21.03.1961
Neðri deild: 79. fundur, 81. löggjafarþing.
Sjá dálk 1133 í B-deild Alþingistíðinda. (1080)

124. mál, ríkisábyrgðir

Fram 2. minni hl. (Skúli Guðmundsson):

Aðeins örstutta athugasemd vil ég gera út af einu, sem fram kom í ræðu hv. 1. þm. Vestf. áðan. Hann nefndi hér greiðslufrest á afborgunum lána, sem hefur verið veittur togaraeigendum fyrr á árum, skaut því þar fram í leiðinni, að ekki bæri hans flokkur neina ábyrgð á þessu, því að hann hefði ekki haft fjmrh. þá. Ég man eftir því, að það hafa nokkrum sinnum komið fyrir þingið slík mál, það hafi verið leitað eftir heimild þingsins til þess, að veittur væri greiðslufrestur á afborgunum lána hjá útgerðarfyrirtækjum, og það mun einnig rétt munað hjá mér, að oft hefur þá flokkur hv. 1. þm. Vestf. haft sjútvmrh., sem að sjálfsögðu þá stöðu sinnar vegna hefur jafnvel fremur en aðrir í stjórninni beitt sér fyrir þessu til þess að koma útgerðarfyrirtækjum yfir erfiðleika, sem þau áttu við að stríða. Ég hygg því, að allir flokkar þingsins eigi þátt í þessu og geti enginn mælt sig undan því að hafa komið þar við sögu. Sama máli gegnir um ríkisábyrgðirnar, eins og ég hef áður getið um. Það hefur yfirleitt ekki verið ágreiningur um þau mál milli flokka á Alþ.