sem ég held að við þurfum að gera okkur ljósan, gera okkur alveg ljósan í bróðerni. Hv. frsm. meiri hl., 5. þm. Reykv., sagði, að alþjóðadómstóllinn mundi, ef við Íslendingar værum að færa út okkar fiskveiðilögsögu, lýsa því yfir, ef um eitthvað væri að ræða, sem ekki væri alveg tryggt hjá okkur, að þetta bryti ekki í bága við lög og rétt. Ég held, að hann hafi notað það orðalag, að hann lýsti því yfir, að þetta bryti ekki í bága við lög og rétt, og þá gætum við gert það. Þarna held ég að sé um algeran misskilning að ræða. Ég er hræddur um, að þegar dómstóllinn ætti að fara að kveða upp dóm um þá hluti, sem ekkert stæði um í alþjóðarétti eða alþjóðlegu samkomulagi, að dómstóllinn mundi segja, að okkar útfærsla styðjist ekki við lög, m.a. af því að þau séu engin til um það. Það mundi verða hans úrskurður, að það styddist ekki við lög, af því að lög væru engin til. Ég er hræddur um, að þeir mundu ekki segja hitt, að það bryti ekki í bága við lög né rétt, af því að það væri hvorki lög né réttur til um þetta. Ég er hræddur um, að dómstóllinn mundi segja: Þessi útfærsla styðst ekki við lög, — og þar með værum við komin í sama öngþveitið aftur. Við skulum segja, að við hefðum tekið einhvers staðar einhverja svona skák, Bretar skírskotuðu til alþjóðadómstólsins og dómstóllinn segði síðan: Það styðst ekki við nein alþjóðalög eða alþjóðasamkomulag, að Ísland færi út á þennan hátt. — Þá er ég hræddur um, að Bretar segi: Þetta styðst ekki við lög. Við mótmælum, og samkvæmt 1. gr. viðurkennum við þetta ekki, og við höldum áfram mótmælaaðgerðum. — Þetta held ég að við eigum alveg að geta komið okkur niður á. Ég held, að dómstóllinn mundi aldrei kveða þetta upp með því orðalagi að segja: Þetta brýtur ekki í bága við lög. Þess vegna sé það óhætt. Það væri sama sem dómstóllinn segði, að varðandi það, sem ekki er búið að setja nein alþjóðalög um, megi hver gera á því sviði það, sem honum þóknast. Þetta er alveg grundvallaratriði, og hafi hv. stjórnarliðar viljað fallast á þetta ákvæði um alþjóðadómstólinn út frá þessari hugmynd. þá held ég, að það sé rangt hjá þeim og að þeir eigi að endurskoða sína afstöðu um þetta. Við erum þarna að berjast um svæði, í þessu tilfelli á landgrunninu, sem engin lög eru til um, en Bretar segja, að sé úthaf og öllum frjálst að vera á, og við segjum, að sé landgrunn undir íslenzkri lögsögu hvað fiskveiðar snerti. Og þarna eru engin alþjóðleg lög, að því er virðist. Hvernig getur alþjóðadómstóllinn þá kveðið upp á þann hátt að segja: Fyrst það eru engin alþjóðleg lög til um þetta, þá mega Íslendingar gera það, sem þeir vilja? — Ég held ekki. Ég held, að hann segi: Þetta heyrir ekki undir okkur, — eða eitthvað þess háttar, — af því að um þetta eru engin lög, eða segi: Þetta styðst ekki við lög, — og þá taki Bretar til sinna ráða og segja: Samkvæmt 1. gr. orðsendingarinnar höfum við fallið frá mótmælum gegn 12 mílna fiskveiðilögsögu, sem miðast við ákveðnar grunnlínur, en við höfum ekki fallið frá mótmælaaðgerðum gegn grunnlínum með öðrum breytingum, sem alþjóðadómstóllinn hefur ekki viðurkennt að styðjist við alþjóðalög og rétt, — og byrji sínar mótmælaaðgerðir aftur.

Þetta eru hlutir, sem þarf að ræða hér, þannig að það sé alveg skýrt, hvað menn meina með þessu, og að menn komi ekki, ef þeir eru lentir í deilum við Breta aftur eftir 1, 2, 3, 4, 5, 6 ár, og segi: Ég skildi þetta svona, Bretinn skildi þetta hins vegar.

Ég efast ekki um skoðun hv. 5. þm. Reykv., frsm. meiri hl., og að meiri hl. í utanrmn. meini þetta. En ég vil minna þá á það, sem ég var að segja hér frá um samning okkar við Bandaríkin 1941. Skoðun Bandaríkjanna var önnur. þótt allir Íslendingar væru sammála um hitt. Þess vegna verðum við að vanda okkur með þetta og ekki hlaupa að því að gera samning, sem er byggður á svona forsendum.

Mér virðist satt að segja eins og hugsunarhátturinn, sem liggur á bak við þennan samning, sé sá, að raunverulega hefðum við ekki þurft meira en jafnvel þessar 12 mílur, að svo miklu leyti sem við fáum þær, og að við værum í þeirri hættu, að það væri minnkað við okkur. Það er reginmisskilningur. Með hverju árinu, sem líður, hefur 12 mílna reglan verið að vinna á. Það er Bretinn, sem er í hættu. Það er hann, sem finnur, að hann er alltaf of seinn að semja núna. Það er hann, sem alltaf er að tapa á tímanum, og það er vegna þess, að hann finnur, að hann er að tapa á tímanum, að hann vill gjarnan gera þennan samning núna til þess að binda okkur óuppsegjanlega framvegis. Þess vegna eru allar vonir, sem menn hafa gert sér viðvíkjandi alþjóðadómstólnum og slíku, tálvonir. Það er stór hætta, sem í því felst að gefa honum þetta vald.

Þá er rétt að minnast á ein rök, sem komið hafa fram hjá utanrrh. í útvarpsumræðunum. Hann sagði, að við hefðum misst samúð, ef við hefðum ekki gert þennan samning. Ég býst við, að þetta sé talað út frá hjartanu. Ég býst við, að sumir okkar vestrænu vina hefðu kannske haft minni samúð með okkur, þ.e.a.s. auðvaldið í Bretlandi og Bandaríkjunum, Vestur-Þýzkalandi eða Hollandi, Belgíu og þessum löndum, sem voru að mótmæla, þegar við settum upp í 12 mílurnar. Þessar auðmannastéttir hefðu kannske misst einhverja samúð með okkur, ef þær hafa einhvern tíma haft hana. Þessir voldugu vestrænu vinir hefðu líklega misst samúð með okkur. Það er vel trúlegt, og þetta riður kannske baggamuninn hjá hæstv. utanrrh., að hann leggur þennan samning fyrir Alþingi Íslendinga nú. En ég er hræddur um, að við hefðum oft orðið að eiga það á hættu að missa samúð slíkra voldugra vina í frelsisbaráttu okkar Íslendinga og að við værum ekki komnir það, sem við erum þó komnir, ef við hefðum alltaf verið hræddir við það. Það dugir engin undirgefni hjá okkur undir þá aðila, sem alltaf vilja ganga á okkar rétt, ef við ætlum að ná okkar rétti. Við höfðum hins vegar samúð um allan heim í okkar baráttu, máske ekki samúð þeirra voldugu og ríku auðhringa, sem arðrændu okkur, en samúð allra þeirra, sem eru að berjast fyrir svipuðum rétti og við. Fiskimennirnir í löndunum hér í kring, í Færeyjum, Noregi, Skotlandi, Írlandi, höfðu samúð með okkur. Þjóðir úti um allan heim höfðu samúð með okkur. Og við hefðum ekki misst þá samúð, ef við hefðum staðið okkur eins og menn og gæfumst ekki upp núna í þessari baráttu.

Þau rök, sem flutt eru af hæstv. ráðh., ýmist að við værum að grundvalla á ofbeldi og valdi, en ekki á réttargrundvelli, ef við féllumst ekki á þessa samninga, eða hins vegar, að við misstum samúð, — þau rök eru þess vegna ekki mikils virði.

En nú skulum við, þegar lagt er til í fyrsta skipti við frjálst Ísland, að það geri óuppsegjanlegan samning, horfa ofur lítið fram í tímann um, hvað við eigum á hættu. Hér er talað um 12 mílur, og hér megum við ganga út frá því, að alþjóðadómstóll, sem við ætlum að leggja okkar lögsögu undir að þessu leyti, verði mjög íhaldssamur á forréttindi og sérréttindi hinna voldugu og stóru, eins og slíkir alþjóðadómstólar eru venjulega. En það, sem breytist aftur á móti og breytist fljótt, er veiðitæknin í heiminum. Hæstv. utanrrh. gaf út í september 1958 bók til þess að kynna öðrum þjóðum aðstöðu Íslands. Í þeirri bók, The Icelandic Fishery Question, lagðri fyrir Sameinuðu þjóðirnar í september 1958, segir hann m.a., með leyfi hæstv. forseta, — þetta er lausleg þýðing hjá mér: „Það er líka annað atriði, sem þarf að athuga, og það er hin hugsanlega þróun á algerlega nýjum veiðiaðferðum. Notkun risavaxinna verksmiðjuskipa, sem útbúin eru með rafmagnsfiskitækjum og dælum, kann að virðast eiga heima í hugmyndaheiminum enn, en á núverandi skeiði tæknilegra framfara á þess háttar tegundum gæti hún verið — á enskunni „just around the corner“ — rétt ókomin.“ M.ö.o.: hæstv. utanrrh. hefur séð ástæðu til þess að undirstrika við Sameinuðu þjóðirnar, að það mætti búast við því, að það yrði slík gerbylting í þróun veiðitækni á næstunni, að gerð yrðu út stórkostleg verksmiðjuskip, sem notuðu rafmagnsdæluútbúnað til þess að dæla til sín fiskinum. Og þetta er réttilega gert hjá hæstv. utanrrh. Hann gat ratazt á að gera einstaka góða hluti, á meðan hann var í góðum félagsskap.

Hvað þýðir þetta? Þetta þýðir það, að ef Bretar taka upp svona veiðitækni, — og við getum gengið út frá því, að þeir voldugu hringar muni koma á allmikilli byltingu í veiðitækni nú á næstunni, þá hafa þeir réttinn strax næstu þrjú ár, eins og þessi samningur takmarkar, og þar á eftir, þó að við allt yrði staðið, sem menn gera sér vonir um, utan við 12 mílurnar, til þess að veiða jafnvel með svona aðferðum. Vissulega mundum við og ýmsir aðrir berjast fyrir því að breyta alþjóðalögum viðvíkjandi svona aðferðum, banna þetta og taka alls konar tillit í þessu sambandi. En hvað langan tíma tók það ekki, eftir að annað eins byltingartæki og botnvarpan var tekið upp, að ná alþjóðlegu samkomulagi viðvíkjandi henni, og hvílík barátta stendur ekki um það enn í dag, — um það erum við að berjast? Hvað þá með þessa tækni? Og gagnvart svona tækni verða 12 mílurnar kannske ekki einu sinni eins mikilvægar og 3 mílur voru áður, kannske rétt eins og 2 eða 1 míla. Það verður kannske þægilegt fyrir Breta með svona tækni að liggja í Kolluálnum hjá Snæfellsnesi, og það eru margir Kolluálar á Íslandi.

Þegar við ætlum að gera samning, sem er óuppsegjanlegur, á tímum hröðustu tæknilegu framfara í veröldinni, þá verðum við að gera svo vel að hugsa fram í tímann. Þá eigum við ekki að hugsa bara út frá botnvörpunni, og erum við þó fyrst og fremst að slást út af henni. Við verðum að hugsa um þessa veiðitækni. Og það er ekkert, sem afsakar okkur að hafa gert þennan samning eftir á, því að við vitum, að þetta er yfirvofandi, og við vitum um leið, að við erum ákaflega lengi að sannfæra aðrar þjóðir heims um, hvaða tillit þurfi að taka, þegar svona breytingar verða í veiðitækninni.

Þess vegna er það lífsspursmál líka með tilliti til þessara hluta, að svona samningur sé ekki gerður. Hver veit, nema hér eigi menn eftir, jafnvel innan tíu ára, á þessu Alþingi að berjast fyrir því, að 12 mílur séu allt of lítið með tilliti til þróunarinnar í veiðitækni, að það nái bókstaflega ekki nokkurri átt að una við það. Og þá er óuppsegjanlegur samningur kominn um þetta með íhaldssaman, alþjóðlegan dómstól einn saman að skírskota til, en ella mótmælaaðgerðir Bretanna yfir höfði sér.

Með þessum samningi, ef hann yrði gerður, væri okkar lögsaga yfir landgrunninu hvað fiskveiðar snertir svikin, hún væri eyðilögð. Það stóra spor, sem við stigum í okkar sjálfstæðisbaráttu, þegar við samþykktum þau lög einróma, — það spor og þess afleiðingar væru meira eða minna eyðilagðar fyrir okkur. Og ég lýsi sök á hendur Atlantshafsbandalaginu, brezka herveldinu og þeirri íslenzku ríkisstj., sem vill vinna slíkt verk. Ég álít, að Alþingi eigi að taka fram fyrir hendurnar á þeirri ríkisstj., sem vill máske vinna það til vinskapar við voldug veldi að fórna svona hagsmunum Íslendinga. En Alþingi á ekki að gera slíkt, Alþingi á að taka fram fyrir hendur slíkrar stjórnar.

Væri þessi samningur gerður, þá væri ofbeldi Breta löggilt með honum og verðlaunað. Og mér finnst það sérstaklega hart af þeim flokki, stærsta flokki þingsins, sem a.m.k. einu sinni skráði á sinn skjöld: Gjör rétt og þol eigi órétt, að gefast upp í þessu efni.

Ég álít, að þessi samningur, ef gerður væri, væri ekki aðeins smán fyrir okkur Íslendinga, hann væri ósigur í okkar sjálfstæðisbaráttu, og hann þýddi það að fórna framtíðarhagsmunum þjóðarinnar fyrir stundarvinskap við hættulegasta fjandmanninn, sem við höfum glímt við síðustu 30–40 árin. Það hafa borizt margar áskoranir frá almenningi í landinu út af þessum samningi, og ég skal ekki fara út í þær áskoranir, en eitt vil ég segja í sambandi við það: Þegar við ræðum um fiskimiðin, þá er það að vísu svo, að maður mætti sérstaklega ætla, að okkar sjómenn, fiskimenn og útvegsmenn hugsuðu um þessi mál. En það er allur almenningur í landinu, sem á þessi fiskimið. Allur almenningur í landinu, hvað sem hann vinnur, verkamaðurinn á mölinni eða bóndinn uppi í sveitinni, starfsmaðurinn í stjórnarráðinu, hver sem er, allir saman eiga jafnmikið undir þessum fiskimiðum og undir því, að þau séu ekki eyðilögð. Við eigum allir Íslendingar þessi fiskimið. Við lifum öll, hvar sem við búum á landinu, á þeim, hvað sem við vinnum. Þess vegna varðar hvert einasta félag í landinu um þennan samning.

Við munum, eins og þegar hefur verið skýrt frá, freista þess, báðir minni hlutarnir í utanrmn., að reyna að fá fram breytingar á þessum samningi, ef meiningin er að samþykkja hann, og ég þarf ekki að skýra nánar frá því, enda mun þskj. þegar vera útbýtt. Það er um það að ræða fyrir þá, sem þessa orðsendingu vilja samþykkja, að hún sé þannig orðuð, að hún sé alveg ótvíræð. Í staðinn fyrir, að það standi „falli frá mótmælum“, komi: viðurkenni óafturkallanlega, — og að ríkisstjórn Bretlands heiti því að fara ekki fram á framlengingu á þessu og sjái um, að skipin fari burt, þegar þriggja ára tímabilinu er lokið, og þó sérstaklega, að síðasti liðurinn, er snertir alþjóðadómstólinn, falli burt, þar komi í staðinn: samkvæmt íslenzkum lögum og alþjóðarétti, — sem sagt ríkisstj. haldi áfram að vinna að útfærslu landhelginnar samkvæmt íslenzkum lögum og alþjóðarétti. Það er nauðsynlegt, ef meiri hluti Alþingis ætlar að gera þennan samning, að hann sé þannig ótvíræður, að við höfum á einhverju að standa. Vegna þeirra, sem síðan ættu að taka við og reyna að heyja deiluna áfram við Breta, eftir að aðrir hafa gefizt upp, verður a.m.k. að reyna að láta þennan samning vera þannig orðaðan, eins og sjálfir þeir a.m.k. að miklu leyti skilja hann eða segjast skilja hann, sem nú vilja gera hann.

Svo er hitt. Þessi samningur er til kominn af þeim ástæðum, að Bretland beitti okkur ofbeldi, réðst inn í okkar landhelgi og hótaði að skjóta niður okkar skip. Það var samt búið að finna aðferð til þess að verjast þeim ofbeldisárásum, án þess að tjón hlytist af fyrir okkur, og Bretar höfðu gefizt upp á þeirri kúgun og því að beita hervaldi. Það var ekki stætt á því fyrir þá.

Það kann að vera rétt að leggja nokkra áherzlu á út af því, hve framferði Breta var svívirðilegt, að þarna hafi verið um nokkra nauðung að ræða. Það var satt að segja líka gert í sambandi við Keflavíkursamninginn 1946, þegar Bandaríkin neituðu að standa við þann samning, sem ég las upp grein úr hér áðan frá 1941, og heimtuðu gerðan nýjan samning, til þess að þeir féllu frá sínum skilningi á herverndarsamningnum frá 1941. En þó er það nú svo, að þessi nauðung, þessi beiting hervalds, er ekki næg afsökun fyrir núverandi stjórn. Það má vel vera, að það geti verið hentugt fyrir Ísland seinna meir, þegar við þurfum að losa okkur við þennan samning, að leggja áherzlu á þetta. Því er rétt að taka það með í reikninginn, að Bretar beittu okkur ofbeldi og við mótmæltum því ofbeldi og það hafi a.m.k. komið fram í huga einhverra þeirra, sem þessum samningi hafa ráðið, að þeir hafi verið ofbeldi beittir. Hitt er þó því miður enn alvarlegra, að sú ríkisstjórn, sem þetta samþykkir, eða ætlar sér að samþykkja, hefur ekki umboð til þess frá þjóðinni, og því hefur sjálfur hæstv. forsrh. lýst yfir hér á Alþingi fyrir tæpu ári, — ég held í apríl í fyrra, — að hann hefði ekki heimild frá þjóðinni til þess að afsala Íslandi 12 mílna fiskveiðilögsögunni. Þjóðin er því óbundin af þessum samningi í framtíðinni.

Aðeins með einu móti gæti þessi samningur öðlazt það gildi, sem mundi binda þjóðina og það væri með þjóðaratkvæðagreiðslu. Og það er siðferðisleg skylda þeirra, sem að þessum samningi vilja standa, svo framarlega sem þeir vilja reyna að láta hann hafa eitthvert siðferðilegt gildi eftir á, að leggja hann undir þjóðaratkvæðagreiðslu. Þegar við stofnuðum lýðveldið, var því slegið föstu í stjórnarskránni, að þegar um stórmál væri að ræða, sem slík deila stæði um, að jafnvel forseti landsins vildi ekki viðurkenna það, sem Alþingi samþykkti, þá mætti skjóta því undir þjóðardóm með þjóðaratkvæðagreiðslu. Þjóðaratkvæðagreiðsla var viðurkennd æðsti úrskurður, æðri en Alþingi og undirskrift forseta, og þetta var lýðræðislega séð fullkomnasta ákvæði í okkar stjórnarskrá. Þetta var það ákvæði, sem setti Alþingi aftur að einhverju leyti í sama horf og var í Alþingi hinu forna, þegar að lokum var skotið til fólksins því, sem ákveðið var í lögréttu, til samþykkis eða synjunar. Þetta er sá réttur, sem í þeim þjóðfélögum, sem lengst hafa varðveitt fornar lýðræðisvenjur, er við hafður, svo sem í Sviss. Þetta er sá réttur, sem er meira en formlegt lýðræði. Þetta er sá réttur, sem er hið raunverulega lýðræði: meiri hlutinn er látinn ákveða. Hitt er því miður það, sem allt of oft tíðkast, að menn séu látnir kjósa sér þingmenn undir hinum og þessum fölskum forsendum og meiri hluti þeirra þingmanna geri svo þveröfugt við það, sem hann jafnvel lofaði í kosningum, og þess eru ekki bara dæmi nú, þau hafa verið til áður.

Þess vegna ættu þeir menn, sem nú tala djarfast um, að þjóðin hafi unnið stórsigur, hún hafi sigrazt á Bretum, manna sízt að vera hræddir við að leggja þetta mál undir þjóðardóm. Þess vegna er það okkar höfuðtillaga í þessu máli, að þetta samningsuppkast öðlist ekki gildi, fyrr en það hefur hlotið meiri hluta greiddra atkvæða í þjóðaratkvæðagreiðslu. Sjálft okkar lýðveldi var stofnað með slíkri þjóðaratkvæðagreiðslu, og það er rétt fyrir okkur, þegar við ætlum að gera óuppsegjanlega samninga við land, sem hefur ráðizt á okkur og beitt okkur valdi og hótað að drepa Íslendinga, að slíkt sé lagt undir þjóðina, áður en gengið er frá slíkum samningi.

Eigi að knýja þennan samning í gegn án þess að taka nokkurt tillit til raka, nokkurt tillit til sanngirni, nokkurt tillit til alls, sem bent er á í sambandi við samþykkt svona þýðingarmikils máls, þá er greinilegt, að hér eru öfl að verki, sem eru okkar þjóð fjandsamleg. Þá eru valdhafar okkar lands að láta undan vinarhótum eða þrýstingi eða hótunum voldugra erlendra aðila, sem vilja hindra sókn okkar þjóðar fram til betri lífskjara og fram til yfirráða yfir sínu landi og landgrunni, og það er harmleikur, ef slíkt á að gerast nú. Slíkt að samþykkja þennan samning, eins og hann nú liggur fyrir, væri landsafsal, væri uppgjöf í þeirri sókn, sem við hófum á þessu sviði 1948 og við þurfum að halda áfram.

Mín höfuðtillaga er sú, að þessi samningur sé felldur, og þótt brtt., sem ég hef hér flutt, væru samþykktar, mundi það einnig vera mín till., að hann væri felldur. Þær eru fluttar vegna þess, að ég vil taka þátt í því að reyna að láta þá menn, sem eru svo skammsýnir að vilja gera samning nú, a.m.k. gera hann þannig, að þeim, sem ættu að taka við eftir á og reyna að bjarga Íslandi frá þeirra óhappaverkum, væri ekki gert allt of þungt fyrir.