23.02.1961
Neðri deild: 68. fundur, 81. löggjafarþing.
Sjá dálk 1166 í B-deild Alþingistíðinda. (1096)

180. mál, Seðlabanki Íslands

Frsm 2. minni hl. (Lúðvík Jósefsson):

Herra forseti. Eins og fram kemur í nál. frá fjhn., hefur n. ekki orðið ásátt um afgreiðslu þessa máls. Þrír nm., fulltrúar Sjálfstfl. og Alþfl., leggja til, að frv. verði samþykkt með sáralitlum breytingum, og einn nm., fulltrúi Framsfl., sá sem hér talaði nú næst á undan mér (SkG), er mótfallinn frv., en ég, sem mætti í fjhn. af hálfu okkar Alþýðubandalagsmanna, er samþykkur meginefni frv., en hef hins vegar fyrirvara um ýmis efnisatriði, sem fram koma í frv. og ég tel ástæðu til þess að gera hér grein fyrir í framhaldi af því, sem fram kemur líka í mínu nál., sem birt er á þskj. 410.

Við Alþb.-menn erum samþykkir því meginatriði í þessu frv., sem miðar að því að gera Seðlabankann að algerlega sjálfstæðri stofnun, fullkomlega skipulagslega óháðan viðskiptabönkunum. En þó að stórt skref hafi verið stigið í þeim efnum með löggjöfinni um Seðlabankann árið 1957, þá er því þó ekki að neita, að nokkur skipulagsleg tengsl voru enn þá eftir á milli Landsbankans og Seðlabankans. Það er skoðun okkar, að það hafi þegar komið í ljós af reynslunni, að það sé jafnmikil þörf á því hér á landi og í flestum öðrum löndum, að seðlabanki landsins starfi fullkomlega sjálfstæður og alveg án skipulagslegra tengsla við hina almennu viðskiptabanka, og það sé á allan hátt betra í sambandi við stjórn peningamálanna í landinu að hafa þá skipan á heldur en það form, sem hér hefur ríkt í þessum efnum um margra ára skeið, þar sem blandað hefur verið saman almennum viðskiptabankastörfum og svo seðlabankastörfum. Að þessu leyti til erum við samþykkir þessu frv., þar sem það miðar að því að gera Seðlabankann að fullkomlega sjálfstæðri stofnun og óháðum í skipulagi við viðskiptabanka Landsbankans.

En hvaða atriði eru það svo í sambandi við þessa breytingu og í sambandi við þetta frv., sem við höfum sérstaklega fyrirvara um?

Það fyrsta er það, að gert er ráð fyrir því í 5. gr. frv., að stofnlánadeild sjávarútvegsins, sem á sínum tíma var mynduð við Landsbanka Íslands, skuli áfram vera sem deild í Seðlabankanum. Við teljum, að um leið og hin skipulagslegu tengsl eru rofin á milli viðskiptabankans og Seðlabankans, þá eigi einnig að gera hreina breytingu í þessum efnum og stofnlánadeild sjávarútvegsins, sem raunverulega tilheyrir rekstrarbanka, almennum viðskiptabanka, en ekki störfum þeim, sem seðlabankar almennt hafa með höndum, þá eigi þessi stofnlánadeild að losna frá Seðlabankanum og eigi að finna henni stað þar, sem eðlilegast er í okkar bankaeða útlánakerfi, en það er að sameina hana við stofnlánasjóð sjávarútvegsins, sem er Fiskveiðasjóður Íslands. Það getur ekki blandazt neinum manni hugur um það, að störf stofnlánadeildar sjávarútvegsins eru viðskiptabankalegs eðlis. Þar er ætlazt til þess, að sú stofnun veiti lán hinum ýmsu viðskiptaaðilum og hafi reikningsleg viðskipti við þá, en ekki þess, að sú stofnun láni fyrst og fremst fé til annarra peningastofnana, enda er þessu þannig fyrir komið nú, að stofnlánadeild sjávarútvegsins er beinn viðskiptaaðili við fjöldamarga útvegsmenn og útgerðarfyrirtæki í landinu. Við erum því á þeirri skoðun, að betur færi á því að fella niður 5. gr. frv. með það þá í huga að sameina stofnlánadeild sjávarútvegsins Fiskveiðasjóði Íslands og að hafa þannig sem mest á einum stað öll stofnlán sjávarútvegsins í einni lánastofnun. En því miður er sem sagt gert ráð fyrir því af þeim, sem standa að þessu frv., að halda áfram því ranga skipulagsformi að ætla að hafa stofnlánadeild sjávarútvegsins í seðlabanka landsins.

Annað atriði er það svo í þessu frv., sem snýr að innlánsdeildum samvinnufélaga og hinum smærri sparisjóðum landsins. Það er einmitt það efni, sem hv. frsm. 1. minni hl. fjhn., sá sem talaði hér næst á undan mér, ræddi hér allmikið um. Við Alþb.- menn erum á þeirri skoðun, að það sé óeðlileg ráðstöfun og óréttlát ráðstöfun að gera ráð fyrir því í þessari löggjöf, að Seðlabankinn geti krafið smærri sparisjóði landsins og innlánsdeildir samvinnufélaga, sem eru dreifðar um allt land og í flestum tilfellum smáar peningastofnanir, að Seðlabankinn geti krafizt þess af þeim að binda tiltekinn hluta af innistæðufé þessara stofnana í Seðlabankanum hér í Reykjavík. Það er enginn vafi á því, að ráðstöfun eins og þessi mun fremur hafa truflandi áhrif á sparifjármyndun hjá réttum innlánastofnunum á þessum stöðum, þar sem menn vita, að slík ákvæði sem þessi eru í gildi, og það er hætt við því, að menn fari að finna út einhverjar krókaleiðir til þess að geyma peninga sína á heldur óeðlilegan hátt, til þess að losna undan slíkum ákvæðum sem þessum, sem draga féð á óeðlilegan hátt frá smærri stöðum og smærri peningastofnunum inn á bundinn reikning suður í Reykjavík. Það er enginn vafi á því, að þegar þetta ákvæði upphaflega var sett í lög, að heimila seðlabanka landsins að kalla inn nokkuð af fé og binda það í Seðlabankanum, frá sparisjóðum eða peningastofnunum landsins, þá var þetta hugsað til þess, að Seðlabankinn gæti haft hemil á því, að ekkert það gerðist í sambandi við peningamál landsins, sem í verulegum atriðum truflaði gang peningamála. En slík innköllun á fé frá smærri innlánastofnunum, eins og framkvæmd hefur verið nú af Seðlabankanum, — slík innköllun á fé er óeðlileg, og við erum henni andvígir.

Þá vil ég einnig geta þess, að það er skoðun mín, að það beri að gera verulegan greinarmun á innlánsdeildum kaupfélaga eða samvinnufélaga og almennum sparisjóðum. Ég fyrir mitt leyti hef aldrei viljað líta á innlánsdeildir kaupfélaga sömu augum og ég lít á sparisjóði. Sparisjóðir í landinu starfa skv. nokkuð fast mótaðri löggjöf, og þeir verða að lúta þar nokkrum almennum reglum um rekstur peningastofnana, bæjar- og sveitarstjórnir hafa rétt til þess að kjósa endurskoðendur á reikningshald þeirra og hafa eftirlit þannig með rekstri þessara stofnana og kjósa menn í stjórn þeirra, og hið opinbera hefur haft sérstakt sparisjóðseftirlit með öllum rekstri þessara stofnana, enda er þarna tvímælalaust um beinar peningastofnanir að ræða. Ég geri því mjög verulegan mun á þessum stofnunum, sparisjóðum landsins og innlánsdeildum hjá kaupfélögum eða öðrum samvinnufélögum, sem í mjög mörgum tilfellum starfa ekki sem almennar peningastofnanir, heldur miklu fremur stofnanir, sem reknar eru fyrir allt aðra starfsemi, en taka þó að sér að geyma fé oft og tíðum fyrir félagsmenn, að vísu gegn því að greiða þeim almenna vexti. En það er enginn vafi á því, að hver sem ber saman allan rekstur þessara stofnana mun fljótlega finna það, að hér er grundvallarmunur á, og ég tel það vægast sagt mjög hæpið að flokka innlánsdeildir kaupfélaga undir peningastofnanir almennt. Þessi skoðun mín leiðir einnig til þess, að ég er andvígur því að flokka innlánsdeildirnar á þann hátt, sem gert er í þessu frv., og setja þær reglur, sem þar eru settar, um innköllun á fé frá þeim til bindingar hér í seðlabanka landsins. Ég mun væntanlega fyrir 3. umr. þessa máls flytja hér brtt., sem miðar að því að reyna að fá því fram komið, að a.m.k. verði settar nokkrar hömlur á það, hvernig þessu ákvæði verði beitt gagnvart bæði innlánsdeildum samvinnufélaga og smærri sparisjóðum.

Þá er eitt atriði enn, sem ég vil víkja hér að í sambandi við þetta frv. og ég vil hafa minn fyrirvara á um. Í frv. er gert ráð fyrir því, að hinum nýja seðlabanka verði stjórnað af fimm manna bankaráði og þremur bankastjórum. Það er m.ö.o. gert ráð fyrir því að fjölga um einn bankastjóra í Seðlabankanum frá því, sem verið hefur. Ég tel enga þörf á því að fjölga bankastjórum þessarar stofnunar frá því, sem verið hefur. Ég tel, að starfsemin þar sé með þeim hætti, að það sé engin þörf á því að fjölga þar um bankastjóra. Ég tel þó, að það hefði komið til mála að ganga inn á að fjölga þar bankastjórum og gera þá þrjá, ef það spor hefði verið stigið um leið, sem hefði vissulega verið eðlilegt, að leggja þá jafnframt niður Framkvæmdabankann eða sameina hann seðlabankarekstrinum. En um það verður varla deilt heldur, að Framkvæmdabankinn hefur með höndum þau störf, sem seðlabankar hafa almennt í öðrum löndum, eða meginhluti af starfi Framkvæmdabankans er raunveruleg seðlabankastörf. Ég hefði álitið rétt, um leið og Seðlabankinn er gerður fullkomlega að sjálfstæðri stofnun, að þá hefði verið stigið það spor að sameina Framkvæmdabankann Seðlabankanum, og þá hefði kannske, eins og ég segi, komið til mála að fjölga bankastjórum Seðlabankans. En þegar gert er ráð fyrir því að halda Framkvæmdabankanum, sem raunverulega starfar að miklu leyti sem seðlabanki, halda honum einnig áfram, þá sé ég ekki ástæðu til þess að fara að fjölga bankastjórum í Seðlabankanum og tel það í mesta máta óeðlilegt.

Þessi atriði, sem ég hef nú drepið á, eru meginatriði, sem við Alþýðubandalagsmenn höfum hér fyrirvara á um.

Ég hef leyft mér nú víð þessa umr. að flytja hér eina brtt., en mun væntanlega flytja fleiri við 3. umr.brtt., sem ég flyt nú við þessa umr., er um það, að 5. gr. frv. verði felld niður, en það er sú greinin, sem fjallar um stofnlánadeild sjávarútvegsins, og ég vildi sjá nú við 2. umr., hvort takast mætti samkomulag um það að gera þessa efnisbreytingu á frv. En ef sú tillaga yrði samþ. nú við 2. umr., mundi af því leiða, að aðrar breytingar fylgdu þá þar á eftir.

Ég skaf svo ekki fara fleiri orðum um málið að sinni, en endurtaka aðeins það, að víð Alþýðubandalagsmenn erum samþykkir meginmáli þessa frv., teljum, að það að gera Seðlabankann að fullkomlega sjálfstæðri stofnun stefni í rétta átt, og viljum styðja það, þó að við höfum hins vegar óbundnar hendur um einstök atriði frv. að öðru leyti og þá fyrst og fremst í þá átt, sem ég hef gert grein fyrir.