14.03.1961
Neðri deild: 74. fundur, 81. löggjafarþing.
Sjá dálk 1039 í B-deild Alþingistíðinda. (1011)

209. mál, meðferð opinberra mála

Dómsmrh. (Bjarni Benediktsson):

Herra forseti. Ég þakka vinsamlegar undirtektir við þetta frv.

Út af fsp. hv. 1. þm. Vestf. vil ég einungis segja það, að ætlazt er til, að saksóknari hafi í öllu sömu lögkjör og hæstaréttardómarar, að svo miklu leyti sem ekki verður talið, að hæstaréttardómurum séu fengin með sjálfri stjórnarskránni lögkjör á þann veg, að óheimilt sé að veita öðrum embættismönnum þau nema með stjórnarskrárbreytingu. Þetta er sá almenni leiðarvísir, sem eftir ber að fara, og held ég, að við bætum okkur ekki á því að ræða það atriði ýtarlegar hér. En ég vil lýsa því sem almennri reglu, að ég tel eðlilegast, að í öllu því, sem talið verður heimilt innan ramma stjórnarskrárinnar, séu lögkjörin svipuð eða hin sömu hjá þessum embættismanni og hæstaréttardómurunum. Það er minn skilningur á þessu ákvæði.

Varðandi það, hvort haldast eigi sérákvæði í lögum, þar sem svo er mælt, að dómsmrh. kveði á um rannsókn, höfðun og áfrýjun opinberra mála, þá byggist það á því, að ef hingað til hefur þótt sérstök ástæða til þess að gera undantekningu frá almennri reglu um ákæruvald og leggja það sérstaklega til dómsmrh., þá sé ekki ástæða til á þessu stigi að breyta þeim sérákvæðum. Í því felst engan veginn, að nánari skoðun kunni ekki að leiða til þess, að eðlilegt sé að fella það einnig undir saksóknara. Það er annað mál, sem þarfnast skoðunar í sérhverju einstöku tilfelli. Þau ákvæði eru ekki ýkjamörg að mínu viti, en þeim sérfræðingum, sem um þetta hafa fjallað, hefur þó á þessu stigi virzt rétt að halda þessum sérákvæðum. Ég er ekki reiðubúinn til þess að ræða það í einstökum atriðum, það þarf að skoða það, ef menn vilja taka breyt. á því upp, en þarna er um algerar undantekningarreglur að ræða, sem hagga ekki því meginákvæði eða þeirri meginreglu, sem hér er ætlazt til að upp verði tekin.

Varðandi ummæli hv. 7. þm. Reykv. get ég ekki annað en glaðzt yfir að heyra fylgi hans við frv. En ég vil þó af því tilefni, sem hann gaf, ítreka, að ég vil ekki gera of lítið úr því, að kostnaðarauki verði samfara embætti saksóknara. Það verður kostnaðarauki því samfara, og það er ástæðan, sem hingað til hefur leitt til þess, að menn hafa ekki viljað lögfesta þessa breytingu. Málið hefur ætið innan þingsins hingað til strandað á óttanum við þennan kostnaðarauka. Ég er ekki reiðubúinn í dag til þess að segja, hversu mikill hann verður. Það er rétt, að einhverjir af fulltrúum dómsmrn. hljóta með eðlilegum hætti að hverfa yfir til saksóknara. En ég vil jafnframt vekja athygli á því, sem hv. 7. þm. Reykv. sagði alveg réttilega, að dómsmrn. hefur nú of fáum mönnum á að skipa. M.a. þess vegna gengur meðferð opinberra mála þar stundum e.t.v. fullseint, og er það þó kannske ekki höfuðástæðan fyrir seinagangi þeirra, heldur hitt, að það tekur ótrúlega langan tíma að rannsaka og setja sig til hlítar inn í flókin og umfangsmikil mál, gera sér grein fyrir, hvort þau hafi verið nægilega rannsökuð, og meta, undir hvaða refsigreinar eigi að færa afbrotin. Hér er um mjög seinunnið verk að ræða og oft um hin meiri háttar mál svo, að það eru ekki nema hinir æfðustu menn, sem til þess verks í raun og veru eru færir, og þess vegna eðlilegt, að á því verði nokkur dráttur. Það mætti segja, að með því að hafa nógu marga menn ætti alltaf einhver að vera reiðubúinn til að taka hvert mikilvægt mál, sem kemur. En eðlilegt er, að þeir æfðustu séu settir í vandasömustu málin, og þannig hygg ég að hljóti að verða einnig hjá saksóknara, er hann tekur við.

En fyrir utan þetta, — og ég játa, að það væri æskilegt að hafa fleiri menn til að vinna að meðferð opinberra mála í ráðuneytinu nú heldur en verið hafa, — en fyrir utan það verður einnig að viðurkenna, að dómsmrn. hefur ekki nægan mannafla til þess að sinna tvenns konar verkefni, sem það verður að vinna, ef vel á að fara.

Annars vegar verður það að fylgjast betur með störfum embættismanna, þar með afgreiðslu dómara á sínum málum, heldur en það hefur gert hingað til, og má kenna sum mistök, sem orðið hafa, því, að ráðuneytið hefur ekki haft nægan mannafla til þess að fylgjast með rekstri embættanna eins og skyldi. Ég hygg, að nú sé komin á það sæmileg skipun í fjmrn., að þar sé endurskoðun nógu góð með fjármálahlið sýslumanns-, bæjarfógeta- og lögreglustjóraembætta um allt land. En það verður að segja eins og er, að af hálfu dómsmálastjórnarinnar er ekki nógu gott eftirlit með því, að mál séu raunverulega afgreidd eins og vera ber, þau sem berast til þessara embættismanna. Á þessu þarf að verða gerbreyting og ekki viðhlítandi fyrir neinn dómsmrh. að una þeim hætti, sem verið hefur í þessu efni, og þá enn síður fyrir almenning og ekki heldur fyrir embættismennina, sem leiðast til að skjóta þeim málum á frest, sem síður er fylgzt með, hvort afgreidd séu, þegar þeir sjálfir hafa of fáa menn til að vinna fyrir sig og láta þá ganga fyrir þau mál, eins og fjármálin, þar sem nokkurn veginn öruggt eftirlit er haft með, að allt sé í lagi.

Þetta er annað verkefnið, sem dómsmrn. nauðsynlega þarf að sinna betur en það hefur gert, og hitt er, að það þarf að hafa fleiri menn eða hafa mannafla til undirbúnings löggjafar í ríkara mæli en verið hefur. Eitt aðalstarf dómsmrn. á Norðurlöndum er allsherjar endurskoðun löggjafar og það, að þau fylgjast með því, að löggjöf, sem fram er borin af öðrum ráðuneytum, sé í lögformlegu formi, ef svo má segja, og undirbúin á þann veg, að skammlaust sé. Þessu verkefni hefur dómsmrn. hér alls ekki getað sinnt. Jafnvel hin einföldustu lagafrumvörp, sem þarf að flytja á þess eigin vegum, verður að mestu leyti að fá aðra menn til þess að undirbúa, vegna þess að mannafli er ekki til í ráðuneytinu. Hér er mikið verk að vinna, og ég er ekki að ógna mönnum með skjótum kröfum um aukningu á mannafla, heldur einungis gera grein fyrir þeim veikleikum, sem ég sé á þessu ráðuneyti eftir að vera búinn að vinna þar alllengi og gera mér grein fyrir þeim verkefnum, sem þar þarf að leysa af höndum, ef vel á að fara.