23.02.1961
Neðri deild: 68. fundur, 81. löggjafarþing.
Sjá dálk 1199 í B-deild Alþingistíðinda. (1102)

180. mál, Seðlabanki Íslands

Frsm. 1. minni hl. (Skúli Guðmundsson):

Herra forseti. Ég kemst alls ekki hjá því að gera verulegar athugasemdir við þessa síðari ræðu hæstv. viðskmrh., hún var þannig.

Hann byrjaði á að tala um það, sem hann kallaði tilboðið til mín frá því fyrr í dag. Hann segir, að þetta hafi verið prófsteinn á mig, hvort ég vildi láta sömu reglur gilda um sparisjóði og innlánsdeildir. Hann segir, að ég hafi fallið á prófinu. Hæstv. ráðh. var að spyrja mig að því í fyrri ræðunni, hvort ég vildi fallast á það, að burt numið væri skattfrelsi fyrir það fé, sem lagt væri inn í innlánsdeildir, ef þetta bindingarákvæði margumtalaða næði þá ekki til þeirra. Ég sagði honum, að ég væri alls ekki til viðtals við hann um að gera þær breytingar á ákvæðunum um skattfrelsi sparifjár, að það næði ekki eins og áður til þess fjár, sem lagt var inn í innlánsdeildir, ef það ætti að gilda áfram um það fé, sem lagt væri inn í sparisjóði og banka. Ég hélt, að ég hefði líka sagt það fullgreinilega áðan í minni ræðu, að ég gerði engan greinarmun og hefði ekki gert í þessum umr. eða í mínu nál. á sparisjóðum og innlánsdeildum samvinnufélaga. Hvað á ég að tyggja þetta oft í hæstv. ráðh. til þess að hann skilji það? Er svo komið fyrir honum, að hann skilji ekki mælt mál? Er hægt að segja þetta með skýrari orðum, að ég vilji láta sömu reglur gilda um sparisjóðina og innlánsdeildirnar? Ég hef farið fram á og boðizt til að hjálpa honum til að útbúa reglur um það, að hinar smærri innlánsstofnanir um land allt, jafnt sparisjóðir sem innlánsdeildir, yrðu undanþegnar þessum bindingarákvæðum. Skyldi hæstv. ráðh. skilja þetta nú, eftir að ég er búinn að endurtaka þetta tvisvar sinnum, sem ég sagði í minni framsöguræðu? Allt hans skraf um það, að ég hafi fallið á þessu prófi, sem hann nefndi svo, og ég sé ekki til viðtals um, að sömu reglur gildi í þessu efni fyrir innlánsdeildirnar og sparisjóði, er alveg út í hött. Þessar fullyrðingar hans hafa ekki við snefil af rökum að styðjast.

Hann segir enn, að framsóknarmenn hafi stutt hina ótakmörkuðu heimild, sem hann nefnir svo, í landsbankalögunum 1957. Heimildin reyndist alveg hættulaus, t.d. meðan vinstri stjórnin fór með völd. Engum þm., sem stóð að þeirri samþykkt, gat þá komið til hugar, að nokkru sinni yrðu þeir menn valdir til þess að setjast í ráðherrastóla hér á landi, sem misnotuðu heimildina jafnákaflega og núv. ríkisstj. hefur gert. Og þá segir hæstv. ráðh., að samkv. þessari gömlu heimild hafi alls ekki verið hægt að gera greinarmun á innlánsstofnunum eftir stærð þeirra. Sömu reglur hafi orðið að gilda um þær allar samkv. gömlu heimildinni. Það er búið að tala um það í þessu sambandi, að ekki gæti ríkisstjórn ákveðið, að skattalögin giltu bara fyrir suma, en ekki fyrir aðra. Ég hélt, að þetta væri nokkuð annars eðlis en almenn skattalöggjöf. Hvernig er heimildin í 16. gr. núgildandi landsbankalaga? Hún er um það, að Seðlabankinn geti ákveðið, að bankar og sparisjóðir skuli eiga innstæður í Seðlabankanum og þá hve miklar. Ekki einn stafkrókur er um það í l., að það sé skylt að láta sömu reglur gilda um alla banka og sparisjóði, hvað sem þeir hafi mikið fé í veltunni. Hvernig hefur svo hæstv. núv. ríkisstj. framkvæmt þetta heimildarákvæði? Hefur hún látið sömu reglur gilda um allar stofnanir, litlar og stórar? Nei, hún hefur ekki gert það. Bréf Seðlabankans, sem hann gaf út fyrir hönd stjórnarinnar í maí í fyrra, segir, að þær reglur, sem þar voru settar um bindingu á víssum hluta af innstæðuaukningu, skuli ekki a.m.k. að svo stöddu gilda fyrir innlánsstofnanir, sem hafa minna en 5 millj. í sparifé. (Menntmrh.: Þetta er almenn regla.) Almenn regla. Því er þá ekki hægt að setja þá almennu reglu, að innlánsstofnanir, sem hafa innstæðufé fyrir neðan eitthvert visst mark, skuli vera undanþegnar? Sem sagt, núv. ríkisstj. hefur sett reglur, þar sem gerður er greinarmunur á því, hvort innlánsstofnanir hafa mikið fé eða lítið í sínum vörzlum. Og svo kemur hæstv. viðskmrh., sá sem fer með bankamál, og segir, að þetta sé ekki hægt eftir núgildandi lögum. Hvað á svona málflutningur að þýða úr ráðherrastóli hér á Alþingi? Hann segir, að þetta sé í verkahring Seðlabankans sjálfs, en ekki ríkisstj. Það veit nú hvert mannsbarn, sem nokkuð hefur fylgzt með þessum málum, að þessar reglur voru gefnar út af meiri hluta seðlabankastjórnarinnar eftir beinum fyrirmælum frá ríkisstj.

Og þá fór hæstv. ráðh. að tala um hlægilegar tölur, ég væri að reyna að gera hlægilegar litlar tölur. Hann segir, að það séu víða litlar upphæðir í reikningum stofnana, banka og sparisjóða og annarra stofnana, og það sé kannske hægt að segja, að þetta séu hlægilegar tölur. Ég hafi haldið því fram, að það væri hlægilegt að taka þessar upphæðir, sem ég nefndi í nál., með valdboði frá ríkisstj. eða umboðsmönnum hennar, meiri hl. í stjórn Seðlabankans, — taka þessar upphæðir með valdboði og setja þær inn á bundinn reikning í Seðlabankanum. Þetta á ekkert skylt við það, þegar menn hafa frjáls viðskipti við þessar stofnanir og aðrar og eiga þar inni á ýmsum tímum smáar upphæðir. Þetta er allt annað. Eins og ég sagði í dag, þá er þetta við fyrstu sýn náttúrlega skoplegt. En það er alvara á bak við þessar ráðstafanir stjórnarinnar, eins og ég gat um í dag. Það er alvörumál að smala fjármunum út um allar byggðir landsins til frystingar í Seðlabankanum í Reykjavík, þegar fólkið, sem býr í héruðunum, vantar fé til þess að geta haldið þar við byggð og þarf að fá meira fé en það hefur nú, sem er mjög takmarkað víðast hvar.

En það kom þó fram í ræðu hæstv. ráðh., að hann er nokkuð farinn að draga í land. Í fyrri ræðu sinni sagði hann, að það væri alls ekki hægt, það væri ekki framkvæmanlegt að setja reglur um þetta efni, þar sem væri gerður greinarmunur á litlum og stórum innlánsstofnunum. Nú segir hann, að það sé auðvitað hægt að semja reglurnar, og hann segir, að við mundum sennilega ekki þurfa að eyða til þess mjög löngum tíma, ef við legðum saman. Ég var að bjóða honum aðstoð í þessu áður. Hann viðurkennir enn fremur nú í sinni síðari ræðu, að það skipti alls ekki máli fyrir stjórn peningamálanna í landinu, hvort þessar smáfjárhæðir utan af landsbyggðinni séu teknar hingað í Seðlabankann eða ekki. Hvers vegna er þá verið að þessu? Hvað á þetta að þýða? Ég hef ekki fengið enn nein svör við því? Nú fer hæstv. ráðh. að vísu að tala um öryggi innlánsstofnana, það þurfi að tryggja það: Þeir eru líklega miklu öruggari vestur á Rauðasandi um innstæðurnar hjá kaupfélaginu, eftir að ærverðið, ég tala nú ekki um, þegar þau eru þrjú, rolluverðin, verða komin hér inn í Seðlabankann á bundinn reikning. Og hann spyr, hæstv. ráðh.: Hvers vegna eiga þeir á Rauðasandi að búa við minna öryggi en t.d. Siglfirðingar? Hver segir, að það sé þörf fyrir þetta ákvæði af öryggisástæðum? Hæstv. ráðh. svaraði alls ekki þeirri spurningu, sem ég kom með í fyrri ræðu minni um það, hvað hefði tapazt af innlánsfé á liðnum árum og áratugum hjá þessum smærri innlánsstofnunum víða um land. Það er sá munur á að vísu, að það er, eins og á hefur verið bent, ríkisábyrgð fyrir innlánum í suma bankana, en ég held satt að segja, að reynslan sýni, að það sé engin þörf fyrir opinber afskipti af þessum smáu innlánsstofnunum úti um land, hvort sem það eru heldur sparisjóðir eða innlánsdeildir, þess vegna, að það þurfi að óttast um, að þeir, sem leggja þar inn fé sitt, tapi því. Reynslan hefur sýnt, að slíkur ótti hefur verið algerlega ástæðulaus. Og það er þannig í þessum smærri byggðarlögum, að fólkið, sem leggur fé sitt inn í þessar stofnanir, veit vel, hvernig þeim er stjórnað, og það getur fyllilega metið það sjálft, hvort þannig er haldið á málum hjá stjórnum þessara stofnana, að þorandi sé að trúa þeim fyrir fé eða ekki. Það getur alveg metið þetta sjálft eins og áður. Fólkið leggur þessa peninga inn þar af frjálsum vilja, en ekki eftir neinum fyrirskipunum. og það metur öryggið sjálft, eins og það hefur alltaf gert.

Já, það lítur út fyrir, að hæstv. ráðh. vilji ekki fallast á mitt tilboð þrátt fyrir allt, þó að hann lýsi því yfir, að við séum líklegir til þess að geta báðir í sameiningu samið reglur um að undanþiggja hinar smærri innlánsstofnanir. Ég verð þá líklega að hætta við tilraunir mínar til þess að koma í veg fyrir, að hæstv. ríkisstj. haldi áfram að verða sér til athlægis um allt land fyrir sína gangnaseðla og fjársmalanir um landið. Má líka segja, að það stæði öðrum nær að reyna að forða henni frá þessu. Ef til vill væri reynandi að tala við einhverja af þm. stjórnarflokkanna um þetta, t.d. þá, sem eru fulltrúar fyrir byggðarlögin úti um land, þar sem smalanirnar eiga nú að fara fram innan skamms. Maður gæti reynt það, vitað, hvað þeir segja.

Í ræðulok eða undir ræðulokin endurtók hæstv. ráðh. það, að ég vildi ekki hugsa um neitt annað en einhver sérréttindi í þessu efni fyrir kaupfélögin. Ég er búinn að svara þessu fullgreinilega, bæði nú í minni ræðu og áður. Ég geri engan greinarmun þarna á innlánsdeildunum og sparisjóðunum. Þarna fer því hæstv. ráðh. því miður með rangt mál.

Það er flutt inn árlega töluvert af bifreiðum hingað til landsins. Þó að það séu að vísu og hafi oft verið takmarkanir á því, þá kemur alltaf á hverju ári eitthvað af nýjum bifreiðum hingað. Og ég gæti bezt trúað, að það væri komið núna eða væri að koma til landsins eitthvað af bifreiðum, sem bílstjórarnir kalla módel 1961, en mætti kalla árgerð 1961. Þannig hefur þetta verið undanfarin ár, að með hverju nýju ári hafa komið nýjar árgerðir af bifreiðum. Og ef maður talar við bifreiðastjóra, sem er nýlega búinn að fá bíl af nýrri árgerð, þá segir hann oftast: Ja, vinnslan hjá þessum nýja er nú töluvert öðruvísi en hjá eldri tegundum. — En það er fleira í veröldinni, sem breytist með árunum en bifreiðarnar. Það hefur skeð nýlega vestur í Bandaríkjum Norður-Ameríku, að ríkisstj. þar hefur fengið nýja árgerð af fjármálasérfræðingum. Sú ríkisstj., sem nýlega hefur tekið við völdum í Bandaríkjunum, hefur fengið nýtt módel, módel 1961 af fjármálasérfræðingum, og það er eins með þá og bílana, að þeir vinna allt öðruvísi en eldri árgerðin. Nú segja þeir, að það sé sjálfsagt fyrir þjóðina í því landi að fara í allt aðra átt í fjármálum en gert var árið sem leið. Ég vildi nú svona í allri vinsemd skjóta því til kunningja míns, hæstv. viðskmrh., hvort það gæti ekki verið gagnlegt fyrir hæstv. ríkisstj. að fara að dæmi þeirra vestan hafsins og fá sér nýja árgerð af fjármálasérfræðingum sér til stuðnings, en vitanlega væri það bezt fyrir þjóðina, og vafasamt, að þetta út af fyrir sig kæmi að gagni, nema Íslendingar fái nýja árgerð af ríkisstjórn eins og þeir í Ameríku. Það er tilfellið, að margt er til fyrirmyndar hjá þeim þarna fyrir vestan.