14.03.1961
Neðri deild: 74. fundur, 81. löggjafarþing.
Sjá dálk 1037 í B-deild Alþingistíðinda. (1009)

209. mál, meðferð opinberra mála

Gísli Jónsson:

Herra forseti. Út af ákvæðum 6. gr. frv. langar mig aðeins til þess að bera fram örstutta fyrirspurn til hæstv. dómsmrh. Þar stendur, með leyfi hæstv. forseta:

„Saksóknari nýtur sömu launa og annarra lögkjara sem hæstaréttardómarar, eftir því sem við verður komið.“

Hæstv. ráðh. skýrði nokkuð þetta ákvæði og minntist á, að með lögkjörum væri átt við, að þeir fengju gjöld fyrir aukavinnu. En ég vildi mega spyrja: Er ætlazt til þess, að þessi grein sé skilin þannig, að saksóknari haldi sama eftirlaunarétti og hæstaréttardómarar? Þeir hafa nú, eins og kunnugt er, full laun, eftir að þeir láta af störfum, laun þeirra ekkert skert. Er ætlazt til þess, að það verði einnig svo hjá saksóknara; og ef svo væri, væri ekki réttara að taka það skýrar fram í löggjöfinni? Það hefur einnig komið mjög til tals í sambandi við hæstaréttardómara að kveða svo á um í skattalögum, þó að það sé ekki orðið að lögum enn þá, að hæstaréttardómarar skuli vera skattfrjálsir af tekjum sínum. Ef svo yrði síðar, mundi það þá einnig verða um saksóknara, að hann kæmi til með að njóta þeirra kjarabóta, sem kynnu að verða gefnar hæstaréttardómurum, ef greinin er samþykkt óbreytt?

Í öðru lagi vildi ég gjarnan spyrja hæstv. dómsmrh. um, hvaða ástæður eru til þess að halda ákvæði í 3. mgr. 7. gr. um, að sérákvæði í lögum haldist, þó að þetta frv. sé samþ., þar sem svo er mælt um, að dómsmrh. kveði á um rannsókn, höfðun og áfrýjun opinberra mála, hvort það sé ástæða til þess að halda því áfram, eftir að búið er að skipa ákveðinn saksóknara, og hvaða ástæða liggur fyrir því, að slíkum ákvæðum þarf þá að halda í lögunum.

Að öðru leyti skal ég ekki ræða um frv. að þessu sinni