02.02.1961
Neðri deild: 54. fundur, 81. löggjafarþing.
Sjá dálk 1146 í B-deild Alþingistíðinda. (1091)

180. mál, Seðlabanki Íslands

Einar Olgeirsson:

Herra forseti. Hvað svo sem kann að vaka fyrir hæstv. ríkisstj. með þessu frv., þá álít ég, að höfuðatriðið, sem í því er, þegar skjótt er á litið, alger aðskilnaður seðlabanka og viðskiptabanka Landsbanka Íslands, stefni í rétta átt og hefði mátt gerast fyrr og hefði mátt gerast betur.

Eins og eðlilegt er, þegar rædd er bankalöggjöfin, þá eru hér mörg mikilvæg atriði, og ég mun ekki við þessa 1. umr. reyna að ræða öll þeirra, heldur aðeins nokkur af þeim, enda geng ég út frá því, að í hv. fjhn. verði nauðsynlegt að ræða þetta frv. mjög ýtarlega, því að þrátt fyrir það, þótt hæstv. viðskmrh. hafi sagt, að það væri mjög vandlega undirbúið, þá sé ég allmikla galla á því enn þá.

Það, sem er höfuðatriðið í þessu, er aðskilnaður Seðlabankans, að gera hann að algerlega sjálfstæðri stofnun. Þetta hefði þurft að gerast fyrir langa löngu á Íslandi. Það hefur lengi staðið í veginum fyrir því, að heilbrigðar ráðstafanir væru gerðar í bankamálunum, að þetta skuli ekki hafa komizt í gegn fyrr og að till. um það, sem gerðar hafa verið, bæði í nefndum og annars staðar, skuli ekki hafa hlotið samþykki fyrr, og ég vil fyrir mitt leyti fagna því, að það skuli þó að lokum komið svo, að þetta spor verði endanlega stigið. Það var stigið spor í þá áttina með þeim breytingum, sem gerðar voru á tímum vinstri stjórnarinnar, en það spor var ekki stigið nógu hiklaust og djarft á þeim tíma.

Þá er ýmislegt í sambandi við 3. gr., hlutverk Seðlabankans, sem ég hef við að athuga, en ég ætla hins vegar ekki að gera að sérstöku umtalsefni núna. En því miður er það svo, að það hlutverk, sem Seðlabankanum þarna er ætlað, litast allt of mikið af efnahagsstefnu núv. hæstv. ríkisstj. Það er ekki rétt, einmitt ef hæstv. ríkisstj. er að reyna að miða við það að gera endanlega breytingu á seðlabankalöggjöfinni og bankalöggjöfinni í landinu, sem ætti að geta orðið til frambúðar, að láta inn í hlutverk

Seðlabankans koma svona mikið eins og þarna er af þeim tilgangi, sem vakir fyrir henni í sambandi við hennar ráðstafanir í sambandi við gjaldeyrismál og annað slíkt. Og ég mun fyrir mitt leyti gera miklar brtt. við þessa 3. gr., þegar við förum að vinna að þessu í nefnd.

Ég vil líka vekja athygli á því, að það er ekkert sérstaklega skemmtilegt að vera núna að stofna til þess að fara að innleiða einhver kauphallarviðskipti hér á Íslandi. Ég held, að allar þær tálvonir, sem menn eru með um það að koma hér upp einhverjum frjálsum kapítalisma, séu tóm vitleysa. Menn eiga ekki að vera með neinn skrípaleik í þessu sambandi. Menn eiga að reyna að stjórna þjóðfélaginu eins og þessari litlu þjóð vegnar bezt, en ekki að vera að apa það versta eftir útlendum þjóðum, sem þær hafa í sínum fórum, og kauphallirnar eru sannarlega ekki með því fallega, sem þær hafa. Ég mun nú ekki ræða 3. gr. meira.

Viðvíkjandi hins vegar 4. gr., þá álít ég stigið alveg rétt spor. Þetta er atriði, sem lengi hefur verið deilt um og ég fyrir mitt leyti hef haft mjög ákveðnar skoðanir um og bæði Alþb. og Sósfl. áður hefur líka tekið af öll tvímæli um, hver skoðun okkar væri. Það er ríkisstj., sem á að ráða í landinu þeirri stefnu, sem tekin er upp í bankamálum. Það hefur verið óféti, eins og það hefur verið hvað eftir annað hér á Íslandi og sérstaklega róttækar ríkisstj. hafa átt við að etja, að það væri hér rétt hjá okkur einhvers staðar eitthvert skrifstofuvald nokkurra embættismanna, sem eiga ekki einu sinni peningana, sem þeir ráða yfir, sem gætu að einhverju leyti sett Alþingi stólinn fyrir dyrnar, eins og hvað eftir annað hefur gerzt á undanförnum áratugum. Og hvort sem maður heldur nú, að það vald, sem með þessu er fengið alveg ótvírætt einni ríkisstj. í hendur, sé notað vel eða illa, þá er það rétt, að þetta vald sé hjá henni. T.d. Landsbankinn er nógu lengi búinn að vera hér ríki í ríkinu, og það er rétt og það er nauðsynlegt að gera þá breytingu, sem þarna er gerð. Og ég er alveg sammála því, sem tekið er fram í 4. gr., að bankastjórar Seðlabankans hafi sína aðstöðu og hafi um það allmikið persónulegt, efnahagslegt öryggi að geta komið fram með sínar skoðanir, geta aðvarað um það, sem þeir álíta rangt, en þeir eiga ekki að hafa valdið sem embættismenn ríkisins til þess að koma í veg fyrir það, sem þjóðarviljinn, eins og hann kemur fram á Alþingi og í ríkisstj., vill að framkvæmt sé, og það er rétt að þeir víki, þegar upplýst er, að slíkt er um að ræða. Ríkisstj. verður að hafa þetta vald, og hún verður að bera ábyrgð á því, hvernig hún notar þetta vald. Hún á ekki heldur að geta skotið sér á bak við neina bankastjóra eða neina embættismenn í slíkum efnum. Það er þess vegna rétt, að þarna séu tekin af öll tvímæli um þessa afstöðu.

Þá kemur í II kafla frv. að stofnlánadeild sjávarútvegsins. Nú sagði hæstv. ráðh., að það væri meiningin með þessu frv. að koma þessu í það horf, að það gæti orðið til frambúðar, þar eð tíðar breytingar á bankalöggjöfinni væru ekki heppilegar. Og ég vil minna hann á þessi orð hans alveg sérstaklega af því, að hæstv. ríkisstj. hefur nú verið borið það á brýn, að fyrir henni vaki ekki slik frambúðarlausn, heldur sé þetta notað að yfirvarpi til þess að koma öðrum hlutum í gegn. Ég álit þess vegna, að við þessa breyt. á bankalöggjöfinni, sem nú er gerð, eigi að gera þær ótvíræðar breytingar, sem eðlilega mundu hafa verið gerðar á sínum tíma, svo framarlega sem bankalöggjöf Íslands hefði verið með einhverju almennilegu móti. Hvernig er þessi stofnlánadeild sjávarútvegsins orðin til? Hvernig stendur á, að hún hefur verið tengd við Landsbankann? Það þekkja allir hv. þm. þessarar hv. deildar, vona ég, sögu þeirrar stofnunar. Upphaflega var lagt til, að fiskveiðasjóðurinn, sem er við Útvegsbanka Íslands, væri gerður að allmiklu voldugri stofnun. Það var 1945–46, sem það var lagt til, að hann yrði gerður að allmiklu voldugri stofnun með því að verða stofnlánasjóður, eins og honum er ætlað að vera, fyrir sjávarútveginn í ríkara mæli en hann hafði verið fram að þessu, og að honum yrði lagt til allmikið fé í því sambandi. Hvernig stendur á, að þetta var kveðið niður?. Þetta var kveðið niður vegna þess, að þetta var hálfs árs bardagi við Landsbanka Íslands, sem þá var bæði seðlabanki og viðskiptabanki, sem gat ekki hugsað sér það, þó að bankastjórarnir ættu að hugsa sem seðlabankastjórar, að 100 millj. kr., sem átti að flytja í slíka stofnlánadeild, auka fiskveiðasjóð með því, að það færi í annan ríkisbanka, í Útvegsbanka Íslands. Það var þessi afbrýðisemi á milli þessara tveggja ríkisstofnana, sem er til skammar í einu þjóðfélagi. Það var sjálfsagt mál þá, að stofnlánadeildin yrði sett þannig, að fiskveiðasjóður yrði aukinn um þetta og Útvegsbankinn og þessi deild hans yrði því voldugri og gegndi því hlutverki, sem honum var upphaflega ætlað, einmitt að annast sérstaklega viðskipti útvegsins. Hvaða ástæða er nú til þess að halda þessari stofnlánadeild sjávarútvegsins við Seðlabanka Íslands? Það eru engin rök, ekki nokkur rök til, sem mæla með því. Þarna er verið að halda i leifar af gömlu skipulagi, sem varð til af gamalli, vitlausri afbrýðisemi og varð að gera vandræðasamkomulag um, til þess að gott mál yrði ekki eyðilagt á þeim tíma, á vormánuðunum 1946. Ég álít alveg tvímælalaust, að þessa stofnlánadeild eigi að leggja niður og setja allt hennar fé inn í fiskveiðasjóðinn. Það átti að gerast upphaflega, og það er ekki seinna vænna að gera það. Af hverju eigum við að hafa tvær stofnlánadeildir þarna fiskveiðasjóð, sem starfar við Útvegsbanka Íslands, og stofnlánadeild sjávarútvegsins, sem á að starfa við Seðlabankann í landinu? Þetta vil ég biðja hæstv. ríkisstj. og hennar fylgjendur hér í hv. d. og í fjhn. að athuga mjög rækilega, einmitt ef það er meiningin með þessu að reyna að ganga dálítið frá bankamálunum þannig, að það þurfi ekki að hringla í þeim í hvert einasta skipti, sem ný stjórn tekur við á Íslandi.

Svo komum við að III. kaflanum. Þar er haldið gömlu gulltryggingunni. Hér var nú verið að taka fram, að það eigi að útbúa þessa bankalöggjöf í sambandi við nútímasjónarmið. Hvað hefur gull að þýða í sambandi við þessa hluti? Hvaða nútímabankamaður álítur, að gullið ráði úrslitum í þessu sambandi? Meira að segja þeir bankasérfræðingar, sem sendir voru hingað í tíð ríkisstj. Stefáns Jóh. Stefánssonar af Alþjóðabankanum, — ég held, að þeirra álit liggi enn þá í stjórnarráðinu á góðum stað, — þeir lögðu til að afnema úr bankalöggjöfinni öll ákvæði um gulltryggingu. Ég er satt að segja líka með þessu og tók þetta beint upp úr till. þessara amerísku sérfræðinga, þegar ég var að vinna ofur lítið í bankamálanefnd á tímum vinstri stjórnarinnar. Og fyrst hæstv. ríkisstj. nú ætlar að ganga vandlega frá þessum málum, miða þetta við nútímasjónarmið, því er hún þá að draslast með þessa gulltryggingu? Ég segi ekki, að það geti ekki verið gott út af fyrir sig að eiga gull. En ég var oft að spyrja að því, m.a. bankastjóra Landsbankans, þegar maður átti í sem mestu höggi við þá, rétt eftir að nýsköpunartogararnir höfðu verið keyptir og þeim fannst allt vera að fara á hausinn í landinu, með því að þessir togarar höfðu verið keyptir, hvort þeir vildu ekki selja alla togarana fyrir gull og leggja gullið í kjallarann og sjá, hvort þjóðinni vegnaði eitthvað betur. Ég held, að það sé nauðsynlegt, þegar menn ætla að útbúa nýtízkulöggjöf um þetta, að menn losi sig við þessi gullsjónarmið. Það ruglar menn bara í því, hvað er nauðsynlegt fyrir eina þjóð. Við lifum ekki á gulli. Það er ekki gullið, sem skapar nein ný verðmæti fyrir okkur. Það eru framleiðslutækin, sem við getum hagnýtt skynsamlega og vel, sem skapa verðmæti fyrir okkur. Þess vegna á að mínu áliti að endurskoða þetta atriði mjög rækilega.

Viðvíkjandi IV. kaflanum og þeim ákvæðum að fara að setja þarna inn í 10. og 11. gr. atriði, sem voru í efnahagsmálalöggjöf ríkisstj., þá álit ég, að þetta sé ekki rétt. Það á ekki að gera þá hluti í sambandi við seðlabankalöggjöfina, ef menn ætla að reyna að hafa þessa bankalöggjöf til frambúðar, þannig að það þurfi ekki við henni að hreyfa, sem máske hæstv. ríkisstj. hefur álitið nauðsynlegt að gera í sambandi við hennar efnahagsmál. Það er nóg fyrir hana að hafa slik ákvæði f sinni efnahagsmálalöggjöf, ef henni finnast þau góð, en í seðlabankalöggjöfinni eiga þau út af fyrir sig ekki heima. Svo framarlega sem það er meiningin, að það sé reynt að koma á sem beztu samkomulagi um þessa bankalöggjöf, á að taka svona hluti út. Þeir hafa ekkert að þýða þarna. Allt valdið, sem hæstv. ríkisstj. vill hafa til þess að geta beitt gagnvart samvinnufélögum eða öðrum slíkum, hefur hún í annarri löggjöf, en í seðlabankalöggjöfinni á þetta ekki sérstaklega heima.

Þá er ákvæðið í 14. gr., að Seðlabankinn eigi að vera viðskiptabanki ríkissjóðs og annast fyrir hann hvers konar bankaþjónustu. Og þá komum við að einu atriði, sem ég álít mjög þýðingarmikið atriði í sambandi við þessa bankalöggjöf og ég varð mjög rækilega var við, að hæstv. viðskmrh. hljóp mjög rækilega yfir og þagði um, og það er afstaða Framkvæmdabankans í þessu sambandi. Ég er satt að segja alveg hissa á því, að hæstv. ríkisstj. skuli leggja fram frv. um Seðlabanka Íslands og ætlast til þess um leið, að Framkvæmdabankinn haldi áfram að vera til. Ég er hissa á því. Ég álít það gott og rétt að leggja fram frv. um Seðlabanka Íslands og gera þann banka sjálfstæðan, en það er ekki nokkurt vit í því að láta Framkvæmdabanka Íslands halda áfram að vera til, eftir að við erum endanlega búnir að aðskilja þetta. Hvernig stendur á, að Framkvæmdabankinn var skapaður á sínum tíma? Hann var skapaður m.a. í alls konar öngþveiti og vandræðum, sem sú ríkisstj. var þá í, m.a. til þess að hún hefði banka, sem hún hefði tök á, af því að henni fannst ekki að öllu leyti og Ameríkönunum líklega ekki heldur, að þeir hefðu nóg tök á Landsbanka Íslands. Það er sannleikurinn í málinu. Það voru víssir bankastjórar við Landsbankann, sem hugsuðu svo þjóðlega þá, að þeir voru eitthvað óþægir við Alþjóðabankann, og það þótti þess vegna nauðsynlegt að taka visst vald af Landsbankanum og setja það yfir til Framkvæmdabankans, og út úr öllu þessu klúðri var Framkvæmdabankinn skapaður. Hans líf allt hefur verið eitt klúður, ekki bara glerverksmiðjan, heldur yfirleitt tilvera þessa banka. Hann var til orðinn fyrir áhrif erlends valds í landinu, og rekstur hans hefur allur verið í samræmi við það.

Nú átti einmitt Framkvæmdabankinn að vera alveg sérstaklega ríkisstj. til ráðuneytis. Hann átti að vera svo að segja hálfgerður banki ríkisstj. Það var stundum talað um, að Framkvæmdabankinn ætti jafnvel að vera hluti úr fjmrn. Og meginið af því, sem í 7. gr. h um Framkvæmdabankann er ætlað að sé hlutverk bankans, það er verk, sem seðlabanki eðlilega vinnur. Og þegar hér er lögð einmitt áherzla á það, að Seðlabankinn eigi að annast hvers konar bankaþjónustu og vera viðskiptabanki ríkisstj., ríkissjóðs og allt mögulegt annað slíkt, sem hann á að gera, þá er alveg greinilegt, að Framkvæmdabankinn er orðinn eins og hver annar skemmdur botnlangi í þjóðarlíkamanum og ekki sízt í bankakerfinu.

Þetta sama kemur alveg greinilega fram, þegar maður kemur að VI. kafla frv., um hagskýrslugerð. Þar er Seðlabankanum uppálagt að halda áfram að starfrækja hagfræðideild. Nú er vitanlegt, að einmitt ákvæðin um Framkvæmdabankann og þau, sem hafa þó komið að mestu gagni viðvíkjandi þeim banka eða komið helzt að gagni, það eru ákvæði viðvíkjandi hagskýrslunum. En hvernig hefur þetta svo verið? Jú, það hafa verið tveir bankar, annars vegar Landsbankinn og hins vegar Framkvæmdabankinn, þeir hafa báðir starfrækt hagfræðideildir, þeir hafa báðir gefið út tímarit. Eru þetta nú nokkur vinnubrögð: tveir ríkisbankar með tvær hagfræðideildir, tvenn tímarit, í staðinn fyrir að reyna að láta vinna þannig í ríkisbákninu og sérstaklega í bankakerfinu að þessu, að það sé einhvern tíma hægt að fá einhverjar almennilegar skýrslur; sem hægt sé að leggja til grundvallar, þegar verið er að ræða efnahagsmál á Íslandi, sem þessir bankar og þeirra hagfræðideildir aldrei hafa útvegað fram að þessu?

Ég held, að það væri þess vegna alveg óhjákvæmilegt í sambandi við þetta að ganga þannig frá þessari bankalöggjöf, að komið sé upp í sambandi við Seðlabankann, — ég mundi jafnvel vilja kalla það einhverju hátíðlegra nafni en þarna er í fyrirsögninni, hagskýrslugerð eða hagfræðideild, virkilegri stofnun, virkilegum þætti í starfsemi Seðlabankans, sem vinnur þannig að hagskýrslum, að menn þurfa ekki hér að standa eins og hjá allra, allra frumstæðustu þjóðum, eins og við raunverulega höfum staðið, þegar við höfum verið að deila um efnahagsmál.

Þess vegna álít ég, að það sé ein sú höfuðbreyting, sem verði að gera á þessari bankalöggjöf, sem hér liggur fyrir, að það verður annars vegar að gera þessa hagfræðideild í Seðlabankanum að mun mikilvægari og betri stofnun og leggja Framkvæmdabankann niður, og það hlutverk, sem hefur verið gott hlutverk, sem honum hefur verið fengið i hendur, að rannsaka þjóðarhaginn, undirbúa skýrslur um hann, jafnvel að undirbúa áætlanir, sem hann því miður hefur ekki gert, — að Framkvæmdabankinn sé lagður inn í Seðlabankann hvað þetta snertir, og ég verð að segja, að mér finnst það dálítið frekt af einni hæstv. ríkisstj., sem tekur sér fyrir hendur að endurskoða bankakerfi landsins, að ganga ekki svo frá þessum málum, að a.m.k. að forminu til væri þetta þó eitthvað viðunandi.

Má ég nú rifja upp fyrir hv. þingmönnum og hæstv. ríkisstj., hvernig er nú með ríkisbankana hérna? Við höfum þá starfandi, þegar þessi bankalöggjöf væri samþykkt, ef gengið væri frá henni svona, Seðlabanka Íslands, ríkisbanka með bankaráði og bankastjórum, Landsbanka Íslands, ríkisbanka með bankaráði og bankastjórum, Útvegsbanka Íslands, ríkisbanka með bankaráði og bankastjórum, Búnaðarbanka Íslands, ríkisbanka með bankaráði og bankastjórum, Framkvæmdabanka Íslands, ríkisbanka með bankaráði og bankastjóra, þ.e. við höfum fimm ríkisbanka — á hvað löngu bili? 3, 4, 5 hundruð metrum eða einhverju slíku, hérna úti í Austurstræti. Það er verið að prédika yfir landslýðnum, að menn eigi ekki að lifa um efni fram. Það er verið að segja við verkalýðinn í landinu: Þið verðið að spara, þið verðið að fórna. — Það er verið að segja við atvinnurekendurna: Þið verðið að gera svo vel að hafa rekstur ykkar hagkvæmari. — A.m.k. reyni ég fyrir mitt leyti að segja það við þá, og ég held, að hæstv. ríkisstj. meini það líka. Það er verið að prédika yfir verkamönnum, það er verið að prédika yfir atvinnurekendum: Þið eigið að reka hlutina skynsamlega. — En hvað gerir svo ríkið sjálft, hvað leggur hæstv, ríkisstj. til? Fimm bankaráð, fimm ríkisbanka. Nær þetta nokkurri átt? Hvernig leyfir hæstv. viðskmrh. sér að segja, að það þurfi að koma þessu í slíkt horf, að það geti orðið til frambúðar, og láta þetta standa? Hvernig leyfir hann sér að segja, að tíðar breytingar á bankalöggjöfinni séu óheppilegar, og þora ekki að gera þessa breytingu. Ég vil benda hæstv. ríkisstj. á það, að þori hún ekki að gera svona smábreytingar á bankakerfinu, þá er hún að taka undir við hv. 1. þm. Austf. og segja: Það er einhver annar tilgangur með þessu. — Það dettur engum manni í hug að halda, að þetta sé æskilega horfið viðvíkjandi framtíðinni í þessum málum. Það dettur engum manni í hug að halda, að þetta sé til fyrirmyndar af Alþingi, að afgreiða þetta mál svona. Það dettur engum manni í hug að halda, að það komi betri hagskýrslugerð til þess að byggja á, þegar stjórnmálamenn eru að deila um efnahagsmál út af þessum tveim hagstofum. Ég held, að einmitt jafnvel þeir góðu kraftar, sem vinna í Framkvæmdabanka Íslands, og á ég þar ekki sízt við hans framkvæmdastjóra, dr. Benjamín Eiríksson, sem ég annars oft deili á, — ég held, að hann mundi njóta sín bókstaflega betur til að starfa í svona hagdeild heldur en sem bankastjóri. Menn, sem eru einmitt færir í ýmsum fræðum, færir í teoriu, þeir geta kannske oft verið alveg óhæfir til þess að gegna venjulegum bankastjórastörfum, og hinir og þessir náungar geta blekkt þá til að fara inn á alls konar ævintýrafyrirtæki, eins og kunnugt er og reynslan sýnir. Ég held þess vegna, að það væri að öllu leyti eðlilegt og sjálfsagt, ef það er meiningin að reyna að fara að koma bankamálum Íslands í eitthvert framtíðarhorf með þessu, — og vissulega skal ég viðurkenna, að það er ekki heppilegt, að það sé alltaf verið að hringla í bankalöggjöfinni, þó að það kunni náttúrlega að gerast í landi, þar sem hægt er að ráða öllu i gegnum bankana, öllu atvinnulífi þjóðarinnar, eins og hér er reynslan. Ég held þess vegna, að þessa breytingu eigi endilega að gera á þessu frv. Við vitum, hvernig þetta ríkisbákn okkar hefur vaxið hér upp og sérstaklega í bankakerfinu. Þetta hefur vaxið upp eins og villigróður, — þetta er ekki eins og ræktað land. Þetta hefur ekki verið skipulagt þannig, að menn hafi gert sér neina heildarhugmynd um, hvernig þetta ætti að vera. Þetta hefur verið að smábætast við á öllum mögulegum tímum, út af öllum mögulegum forsendum, út af öllum mögulegum klúðurslausnum, þannig að þarna á að nota tækifærið, ef það er meiningin að einhverju leyti að reyna að láta þessa bankalöggjöf vera til frambúðar, að breyta þarna um. Ég fæ satt að segja ekki skilið og þarf að fá betri rök en ég hef séð fram að þessu fyrir því, að það væri ekki rétt. Og ég get ekki gengið inn á, að það sé vandlega undirbúið eða það sé miðað við að koma því í slíkt horf, að það ætti að vera til frambúðar, ef svona breyting er ekki gerð. Satt að segja hefði máske verið eðlilegt að athuga um meiri samsteypur í sambandi við bankakerfið á Íslandi, en látum það nú vera. Ég hef ekki enn þá getað borið þetta saman við bankalöggjöfina gömlu og áskil mér þess vegna allan rétt viðvíkjandi því síðar, en í 18. gr., þar sem talað er um gengisskráninguna, er eitthvað linar kveðið að orði en verið hefur, en það mun ég koma inn á seinna, því að ég geng út frá, að við þurfum í fjhn. að bera þetta mjög vel og greinilega saman við gömlu löggjöfina. Eftir 20. gr. á Seðlabankinn að hafa með höndum framkvæmd greiðslusamninga við önnur ríki og viðskipti við fjármálastofnanir. Nokkurn veginn samsvarandi ákvæði er í núverandi lögum um Framkvæmdabankann. Og ástandið var svo undarlegt undanfarið, að aðalbankastjóri Seðlabankans varð hvað eftir annað að fara til útlanda í nafni Framkvæmdabankans til þess að taka lán þar og undirskrifa lánssamninga. Og með 20. gr. í þessari bankalöggjöf helzt þetta ófremdarástand. Ég held, að þarna verði að endurskoða sem sé mjög rækilega sjálfar greinarnar í þessu.

Þá er viðvíkjandi 25. gr. og því valdi, sem ríkisstj. er þar fengið, sem sé því valdi að geta sett bankastjóra Seðlabankans frá, ef ágreiningur er við þá, til þess að tryggja framkvæmd á stefnu ríkisstj., þá er það að mínu áliti rökrétt. Alveg á sama hátt og ríkisstj. á ekki að hafa þessa möguleika viðvíkjandi bankastjórum viðskiptabankanna, heldur bankaráðin, þá er það rökrétt, að ríkisstj. eigi að geta haft þessa aðstöðu viðvíkjandi bankastjórum Seðlabankans. En rétt er að undirstrika það, um leið og einni ríkisstj. er gefið svona mikið vald, að þá þarf um leið að reisa skorður við, að hægt sé að misnota þetta vald, og einmitt vegna þess verða greinarnar í IV. kaflanum um innlendu viðskiptin að endurskoðast. Þegar ríkisstj. getur sett bankastjóra Seðlabankans í staðinn fyrir þá, sem fyrir eru, og skipt sér síðan eins mikið af innlendum sparisjóðum, innlánsdeildum kaupfélaganna og öllu mögulegu slíku, þá getur slíkt vald orðið hættulegt. Alveg eins og það er rökrétt, að bankastjórar viðskiptabankanna eiga ekki að vera beint háðir ríkisstj., eins á ekki að gefa ríkisstj. í gegnum það að geta skipt um bankastjóra í Seðlabankanum aðstöðu til þess að geta gramsað eins og hún vill í hvort heldur er innlánsstofnunum kaupfélaga, sparisjóðum eða öðru slíku. Það þarf að gæta þess þarna vel, um leið og maður er að gefa því pólitíska valdi valdið til þess að ráða stefnunni, efnahagsstefnunni, gegnum ríkisbankana, eins og það á að hafa, þá á að svipta þetta pólitíska vald þeim möguleika að skipta sér af þessum einstöku stofnunum. Það er rökrétt, þegar pólitíska valdið, þegar ríkisstj. er svipt valdi til að geta sett bankastjóra t.d. Landsbankans af, viðskiptabankans, að þá á ekki heldur að gefa ríkisstj. möguleika til þess að geta skipt sér svona mikið, eins og þarna er gert ráð fyrir, t.d. í 10. og 11. gr., af viðskiptamálunum, sparisjóðsdeildunum, innlánsdeildunum og öðru slíku. Þess vegna held ég, að við þurfum að endurskoða þessa þætti mjög vel, til þess að það sé rökrétt, sem þarna er gert. En ég fyrir mitt leyti vil gjarnan að því vinna, ef það væri mögulegt, að það væri hægt að koma þessari bankalöggjöf Íslands á einhvern þann grundvöll, að við séum ekki annað og þriðja hvert ár að hræra í þessu. Það er engan veginn heppilegt, hvorki gagnvart okkur hér innanlands sjálfum né gagnvart útlöndum, að það þurfi bókstaflega á hverju einasta kjörtímabili að vera að hræra í þessum málum.

Þess vegna hefði ég fyrir mitt leyti kosið, að einmitt hefði verið gengið betur frá þessum málum í tíð vinstri stjórnarinnar heldur en gert var, eins og ég raunar líka sagði þá í þeirri ræðu, sem ég hélt um þau mái.

Þá er viðvíkjandi 33. gr. Það hefur þegar verið undirstrikuð þessi hugmynd þarna viðvíkjandi vísindasjóðnum. Það er mjög góð hugmynd. En það er eitt, sem ég vil minnast á um leið, þegar verið er að ræða þessa hluti. Það hefur verið allt of rík tilhneiging hjá bankastjórnum landsins undanfarið að reyna að dylja afkomu bankanna. Ég er ekki að segja, að bankastjórnirnar hugsi eins og skattsvikarar, en það er ákaflega nærri því, að það sé sú tilhneiging að vilja alltaf sýna sem versta útkomu. Og jafnvel tíðkast, að við skulum segja heilar húseignir upp á milljónir, sem eru keyptar, eru afskrifaðar um leið. Þetta er vandræðafyrirkomulag, og þessu eigum við að venja okkur af, af því að við þurfum að reyna að fara að fá sem réttastar myndir af rekstri og af eignum, rekstrarafgangi, tekjuafgangi og af eignamyndunum þessara opinberu fyrirtækja, og þetta getur haft máske ofur litla praktíska þýðingu í sambandi við vísindasjóð. Það mætti gjarnan á einhvern hátt reyna að tryggja það í löggjöfinni eða reglugerðinni, að það væri gengið vel frá því að tryggja svo að segja rétt framtal af hálfu þessara stóru og voldugu stofnana, sem ætti að vera öðrum til fyrirmyndar um slíkt, en ekki öfugt.

Það, sem ég álít fyrst og fremst vanta í þetta frv. og vera þann stóra galla í sambandi við okkar bankalöggjöf og okkar stjórn á efnahagsmálunum, það er, að þegar Seðlabanki Íslands loksins er gerður að sjálfstæðri stofnun, þá skuli hann ekki um leið verða það áætlunarráð fyrir þjóðarbúskapinn, sem væri eðlilegast að hann væri. Það er gefið mál, að þessar tilraunir, sem verið er að gera núna, að ætla að láta þjóðarbúskap Íslendinga stjórna sér sjálfan samkvæmt lögmálum peningavalds, þær mistakast, og því lengur sem það er reynt, því verri verður útkoman. Það er hægt að gera slíkar tilraunir í stórum og voldugum ríkjum, — og ekki kveður samt núv. forseti Bandaríkjanna rétt góðan dóm upp yfir þeim tilraunum, sem um það hafa verið gerðar síðasta áratuginn þar. En að gera þessar tilraunir í litlu þjóðfélagi eins og okkar, það er að misþyrma þjóðarlíkamanum. Það skapast af því fátækt, atvinnuskortur, afturför. Svona litlu þjóðfélagi eins og okkar verður ekki stjórnað, svo að vel sé fyrir landslýðinn, öðruvísi en það sé hugsað fyrir þjóðfélagið sem eina heild. Það er hægt að samrýma það fullu frelsi einstaklinganna, hlutafélaganna, samvinnufélaganna og opinberra fyrirtækja. En um svona lítið þjóðfélag, um afkomu þess, atvinnuvegi þess, um ný fyrirtæki, sem það leggur í, og annað slíkt, verður að hugsa sem eina heild. Aðeins tala verkalýðsins á Íslandi, þess fólks, sem vinnur við okkar framleiðslu, er eins og eins stórs fyrirtækis í Svíþjóð. Þau 38 þús., sem taldir eru verkamenn á Íslandi við manntalið 1950, það er nákvæmlega sama tala og verkamennirnir, sem eru í þjónustu AGA, þess stóra rafmagnsfyrirtækis í Svíþjóð. Ef við eigum að geta hagnýtt fyrir þessa þjóð nútímatækni, nútímaskipulagningu, þá verður að hugsa þetta sem eina heild, og á hverju sviði sem við erum að vinna, þá kemur þetta upp hjá þeim, sem þar eru að berjast lífsbaráttunni, að þeir þurfa að sameina sig á þennan hátt, hvort heldur það heita atvinnurekendur, verkamenn eða aðrir. Og þjóðarbúinu verður ekki stjórnað, svo að vel sé, öðruvísi. Þess vegna var það fyrir löngu, var það þegar fyrir 30 árum orðin nauðsyn fyrir Ísland, að það væri komið upp slíku áætlunarráði, og meira eða minna hefur á þessum síðustu 30 árum, frá því að kreppan mikla dundi yfir, alltaf verið við lýði einhvers konar stofnanir, sem að slíku hafa átt að vinna, mismunandi miklum verkefnum, mismunandi vel. Þegar þær hafa starfað hvað bezt, hafa þær hins vegar einmitt rekið sig á það, að það skapaðist svo að segja óbrúanleg mótsetning á milli þess, sem átti að vera seðlabanki, og þess, sem t.d. þá var nýbyggingaráð, þannig að innan ríkisbáknsins voru þessir aðilar að höggvast á og skylmast og berjast um, hvað gera skyldi. Þess vegna væri heppilegast vegna framtíðarinnar, að þessu frv. um Seðlabankann einmitt væri breytt í það horf, að þetta hlutverk ætti hann að annast og alveg sérstaklega hans bankaráð. Þetta voru líka mínar till., þegar bankalöggjöfinni var breytt seinast, og þetta verða mínar till., þangað til bankalöggjöfinni verður breytt í það horf, sem ég veit að verður. En hins vegar ræður hver ríkisstjórn og hennar meiri hluti því, hvenær hún gerir það, sem nauðsynlegt er. En margt mun aflaga fara, á meðan sá háttur er ekki tekinn upp.

M.ö.o.: Að svo miklu leyti sem skoða má það sem höfuðatriði í þessu frv. að aðskilja endanlega og algerlega Seðlabankann og Landsbanka Íslands, þá er ég því höfuðatriði algerlega fylgjandi, en mun hins vegar í þeirri nefnd, sem frv. á að fara til og ég á sæti í, reyna að gera það, sem ég get, til þess að þetta geti orðið raunveruleg endurskoðun á okkar bankamálum, sem gæti orðið til frambúðar, og að lagað yrði það í þessu frv., sem ýmist væri gallað eða yrði til þess að vekja tortryggni, þannig að það væri helzt hægt að ganga þannig sem mest frá þessum málum, að þau gætu virkilega verið til frambúðar. Og ef það vakir fyrir hæstv. ríkisstj., þá trúi ég ekki öðru en hún vilji taka nokkurt tillit til þeirrar rökstuddu gagnrýni, sem fram hefur komið á þessu.