02.02.1961
Neðri deild: 54. fundur, 81. löggjafarþing.
Sjá dálk 1142 í B-deild Alþingistíðinda. (1090)

180. mál, Seðlabanki Íslands

Eysteinn Jónsson:

Herra forseti. Ég vil segja aðeins fáein orð um þetta mál nú við 1. umr.

hæstv. ráðh., sem hér talaði fyrir málinu, gaf þá yfirlýsingu, að tíðar breytingar á bankalögunum væru ekki heppilegar. Þetta er nokkuð athyglisverð yfirlýsing og þá m.a. þegar þess er gætt, að einmitt þessi hæstv. ráðh., sem lét í ljós þessa skoðun, átti þátt í því fyrir örfáum árum að breyta bankalöggjöf landsins — löggjöf um alla ríkisbankana — og færa löggjöfina í það horf, sem hún er nú. En nú, aðeins örfáum árum síðar, af því að þessi ráðh. hefur skipt um samstarfsflokk, á hann meginþátt í því að umturna allri þessari löggjöf, sem hann sjálfur átti meginþátt í að setja fyrir aðeins örfáum árum. Það er því tæpast hægt að segja, að það sé mikið samræmi í því, sem þessi hæstv. ráðh. segir, þeim stefnuyfirlýsingum, sem hann flytur um þetta atriði, og því, sem hann gerir.

Þessi löggjöf eða þetta frv., sem hér liggur fyrir og hæstv. ráðh. segir að hæstv. ríkisstj. hafi unnið mjög lengi að með mörgum sérfræðingum, er þó sannarlega lítið annað en stórkostlegar umbúðir utan um örfá meginatriði, því að meginatriðin, sem þetta frv. hefur að færa umfram það, sem nú þegar er í lögum, eru að setja upp nýja bankastjórastöðu í Seðlabankanum og fjölga mönnum í yfirstjórn bankans í heild úr 5 og í 8. Nú eru í yfirstjórn Seðlabankans 5 menn, sem heita stjórn hans, þar af eru tveir raunverulegir bankastjórar eða framkvæmdastjórar og þrír meðstjórnendur. Samkvæmt þessari löggjöf eiga hér um að fjalla 8 manns í staðinn fyrir 5. Það koma sem sé ný 3 sæti til ráðstöfunar fyrir stjórnarflokkana, ein bankastjórastaða og tvö bankaráðssæti, umfram þann mannfjölda, sem þarna er nú fyrir. Og þetta er aðalatriði frv. Um þennan kjarna er öllum þessum líka litlu umbúðum ofið, og hæstv. ráðh. kemur hér og flytur eins konar hátíðaræðu í bankamálum um það, hvað ríkisstj. hafi kafað djúpt og lagt sig mikið fram um að fá nú reglulega gott og varanlegt og æskilegt skipulag á Seðlabankann og allt bankakerfið í staðinn fyrir það, sem þessi sami hæstv. ráðh. átti meginþátt í að setja fyrir 3 árum. Þetta hafi verið mjög vandasamt verk og sé vísindalega unnið og þarna liggi það nú fyrir. En þegar nánar er að gáð, þá er efni málsins, að örfáum öðrum atriðum undanskildum, sem ég skal koma að síðar, þá er efni málsins þetta: að fá 3 ný embætti til að geta ráðstafað, að ógleymdu því, að setja á upp bankaeftirlitsstarf, sjálfsagt með talsverðu starfsliði, og þar koma líka nokkrir nýir stólar, sem hægt verður að ráðstafa. Það er aukaliður í þessu, sem hæstv. ráðh. vill kalla nýtt kerfi.

Það er látið í veðri vaka, að nú sé fyrst með þessu frv. verið að setja upp sérstakan seðlabanka. En þetta eru nú vægast sagt nokkuð mikil látalæti, þegar skoðuð er löggjöfin frá 1957, enda eru hreinar og beinar yfirlýsingar um það í grg. þessa frv. sjálfs frá hæstv. ríkisstj., að raunverulega hafi orðið fullur aðskilnaður á seðlabankanum og viðskiptabanka Landsbankans með löggjöfinni frá 1957. Starfsemi þeirra sé, — það stendur skýrum stöfum í grg., — raunverulega aðskilin og svo kirfilega aðskilin, eftir því sem hæstv. ráðh. lýsti hér sjálfur yfir áðan í ræðu sinni, að það sé ekki hægt að skilja hana meira í sundur, jafnvel þó að þessi nýja löggjöf verði sett, því að það var eitt höfuðatriðið í máli hæstv. ráðh., að hér yrði enginn nýr kostnaður, því að það væri nú þegar búið að skilja starf þessara tveggja banka svo rækilega í sundur, að það yrði ekki frekar gert, jafnvel þó að þessi nýja löggjöf yrði sett. Við þurfum því ekkert um það að þræta, að raunverulegur aðskilnaður átti sér stað á seðlabanka og viðskiptabanka 1957. Þá var settur upp sérstakur seðlabanki, og það er að því leyti til formið eitt, sem verið er að breyta með þessum ákvæðum í frv., sem lúta að því að breyta nöfnum og öðru slíku.

Þá var hæstv. ráðh. eitthvað að tala um, að með þessu frv. væri verið að stofna sjálfstæðan seðlabanka. Ég veit ekki, hvort í þessu sambandi á að gera mun á sérstökum og svo aftur sjálfstæðum seðlabanka. En þó fannst mér eins og þetta ætti að boða, að með þessu frv. væri seðlabankinn gerður eitthvað sjálfstæðari en hann hefði verið, og að því leyti til væri um nýmæli að ræða í þessari löggjöf, sem svo vandlega hefði verið undirbúin af mörgum sérfræðingum og á vísindalegum grunni nærri því. En ef við íhugum frv. að þessu leyti, sjáum við, að þetta fær ekki með nokkru móti staðizt.

Það eru í frv. miklar bollaleggingar fram og aftur og vangaveltur um, hvaða mál Seðlabankinn skuli fjalla um eða stjórn hans og að hve miklu leyti Seðlabankinn skuli ráða í einstökum þáttum peningamálanna og hver skuli vera af. staða ríkisstj. En niðurstaðan af öllum þessum vangaveltum og bollaleggingum í frv. og grg. er sú, að ef ágreiningur sé, þá skuli ríkisstj. ráða. Það er ekkert um það að villast samkvæmt þessu frv., sem hér liggur fyrir, að þá á ríkisstj. að ráða stefnu bankans og öllum meginframkvæmdum.

Ég skal lýsa því yfir, að ég hef ævinlega verið þeirrar skoðunar og er enn, að öðruvísi geti þetta ekki verið og eigi ekki að vera. Ég hef ætíð verið þeirrar skoðunar, að hvort sem það verður til góðs eða ills, og þá eftir því, hvort stjórnin verður til ills eða góðs, þá verði menn að horfast í augu við það, að ríkisstj. landsins verði að ráða stefnunni og framkvæmdinni í peningamálunum og ef seðlabanka og ríkisstj. greinir á, þá verði ríkisstj. að ráða.

Hér er því alls ekki, eins og hæstv. ráðh. tók fram, verið að stofna sjálfstæðari seðlabanka en áður hefur verið. Það er, að því er mér virðist, bara verið að reyna að láta líta svo út sem hér sé verið með eitthvað stórkostlegt nýmæli, þegar tilefnið er, að því er mér sýnist, hreinlega ekkert annað en að fjölga þarna toppmönnum í bankanum, ef svo mætti að orði kveða.

Nú mundi ríkisstj. kannske segja, að ákvæðin um, að hún skuli ráða, séu skýrari í þessu frv. en í þeirri bankalöggjöf, sem fyrir er, og máske er það það, sem þeir, sem fyrir þessu standa, hugsa inni á sér, að þarna séu gleggri ákvæði og sterkari um það, að ríkisstj. skuli ráða, en í núverandi seðlabankalöggjöf. Ég skal ekki þræta neitt um þetta eða fara út í langan samanburð á þessu. En ég vil bara benda á þá staðreynd, sem fyrir liggur, að Seðlabankanum hefur verið stjórnað úr stjórnarráðinu hreinlega nú í nokkur missiri, a.m.k. síðan farið var að framkvæma hina svokölluðu efnahagsmálaviðreisn. Stjórn Seðlabankans hefur hreinlega verið flutt upp í stjórnarráð, og ríkisstj. hefur þar öllu ráðið og gefið fyrirskipanir um það, hvað gera skyldi. Þannig hefur þetta verið, og þannig hefur þetta verið unnið með þeirri löggjöf, sem fyrir var, þannig að einhverjar orðalagsbreytingar á þessum atriðum geta alls ekki verið undirstaða þess, að það eigi að setja nýja seðlabankalöggjöf. Þar kemur allt annað til. Það er valdabrölt núv. stjórnarflokka varðandi stöður í bönkunum. Það er einn liður í því að raða mönnum á taflborð bankakerfisins. Það er það, sem verið er að gera með þessu, og svo að fá fleiri embætti í leiðinni, en ekki hitt, að hér sé verið með einhverjar mjög knýjandi endurbætur á sjálfu kerfinu, eins og hæstv. viðskmrh. lét liggja að í þeirri hátíðaræðu, sem hann flutti hér áðan.

Seðlabankinn hefur verið dyggilega notaður af ríkisstj. sem áhald til þess að koma á þeim samdrætti í þjóðarbúskapnum, sem orðinn er, og framkvæma þá kreppustefnu, sem hæstv. ríkisstj. hefur tekið upp. Og það er auðvitað alveg augljóst mál, að þeirri stefnu hefði hæstv. ríkisstj. alls ekki getað komið í framkvæmd nema ráða yfir Seðlabankanum. En ég endurtek í því sambandi það, sem ég sagði áðan, að það verður að vera þannig, hvort sem það er til ills eða góðs, að ríkisstj. geti ráðið meginstefnunni í peningamálunum. Það er ekki hægt að byggja upp efnahagskerfi þannig, að einhver aðili, eins og t.d. seðlabanki, geti sett ríkisstj. stólinn fyrir dyrnar. Þjóðin verður að þola þá ríkisstj., sem hún hefur yfir sig fengið, ef hún er ill, eða njóta hennar, ef hún er góð, og það er ekki hægt að búast við því, að hægt sé að setja upp einhverja stofnun eins og seðlabanka til þess að hafa vit fyrir stjórninni.

Annað mál er það, að seðlabanki verður auðvitað að vera til samt. Hann er nauðsynlegt tæki í efnahagskerfinu, og hlusta ber á það, hvað þeir menn hafa að segja, sem þar veljast til forustunnar.

Ég sé, að það er ætlunin með þessari löggjöf að festa inn í sjálf seðlabankalögin það ofsóknarákvæði, sem sett var í efnahagslöggjöfina gagnvart samvinnufélögunum, sem sagt, að það skuli heimilt að krefjast þess, að hluti af þeim innstæðum, sem lagðar eru í innlánsdeildir, skuli færður inn í Seðlabankann eða skilað inn í Seðlabankann, hliðstætt og sparisjóðum og viðskiptabönkum er ætlað að gera. Ég segi: ofsóknarákvæði, vegna þess að þetta er vitanlega ekkert annað. Við þurfum ekki annað en taka einfalt dæmi til þess að skýra það mál. Það fé, sem fólk leggur í innlánsdeildir samvinnufélaganna, er samkvæmt samvinnulögunum lagt þar inn til þess að verða rekstrarfé þeirra. Þannig er þetta upp byggt. Nú á Seðlabankinn að geta heimtað, að hluti af því, sem menn leggja í innlánsdeildina sem rekstrarfé fyrir kaupfélagið, skuli sent suður í Seðlabankann. Segjum, að einhver maður hafi 5 þús. kr., sem hann vilji leggja þarna inn, og ákveðið sé, að helmingurinn sé bundinn, eins og var s.l. ár, þá verður að gera svo vel að senda 2500 kr. af því suður í Seðlabanka, ef það kemur inn í innlánsdeildina. En svo skulum við hugsa okkur hlutafélag, sem rekið er við hliðina á samvinnufélagi, og einhver maður vilji gera tvennt í senn, ávaxta fé sitt og leggja þessu hlutafélagi um leið rekstrarfé og leggja þar inn líka 5 þús. kr. Þá þarf alls ekki að senda helminginn af því suður í Seðlabankann. Nei. M.ö.o.: þá er refsað fyrir að leggja fjármagn sem rekstrarfé inn í samvinnufélag, en ef menn leggja fjármagn sem rekstrarfé inn í hlutafélag, þá fær það að vera í friði.

Þetta ofsóknarákvæði er nú meiningin að setja inn í sjálfa seðlabankalöggjöfina með þessu frv. Það er ekki nýmæli í löggjöf, því að það er í efnahagsmálalöggjöfinni, en það er meiningin að festa það í seðlabankakerfinu, og síðan er nú bætt við, að það á að vera hægt að krefjast þess einnig, að samvinnufélög kaupi verðbréf eða hafi í verðbréfum allt að 10% af því fé, sem menn hafa lagt þar inn sem rekstrarfé handa félögunum. En eins og fyrri daginn auðvitað, það þarf ekki að taka það fram, þá er ekkert hliðstætt ákvæði varðandi það fjármagn, sem lagt er sem rekstrarfé inn í önnur félög.

Samkvæmt því, sem nú hefur verið sagt, sé ég ekki, að í þessu frv. séu nokkur þau ákvæði, sem séu svo til bóta, að rétt sé að ljá því fylgi. Mestur hluti frv. eru sem sagt umbúðir utan um þennan meginkjarna, sem ég hef þegar lýst, að búa til nýjar stöður og fá meiri pólitísk ítök um leið fyrir stjórnarflokkana.

Ég sé, að í frv. er eitt ákvæði, sem er mjög til bóta frá mínu sjónarmiði, og það er að leggja til vísindasjóðs hluta af gróða Seðlabankans, en um það mætti að sjálfsögðu setja ákvæði sérstaklega með lögum og engin nauðsyn að blanda því inn í þessa lagasetningu. Því atriði er ég algerlega fylgjandi og tel mjög þýðingarmikið að fá meira fé til rannsókna- og vísindastarfsemi, eins og greinilega hefur komið fram af þeirri sókn, sem framsóknarmenn hafa haldið uppi fyrir framlögum í því skyni við afgreiðslu fjárl. Þar hafa verið fluttar ýmsar till., sem gengið hafa í þessa átt, en hafa allar verið felldar, og ég fagna því, að það skuli vera ætlunin að leggja meira fé til þessarar starfsemi, en tel, að um það mætti mjög auðveldlega setja sérstaka löggjöf.