21.03.1961
Efri deild: 78. fundur, 81. löggjafarþing.
Sjá dálk 1260 í B-deild Alþingistíðinda. (1128)

180. mál, Seðlabanki Íslands

Frsm. 1. minni hl. (Karl Kristjánsson):

Herra forseti. Aðeins örfá orð í sambandi við ræðu hv. síðasta ræðumanns. Hann sagðist vera því mótfallinn, að bankalöggjöfin yrði endurskoðuð af nefnd, og taldi til þá ástæðu, að 1951 hefði verið skipuð nefnd, sem hefði unnið mikið starf, en enginn árangur hefði orðið af því starfi, og hann harmaði það, að árangur skyldi ekki hafa orðið.

Ég sé ekki betur en harmur hv. þm., ef hann er einhver, sé sönnun þess, að heppilegt væri einmitt, að nefnd starfaði með árangri að þessum málum. Og þó að hægt sé að nefna dæmi um það, að ekki hafi orðið árangur af nefndarstarfi, þá er það ekki sönnun þess, að þetta verkefni eigi ekki alveg sérstaklega við að vinna af nefnd.

Þá lýsti hv. 11. þm. Reykv. því yfir, að hann gæti ekki mælt með því, að samþykktar yrðu þær tillögur, sem við hv. 5: þm. Norðurl. e. leggjum fram um það, að ákveðið sé, að ákvæði 11. gr. nái ekki til minni sparisjóða og innlánsdeilda. Hann vildi réttlæta þá afstöðu sína gegn þessum tillögum með því, að þess mætti vænta, að ákvæðunum yrði ekki beitt harkalega. En hins vegar liggur það nú fyrir, að ákvæðunum á að beita harkalega. Í orðum hans gæti falizt það, að hann teldi, að þeir, sem með völd fara i þessu efni, seðlabankastjórn og ríkisstjórn, mundu taka tillit til aðstöðu vissra stofnana og þá stærðarinnar, taka tillit til munarins, sem enginn getur neitað að er á því, hvort um stóran sparisjóð og fémikla innlánsdeild er að ræða eða lítinn sparisjóð og litla innlánsdeild í fátæku umhverfi. En ég sé ekki betur en það sé útilokað, ef 11. gr. verður samþ. óbreytt, að þessir valdhafar megi taka sanngjarnt tillit í þessu efni, því að í 2. mgr. segir: „Seðlabankinn getur innan þessara takmarka breytt þessu hlutfalli, þegar ástæða þykir til, en sama hlutfall skal ætíð gilda um hvern flokk innstæðna hjá öllum innlánsstofnunum.“ M.ö.o.: sama skal hlutfallið, sömu aðferð skal hafa, sömu hlutfallskröfur á að gera til allra innlánsstofnana. Þess vegna er ekki hægt að hugga smáu aðilana, þá sem sárast þola þessi ákvæði, með því, að það geti orðið tekið sérstakt tillit til þeirra. Ég finn ekki betur en þarna sé beinlínis fyrir lagt, að eitt skuli yfir alla ganga. Það þarf að vísu ekki að nota hámarkið, en það á að nota sama hámark í hlutfallinu gagnvart öllum. Ég held þess vegna, að rök þau, sem hv. frsm. meiri hl. fjhn. flutti um þetta atriði, falli um sig sjálf. Og ef hann er þeirrar skoðunar, að misjöfn sé aðstaða sparisjóðanna og innlánsdeildanna til þess að þola gjaldbindinguna, þá á hann að fylgja till. okkar hv. 5. þm. Norðurl. e. til þess að tryggja það, að hér sé ekki harkalega beitt ákvæðum gagnvart smælingjum.