14.03.1961
Neðri deild: 74. fundur, 81. löggjafarþing.
Sjá dálk 1038 í B-deild Alþingistíðinda. (1010)

209. mál, meðferð opinberra mála

Þórarinn Þórarinsson:

Herra forseti. Ég hygg, að það mál, sem hér liggur fyrir, sé eitt af merkari málum, sem hafa komið fram á þessu þingi.

Eins og kom fram hjá hæstv. dómsmrh., gerir þetta frv. ráð fyrir tveimur meginbreytingum. Önnur breyt, er sú, sem hann taldi veigaminni, að heimilt er, að 3–5 sakadómarar séu í Reykjavík í stað eins nú. Ýmsir kynnu að halda, að hér væri um embættismannafjölgun að ræða, en samkv. þeim upplýsingum, sem hæstv. ráðh. gaf og ég hef ástæðu til að ætla að séu réttar, þá er ekki um það í raun og veru að ræða, heldur er hér aðeins um að ræða staðfestingu á þeirri skipan, sem þegar er orðin, að fulltrúar sakadómara starfi sem sjálfstæðir dómarar. Og það mætti ætla, að það að veita þeim fullkomlega þá viðurkenningu gæti orðið til þess að skapa meiri festu og öryggi í þessum efnum. Þó að þessi breyt. yrði gerð, mun því ekki fylgja nein veruleg launahækkun og sennilega sízt of mikil til þess að það takist að fá hæfa menn til þessara starfa, því að mér skilst, að á undanförnum árum hafi nokkrir menn horfið úr þessu starfi vegna þess, að þeim hafi boðizt betri kjör annars staðar. Þess vegna hygg ég, að það sé stefnt í rétta átt með þessari breyt. að fjölga sakadómurum hér í Reykjavík.

Annað aðalatriði þessa frv. er svo það, sem hæstv. ráðh. rakti mjög ýtarlega, en það er skipun sérstaks sakadómara, sem fari með það vald, sem hæstv, dómsmrh. hefur nú sem opinber ákærandi. Þetta mál er gamalkunnugt hér í þinginu. Það hefur verið hér meira og minna til meðferðar í tæp 30 ár. Dómsmálaráðherrar úr þremur stjórnarflokkum hafa látið undirbúa frumvörp, sem hafa fjallað um þetta efni, en þau þó ekki náð fram að ganga af þeim ástæðum, sem hæstv. dómsmrh. rakti hér, en aðalástæðan mun hafa verið sú, að menn teldu, að af þessu hlytist of mikill kostnaðarauki. Þetta mál hefur legið nokkuð niðri um skeið, ekki verið rætt svo mikið um skeið, en þó má benda á það, að fyrir tveimur árum birtist í tímariti lögfræðinga, Úlfljóti, mjög merkileg grein um þetta efni eftir Þórð Björnsson fulltrúa sakadómara, þar sem hann rekur þær mótbárur, sem helzt hafa komið á móti þessari skipan, og ræðir jafnframt um þá kosti, sem hún mundi hafa. Ég hygg, að þeir, sem lesa þessa ritgerð Þórðar, sem upphaflega mun hafa verið flutt sem erindi í félagi lögfræðinga, komist að raun um það, að hér sé um eðlilega og sjálfsagða breytingu að ræða, að sérstakur sakadómari verði látinn fara með það vald, sem hæstv. dómsmrh. hefur nú í þessum efnum. Um þá röksemd, sem helzt hefur verið hreyft á móti þessu, að þetta muni hafa aukinn kostnað í för með sér, þá hygg ég, að hún sé ekki eins mikilvæg og margir halda. Bæði er það, að fulltrúar, sem nú eru starfandi í dómsmrn., eiga að geta flutzt yfir til saksóknaraembættisins, og það mun líka vera mála sannast, að dómsmrn. er nú ekki nægilega vel mannað til þess að gegna þessu starfi. Þar á ég ekki við það, að þeir menn, sem nú vinna að þessum málum þar, séu ekki hæfir til þess að fást við þau, heldur hitt, að þeir séu of fáir. Sem blaðamaður hef ég haft aðstöðu til að fylgjast með því, að mörg af hinum stærri sakamálum, sem hafa komið til dómsmrn. á undanförnum árum, hafa tafizt þar óeðlilega lengi, jafnvel árum saman, að því er mér hefur verið tjáð helzt vegna þess, að það hefur ekki verið nægilegu af starfsmönnum þar á að skipa, til þess að hægt væri að taka nægilega fljótt ákvarðanir um, hvernig á þeim skyldi haldið, hvort málshöfðun skyldi ákveðin eða ekki. Og það er náttúrlega mjög óheppilegt, þegar slíkt ástand skapast, og þess vegna býst ég við, að jafnvel þó að ekki væri horfið að þeirri skipan að setja sérstakan saksóknara, þá yrði samt að fjölga starfsmönnum í dómsmrn. til þess að sinna þessum málum.

Ég held þess vegna, að sú mótbára, sem hefur aðallega verið höfð á móti þessu máli, að af því mundi hljótast óeðlilega mikill kostnaður, sé ekki rétt, þegar það er skoðað niður í kjölinn.

Eins og fram hefur komið bæði hér í grg. og því, sem hæstv. ráðh. sagði, og því, sem ég hef minnzt á, er þetta mál gamalkunnugt hér á þinginu, hefur hlotið mjög góðan undirbúning. Þar sem þrír dómsmrh. hafa skipað hina færustu menn til þess að fjalla um þetta efni og undirbúa það, þá held ég, að undirbúningi þess sé þannig háttað, að þó að nú sé orðið nokkuð áliðið þingtímans, ætti að vera hægt að afgreiða það á þessu þingi, ef sæmilega væri að framgangi þess unnið.