20.03.1961
Neðri deild: 78. fundur, 81. löggjafarþing.
Sjá dálk 1048 í B-deild Alþingistíðinda. (1018)

209. mál, meðferð opinberra mála

Einar Olgeirsson:

Herra forseti. Ég var ekki viðlátinn, þegar þetta mál var til 2. umr. Ég vildi aðeins láta þá skoðun í ljós, að ég álít. að það sé mjög heppilegt, að þetta mál verði athugað betur. Ég er ekki alveg viss í því, að það sé rétt stefna, sem þarna er farið inn á, og að því megi leiða ýmis rök. Ég segi fyrir mitt leyti, að því fer fjarri, að ég mundi yfirleitt treysta embættismanni í svona stöðu betur en hverjum þeim dómsmrh., sem er á hverjum tíma, þótt pólitískur andstæðingur væri. Ég held, að við eigum að athuga þetta mál betur, áður en það er afgreitt. Það er þarna um mál að ræða, sem snertir allmikið réttaröryggið, og ég held, að það sé rétt að yfirvega það vel, áður en ákvarðanir eru teknar.

Svo er hitt, eins og ég hef heyrt sagt, að hæstv. dómsmrh. hafi lagt áherzlu á, að þetta mundi hafa allmikinn kostnað í för með sér. Nú er það svo, að það er verið að prédika yfir fólkinu, að það eigi að spara og við Íslendingar lifum yfir efni fram. Ég býst við, að alveg sérstaklega séum við sammála um, að okkar ríkisbákn sé jafnvel stærra en við höfum efni á, þannig að ég held, að það væri rétt af okkur að athuga þessa hluti betur, áður en gerðir væru. Það er alveg rétt, að þessi mál hefur oft borið hér á góma áður. Þau hafa oft verið lögð fyrir Alþingi áður af hinum ýmsu ríkisstjórnum. En þetta hefur aldrei verið samþykkt, og ég fæ ekki séð, að það gerði neinn skaða, þó að það fengi að bíða næsta þings, og mundi fyrir mitt leyti vera því mjög meðmæltur.