17.03.1961
Neðri deild: 77. fundur, 81. löggjafarþing.
Sjá dálk 1043 í B-deild Alþingistíðinda. (1014)

209. mál, meðferð opinberra mála

Frsm. minni hl. (Gunnar Jóhannsson):

Herra forseti. Afgreiðsla þessa frv. í allshn. varð með sérstökum hætti og allóvarleg. Frv. var tekið fyrir hér í þessari hv. d. á þriðjudag til 1. umr. Að loknum fundi í d. var boðaður fundur í allshn., en til hennar hafði frv. verið vísað. Ekki hafði það verið rannsakað áður, hvort nm. gætu mætt á fundi í n. á þeim tíma, sem tiltekinn hafði verið, enda kom það á daginn, að 2 nm. gátu ekki mætt. Ég hafði t.d. verið boðaður á fund úti í bæ og vissi því ekkert um fundinn í allshn., fyrr en honum var að mestu lokið. Á fundi n. munu hafa mætt Valdimar Stefánsson sakadómari og Theodór Líndal prófessor. Báðir þessir menn töldu sig vera meðmælta frv., þó taldi annar þeirra, að það gengi of skammt. Á fundi n. þá strax fór ég fram á, að frv. yrði sent til umsagnar m.a. lagadeildar Háskóla Íslands, Dómarafélagsins, Lögmannafélagsins og Lögfræðingafélagsins. Meiri hl. n. taldi engan tíma til þess að senda frv. nefndum aðilum til umsagnar, þar sem nú væri mjög áliðið þingtímans, en meiningin væri að fá það samþykkt á þessu þingi. Ég fór þá fram á, að n. frestaði afgreiðslu málsins þar til á fimmtudag, og varð meiri hl. við þeirri ósk.

Á fundi allshn. á fimmtudaginn lýsti ég því yfir, að ég teldi mér ekki fært að mæla með, að frv. yrði samþykkt á þessu þingi, og mundi því skila séráliti. Ég vil benda á í því sambandi, að ég tel ófært, enda óvanalegt að flytja stjórnarfrumvörp á síðustu dögum þingsins með það fyrir augum, að þau nái fram að ganga á yfirstandandi þingi. Alþingismenn eiga tvímælalaust kröfu til þess, að þeim gefist kostur og nægur tími til þess að kynna sér sem bezt efni og innihald frumvarpanna. Sérstaklega er þetta nauðsynlegt, ef um er að ræða þýðingarmikil frumvörp, sem fjalla um flókin lögfræðileg atriði, eða ef um gerbreytingu á embættisskipan er að ræða, eins og það frv., sem hér er til umræðu, gerir ráð fyrir. Með þessu er ekkert um það sagt, hvort sú breyting, sem frv. gerir ráð fyrir um meðferð opinberra mála, sé til bóta eða ekki. Má vera, að svo sé.

Jafnvel þótt gengið væri út frá því, að rétt sé að færa ákæruvaldið frá pólitískum dómsmrh. til saksóknara, breytir það ekki þeirri grundvallarreglu, sem ber að fara eftir við afgreiðslu mála á Alþingi, að nægur tími gefist til þess að kynnast málinu frá öllum hliðum og fá um það umsagnir og álit sérfróðra manna. Ég veit ekki betur en það sé viðtekin regla hjá nefndum þingsins við afgreiðslu allra stærri mála að senda fram komin frumvörp til umsagnar þeirra aðila, sem taldir eru hafa sérþekkingu á þeim málum, sem frumvörpin fjalla um. Við afgreiðslu þessa frv. í hv. allshn. var þessi háttur ekki á hafður. Ég tel það miður farið og vil mótmæla slíkum vinnubrögðum.

Það er rétt, sem áður hefur verið á bent, að það mál, sem frv. fjallar um, er ekki nýtt af nálinni. Áður hafa verið flutt á Alþingi frumvörp um sama efni, sem hafa ekki náð fram að ganga. Ég skal ekkert um það fullyrða, hvort það muni vera almennt álit dómara og lögfræðinga landsins, að taka beri upp þá tilhögun um meðferð opinberra mála, sem þetta frv. gerir ráð fyrir. Á það hefur ekki verið reynt. Álits þeirra hefur ekki verið leitað. Eitt liggur þó ljóst fyrir, og það er, að til skamms tíma hefur engin samstaða verið um málið á Alþingi.

Ekki verður um það deilt, enda viðurkennt af hæstv. dómsmrh., flm. þessa frv., að verði þetta frv. að lögum, muni það hafa allverulegan aukinn kostnað í för með sér fyrir ríkissjóð. Ekkert liggur opinberlega fyrir um það, hvað sá kostnaður muni nema miklu. Sjálfsagt hefði verið, að sú hlið málsins hefði verið rannsökuð. Fyrst engar upplýsingar lágu fyrir í aths. um þá hlið málsins, bar allshn. tvímælalaust skylda til að leita eftir upplýsingum þar um.

Hæstv. dómsmrh. benti á það í framsöguræðu sinni fyrir frv., að brýna nauðsyn bæri til að endurskoða alla meðferð opinberra mála. Hæstv. ráðh. segir, að þessi skipan hafi viðgengizt hér á landi vegna þess, að við höfum ekki treyst okkur til þess að verja nægilegu fjármagni til þessara mála. Þetta tel ég þýðingarmiklar upplýsingar. Þá boðaði hæstv. ráðh., að ef þetta frv. næði fram að ganga, mundi hann bera fram á næsta þingi hliðstætt frv. um borgardómaraembættið og ef . til vill fleiri embætti. Sú nýskipan, sem hæstv. dómsmrh. boðar, mun tvímælalaust kosta ríkissjóð of fjár, og verður ekki séð, að ríkissjóður hafi yfir að ráða þeim gnægtabrunni fjármála, að slík gjaldaaukning verði framkvæmanleg nema með auknum tekjum ríkissjóði til handa.

Í sambandi við hið nýja embættisbákn, sem mun kosta allháar upphæðir, er rétt að benda á, að hæstv. ríkisstj. telur, að ríkið geti ekki bætt kjör þeirra starfsmanna ríkisins, sem fyrir eru. Af slíku hafa þegar hlotizt mikil vandræði og á engan hátt séð fyrir endann á því. Það er því miður mjög algengt, að námsmenn, sem lokið hafa prófum, fari í störf erlendis og jafnvel neita hliðstæðum störfum hér heima. Eitt dagblaðanna sagði frá því nú fyrir skemmstu, að 40 verkfræðingar væru í störfum erlendis. Þetta er mjög svo ískyggileg þróun, sérstaklega þegar það er haft í huga, að land eins og Ísland, sem á jafnmikið ógert, þarf sannarlega á að halda öllum sínum sérmenntuðu mönnum ekki síður en öðrum. Það horfir til stórvandræða í mörgum héruðum úti á landi, að þangað fást engir læknar. Skólarnir úti á landi eru í vandræðum vegna skorts á lærðum kennurum. Jafnvel prestar sækja ekki um laus prestaköll. Mín skoðun er sú, að þess væri ekki síður þörf að reyna að finna leiðir til úrbóta á þessu ófremdarástandi, sem ég hef hér minnzt á, en stofna til nýrra embættisbákna í höfuðstaðnum. Okkur Íslendinga vantar flest annað sannarlega en hálaunuð embætti. Þau eru nógu mörg fyrir.

Þess er getið í aths. við frv., að á Norðurlöndum og víða annars staðar hafi ákæruvaldið verið fengið í hendur sérstökum saksóknara. Jafnvel þó að slík meðferð opinberra mála sé viðhöfð víða erlendis, þarf það ekki að vera nein sönnun þess, að við eigum að taka upp nákvæmlega sama fyrirkomulag um þessi mál og þar er viðhaft. Flestar aðstæður eru gerólíkar og sérstaklega það, hvað þjóðin er fámenn. Það hljóta að vera takmörk fyrir því, hvað mikinn fjölda embættismanna þjóðin getur borið uppi vegna fjárhagsástæðna. Við verðum að sníða okkur þar stakk eftir vexti.

Ég hef hér nokkuð rætt um það frv., sem hér liggur fyrir. Sjálfsagt er hægt að benda á ýmis atriði málinu til stuðnings, önnur, sem mæla því á móti. En þar sem frv. er flutt nú í þinglok og ekki hefur unnizt tími til þess að athuga það að neinu ráði, get ég ekki mælt með því, að það verði samþykkt á þessu þingi, en legg til, að því verði vísað til hæstv. ríkisstj.

Ég sé, að hér hefur verið útbýtt brtt. frá hv. 4. þm. Sunnl. við 6. gr., að við bætist orðin „samkvæmt tillögu hæstaréttar“. Ég tel þessa tillögu til bóta og get greitt henni atkv., þó að ég að öðru leyti muni ekki greiða frv. atkv. á þessu stigi.