23.03.1961
Efri deild: 80. fundur, 81. löggjafarþing.
Sjá dálk 1049 í B-deild Alþingistíðinda. (1024)

209. mál, meðferð opinberra mála

Frsm. meiri hl. (Jón Þorsteinsson):

Herra forseti. Í frv. því, sem hér er til umr., um breyting á lögum um meðferð opinberra mála, felast tvær grundvallarbreytingar frá gildandi lögum: í fyrsta lagi, að sakadómurum í Reykjavík verði fjölgað úr einum í 3–5, og í öðru lagi, að stofnað verði embætti saksóknara ríkisins, er taki að mestu við ákæruvaldinu úr höndum dómsmrh. Er síðargreinda breytingin enn þýðingarmeiri en hin fyrri. Frv. um svipað efni hafa oft verið borin fram áður hér á Alþingi, og eru því rök þau, sem hníga að nauðsyn þessara breytinga, alkunn.

Fjölgun sakadómaranna í Reykjavík og skipun yfirsakadómara, sem á að skipta með þeim störfum og hafa á hendi yfirstjórn embættisins og fyrirsvar út á við, er viðurkenning á þeirri staðreynd, að dómarafulltrúarnir við sakadómaraembættið hafa í reynd starfað sem sjálfstæðir dómarar og sýnt það í verki, að þeir eru færir um það. Það fyrirkomulag að láta einn mann bera ábyrgð á störfum svo margra fulltrúa, er óhæft, enda ógerlegt fyrir sakadómara að fylgjast með rannsóknum og samningu dóma í öllum þeim fjölmörgu málum, sem embættið þarf að afgreiða. Er þá miklu eðlilegra, að hver starfi sjálfstætt undir verkstjórn yfirsakadómara.

Með þessari breytingu hafa dómarafulltrúarnir þá aðstöðu og þann embættistitil, sem störfum þeirra sæmir. Verður með þessu móti einnig miklu betur tryggt en áður, að hinir færustu menn hverfi ekki úr þessum stöðum og úr þjónustu ríkisins, en á því hefur borið nokkuð mikið undanfarið. Verður það aldrei ofmetið að búa svo um hnútana, að færir og reyndir menn fáist til að gegna þessum störfum, en á það hefur skort, meðan þeir voru settir skör lægra en verk þeirra verðskulduðu.

Í 2. gr. frv. er nýtt ákvæði á þá leið, að í Reykjavík geti þrír sakadómarar í sameiningu rannsakað og dæmt mál, ef vafi þykir leika á um mikilsverð sönnunar- eða lagaatriði. Þetta er mjög athyglisvert nýmæli, sem ætti að leiða til vandaðri málsmeðferðar, aukins trausts á sakadómi og öruggari og réttlátari dómsniðurstöðu.

Í 3. gr. frv. segir, að saksóknari ríkisins fari með ákæruvaldið. Hér er um stórfellda breytingu að ræða, þar sem ákæruvaldið hefur fram til þessa svo til eingöngu verið í höndum dómsmrh. Ákæruvaldið er mjög öflugt vald í þjóðfélaginu. Það er augljóst mál, að sá ræður miklu, sem ræður því, hverjir eru sóttir til saka og hverjir ekki. Í lýðræðisþjóðfélagi hlýtur það að vera einn af hornsteinum þjóðskipulagsins, að þessu valdi sé beitt af fyllsta hlutleysi og réttsýni og handhafi þess njóti óskoraðs trausts. Á þetta hefur nokkuð þótt skorta, á meðan dómsvaldið er í höndum pólitísks ráðherra. Misbeiting valdsins gæti komið fram í ýmsum myndum, t.d. þannig, að sá, sem talinn er sekur, sé ekki ákærður, og eins hinu, að ákæra sé látin dragast úr hófi fram.

Sakamál, einkum hin meiri háttar, hafa oft pólitíska þýðingu, og þá er viðkomandi ráðherra, sem auðvitað á sér marga andstæðinga, gjarnan tortryggður og það jafnvel engu að síður, þótt hann hafi beitt ákæruvaldinu eftir beztu samvizku og af fullkomnum heiðarleika.

Það nægir því ekki, að skipan ákæruvaldsins sé með þeim hætti, að allir séu jafnir fyrir lögunum, heldur verður hún líka helzt að vera þannig, að allir trúi því, að þeir séu jafnir fyrir lögunum.

Þetta verður bezt framkvæmt með skipan óháðs saksóknara, er fullnægi lagaskilyrðum til skipunar dómaraembættis í hæstarétti, eins og frv. gerir ráð fyrir. Er þetta miklu meiri breyting en menn gera sér ef til vill grein fyrir í fljótu bragði, m.a. fyrir þá sök, að eigi eru gerðar aðrar kröfur til dómsmrh., eins og annarra ráðherra, en að hann sé læs og skrifandi, þótt sem betur fer hafi það að jafnaði verið svo, að þetta ráðherraembætti hafi skipað löglærður maður.

Til að skýra betur hlutverk saksóknara vil ég leyfa mér að vísa til 7. gr. frv., 1. mgr., en þar segir svo, með leyfi hæstv. forseta:

„Saksóknari skal hafa gætur á afbrotum, sem framin eru. Hann kveður á um rannsókn opinberra mála og hefur yfirstjórn hennar og eftirlit. Getur hann gefið lögreglumönnum fyrirmæli og leiðbeiningar um framkvæmd rannsóknar og verið við hana staddur eða látið fulltrúa sinn vera það. Hann höfðar opinber mál, sbr. þó 112.–114. gr., tekur ákvörðun um áfrýjun þeirra og gegnir að öðru leyti þeim störfum, sem honum eru falin í lögum.“

Af þessu ákvæði er m.a. ljóst, að óbreytt standa ákvæði laga um meðferð opinberra mála, 112.–114. gr., þess efnis, að dómara sé heimilt að afgreiða mál sjálfur án ákæru eða geti höfðað það af sjálfsdáðum, ef um minni háttar brot er að tefla eða sökunautur hefur skýlaust játað á sig brotið.

Í 7. gr. frv. segir enn fremur, í 3. mgr., að haldast skuli sérákvæði í lögum, þar sem svo er mælt, að dómsmrh. kveði á um rannsókn, höfðun og áfrýjun opinberra mála. Þegar svo stendur á, gefur dómsmrh. saksóknara fyrirmæli um rannsókn og aðrar framkvæmdir og leggur samþykki sitt á ákæruskjal og áfrýjunarstefnu. Þau tilfelli, þar sem dómsmrh. mundi halda áfram að fara með ákæruvaldið, er einkum að finna í hegningarlögunum, en samkvæmt þeim hefur dómsmrh. á hendi ákæruvaldið, ef um landráð eða brot gegn stjórnskipun ríkisins er að ræða. Enn fremur heyrir undir dómsmrh. skv. hegningarlögunum heimild til að fella niður saksókn og fresta ákæru. Kæmi mjög til álita að breyta þessu síðargreinda ákvæði hegningarlaganna að samþykktu þessu frv., sem hér er til umr., og fela þetta vald í hendur saksóknara. Verða menn að hafa í huga, að þetta frv, er aðeins einn áfangi af mörgum á fyrirhugaðri braut, er stefnir að bættri réttarskipan.

Menn hafa helzt fundið það þessu frv. til foráttu, að samþykkt þess mundi leiða af sér mjög aukin útgjöld ríkissjóðs. Ég held þó, að allt of mikið sé gert úr þessari mótbáru. Að sjálfsögðu leiðir af þessu talsvert aukinn kostnað. En menn verða að gera sér grein fyrir því, að jafnvel án samþykktar þessa frv. kynni að vera þörf á að fjölga starfsliði, þannig að kostnaðaraukinn væri að nokkru leyti óhjákvæmilegur. En á móti kemur hér líka ýmiss konar sparnaður, sem mundi leiða af samþykkt þessa frv., og þegar öllu er á botninn hvolft, álít ég, að hreinn kostnaðarauki yrði sáralítill. Fjölgun sakadómaranna mun væntanlega ekki leiða af sér fjölgun starfsmanna hjá því embætti. Breytingin verður sú, að dómarafulltrúarnir verða sakadómarar. Á hinn bóginn gæti þessi skipan útrýmt því fyrirkomulagi að mestu að skipa sérstaka setudómara til þess að fara með einstök meiri háttar opinber mál, en af því hefur oft leitt allmikinn kostnað, sem nú verður unnt að spara. Að sjálfsögðu þarf væntanlegur saksóknari á fulltrúum og starfsliði að halda. Sumt af því fólki yrði þó ekki nýir ríkisstarfsmenn, heldur flyttust aðeins úr dómsmrn. til saksóknara.

Í þessu sambandi er rétt að benda á ákvæði 42. gr. frv., þar sem segir, að „saksóknari sæki öll opinber mál í hæstarétti án sérstaks endurgjalds“, og enn fremur 21. gr. frv., þar sem segir, að „saksóknara eða fulltrúa hans sé rétt að sækja mál fyrir héraðsdómi“. Fram að þessu hefur þetta verið þannig, að sækjendur hafa eingöngu verið skipaðir málflutningsmenn, sem hafa að sjálfsögðu tekið sína þóknun fyrir, en þarna mundu þau útgjöld sparast að mjög miklu leyti. Þá má enn fremur benda á 33. gr. frv., sem segir, að „saksóknari sækir mál í héraði og fyrir hæstarétti, svo og fulltrúi hans í héraði, án sérstaks endurgjalds, en verði ákærða í slíku máli dæmt að greiða sakarkostnað, skal honum gert að greiða tiltekna fjárhæð málssóknarlauna, er renna í ríkissjóð“. Ég held því, að þó að óhjákvæmilega leiði af þessu nokkurn kostnað, þá komi þarna ýmiss konar sparnaður á móti, þannig að mismunurinn verði ekki svo ýkjamikill. En með samþykkt þessa frv. mundi réttaröryggi í landinu verða aukið og ýtt undir greiðari afgreiðslu dómsmála.

Allshn. hefur athugað þetta frv., og hafa fjórir af fimm nm. mælt með því, að það verði samþykkt, einn þeirra þó með fyrirvara um það að flytja eða styðja brtt., ef fram kynnu að koma við frumvarpið.