17.03.1961
Neðri deild: 77. fundur, 81. löggjafarþing.
Sjá dálk 1271 í B-deild Alþingistíðinda. (1146)

202. mál, raforkulög

Frsm. (Birgir Kjaran):

Herra forseti. Frv. þetta hefur verið til meðferðar i fjhn., og hefur n. haldið einn fund um málið. Efni frv. er rýmkun á lánaheimild fyrir fjmrh. vegna raforkumálasjóðs og rafveitna ríkisins.

Samkv. eldri lögum, nr. 5 frá 1956, þegar samin voru lög um 10 ára áætlun um rafvæðingu landsins, var gert ráð fyrir, að til þeirra framkvæmda mundi þurfa um 200 millj. kr., en síðan hafa, eins og kunnugt er, miklar verðbreytingar átt sér stað í landinu, og er þetta fé nú þegar notað að mestu, svo að hér er farið fram á að hækka þessa heimild upp í 350 millj., þ.e.a.s. um 150 millj., og er talið, að það muni nægja til þess að ljúka framkvæmdum fyrir árslok 1963.

Fjhn. hefur orðið sammála um að mæla með því við d., að frv. þetta verði samþ. óbreytt.