15.03.1961
Efri deild: 73. fundur, 81. löggjafarþing.
Sjá dálk 1219 í B-deild Alþingistíðinda. (1118)

180. mál, Seðlabanki Íslands

Menntmrh. (Gylfi Þ. Gíslason):

Herra forseti. Þetta frv. er komið frá hv. Ed., var afgr. þar fyrir stundu. Í tengslum við það eru tvö önnur frumvörp, frv. um Landsbanka Íslands og frv. um Útvegsbanka Íslands, sem einnig eru á dagskrá hér á eftir. Skylt þessu frv. er og frv. um Framkvæmdabanka Íslands, sem hæstv. fjmrh. mælti fyrir hér í d. fyrir skammri stundu.

Í þessu frv. um Seðlabanka Íslands er gert ráð fyrir því, að komið verði á fót í fyrsta sinn í fjárhagssögu Íslendinga sérstökum seðlabanka. Það má teljast mikilvægt spor, þegar sérstökum seðlabanka er komið á laggirnar, og nauðsynlegt að vanda mjög vel til lagasetningar um stofnun, sem hlýtur að hafa og á að hafa jafnmikil áhrif í efnahagsmálum þjóða og seðlabanki. Þess vegna er ástæða til þess að fara nokkrum orðum um þau grundvallarsjónarmið, sem þetta frv. um seðlabanka byggist á. Ég mun láta það nægja, en ekki eyða tíma hv. dm. í að lýsa einstökum atriðum eða einstökum greinum í þessu alllanga lagafrv.

Fyrsti bankinn var stofnaður á Íslandi árið 1885, Landsbanki Íslands. Á næstu þingum þar á undan hafði mikið verið rætt um nauðsyn bankastofnunar á Íslandi, en allharðar deilur höfðu verið háðar um það, hvort stofna skyldi banka í þess orðs venjulegu merkingu eða fasteignaveðlánastofnun. Á þinginu 1885 náðist samkomulag um að fara bil beggja. Sú stofnun, sem komið var á fót, Landsbanki Íslands, var hvort tveggja í senn viðskiptabanki í venjulegum skilningi og fasteignalánastofnun. Hins vegar var bankinn ekki seðlabanki. Stofnfé bankans var að vísu hálf milljón króna í íslenzkum seðlum, sem ríkissjóður gaf út og fékk Landsbankanum sem stofnfé. Svo mikið fé átti landssjóður að vísu ekki, heldur lét hann blátt áfram prenta seðlana og afhenti þá Landsbankanum sem stofnfé. Hér var hins vegar svo mikill skortur á gjaldmiðli í umferð, að prentun þessara seðla, sem þó engin trygging, hvorki gulltrygging né önnur, stóð á bak við, önnur en ábyrgð landssjóðsins, átti engin verðbólguáhrif að þurfa að hafa og hafði ekki heldur nein verðbólguáhrif. En eins og ég sagði áðan, það var hins vegar ekki seðlabanki, þ.e. hafði engan rétt til seðlaútgáfu. Landssjóður áskildi sér réttinn til seðlaútgáfu og hagnýtti sér hann raunar enn nokkru síðar með sams konar seðlaútgáfu og þessari fyrstu, þó að mjög varlega væri í þær sakir farið og raunar eins farið með seðlana, þeir fengnir Landsbankanum til ráðstöfunar.

Þannig gerðist það hvort tveggja samtímis, að Íslendingar eignuðust fyrsta íslenzka bankann og fyrstu íslenzku peningaseðlana, án þess þó að eignast seðlabanka. Er þetta að vissu leyti nokkuð sérstæð þróun og ólík þeirri, sem átt hefur sér stað í öðrum nálægum löndum. Þessi seðlaútgáfa landssjóðs og starfsemi Landsbankans var að vísu fjarri því að bæta úr þeim skorti, sem var á gjaldmiðli í umferð hér á landi, og þeirri þörf, sem var hér fyrir lánsfé. Þess vegna héldu umr. um stofnun nýs banka áfram, og var í því sambandi einkum rætt um nauðsyn þess að stofna seðlabanka, sem hefði rétt til þess að gefa út gulltryggða seðla, eins og voru í umferð í öllum helztu nágrannalöndum. Eftir miklar umr. var slíkum banka komið á fót 1903. Hlaut hann nafnið Íslandsbanki og var stofnaður að verulegu leyti með erlendu hlutafé. Sá banki fékk einkaleyfi til seðlaútgáfu til ákveðins tíma, og var þar um að ræða fyrsta seðlabanka Íslendinga. Íslandsbanki hélt seðlaútgáfuréttinum þar til árið 1921, er hann lenti í greiðsluvandræðum í þeirri kreppu, sem yfir landið gekk eins og raunar fleiri lönd í kjölfar heimsstyrjaldarinnar fyrri. Var Íslandsbanki þá sviptur seðlaútgáfuréttinum, en þó leyft að hafa í umferð eftir vissum reglum þá seðla, sem áður höfðu verið gefnir út, að vísu lögð á þá inndráttarskylda eftir vissum reglum.

Næstu ár þar á eftir var siðan seðlabankamálið mjög til umr. á Alþingi, án þess að nokkurt samkomulag næðist um, hvernig skipa skyldi seðlaútgáfuréttinum, hvaða aðili skyldi með fara og hvernig með hann skyldi fara. Var skipuð milliþn. í þetta mál og starfaði á árunum 1924 og 1925, en ekki náðist samstaða í n. Meiri hluti hennar lagði til, að seðlaútgáfurétturinn yrði falinn sérstakri deild í Landsbankanum, en bankinn skyldi jafnframt vera almennur seðlabanki. Minni hl. bankamálanefndarinnar lagði hins vegar til, að komið skyldi á fót sérstökum seðlabanka, sem hljóta skyldi nafnið Ríkisbanki Íslands, og skyldi hann fara með seðlaútgáfuréttinn og verða seðlabanki í sama skilningi og seðlabankar störfuðu með öllum nálægum þjóðum. Enn var lengi og mikið um málið deilt á Alþingi, þar til loks náðist samkomulag á Alþingi 1927 um setningu laga um Landsbanka Íslands, og var við þá lagasetningu farið bil beggja milli þeirra ólíku sjónarmiða, sem uppi höfðu verið, og má hér segja, að Alþingi hafi enn farið líkt að og það fór, þegar það kom Landsbankanum á fót á sínum tíma 1885, að það gerði tilraun til þess að sætta þau sjónarmið, sem uppi höfðu verið um málið.

Grundvallaratriði landsbankalaganna frá 1927 voru þau, að Landsbankinn skyldi starfa áfram, en starfa í þrem deildum, seðlabanka, sparisjóðsdeild og veðdeild, og þannig gegna öllum þrem hlutverkunum: að vera seðlabanki, fara með seðlaútgáfuréttinn, stunda almenn bankastörf, fara með hlutverk sparisjóðsdeildarinnar, og hafa með höndum veðlánastarfsemi, það skyldi vera hlutverk veðdeildarinnar. Höfuðrökin, sem færð höfðu verið fyrir því á árunum 1922–27, meðan umr. um þessi mál stóðu hæst, að stofna ekki sérstakan seðlabanka þá, heldur fela Landsbankanum seðlaútgáfuréttinn, voru þau, að það væri ódýrara. Landsbankinn væri til og hefði þegar aflað sér nokkurs trausts og álits erlendis og það væri varhugavert, ekki hvað sízt rétt eftir það, sem komið hefði fyrir seðlabanka landsins, Íslandsbanka, að koma á fót nýrri stofnun, heldur hagnýta sér það traust, sem hin aðalbankastofnun landsins, Landsbankinn. hefði, og fela honum seðlaútgáfuréttinn.

Viðskiptalíf landsmanna var á þeim árum ekki orðið svo umfangsmikið enn og starfsemi Landsbankans þar af leiðandi ekki orðin svo víðtæk, að ekki mætti með nokkrum rétti segja, að Landsbankinn gæti ódýrar annazt öll þessi verkefni heldur en verða mundi, ef sérstökum seðlabanka yrði komið á fót og honum falinn seðlaútgáfurétturinn.

Þessi lög um Landsbanka Íslands frá 1927 hafa síðan eða í rúmlega 30 ár verið kjarninn í íslenzkri bankalöggjöf. Umr. um það, hvort nauðsynlegt sé eða gagnlegt eða æskilegt að hafa sérstakan seðlabanka eða hafa seðlabankann í tengslum við aðalviðskiptabanka landsins, hafa aldrei þagnað á þessum 30 árum, og þær hafa orðið þeim mun háværari, sem viðskiptalíf landsins hefur þróazt og orðið margbrotnara og eftir því sem menn hafa gert sér ljósari þýðingu seðlabanka annars vegar og hlutverk viðskiptabanka hins vegar.

Sænskur fjármálasérfræðingur, sem starfaði hér á Íslandi á vegum ríkisstj. Hermanns Jónassonar á árunum 1935 og 1936 og samdi fyrir þá ríkisstjórn ýmis merk frumvörp, lagði m.a. til, að landsbankalögunum yrði breytt og hér yrði komið á fót sérstökum seðlabanka. Um það mál náðist hins vegar ekki samkomulag í þeirri ríkisstj., en frv. var þó flutt af einum stuðningsmanni hennar 1937, Emil Jónssyni.

Mþn. var skipuð í bankamálin árið 1941 og ræddi þá m.a. rækilega, hvort stofna ætti sérstakan seðlabanka, en þótti það ekki tímabært, og kom því ekki fram frv. frá þeirri nefnd um það efni.

10 árum síðar, 1950–51, var enn sett á laggirnar sérstök bankamálanefnd, sem starfaði að þessum málum og ræddi alveg sérstaklega, hvort tímabært væri að koma á fót sérstökum seðlabanka. Skoðanir reyndust skiptar í n. um þetta atriði. Meðan n. starfaði, kom hingað til lands fjármálasérfræðingur frá alþjóðagjaldeyrissjóðnum, sem skilaði álitsgerð um íslenzka bankalöggjöf og íslenzk bankamál. Hann lagði, eins og hinn sænski starfsbróðir hans 15 árum áður, mjög eindregið til, að komið yrði á fót sérstökum seðlabanka og seðlabankastarfið aðgreint frá Landsbankanum. Í þeirri ríkisstj., sem þá fór með völd, varð hins vegar ekki heldur samkomulag um, að tímabært væri að gera slíka ráðstöfun, og var því ekkert frv. flutt um það efni og bankamálanefndin, sem dr. Benjamín Eiríksson var formaður í, lauk raunar aldrei formlega störfum. Höfuðástæðan var sú, að sú ríkisstj., sem þá sat, var ekki reiðubúin til að taka afstöðu til þessa meginviðfangsefnis nefndarinnar og spurningarinnar um, hvort koma ætti á fót sérstökum seðlabanka.

Enn héldu umr. um þetta mál áfram og athugun á því á vegum þeirra ríkisstjórna, sem hér sátu við völd. Ríkisstj. Hermanns Jónassonar, sem mynduð var sumarið 1956, lét bankamálin til sín taka og flutti frumvörp um mjög víðtæka skipulagsbreytingu á Landsbankanum, — skipulagsbreytingu, sem að víssu leyti var enn málamiðlun á milli þeirra tveggja meginsjónarmiða, sem uppi höfðu verið, þ.e. sjónarmiðanna um það, hvort seðlabankinn ætti að vera sjálfstæður eða ætti að vera hluti af Landsbankanum og lúta sömu stjórn og hann. Var auðséð, að þróunin hafði verið sú allar götur siðan á miðjum þriðja áratugnum, að þeirri skoðun var stöðugt að vaxa fylgi, að nauðsynlegt væri, að seðlabankinn væri sjálfstæður undir sjálfstæðri stjórn, en ekki sömu stjórn og aðalviðskiptabanki landsins, því að það varð æ ljósara, að verið gæti varhugavert, að sömu menn, alveg sömu aðilar, stjórnuðu seðlabanka og stærsta viðskiptabanka landsins. Varð mönnum ljóst smám saman, að þetta gæti verið varhugavert vegna þess, hvað hlutverk seðlabanka annars vegar og viðskiptabanka hins vegar er gerólíkt. Hlutverk seðlabanka er fyrst og fremst tvenns konar: annars vegar að sjá svo um, að í umferð sé í landinu hæfilegt peningamagn til þess að tryggja fulla hagnýtingu allra atvinnutækja og sem stöðugast verðlág, og hins vegar að efla og tryggja gjaldeyrisvarasjóð, sem nægi til þess að tryggja frjáls viðskipti við útlönd og fjárhagslegt öryggi þjóðarinnar út á við. Hlutur viðskiptabanka er hins vegar að taka við sparifé einstaklinga og fyrirtækja og ávaxta það með útlánum til þeirra, sem á lánsfé þurfa að halda til langs eða skamms tíma, og auk þess stunda margs konar þjónustuviðskipti á fjármálasviðinu. Eigi sömu aðilar annars vegar að hafa örugga stjórn á peningamagninu í umferð og efla gjaldeyrisforðann og svo hins vegar að ávaxta sparifé bæði einstaklinga og fyrirtækja, þá getur verið, að það fari ekki saman að, gegna hvoru tveggja þessu hlutverki á sem beztan hátt, annað sjónarmiðið getur þurft að víkja fyrir hinu, og þá er spurningin, hvort sjónarmiðið er látið víkja. Þetta hafa stjórnendur Landsbankans rekið sig mjög á þá þrjá áratugi, sem Landsbankinn var hvort tveggja seðlabanki og viðskiptabanki. Ég skal hér alveg láta ósagt um, hvort sjónarmiðið hafi aðallega ráðið hjá hinum mörgu stjórnendum Landsbankans á þessum þremur áratugum, seðlabankasjónarmiðið eða viðskiptabankasjónarmiðið, enda er sannleikurinn líklega sá, að stundum hafi seðlabankasjónarmiðið mátt sín meir, en stundum viðskiptabankasjónarmiðið hins vegar.

Þær umr., sem um þetta fóru fram innan ríkisstj. Hermanns Jónassonar, hinnar síðustu, og við þá fjármálasérfræðinga, sem sú ríkisstj. hafði sér til aðstoðar, leiddu til þess, að það varð niðurstaða þeirrar ríkisstjórnar og þeirra flokka, sem hana studdu, að nauðsynlegt væri að gera seðlabankastarfið miklu sjálfstæðara en það hefði verið, að fela seðlabankahlutverkið eða seðlabankaverkefnið sérstakri stjórn. En til þess hins vegar að rjúfa ekki tengslin við hina áratugagömlu stofnun, Landsbankann, og til þess að hagnýta sér áfram það traust, sem sá banki hefur áunnið sér, bæði erlendis og innanlands, var ákveðið, að seðlabankinn skyldi starfa innan vébanda Landsbankans. Að þessu leyti var farið bil beggja milli hinna tveggja sjónarmiða. Seðlabankinn var í raun og veru gerður sjálfstæður, þ.e. honum fengin sérstök stjórn, en hins vegar var hann hafður innan Landsbankans og látinn starfa í Landsbankans nafni sem einhvers konar deild í honum.

Ein af rökunum, sem voru talin liggja þessari skipan til stuðnings, voru þau, að þessi tengsl milli seðlabankans og viðskiptabankans mundu spara fé. Það kom hins vegar fljótlega í ljós, að á þessari skipan voru ekki allir þeir kostir, sem vænzt hafði verið, en hins vegar ýmsir gallar, sem ef til vill má segja að hafi verið ekki gott að sjá fyrir. Þess vegna hafa umræður og athuganir á þessu máli enn haldið áfram síðan, og hefur núv. ríkisstj. athugað þetta mál enn mjög rækilega með þeim erlendu sérfræðingum, sem hún hefur sér til aðstoðar. Niðurstaða ríkisstj. hefur orðið sú, að fyllilega tímabært sé orðið að stíga sporið að fullu, gera það nú, sem fyrst var lagt til að gert yrði í bankamálanefndinni 1924 og ýmsir innlendir og erlendir sérfræðingar hafa ávallt verið að leggja til með nokkurra ára millibili allar götur síðan 1924, þ.e. að seðlaútgáfurétturinn sé falinn alveg sérstakri stofnun, — stofnun, sem um gildi sérstök lög og lúti alveg sérstakri stjórn, — og öll tengsl rofin við stærsta viðskiptabanka þjóðarinnar, þ.e. viðskiptabanka Landsbanka Íslands. Það er kjarninn í þessu frv., sem hér er um að ræða, að komið sé á fót sérstökum banka, sem hafi seðlaútgáfuréttinn og gegni öllu venjulegu hlutverki seðlabanka, en hins vegar starfi Landsbankinn áfram sem viðskiptabanki og gegni öllum venjulegum hlutverkum viðskiptabanka. Í sambandi við það hefur verið nauðsynlegt að endurskoða einnig lögin um Landsbankann, þó að þar sé ekki um efnisbreytingar að ræða, heldur miklu fremur formsbreytingar, og er það frv. einnig til 1. umr. hér í hv. d. nú á eftir.

Ég sé ekki ástæðu til þess að fjölyrða um rökin fyrir því, að eðlilegt sé, að seðlaútgáfurétturinn sé í höndum sjálfstæðrar stofnunar. Höfuðrökin eru þau, sem ég gat lauslega um áðan, að þau sjónarmið, sem nauðsynlegt er að stjórnendur seðlabanka hafi í hinu mjög mikilvæga starfi sínu, geta verið og eru meira að segja mjög oft svo ólík þeim sjónarmiðum, sem eðlilegt er að viðskiptabankastjórar hafi í sínum einnig mikilvægu störfum, að tengsl þarna á milli eru ekki eðlileg og geta meira að segja verið beinlínis varhugaverð, enda er það svo, að í öllum nágrannalöndum eru og hafa um marga áratugi undanfarið verið starfandi sérstakir seðlabankar, sem lúta sérstakri stjórn og um gilda sérstök lög. Ég er þeirrar skoðunar, að mátt hafi til sanns vegar færa fyrir þrem áratugum, að ekki hafi verið tímabært að koma hér þá á fót sjálfstæðum seðlabanka, þó að sömu almennu rökin hafi að vísu gilt þá og gilda nú, eingöngu af því, hversu íslenzka þjóðfélagið var þá enn fábrotið, hve íslenzkt viðskiptalíf var þá enn fábrotið og hversu brýna nauðsyn bar þá til að hafa alla yfirstjórn fjármálanna sem allra einfaldasta og ódýrasta. En í kjölfar hins mjög öra vaxtar íslenzks atvinnu og viðskiptalífs hefur orðið æ nauðsynlegra, að við fylgjum í þessum efnum sömu reglum og höfum sams konar skipulag og allar nágrannaþjóðir okkar hafa talið alveg óhjákvæmilegt og raunar alveg sjálfsagt. Reynslan hefur og sýnt, að sparnaðarröksemdin, sem var ein aðalröksemdin fyrir þrem áratugum fyrir því að hafa seðlaútgáfuréttinn hjá Landsbankanum, á nú ekki lengur við.

Það má segja, að sú breyting, sem gerð var á landsbankalögunum áríð 1957, hafi haft í för með sér nokkurn kostnaðarauka, því að í stað þess að stjórn Landsbankans, bæði seðlabankans og viðskiptabankans, var til 1957 í höndum bankaráðs og þriggja bankastjóra, var 1957 gerð sú breyting, að yfir seðlabankann voru settir 2 bankastjórar og 3 meðstjórnendur, við hliðina á þeim 3 bankastjórum, sem áður höfðu verið yfir Landsbankanum öllum, en voru nú áfram eftir lagasetninguna 1957 yfir viðskiptabankanum einum. Árið 1957 var því efnt til allverulegs kostnaðarauka í sambandi við þá endurskoðun, sem þá fór fram á bankalöggjöfinni, en það var hins vegar alveg óhjákvæmilegt, ef ná átti því markmiði að koma seðlabankastörfunum undir sérstaka stjórn. Í lögunum frá 1957 var enn fremur gert ráð fyrir því, að skilið yrði formlega að flestu leyti á milli seðlabankans og viðskiptabankans, þó að báðir bankarnir skyldu áfram vera skipulagslega séð innan sömu stofnunar og í sama húsnæði og hafa ýmsan rekstur sameiginlega. Það hefur hins vegar komið í ljós, að minna hefur orðið úr hinum sameiginlega rekstri en menn höfðu vonað 1957 að framkvæmanlegt væri, og í reynd hefur orðið nær alger aðskilnaður á milli þessara tveggja aðaldeilda Landsbankans, seðlabankans og viðskiptabankans.

Kostnaðarauki við það að stiga sporið nú að fullu og gera seðlabankann að algerlega sjálfstæðri stofnun er því sáralítill, ef hann er nokkur. Það er að vísu gert ráð fyrir því, að bankastjórum verði fjölgað úr 2 í 3, en hins er að geta, að störf þeirra þriggja meðstjórnenda, sem starfað hafa siðan 1957, leggjast niður, en kostnaður við einn bankastjóra er mjög svipaður og kostnaður hefur verið við störf hinna þriggja meðstjórnenda. Kostnaðaraukinn yrði því í aðalatriðum eingöngu sá, sem hlýzt af starfsemi bankaráðsins. Þess vegna var það og mjög til athugunar og umræðu í ríkisstj. að hafa ekkert bankaráð í seðlabankanum, heldur láta bankastjórana starfa í sem nánustum tengslum við ríkisstj., sem þá starfaði sem eins konar bankaráð fyrir bankastjórn seðlabankans. Það þótti hins vegar að athuguðu máli ekki eðlilegt að hafa Alþingi ekki i neinum tengslum við þessa meginfjármálastofnun þjóðarinnar og þess vegna óhjákvæmilegt, að yfir seðlabankanum skyldi vera þingkjörið bankaráð. Kostnaðaraukinn, sem af þessu frv. hlýzt, er í rauninni eingöngu sá, sem fólginn yrði í launum bankaráðsins.

Í frv. felst ekki aðeins það, að seðlabankinn er gerður algerlega sjálfstæður og settur undir sérstaka stjórn, heldur er í frv. einnig kveðið allýtarlega á um, hvert seðlabankinn skuli skoða hlutverk sitt og þá alveg sérstaklega hver afstaða hans til ríkisstj. á hverjum tíma skuli vera, og ég vildi mega segja, að þetta atriði sé einmitt kjarninn í þessari löggjöf. Það má segja, að þessi löggjöf markar ekki sérstök tímamót, ef í henni fælist það eitt, að seðlabanka Landsbankans væri nú breytt í sjálfstæða stofnun, sem héti Seðlabanki Íslands. En hitt markar tímamót í íslenzkri bankalöggjöf, að hér er í fyrsta skipti kveðið ýtarlega á um, hvert skuli vera hlutverk íslenzks seðlabanka. Þau ákvæði frv., sem um þetta fjalla, eru í 3. og einkum í 4. gr. frv. En í 4. gr. er svo kveðið á, að Seðlabankinn skuli hafa náið samstarf við ríkisstj. og gera henni grein fyrir skoðunum sínum varðandi efnahagsmál og framkvæmd stefnu í efnahagsmálum. Þar er kveðið svo á, að sé um verulegan ágreining að ræða við ríkisstj., sé Seðlabankanum rétt að lýsa honum opinberlega og skýra skoðanir sínar, en hann skuli engu að síður telja það eitt meginhlutverk sitt að vinna að því, að sú stefna, sem ríkisstj. markar að lokum, nái tilgangi sínum.

Í þessum atriðum vildi ég segja að fælist kjarni seðlabankalöggjafarinnar og þá um leið kjarni íslenzkrar bankalöggjafar. Ákvæði hliðstæð þessu eru ekki mér vitanlega í seðlabankalöggjöf nokkurs nágrannalandanna. Í þessum ákvæðum er samt sem áður fólginn kjarni þeirrar stefnu og þeirra starfshátta, sem seðlabankar í öllum lýðræðislöndum smám saman hafa verið að mynda sér undanfarna áratugi og starfa nú eftir, þó að löggjafinn hafi í þeim löndum, sem ég þekki til, í raun og veru orðið á eftir hinni lýðræðislegu og fjárhagslegu þróun.

Það ætti að vera alveg augljóst, að löggjafarvaldið og ríkisvaldið — hér Alþingi og ríkisstjórn — hljóta að móta þá stefnu, sem fylgt er í efnahags- og fjármálum, og ráða, hver sú stefna er. Það er hins vegar vegna verkaskiptingar í fjárhagsmálum nauðsynlegt, að viss hluti framkvæmdavaldsins á fjárhagssviðinu sé í höndum sérstakra stofnana, eins og t.d. Seðlabankans. Það má ekki þýða, að æðsta valdið á því sviði, sem stofnunum eins og Seðlabankanum er falið í fjárhagsmálum, sé í höndum stjórnenda hans, heldur hljóta þeir að verða undir löggjafarvald og ríkisstj. gefnir. Þetta hefur og smám saman verið að verða skilningur ríkisstj. og seðlabankastjóra i öllum nálægum lýðræðisríkjum, sem ég þekki til. En ef þetta frv. verður að lögum, verða Íslendingar einna fyrstir til þess að lögfesta þá skipun um hlutverk og starfshætti seðlabanka, sem ég nú hef verið að lýsa.

Mönnum sýnist að vísu annars vegar nokkuð sitt hvað um það, hversu undirgefin stjórn seðlabanka eigi að vera ríkisvaldi, eða m.ö.o., hversu sjálfstæð stjórn seðlabanka eigi að vera í störfum sínum. Ríkisstj. er þeirrar skoðunar, að ástæðulaust og varhugavert væri að ganga svo langt í þessum efnum, að seðlabanki yrði í raun og veru aðeins algerlega valdalaus angi af ríkisvaldinu, algerlega ósjálfstæður angi af ríkisvaldinu. Til þess er ekki ástæða. Stjórn fjármála og peningamála er í svo ríkum mæli orðin sérfræðilegt viðfangsefni, að mjög gagnlegt er að hafa vissa þætti þessara mála í höndum sjálfstæðra stofnana, sem hafa til að bera sérfræðilega þekkingu. Þess vegna er líka í þessu frv. gert ráð fyrir því, að Seðlabankinn hafi sjálfsforræði og sjálfsákvörðunarvald í ýmsum mjög mikilvægum málum: að því er snertir vaxtahæð, að því er snertir ákvörðun á peningamagni í umferð, að því er snertir ráðstöfun gjaldeyrisvaraforða, svo að ég nefni nokkur helztu atriðin, en þó þannig að í grundvallaratriðum, er þetta snertir, skuli hann fylgja þeirri stefnu, sem Alþingi og ríkisstj. marka, en hafi rétt til þess að lýsa ágreiningi, ef um hann er að ræða. Ef sjónarmið ríkisstj. og stjórnar Seðlabankans reynast ekki samrýmanleg, er ekki til önnur lausn á því máli en sú, að stjórn Seðlabankans víki, og í framhaldi af því eru sérstök ákvæði, að því er snertir stjórnendur bankans, sem tryggja þeim meiri rétt, tryggari kjör en annars tíðkast um opinbera starfsmenn, því að undir þeim kringumstæðum, ef um slíkan ágreining er að ræða, mundu seðlabar:kastjórarnir verða að víkja fyrirvaralaust.

Það er að þessu leyti, sem ég nú hef verið að ræða um, sem þessi löggjöf fyrst og fremst markar tímamót í sögu íslenzkra bankamála. Og þetta, sem ég nú var að ræða um, er í raun og veru kjarni þess máls, sem hér er um að ræða.

Þó að ég sjái ekki ástæðu til að rekja einstök atriði þessa langa frv., vil ég geta um fáein atriði, sem ég held að megi segja að teljist til helztu nýmælanna í frv., auk þess sem ég hef þegar vikið að og lýtur að kjarna málsins.

Það er gert ráð fyrir því í þessu frv., að Seðlabankinn verði framvegis aðili að Alþjóðagjaldeyrissjóðnum, sem íslenzka ríkisstj. hefur verið aðili að frá stofnun hans 1948. Það þykir að ýmsu leyti eðlilegra að fela Seðlabankanum þá aðild, enda er Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn að víssu leyti eins konar alþjóðaseðlabanki, eins konar alheimsstofnun. Af þessu mundi leiða, að framlag Íslands í stofnsjóð Alþjóðagjaldeyrissjóðsins mundi flytjast yfir til Seðlabankans.

Þá er enn fremur gert ráð fyrir því, að Seðlabankinn komi upp sérstöku bankaeftirliti, en á því hefur lengi verið brýn þörf hér á landi. Samkv. lögum er sérstakt eftirlit með sparisjóðum, en engu minni ástæða er til þess að koma upp eftirliti með hinum sívaxandi íslenzku viðskiptabönkum.

Þá er enn fremur gert ráð fyrir því, að Seðlabankinn komi á fót kaupþingi, þegar henta þykir, en brýna nauðsyn ber til þess að koma upp heilbrigðum verðbréfamarkaði hér á Íslandi, bæði til þess að gera mönnum auðveldara en nú er að ávaxta fé sitt í verðbréfum og eins til þess að veita þeim, sem á lánsfé þurfa að halda til mjög langs tíma, auðveldari aðgang að slíku fé. Seðlabankinn er tvímælalaust eðlilegasti aðilinn til þess að hafa forgöngu um stofnun og rekstur kaupþings.

Þá vildi ég vekja athygli á ákvæðum 33. gr. frv. og annarra greina í því sambandi um það, að stofnfé bankans skuli aukið í 100 millj. kr., en það svarar til raunverulegra eigna bankans, eins og þær eru nú. Jafnframt er svo ákveðið í 33. gr., að bankinn skuli greiða 5% arð af stofnfé bankans, þ.e. af tekjuafgangi sínum, og leggja hann í sérstakan sjóð, þ.e. um 5 millj. kr. á ári, og að helmingur þessa fjár eða 21/2 millj. á ári a.m.k. skuli renna til vísindasjóðs í samræmi við lög, sem um hann gilda. Til þess ber brýna nauðsyn og um það er mér vitanlega ekki ágreiningur að efla vísindarannsóknir hér á Íslandi, ef við eigum ekki að eiga á hættu að verða algerlega aftur úr öðrum þjóðum í þessum efnum, og er ekki óeðlilegt, að aðalbanki landsins, voldugasti banki þess, leggi af sínum tekjuafgangi nokkurt fé af mörkum til eflingar þessari bráðnauðsynlegu starfsemi, enda hefur öllum, sem um þetta atriði hafa fjallað hér á hinu háa Alþingi og annars staðar, sýnzt eitt og hið sama um þetta, að þetta ákvæði horfi mjög til bóta.

Þá vil ég að síðustu vekja athygli á ákvæðunum til bráðabirgða, þar sem gert er ráð fyrir heimild til handa Seðlabankanum og fjmrn. að semja um það sín á milli, að við þann reikning, sem samkvæmt efnahagsmálalögunum var opnaður á nafni ríkissjóðs í Seðlabankanum og á var fært nettógengistap íslenzkra banka vegna gengisbreytingarinnar, skuli jafna reikninga, sem ríkissjóður á í Seðlabankanum vegna gamalla mótvirðisviðskipta, og Seðlabankinn skuli síðan taka þennan reikning að sér, en verja til þess að jafna hann tekjuafgangi sínum á árinu 1960 og næstu árum þar á eftir, þannig að þennan gengistapsreikning, sem myndaðist vegna íslenzkra gjaldeyrisskulda í kjölfar gengisbreytingarinnar, skuli Seðlabankinn taka að sér og jafna hann sem fyrst af sínum tekjuafgangi.

Með þessum orðum vona ég, að ég hafi gert hv. Ed. grein fyrir meginatriðum þessa frv., sem hér er um að ræða, og frv. hinna, um Landsbankann og Útvegsbankann, sem koma hér til umræðu, þegar þessari umr. er lokið.

Að svo mæltu vildi ég, herra forseti, leyfa mér að leggja til, að málinu verði vísað til 2, umr. og hv. fjhn.