06.12.1960
Neðri deild: 33. fundur, 81. löggjafarþing.
Sjá dálk 1289 í B-deild Alþingistíðinda. (1200)

42. mál, fræðslumyndasafn ríkisins

Frsm. meiri hl. (Benedikt Gröndal):

Herra forseti. Menntmn. hefur fjallað um frv. til l. um fræðslumyndasafn ríkisins og orðið sammála um að mæla með frv., eins og það er lagt fram í hv. d. Hins vegar er ágreiningur í n. um eina brtt. við frv.

Óþarfi er að fjölyrða um, hversu kvikmyndir, kyrrmyndir og önnur tæki skyldrar náttúru hafa færzt í aukana á síðari árum og orðið mikilsverð kennslutæki, auk þess sem mjófilmur eru mikið notaðar í skemmtanalífi, þar sem auðvelt er að fara með þær. Hefur í vaxandi mæli verið unnt að fá slíkar filmur lánaðar hér á landi. Það er því ærið tilefni til þess að koma föstum fótum undir fræðslumyndasafn ríkisins, eins og gert er með því frv., sem hér liggur fyrir.

Ég mun ekki gera frv. frekar að umræðuefni, enda var það gert í framsögu, en vil aðeins gera grein fyrir þeirri brtt., sem meiri hl. n. flytur á þskj. 165.

Samkv. frv. er gert ráð fyrir, að Alþingi veiti í fjárlögum ár hvert fé til rekstrar fræðslumyndasafns ríkisins, og skal sú fjárveiting eigi vera lægri en sem svarar 4% af skemmtanaskatti umliðins árs. Ef svo færi, að fjárveiting yrði eitthvað nálægt þessu lágmarki, — og ég hygg það ekki mikla svartsýni, miðað við reynslu, að þess sé varla að vænta, að hún fari mikið upp úr því, — munu þessar tekjur hrökkva ákaflega skammt. Möguleikar þess fræðslumyndasafns, sem hér hefur verið endurskipulagt til þess að gegna því hlutverki, sem því er fengið með þessum lögum, eru þar með mjög skertir. Af þessum ástæðum var nokkuð um það rætt í n., hvort möguleikar væru á að finna einhvern eðlilegan tekjustofn, sem gæti rýmkað fjárhag safnsins, og þyrfti þó ekki þar með að vera útilokað, að Alþingi gæti sýnt því örlítið meiri rausn en það lágmark, sem hér er lögfest, því að verkefnin eru mjög mikil. Og meiri hluti n. varð sammála um að leggja til brtt., sem er á þá leið, að menntmrh, sé heimilt — hér er aðeins um heimildarákvæði að ræða — að ákveða gjald fyrir lán eða leigu á mjókvikmyndum, 16 eða 8 mm, — kvikmyndahúsin sýna yfirleitt breiðari filmur, 32 mm. — og skulu stofnanir eða einstaklingar, sem að staðaldri lána eða leigja slíkar kvikmyndir, innheimta gjaldið og það renna til fræðslumyndasafns.

Í frv., sem n. er öll sammála um, er gert ráð fyrir þeim möguleika, að safnið megi í vissum tilvikum taka eitthvert gjald fyrir leigu kvikmynda. Hins vegar er augljóst, að fræðslumyndasafnið getur ekki sett upp gjald fyrir sínar kvikmyndir, ef aðrir aðilar, sem starfa á svipuðum grundvelli eða réttara sagt hafa svipaða starfsemi með höndum, taka ekkert slíkt gjald. Nú vil ég taka fram, að það var ætlun nm., sem að þessari brtt. standa, að ef þetta ákvæði yrði að lögum og ef menntmrh. hagnýtti sér það, þá kæmi að sjálfsögðu aldrei til greina að taka gjald fyrir lán eða leigu kvikmynda til skóla eða sambærilegra stofnana. Þetta ákvæði byggist á því, að það hefur farið mjög í vöxt hér á landi, sérstaklega í félagslífi, að nota kvikmyndir sem skemmtiatriði á samkomum og fundum. Þar er ekki eingöngu um að ræða hreinar fræðslumyndir, heldur er ásókn mjög mikil í myndir, sem ýmist eru hreinar skemmtimyndir eða má segja að séu á mörkum þess, hafi bæði fræðslu- og skemmtigildi. Það er fyrst og fremst í sambandi við slík kvikmyndaútlán, sem alls ekki væri óeðlilegt, að nokkurt gjald gæti komið til, og væri þá raunverulega eðlilegast að líkja því við skemmtanaskatt, sem tekinn er af flestum öðrum formum skemmtana. Hér er ekki um að ræða að leggja skatt á það, sem eru hreinar fræðslumyndir, notaðar á vettvangi, þar sem hagnýting þeirra er eingöngu í fræðslutilgangi. Sem sagt, hér er um að ræða heimildarákvæði, og mundi það að sjálfsögðu fara eftir því, hvað yfirstjórn fræðslumyndasafnsins og menntmrh. sýnist, hvort til þess verður gripið. Það virðist augljóst, vegna þess hve þessi starfsemi er mikil í landinu, að hafa mætti af þessu tekjur, sem fræðslumyndasafn ríkisins munaði verulega um, þó að lágt gjald væri af láni hverrar kvikmyndar, sem t.d. væri sýnd á félagsskemmtun eða við slíkt tilefni, eða menn, sem hafa aðstöðu til, fá til að sýna á gleðisamkomum eða í veizlum heima hjá sér, eins og töluvert mikið tíðkast nú, a.m.k. hér í Reykjavík. Gjöld i slíkum tilvikum geta engan veginn kallazt óeðlileg, og töldum við því rétt að hafa þessa heimild í l., í þeirri von, að hún gæti orðið til þess að gera þessu safni greiðari veginn til þess að framkvæma margar af þeim ágætu hugmyndum, sem fram koma í 2. gr., þar sem segir frá hlutverki safnsins.