21.03.1961
Efri deild: 78. fundur, 81. löggjafarþing.
Sjá dálk 1249 í B-deild Alþingistíðinda. (1124)

180. mál, Seðlabanki Íslands

Frsm. 2. minni hl. (Björn Jónsson):

Herra forseti. Eins og fram hefur komið, hef ég ekki getað átt að öllu leyti samleið með hv. meðnm. mínum í fjhn. um afstöðuna til þessa frv., þ.e.a.s. hvorki með þeim, sem standa að meirihlutanál. og telja frv. algerlega gallalaust og vilja engar breyt. á því gera utan lítilfjörlega breyt. á málfari, né heldur með hv. 1. minni hl., sem telur frv. að engu til bóta og er því andvígur.

Ég er þeirrar skoðunar, að þrátt fyrir ýmsa ágalla og ákvæði, sem ég er hreinlega andvígur, þá sé meginefni frv. samt sem áður spor í rétta átt og því sé ekki rétt að leggjast gegn því.

Ég tel, að það geti ekki farið á milli mála, að aðalbreytingin, sem samþykkt þessa frv. hefði í för með sér á bankalöggjöfinni, sé sú í fyrsta lagi, að Seðlabankinn er nú gerður að algerlega sjálfstæðri stofnun án skipulagstengsla við Landsbankann, og í öðru lagi, að tryggilegar er nú frá því gengið en áður, að stefna ríkisstj., eins og hún er á hverjum tíma í efnahagsmálum, ráði úrslitum einnig að því leyti sem til kasta Seðlabankans kemur.

Í þessu sambandi getur það ekki orðið úrslitaatriði, hvaða skoðanir menn hafa t.d. á stefnu núv. hæstv. ríkisstj. eða einhverrar annarrar ríkisstj., heldur afstaða manna til sjálfs „prinsipsins“, sem þarna er um að ræða, þ.e.a.s. hvort menn vilja, að ríkisstj. hafi úrslitavald í peningamálunum og beri síðan fulla ábyrgð á þeim gagnvart Alþingi og gagnvart þjóðinni, eða hvort það eigi að vera einhver önnur stofnun, sem þar hafi valdið að einhverju leyti a.m.k.

Það er áreiðanlega rétt, sem hér hefur komið greinilega fram, að breytingin á bankalöggjöfinni 1957 var mikilsvert spor í þá átt að gera Seðlabankann að sjálfstæðri stofnun. En þó að honum væri þá sett sérstök stjórn, stóðu samt eftir skipulagsleg tengsl við Landsbankann, og honum voru einnig falin viðskiptabankaleg störf, eins og t.d. starfræksla veðdeildarinnar. Það var ekki heldur, hvað sem menn segja um það, gengið tryggilega frá því, að stjórn bankans gæti ekki sett jafnvel ríkisstj. stólinn fyrir dyrnar í efnahagsmálum og torveldað störf hennar, eins og ég ætla að komið hafi greinilega fram á tímum vinstri stjórnarinnar frá 1956–58.

Það er því alveg ljóst, að með þessu frv. er verulega bætt úr ágöllum löggjafarinnar 1957 í þessum tveim mikilsverðustu atriðum, og það er mjög í samræmi við skoðanir okkar Alþb.- manna í þessum málum, enda er það ekkert launungarmál, að 1957 var gengið skemmra í þeim breyt., sem þá voru gerðar, heldur en okkar óskir höfðu staðið til, og raunar líka miklu skemmra en stefnuyfirlýsingar bæði Alþfl. og Framsfl. gáfu tilefni til að ætla að gert mundi.

Á hinn bóginn er það skoðun okkar, að um leið og þessar nauðsynlegu og réttu leiðréttingar væru gerðar á skipulagi og stjórn Seðlabankans, hefði átt að gera fleiri skipulagsbreytingar, og er ég þar hv. 1. þm. Norðurl. e. (KK) sammála, og þessar skipulagsbreytingar hefði átt að gera m.a. af hreinum hagkvæmniástæðum. Ég vil þar sérstaklega nefna til, að ég tel, að það hefði átt að leggja Framkvæmdabankann niður, en hans hlutverk er, eins og alkunnugt er, að langmestu leyti á því sviði, sem Seðlabankanum er ætlað að starfa á, og ég hef ekki heldur heyrt nein rök fyrir því, að þeirrar bankastofnunar sé þörf lengur eða hún hafi neitt sérstakt hlutverk að vinna í peningamálunum, a.m.k. ekki hlutverk, sem mætti ekki vinna á hagkvæmari hátt af Seðlabankanum og þá af viðskiptabönkunum, að því leyti sem það kynni að falla undir þeirra starfssvið.

Það er líka augljóst, að sú ráðstöfun að sameina störf Framkvæmdabankans Seðlabankanum hefði getað haft í för með sér mjög mikinn sparnað í rekstri bankakerfisins, en ég hygg ekkert ógagn hefði getað af því orðið. Og ég verð að segja það, að mér finnst það gegna furðu af ríkisstj., sem a.m.k. er alltaf með sparnaðarhjal á vörum og hefur jafnvel aflað sér sérstakra ráðunauta í þeim efnum til þess að benda sér á ýmislegt, sem mætti spara í ríkiskerfinu beint, og þá að sjálfsögðu í þeim stofnunum öðrum, sem því eru skyldastar, að hún skuli ekki hafa hugleitt þessi mál neitt út frá þeirri hlið.

En það er hér sem oftar, að reynslan hefur orðið sú, að það er gengið alveg í öfuga átt við sparnaðar- og hagkvæmnistefnuna, sem sagt er þó að hæstv. ríkisstj. vilji fylgja.

Í stað þess að vel mætti komast af með einn banka, við skulum segja eitt bankaráð og tvo bankastjóra, fyrir starfsemi bæði Seðlabankans og Framkvæmdabankans eiga nú að starfa tveir bankar með fjölmennu starfsliði að sjálfsögðu og samtals hvorki meira né minna en 14 bankaráðsmenn og bankastjórar. Við hvora þessa stofnun á að vera sérstök hagfræðideild, hvor með sitt tímarit t.d. og með miklu starfsliði, og skyld störf og þessar hagfræðideildir vinna eru svo líka unnin að sjálfsögðu af Hagstofu Íslands og líklega að einhverju leyti af svokölluðu efnahagsmálaráðuneyti.

Það mætti kannske búast við því, að það væri nú vel séð fyrir hagskýrslugerð með öllum þessum stofnunum. En þó held ég, að það sé ekki um deilt og kannske fáum betur kunnugt en hv. alþm., að þessi störf eru öll í slíkum molum, að þeir menn, sem vilja leita réttra upplýsinga, þurfa að deila um allra einföldustu og sjálfsögðustu hluti, sem allir eiga greiðan aðgang að með öðrum þjóðum. Það er því ekki um það að ræða, að þessi störf skili betri árangri en annars staðar, þar sem þau eru í jafnvel einfaldara formi.

Það var auðvitað hið rétta tækifæri til þess að gera slíkar skipulagsbreytingar sem þessar, sem ég hef nú minnzt á, nú um leið og verið var að gera aðrar breyt. á bankalöggjöfinni, og ég tel það höfuðgalla á þessu frv., að það tækifæri skuli ekki hafa verið notað.

En það hefur ekki bara verið látið undir höfuð leggjast að nota nú rétt tækifæri til sparnaðar og aukinnar hagkvæmni í rekstri bankastofnananna, heldur er beinlínis og það algerlega að ástæðulausu aukinn rekstrarkostnaður, eins og t.d. með fjölgun bankastjóra úr tveimur í þrjá, á sama tíma og starfssvið bankans er þrengt og gert mínna en það hefur áður verið.

Ég hef, eins og fram kom hjá hv. síðasta ræðumanni, flutt brtt. með honum um þetta atriði, þar sem við leggjum til, að bankastjórarnir verði aðeins tveir eins og verið hefur.

Það varpar kannske svolitlu ljósi á það, hve þessi ráðstöfun er þarflaus, að nú um alllangt skeið og þangað til fyrir tiltölulega fáum dögum var aðeins einn bankastjóri starfandi við þessa stofnun vegna forfalla sjálfs aðalbankastjórans af alkunnum orsökum. Ég hygg, a.m.k. hef ég ekki heyrt, að það hafi komið fram, að það hafi á nokkurn hátt torveldað starfsemi bankans, að aðalbankastjórinn hvarf þaðan frá störfum um nokkurra mánaða skeið, og virðist það benda til þess, að jafnvel einum manni væri fært að stýra þessari stofnun eða gegna þar störfum. Enn þá minni ástæða hlýtur þá að vera fyrir því að hafa bankastjórana þrjá, og ég vil taka undir það með hv. 1. þm. Norðurl. e., að ég sé ekki, að önnur rök geti legið til þeirrar ráðstöfunar en þau, að ríkisstj. sé umhugað um að hafa þarna eitt eða tvö bankastjórasæti til ráðstöfunar handa sínum gæðingum.

Ég mun ekki fara í neinn sparðatíning varðandi þau atriði frv., sem ég er óánægður með og tel að betur hefðu mátt fara. Þó kemst ég ekki hjá að minnast örlítið á tvö önnur atriði en þau, sem ég hef nú gert að umtalsefni.

Það er í fyrsta lagi, að með ákvæðum 5. gr. frv. er fyrirhugað, að stofnlánadeild sjávarútvegsins verði sérstök deild í Seðlabankanum. Þetta ákvæði tel ég að sé í algerri mótsögn við meginefni frv., þ.e.a.s. það meginefni þess að skilja starf viðskiptabankakerfis frá störfum Seðlabankans, og ég tel þetta vera til skemmda á frv. Samkvæmt því lagafrv., sem er hér tekið á dagskrá á þessum fundi, um stofnlánadeild sjávarútvegsins, opnun nýrra lánaflokka við stofnlánadeildina, þá á deildin, auk þess sem hún heldur að sjálfsögðu áfram innheimtu gamalla skulda frá tímum hinnar fyrstu stofnlánadeildar, að veita sjávarútveginum, fyrirtækjum við sjávarútveginn, lán gegn veðum í fasteignum, vélum og skipum. Ég held, að slík starfsemi eigi bæði samkvæmt eðli sínu og eins frá hagkvæmnisástæðum heima í viðskiptabanka eða viðskiptabönkum, og þar sem nú er starfandi sérstök stofnlánadeild fyrir sjávarútveginn í landinu, þ.e.a.s. Fiskveiðasjóður Íslands á vegum Útvegsbankans, þá hefði auðvitað verið langeðlilegast, að þessi starfsemi öll færi þar fram og engu síður fyrir það, þó að um hana gildi sérstök lög og sérstakar reglur.

Hv. 1. þm. Norðurl, e. hefur gert þeim þætti þessa frv., sem fjallar um birtingu innstæðufjár, bæði sparisjóða og innlánsdeilda, svo góð skil, að ég tel ekki þörf á að bæta þar miklu við, ekki sízt þar sem ég er honum algerlega sammála um þá hlið málsins og hef flutt með honum brtt. þar að lútandi.

Ég held, að sá verknaður að nota þær heimildir, sem settar voru í bankalöggjöfina 1957 um innstæðubindingu á fé sparisjóðanna, á þann hátt sem núv. hæstv. ríkisstj. hefur gert og hyggst gera, séu hvort tveggja í senn óverjandi gagnvart hagsmunum þeirra byggðarlaga í landinu, sem mest skortir framkvæmdafé, og jafnframt hrein heimska, skoðað frá hagsmunasjónarmiði þjóðarheildarinnar. Það kann að vera, að nauðsynlegt sé undir vissum aðstæðum að hafa heimildir og nota þær til þess að binda innstæðufé meiri háttar peningastofnana í því skyni að hafa hemil á lánsfjárþenslu og fjárfestingu og til þess að geta beint henni í réttar áttir, en sjálfsagt má þó oftast nær um slíkar ráðstafanir deila að meira eða minna leyti. Og það er vissulega mín skoðun, að almennt séð hafi ráðstafanir núv. hæstv. ríkisstj. í þessa átt verið skaðlegar fyrir atvinnulíf og framkvæmdir í landinu. En um hitt held ég að sé ekki hægt að deila, að sú framkvæmd, sem hæstv. ríkisstj. hefur gengizt fyrir á þessum heimildun: varðandi smærri innlánsstofnanir, eigi ekkert skylt við það að hafa heildarstjórn á peningamálum þjóðarinnar, þar sem hér er um að ræða svo sáralitlar upphæðir, að þær hafa bókstaflega enga þýðingu varðandi slíka heildarstjórn, þó að þær á hinn bóginn geti skipt verulegu máli fyrir fámenn og fátæk byggðarlög í landinu.

Ég held, að framkvæmd hæstv. ríkisstj. á gildandi heimildum varðandi sparisjóðina, við hliðina á árás hennar á rekstrarfé það, sem félagsmenn í samvinnufélögunum leggja þeim til gegnum innlánsdeildirnar, sé einhver rislægsta stjórnarathöfn, sem um getur á síðari tímum, og að það væri vissulega bezt fyrir hæstv. ríkisstj. sjálfa að taka nú sönsum og láta af þeirri fávíslegu stefnu sinni, sem hún hefur haldið til streitu varðandi það, og hv. þm. hafa vissulega tækifæri til þess að leggja sitt lóð á þá vogarskál með því að greiða till. okkar hv. 1. þm. Norðurl. e. atkv. sitt.