21.03.1961
Neðri deild: 79. fundur, 81. löggjafarþing.
Sjá dálk 1131 í B-deild Alþingistíðinda. (1078)

124. mál, ríkisábyrgðir

Gísli Jónsson:

Herra forseti. Í 4. gr. frv. á þskj. 470 er svo fyrir mælt, að greiða skuli 1% til ríkisins af ábyrgðarupphæð, þegar um er að ræða einfalda ábyrgð ríkissjóðs, en 11/2%, ef um sjálfskuldarábyrgð er að ræða. Samkvæmt greininni er ekkert ákvæði um það, hvort þetta skuli renna beint í ríkissjóðinn eða haldið sér. Ég vil því leyfa mér að bera fram við þessa umr. skriflega brtt., svo hljóðandi:

„Við 4. gr. Aftan við greinina bætist ný málsgr., svo hljóðandi: Áhættugjald það, sem greitt verður skv. 1. og 2. málsgr. þessarar gr., skal geymt á sérstökum reikningi. Má einungis nota þetta fé, eftír því sem til vinnst, til þess að greiða ábyrgðarkröfur, sem á ríkissjóð kunna að falla, svo og kostnað við framkvæmd laga þessara. Nú endurgreiðist skuld, sem greidd hefur verið af framangreindum reikningi, og skal þá hið endurgreidda fé lagt á reikninginn.“

Ég hef ekki rætt þessa till. við hv. fjhn. Hins vegar hef ég rætt það við hæstv. ráðh., og hefur hann tjáð mér, að hann mundi fallast á, að þessu yrði bætt við greinina. Ég læt það að sjálfsögðu í vald hæstv. forseta, hvort hann vill bera þessa brtt. upp nú við 2. umr. eða hvort hv. frsm. meiri hl., form. n., óskar eftir, að n. hafi hana til athugunar til 3. umr.

Ég skal að öðru leyti ekki ræða mikið um sjálft frv. Það blandast engum hugur um það, að svo langt og óvarlega hefur verið gengið í ábyrgð af ríkissjóði fyrir ýmsum greiðslum, að hér er nauðsyn að spyrna við fótum. Það má deila um einstök atriði, eins og ávallt má deila um, þegar um nýja lagasmíð er að ræða. En að sjálfsögðu mun lífið kenna hv. alþm. að breyta þessu síðar, ef þörf gerist. Hitt finnst mér vera mesta nauðsynin, að frv. nái fram að ganga til þess að spyrna fótum við ýmsu í sambandi við veitingu á ríkisábyrgðum. Ég skal í sambandi við þetta leyfa mér að benda á, að ég þekki það frá minni þingsögu, að stundum hafa flokkarnir komið sér saman um það að styðja að ríkisábyrgð, þegar þing kæmi næst saman, til þess að bjarga ákveðnum málum, sem sýnir, að nauðsyn hefur verið á þessu á hverjum tíma, en að sjálfsögðu ætti að forðast slíka meðferð fjármála fyrir ríkissjóð að svo miklu leyti sem mögulegt er.

Hv. 4. þm. Austf. sagði hér áðan, að þessi lög, ef samþykkt yrðu, mundu torvelda nýjar nauðsynlegar framkvæmdir. Ég er honum ekki alveg sammála um það atriði, og skal ég í því sambandi leyfa mér að benda á, að mér skilst, að við afgreiðslu fjárlaga siðast hafi m.a. þurft að taka svo mikið tillit til afborgana og vaxta af lánum til ákveðinnar hafnar, sem höfnin gat ekki staðið undir sjálf, að það gleypti mikinn hluta af því framlagi, sem átti að fara til hafnanna í landinu. Ef þeirri stefnu er haldið áfram, þá er það sýnilegt, að fjárveitingarnar eru teknar úr höndum fjvn. og Alþingis og færðar yfir á þá menn, sem langmest og bezt geta skapað sér ábyrgðir á milli þinga fyrir ákveðnum framkvæmdum, sem þeir ætla sér kannske aldrei að greiða, svo að ég tel einmitt, að það .sé nauðsynlegt að setja hér skorður við til þess að tryggja nauðsynlegar nýjar framkvæmdir í landinu.

Út af því, sem sagt var hér um þær upphæðir, upp undir 180 millj., sem greiddar hafa verið fyrir vanskil þeirra, sem ábyrgðirnar hafa verið veittar fyrir, þá hefði verið fróðlegt að fá að heyra frá hv. frsm. meiri hl., hvað mikið af þessum upphæðum er fyrir ríkisstofnanir, því að í þann tíma, sem ég var formaður fjvn., var venjulega stærsti hlutinn af því, sem greiða þurfti fyrir ábyrgðir, einmitt fyrir vangreiðslu þeirra ríkisstofnana, sem ríkissjóður hafði staðið í ábyrgðum fyrir, svo sem eins og síldarverksmiðjur og aðrar fleiri. Það hefði verið fróðlegt að fá upplýst, hvað hér væri um mikið fé að ræða. Ég hygg, að þær ábyrgðir, sem valdið hafa mestum erfiðleikum hér, séu ábyrgðirnar, sem veittar voru í sambandi við togarakaupin 1949. Þá var ákveðið í fyrstu, að ríkissjóður skyldi ganga í ábyrgð fyrir 70% af byggingarkostnaði skipanna, og tók hann til þess lán hjá Barclay's Bank. Áður en skipin voru tilbúin, varð gengisfelling, eins og kunnugt er, í landinu, og skipin urðu því miklu dýrari í íslenzkum krónum en gert var ráð fyrir, og af þeim ástæðum kippti að sér hendinni mestur hluti þeirra manna, sem höfðu pantað skipin. Það lá því ekki fyrir annað en auka þessa ábyrgð eða flytja skipin aldrei heim, og það varð því að ráði meðal ríkisstj. og Alþingis, að ábyrgðin yrði færð upp í 90% fyrir kaupendurna, sem mætti að sjálfsögðu allmikilli gagnrýni, en var gert fyrir þessa sérstöku aðstöðu, því þegar rætt var á sínum tíma hér, hvað hátt skyldi farið í ábyrgðir, bæði fyrir einstaklinga og sveitarfélög, mælti ég m.a. mjög mikið gegn því, að farið væri upp í 85–90% fyrir nokkur þau fyrirtæki, sem rekin eru með mikilli áhættu, enda hefur komið á daginn, að það hefur valdið mjög miklum erfiðleikum. Nú er það svo, að þessi skip, sem komu hér til landsins á árunum 1950–51, voru rekin með sæmilegum hagnaði. En í öll þessi 11 ár, sem liðin eru síðan, hefur viðkomandi hæstv. fjmrh. ekki treyst sér til þess að innheimta afborganir af þessum lánum. Það er áreiðanlegt, að það hefði verið hægt að gera það á fyrstu árum útgerðarinnar, og þar af leiðandi hefðu þessar ábyrgðir ekki þurft að valda þeim erfiðleikum, sem þær valda í dag. Þar á Sjálfstfl. enga sök á. Hann átti ekki fjmrh. í sæti á þeim árum.

Ég skal ekki efnislega ræða frv. meir. Ég vil aðeins taka fram, að það er föst regla hjá þeim ríkjum, sem taka ábyrgð á lánum í sambandi við exportcredit, sem eru m.a. öll ríki í Evrópu, að greitt sé a.m.k. 1–2% fyrir slíka ábyrgð, en það er sama sem hér er ætlazt til að greitt verði. Sums staðar er gengið svo langt, að greitt er 1% fyrir hvert ár, á meðan á ábyrgðinni stendur. Hér er ekki ætlazt til þess, skilst mér, að það sé gert nema í eitt skipti fyrir öll, svo að mér finnst það ákvæði, sem hér er tekið upp, réttmætt, og kann það að hemla eitthvað þá ásókn í ríkisábyrgðir, sem menn sækjast svo fast eftir og hafa gengið langt fram yfir það, sem æskilegt er.