01.03.1961
Neðri deild: 71. fundur, 81. löggjafarþing.
Sjá dálk 1267 í B-deild Alþingistíðinda. (1141)

202. mál, raforkulög

Einar Olgeirsson:

Herra forseti. Ég vil leyfa mér í sambandi við þetta frv. að beina þeirri fsp. til hæstv. landbrh., hvort meiningin sé með þeirri lánsheimild, sem hér er farið fram á, að taka ef til vill eitthvað af þeim lánum erlendis. Það er tvímælalaust rétt, að það er allmiklu dýrara nú að framkvæma tíu ára áætlunina en upphaflega var hugsað og fjár þess vegna tvímælalaust þörf til þess. En það hlýtur að valda allmiklu um afstöðu Alþingis í svona málum, hvort meiningin sé að taka erlend lán til þeirra framkvæmda, sem hér eru fyrirhugaðar. Ég geng út frá, að sú lánsheimild, eins og eðlilegt er, sem þarna er talað um, sé einvörðungu vegna tíu ára áætlunarinnar, og við vitum öll, að tíu ára áætlunin er raunverulega fyrst og fremst svo að segja þjóðfélagslega nytsamt fyrirtæki á sama hátt og spítalar eða skólar, en ekki fyrst og fremst fjáraflafyrirtæki, sem stendur undir sínum rekstri. Ég vildi leyfa mér að biðja hæstv. ráðh. að upplýsa, hvort þetta sé meiningin.

Í öðru lagi vildi ég beina þeirri fsp. í sambandi við þetta mál til hæstv. ráðh., þar sem ég þykist vita, að hér sé einvörðungu átt við tíu ára áætlunina eg fé til hennar, hvort ríkisstj. hafi þegar tekið nokkrar ákvarðanir viðvíkjandi þeim framhaldsvirkjunum, sem orðin er alveg óhjákvæmileg nauðsyn á. Það hefur undanfarið í sambandi við öll okkar raforkumál verið svo, að við höfum allt of seint og raunar þá um leið ráðizt í allt of lítið, og hver dráttur, sem á ákvörðunum um slíkt verður, er þjóðfélaginu mjög dýr.

Nú er það svo, að mér ætti kannske að einhverju leyti að vera kunnugt um þessi mál, af því að ég á sæti bæði í þeirri Sogsvirkjunarstjórn, sem hingað til hefur haft með virkjanir að gera, og í raforkuráði. En við stöndum nú í okkar raforkumálum á þeim tímamótum, að Sogið er fullvirkjað hvað snertir vatnsföllin í því og aðeins hægt að bæta þar við vélum, þannig að sú næsta virkjun, sem verður að leggja í á Íslandi, er virkjun, sem enn þá er ekki ákveðið með lögum, hvaða aðili skuli leggja í. Sogsvirkjunarstjórninni ber ekki samkvæmt lögum að sjá um það, og það hefur ekki enn þá verið flutt neitt frv. af hálfu hæstv. ríkisstj. um, hvernig þessum málum skuli skipað í framtíðinni, hvort þar skuli höfð svipuð samvinna milli ríkisins og Reykjavíkurbæjar og verið hefur viðvíkjandi þessum allstóru virkjunum í Soginu eða hvort ríkið eitt á að vinna að þeim framkvæmdum. Það væri nauðsynlegt, að ríkisstj. og Alþingi kæmust fljótlega að niðurstöðu um þessi mál, helzt áður en þessu þingi lýkur, því að öll töf í þessum málum er okkur svo dýr, að það er illt að verða að súpa seyðið af því seinna. Þess vegna væri ákaflega æskilegt, ef hæstv. ráðh., þó að honum beri engin skylda til þess í sambandi við þetta mál beint, gæti gefið upplýsingar um, hvernig það mál stendur.