20.03.1961
Efri deild: 76. fundur, 81. löggjafarþing.
Sjá dálk 1283 í B-deild Alþingistíðinda. (1181)

213. mál, minnispeningur Jóns Sigurðssonar

Fjmrh. (Gunnar Thoroddsen):

Herra forseti. Frv. þetta fer fram á heimild til handa ríkisstj. til þess að láta slá sérstakan minnispening úr gulli í tilefni af 150 ára afmæli Jóns Sigurðssonar. Þar segir, að með forsetaúrskurði megi ákveða, að þessi peningur skuli vera mynt, er gjaldgeng sé hér á landi, og sé gildi hans 500 kr. Þá er í 2. gr. kveðið svo á, að pening þennan megi selja með allt að 50% álagi á nafnverð og að ágóða þeim, sem verða kunni af sölu minnispeningsins, skuli verja til framkvæmda á fæðingarstað Jóns Sigurðssonar, Rafnseyri við Arnarfjörð.

Undanfarin ár hefur verið unnið nokkuð að byggingum á Rafnseyri og hefur þar verið gerður fyrsti áfangi byggingar, þ.e. tveggja hæða íbúðarhús, og er ætlunin sú, að þarna verði skóli, sem verði heimavistarskóli fyrir allar sveitir Arnarfjarðar. Enn fremur megi nota þetta hús sem gistihús að sumarlagi. Auk þess þarf að sjálfsögðu að vera þar íbúðarhús, prestssetur, og kirkja sú, sem þar hefur staðið, er hrörleg, og er ætlunin að byggja þar nýja kirkju eða kapellu. Nokkurt fé hefur verið veitt undanfarin ár til þessara framkvæmda, en með þessu frv. er gert ráð fyrir að afla helzt alls þess fjár, sem þarf til að ljúka þessum framkvæmdum á þann veg, sem í frv. greinir.

Rafnseyri er landnámsjörð, hét áður Eyri í Arnarfirði. Þar bjó fyrstur Án rauðfeldur og kona hans Grélöð, sem réð bólfestu þeirra þar. Þau hjón bjuggu fyrst í Dufansdal, en þar þótti Grélöðu illa ilmað úr jörðu. Þá gerðu þau bú að Eyri, en þar þótti henni hunangsilmur úr grasi. En síðar bjó þar Rafn Sveinbjarnarson, sem var merkastur læknir hér á landi og ef til vill í norðurálfu allri á sinni tíð, og mun hann hafa þótt maklegastur þess, að staðurinn væri við hann kenndur, og hefur verið svo nú um allmargar aldir.

Tilgangur, þessa frv. er sá að afla fjár á þennan veg, sem hér greinir, til þess að þessum merka sögustað sé sýndur sá sómi, sem honum ber. Ég vænti þess, að þetta frv. fái samþykki hv. þdm., og legg til, að því verði vísað til 2. umr. og fjhn.