10.03.1961
Efri deild: 70. fundur, 81. löggjafarþing.
Sjá dálk 1098 í B-deild Alþingistíðinda. (1066)

124. mál, ríkisábyrgðir

Bjartmar Guðmundsson:

Herra forseti. Ég tel rétt, vegna þess að það vildi þannig til, að ég var í þeirri nefnd á sambandsfundi íslenzkra sveitarfélaga, sem afgreiddi ályktun um þetta mál, að gefa stutta skýringu á því, hvað fyrir þeirri nefnd vakti, þar sem hún taldi, að ekki væri eðlilegt að taka mikil áhættugjöld af sveitarfélögum vegna ríkisábyrgða. 4. gr. í frv. var raunar eina gr., sem var mikið rædd í þessari nefnd, og nefndin var öli sammála um, að það að taka áhættugjald árlega af ríkisábyrgðum væri þungur skattur fyrir þau sveitarfélög, sem hefðu miklar skuldir. En 4. gr., eins og hún var þá og er enn, hljóðar á þessa leið, að því er þetta snertir: „Taki ríkissjóður á sig sjálfskuldarábyrgð, sbr. 2. gr., skal á sama hátt greiða 1%, um leið og ábyrgð er veitt, en auk þess 1/2 % á ári af ábyrgðarskuldinni“ o.s.frv. Það var þetta 1/2 %, sem sú nefnd setti sérstaklega fyrir sig, er um þetta fjallaði. Það var þetta 1/2 %, sem olli því, að þessi ályktun var gerð. Nú hefur meiri hl. fjhn. tekið ósk eða tilmæli sveitarstjórnarmannafundarins þannig til greina, að i stað 1% í upphafi komi 11/2%, en niður falli þetta 1/2 % árlega. Ég tel, að meiri hl. n. hafi að mestu leyti farið eftir ósk sveitarstjórnarmannafundarins að þessu leyti. Hann hefur að vísu bætt við till. ákvæði um það, að upphaflega gjaldið verði 11/2 %, en hálfa prósentið árlega falli niður. Þessa skýringu vildi ég gefa vegna orða hv. 1. þm. Norðurl. e. um það, að meiri hl. nefndarinnar hefði ekki tekið till. eða ósk frá sveitarstjórnarmannafundinum til greina.

Ég segi náttúrlega ekkert um það hér, hvernig þessi fundur hefði litið á þessa till., eins og hún er nú skv. brtt. En ég hygg þó, að hann hefði ekki gert eins mikið atriði úr þessu hálfa prósenti í upphafi eins og hálfu prósenti árlega, á meðan ábyrgðin stendur. Og að öðru leyti varð ég ekki var í þeirri nefnd, sem um þetta fjallaði, annars en hún teldi sjálfsagt, að eitthvert áhættugjald væri tekið í upphafi vegna þeirrar áhættu, sem alltaf kemur til með að hvíla á ríkissjóði vegna ábyrgða. En hins vegar kom það fram í nefndinni og einnig á sveitarstjórnarmannafundinum, að ábyrgðaráhætta ríkissjóðs væri minni nú en verið hefði, vegna þess að hann hefði nú ýmsar leiðir til að ná því inn aftur, sem á hann kynni að falla, t.d. í gegnum jöfnunarsjóðslögin.

Ég tel, að meiri hl. fjhn. hafi tekið till. og ósk sveitarstjórnarmannafundarins til greina að mestu leyti, og ég vil lýsa ánægju mínni yfir því. Tek ég það fram, að það vorum við, ég og hæstv. forseti hér, sem einmitt óskuðum eftir því við n., að þessi till. kæmi ekki til atkv. við 2. umr., eins og ætlað var, og þess vegna hefur hún nú komið til umr. hér við 3. umr., einmitt vegna afskipta sveitarstjórnarmannafundarins.