23.03.1961
Efri deild: 80. fundur, 81. löggjafarþing.
Sjá dálk 1057 í B-deild Alþingistíðinda. (1026)

209. mál, meðferð opinberra mála

Dómsmrh. (Bjarni Benediktsson):

Herra forseti. Ég gat því miður ekki verið staddur við 1. umr. málsins hér í þessari hv. deild, en þarf ekki mikið um málið að segja eftir þær ýtarlegu ræður, sem þegar hafa verið um það haldnar og ég í öllum höfuðatriðum er sammála.

Það er rétt, að þetta frv. er nokkuð seint fram borið á þessu þingi. En ég taldi engu að síður rétt að reyna að fá það samþykkt nú, vegna þess að málið hafði verið svo oft fyrir Alþ. áður. Þetta mun vera í áttunda skipti, sem því er hreyft í einni eða annarri mynd, og er þess vegna gerkunnugt þm. og í raun og veru hreint ákvörðunaratriði, hvort þeir vilja fallast á meginbreytingu frv. eða ekki, sem er skipun saksóknara. En einmitt vegna þess, að ég vildi, að málið lægi sem einfaldast fyrir, varð að ráði að taka ekki inn í þetta frv. aðrar breytingar á l. um meðferð opinberra mála heldur en þær tvær, sem eru efni þessa frv., þ.e.a.s. skipun saksóknara og lögfesting dómarafulltrúa hjá sakadómara hér í Reykjavik sem eiginlegra sakadómara, eins og þeir hafa verið í raun, þó að þá hafi skort þá lagastöðu, sem þeim eðli málsins samkvæmt ber.

Það kom fyllilega til athugunar, að fleiri ákvæði yrðu sett inn í frv. um þau atriði, sem reynsla er komin á, að lögin um meðferð opinberra mála eru ekki að öllu leyti heppileg, en með því var talið, að málið yrði of flókið og of mörg atriði inn í það dregin, til þess að hægt væri að búast við því, að málið fengi afgreiðslu á þessu þingi. En segja má auðvitað, að það hafi ekki skipt öllu máli, hvort þessi breyt. væri samþ. nú eða í haust. En þegar komið var í ljós, að þinglegur meiri hl. var fyrir málinu og það gerkunnugt, þá sýndist engin ástæða til þess að fresta staðfestingu þess. Hingað til hefur slíkur meiri hl. aldrei verið fyrir hendi, þegar því hefur verið hreyft.

Ég gat þess í Nd., að ég teldi þetta frv. einungis upphaf á frekari breytingum á réttarfarinu. Ég tók berum orðum fram, að af þessari breytingu leiðir beint, að fjölga verður borgardómurum hér með svipuðum hætti og sakadómurum er fjölgað og athuga þarf um fleiri embætti, hvort sömu rök komi þar til. Um þetta munu verða flutt frumvörp í haust, eftir því sem atvik standa til.

Þá fellst ég mjög á það, sem hv. síðasti ræðumaður sagði, að ég tel í raun og veru enn þá brýnni breyt. á l. um meðferð opinberra mála vera þá, að sundur verði skilið starf rannsóknardómara og þess dómara, sem að lokum á að dæma um sök eða sýknu. En það er ljóst, að sú breyt. krefst mjög mikils undirbúnings og alveg nýrrar dómaskipunar í héraði um allt land. Eins og ég sagði í hv. Nd., get ég ekki sagt, hvort undirbúningur þess máls tekur mánuði eða ár. Það er ljóst, að það er mikið verk og mjög vandasamt verk að koma þeirri skipan á og þess vegna ekki fært að láta þessa breytingu bíða, úr því að samkomulag meiri hluta þm. er orðið fyrir því, að eðlilegt sé að lögfesta hana.

Hið eina, sem míg greinir efnislega á við hv. siðasta ræðumann, er út af þeirri brtt., sem hann hefur flutt. Ég get út af fyrir sig fallizt á, að eðlilegt sé, að vandað sé til vals saksóknara. Það er alveg ljóst, að það er mjög vandasamt að velja mann í það starf, en svo er auðvitað einnig um mörg önnur störf, sem ráðherra skipar eða gerir tillögur um skipun í til forseta, en eigi er þó leitað til annarra aðila eða hæstaréttar sérstaklega um umsögn þeirra. Og ég efast um, hversu heppilegt það sé að blanda hæstarétti, sem er dómsstofnun, en ekki framkvæmdavalds, inn í framkvæmdavaldsákvörðun, eins og það er og hlýtur að verða að skipa mann í stöðu. Það er mjög athyglisvert, að jafnvel varðandi skipun á hæstaréttardómurum sjálfum hefur hæstiréttur ekki slíkt synjunarvald á dómaraefnum eins og hér er lagt til að honum sé fengið. Hæstiréttur hafði áður fyrr eins konar synjunarvald í þessum efnum. Dómaraefni urðu að ganga undir eins konar próf. Það var mikið deilumál á sínum tíma, hvort þeim ákvæðum skyldi haldið, en úr varð, að 1935 var leitt í lög, að það skyldi einungis leitað umsagnar hæstaréttar um ný dómaraefni, og umsögnin var ekki bindandi fyrir ráðh. á þann veg, sem hér er ráðgert. Úr því að ekki hefur verið talin ástæða til þess að láta réttinn hafa þetta vald um skipun nýrra manna í hann sjálfan, er auðvitað mjög óeðlilegt, að honum sé fengið þetta vald varðandi skipun embættismanns alveg utan við sjálfan dómstólinn. Það er rétt, að staða saksóknara er ákaflega þýðingarmikil, vafalaust með þeim þýðingarmeiri í þjóðfélaginu. En svipað má segja um sakadómara í Reykjavík, borgardómara, lögmann, óteljandi aðra embættismenn, sem ráðh. er óbundinn um skipun á, og því ekki frekar ástæða til sérstakra aðgerða í þessu efni heldur en um þá embættismenn, sem ég hef nú talið.

Ég sé svo ekki ástæðu til að fjölyrða frekar um það efni. Ég vil einungis geta þess, að góður lögfræðingur nefndi það við mig í gær, að hann kynni ekki alveg við heitið yfirsakadómari. Hann gat þó ekki bent á annað, en hreyfði því, hvort það væri heppilegra að kalla þennan oddvita sakadómara dómstjóra sakadóms eða sakadómstjóra. Ég er ekki sjálfur viss um, hvort betur lætur í eyrum eða er réttara. Yfirdómari er gamalt íslenzkt heiti, að vísu í nokkuð annarri merkingu. En þetta er smekksatriði og getur legið til athugunar til 3. umr., ef einhver vill frekar um það hugsa.