06.12.1960
Neðri deild: 33. fundur, 81. löggjafarþing.
Sjá dálk 1291 í B-deild Alþingistíðinda. (1202)

42. mál, fræðslumyndasafn ríkisins

Frsm. meiri hl. (Benedikt Gröndal):

Herra forseti. Ég get víssulega verið sammála hv. síðasta ræðumanni um, að æskilegt og sjálfsagt er að vinna að því að fá eins mikla fjárveitingu og Alþingi treystir sér til að veita til kvikmyndasafnsins. Ég get einnig verið sammála honum um, að skattlagning. er gengin langt í þessu landi okkar, og það er ástæða til að staldra við hvern nýjan skatt, sem mönnum dettur í hug. En einn hlutur leiðir af sér annan. Við höfum nú þegar allmikla skattlagningu á dreifingu og sýningu kvikmynda, sem eru 32 mm á breidd. Þessar myndir eru sýndar um allt land og seldur að þeim aðgangur. Nú hefur það færzt í aukana, bæði í höndunum á innlendum og erlendum aðilum í okkar landi, að kvikmyndir, sem eru ekki 32 mm, heldur 16 mm á breidd, eru lánaðar út og oft kvikmyndasýningarvélar með til að sýna þær. Þetta er sýnt á samkomum manna, á skemmtunum, þar sem fólk oft borgar inngangseyri í einu eða öðru formi, og gegnir út af fyrir sig nákvæmlega sama hlutverki og breiðari myndirnar.

Það kemur fyrir í kvikmyndahúsum, að sýndar eru 32 mm kvikmyndir, sem eru tvímælalaust fræðslukvikmyndir. Engum dettur í hug að undanskilja þær þeim skatti, sem er á þessum kvikmyndum. En spurningin er: Eigum við að skattleggja eingöngu 32 mm kvikmyndir, en ekki undir nokkrum kringumstæðum 16 mm og kalla það óviðfelldna nýja skattlagningu, þó að einhver gjöld séu einnig lögð á mjórri filmurnar? Ég sé ekki þann stórkostlega mun, að neitt sé athugavert við það, ekki sízt þegar þetta yrði eingöngu til að bæta fræðslumyndasafn ríkisins, sem sjálft mundi þá sjá til þess, að meira væri af íslenzkum kvikmyndum til að lána til þeirra sömu aðila, sem greiddu þessi litlu gjöld. Það er ekki verið að draga þetta til almennra ríkisþarfa, heldur er eingöngu um að ræða, hvort það eigi að einhverju leyti að láta 16 mm kvikmyndir bera örlítið af þeirri byrði að koma hér upp góðum mjófilmum af íslenzkum efnum t.d. og öðru slíku. Ég sé því enga ástæðu til annars en láta þetta heimildarákvæði í lög, því að síðar verður í höndum ráðh. samkv. ráðum þeirra manna, sem þessu safni og þessum kvikmyndamálum stjórna, hvort og hvernig þessi heimild yrði framkvæmd.