06.12.1960
Neðri deild: 33. fundur, 81. löggjafarþing.
Sjá dálk 1292 í B-deild Alþingistíðinda. (1203)

42. mál, fræðslumyndasafn ríkisins

Einar Olgeirsson:

Herra forseti. Í till. meiri hl. menntmn. er gert ráð fyrir að gefa menntmrh. heimild til þess að ákveða gjald fyrir lán eða leigu á mjófilmum. Mér finnst satt að segja dálítið óeðlilegt, ef það ætti að samþykkja þessa tillögu, að samþykkja í svona formi ákvæði um skatta. Þetta þýðir, að ráðh. er heimilt að ákveða ákveðið gjald, eftir því sem hann álítur hentugt eða rétt. M.ö.o.: ráðh. er gefið ótakmarkað vald til þess að ákveða, hvaða skatt skuli leggja á. Ég man ekki eftir svona formum fyrir skattlagningu. Ég held, að það sé a.m.k. lítið um það. Og með tímanum, ef það væru ráðherrar, sem vildu hagnýta svona heimild til þess að afla þó nokkuð ríflegra tekna og hafa hins vegar til hliðsjónar þá skatta, sem lagðir eru á kvikmyndahúsin og þeirra sýningar, þá gæti þarna orðið um þó nokkra tekjuöflun að ræða, ef þetta væri hagnýtt. Ég held þess vegna, að svona form fyrir þetta sé ófært, strax formið, að lögfesta, að menntmrh. skuli ákveða þetta gjald. Hér sagði hv. frsm. meiri hl. og formaður menntmn., að náttúrlega mundu t.d. skólar verða þarna undanþegnir. Það er ekkert um það rætt sérstaklega í þessu, og eins og þessi brtt.. er orðuð, þá sýnist mér, að það mundi vera hægt kannske að undanþiggja hvað sem væri og líka hafa hvað sem væri, það væri allt á valdi menntmrh., hvernig með þetta væri farið. Ég held þess vegna, að það sé nokkuð flausturslegur frágangur á þessari brtt.

Viðvíkjandi sjálfu efninu og tilganginum með þessu, þá er það svo, að okkar félagslíf á í allmiklum erfiðleikum. Við, sem þekkjum það undir öðrum formum, tökum máske enn þá betur eftir því en þeir yngri, hvílíkar breytingar eru að verða þarna á. Fyrir 30–40 árum þótti það sjálfsagt í einu félagi, t.d. verkamannafélaginu, sem ég var í, að það yrðu að mæta 2/3 á fundi, til þess að fundir væru löglegir. M.ö.o.: fyrir 30–40 árum var fundarsókn yfirleitt slík, aðeins til þess að hlusta á mál manna, að ég býst við, að flestum yngri mönnum, sem vita ekkert eins leiðinlegt og fundi og ræður og fyrirlestra, mundi þykja það alveg undrum sæta. Fyrir 30-40 árum var það líka svo, að einn maður gat auglýst fyrirlestur hér í Reykjavík og jafnvel fengið hér fullt hús bara við að hlusta á hans mál. Slíkt kemur vart fyrir nú. Öll félagsstarfsemi á við mjög mikla erfiðleika að etja, vegna þess að kröfur yngri kynslóðarinnar, nýju kynslóðarinnar eru þær, að hugmyndir og skoðanir séu tjáðar í allt öðru formi en við, sem eldri erum, vorum vanir við. Það var málið sjálft, framsetningin, sem var höfuðatriðið í þessu hér áður. Nú lítur næstum því út fyrir, að það, sem fólkið fyrst og fremst krefst í þessum efnum, sé eins konar myndletur, það sé í raun og veru að sýna hlutina í kvikmyndum eða slíku. Og ég held, að við, sem höfum yfirleitt eitthvað með félagsstarfsemi að gera, verðum að fara að miða hana miklu meira við það, ef á að vekja verulegan áhuga fyrir félagsstarfsemi hjá þeirri kynslóð, sem er að vaxa upp í landinu, að lifandi myndir taki miklu meira rúm, jafnvel meira rúm en hið talaða mál, eða a.m.k. skipi mjög rúman sess við hliðina á því. Ég held þess vegna, að sem þáttur í almennri félagsstarfsemi í landinu séu kvikmyndir og þá ekki sízt svona mjófilmur mjög nauðsynlegar, álíka nauðsynlegar og hið talaða mál var t.d., þegar ég og mínir jafnaldrar voru ungir. Ég held þess vegna, að það sé nokkur misskilningur hjá hv. formanni menntmn., þegar hann í sinni ræðu hér áðan talar um, að þessar mjófilmur og slíkt sé fyrst og fremst fengið til þess að sýna á skemmtunum. Það má vel vera, ég er ekki svo vel kunnugur skemmtanalífi, að ég vilji neitt fortaka það. En eitt er mér alveg ljóst af þeirri þekkingu, sem ég hef á félagsstarfsemi í landinu og hennar erfiðleikum, að fyrir þá almennu félagsstarfsemi, sem ekki er nein skemmtistarfsemi, eru kvikmyndasýningar á fræðandi og góðum kvikmyndum að verða, ef þær eru ekki orðnar það þegar, mjög veigamikill þáttur og þurfa að verða það, svo framarlega sem almenn félagsstarfsemi í landinu á að blómgast, að vísu með nýjum hætti, en blómgast þó eitthvað svipað og fyrr. Og af því að flestir alþm. hafa meira eða minna með alls konar félagsstarfsemi að gera, þá held ég, að við hljótum að geta komið okkur saman um, að það sé ekki nema eðlilegt, að við gerum slíkar menningarlegar sýningar á þessum mjófilmum, sem helzt eru handhægar í slíkum efnum, að verulegum þætti í okkar félagslífi. Ég skal alveg viðurkenna með hv. formanni menntmn., að skemmtanir út af fyrir sig og þar sem eingöngu væri leigt til skemmtana, þar sem aðgangur er seldur, þar mundi máske nokkuð öðru máli skipta. En ég held, að meginið af skemmtunum í landinu, þar sem aðgangur er seldur að, sé skattað, þannig að við klófestum eitthvað af þeim gegnum skemmtanaskattinn og annað slíkt, og þó hef ég heyrt frá sumum félögum jafnvel kvartanir um það, að meira að segja skemmtanahlið almenns félagsskapar sé orðið allerfitt að rækja vegna skatta.

Ég held þess vegna, að við verðum að athuga þessar spurningar frá því sjónarmiði, hvort sú almenna félagsstarfsemi í landinu, félög, sem reyna að halda fundi fyrir sína meðlimi og til þess að draga að fundunum sýna einhverjar menningarlegar kvikmyndir, — hvort slík félagsstarfsemi eigi að bera skatt eða ekki. Ég held, að það sé raunverulega um bað að ræða. Og það álít ég alveg fráleitt. Ég álit, að við ættum þvert á móti að stuðla að því, að slík félagsstarfsemi ætti sem auðveldast uppdráttar. Hv. formaður menntmn. ræddi réttilega um, að það mætti ekki t.d. skatta það. sem væri sýnt í skólum. Við skulum hugsa okkur, þegar hins vegar íþróttafélög, ungmennafélög, verkamannafélög, samvinnufélög eða önnur slik félög fá leigðar kvikmyndir, íslenzkar eða erlendar, til þess að sýna á sinum fundum. Er eðlilegt, að það sé endilega farið að taka frekar skatt af því? Ég held. að bað væri ekki rétt af okkur að gera það. Ég held, að við eigum að stuðla að því, að þessi félagsstarfsemi okkar, sem sérstaklega yngri kynslóðinni finnst fátækleg, þegar þar eru einvörðungu fluttir fyrirlestrar eða erindi eða ræður eða máske einhver unnlestur, — mér finnst, að þessi félagsstarfsemi okkar í landinu þurfi þeirrar uppörvunar. sem það er að hafa menningarlegar og fræðandi kvikmyndir til þess að sýna. Ég er að vísu ekki vel kunnugur þessum myndum. Hv. formaður menntmn. minntist á, að sumt af þessum myndum væri e.t.v. bara skemmtandi eða slíkt. Jafnvel þótt svo væri stundum, svo lengi sem það eru að öðru leyti myndir, sem eru ekki siðspillandi að neinu leyti, þá gerði það náttúrlega ekki til, þó að slíkt e.t.v. slyppi þannig undan. Ef maður sæi, að félög ætluðu almennt að fara að misnota þetta eða eitthvað slíkt, þá hefur löggjafarvaldið alltaf möguleika til þess að grípa þarna inn í.

Ég held þess vegna, að það væri ákaflega æskilegt, að þessi almenna félagsstarfsemi gæti sloppið við skattlagningu í þessu efni, og álít, að það væri ákaflega heppilegt, ef menntmn., sem annars er sammála um þetta frv., vildi athuga það betur, hvort ekki væri hægt að koma þessum málum þannig fyrir, að slíkt væri öruggt.

Þá er hitt spursmálið, um þann góða vilja menntmn. til þess að reyna að afla fræðslumyndasafni ríkisins tekna. Ef við viljum gera aðrar ráðstafanir en að viðhalda þeim skatti, sem í l. er ákveðið að skuli renna til safnsins, eða reyna að hækka hann, ef þess væri nokkur kostur, sem varla er nú mikill, og ef við vildum lita eitthvað í kringum okkur í þessu efni, þá held ég, að við ættum að bera annars staðar niður. Það er alls ekki fjarri lagi, að eitthvað af þeim tekjum, sem skapast við sókn hinna almennu kvikmyndahúsa, gæti líka runnið til þess að reisa eða efla fræðslumyndasafn ríkisins. Ég vil m.a. benda á eitt: Ég sé, að hér í Reykjavík er nú verið að byggja, sumpart búið og sumpart verið að byggja tvær stórar hallir, sem tvö kvikmyndahús hins opinbera raunverulega standa að, sem bæði hafa sínar tekjur af happdrætti. Ég á þar við annars vegar það stóra kvikmyndahús, sem Dvalarheimili aldraðra sjómanna mun hafa reist, og hins vegar þá kvikmyndahöll, sem háskólinn er að byggja. Bæði tvö fá sínar tekjur af happdrætti, sem ríkið hefur gefið þeim einkarétt til þess að hafa með höndum. Ég sæi satt að segja ekkert eftir því, þó að einhver ofur lítil prósenttala af þessu happdrætti rynni að lögum til fræðslumyndasafns ríkisins. Ég held, að það mundi ekki skaða þessi annars vafalaust ágætu fyrirtæki um neitt sem héti, og ég held, að það væri miklu, miklu eðlilegra en að skatta útlán þessara mjófilma, sem ég þar að auki veit ekki, hve ríflegur skattstofn yrði, því að töluvert eftirlit mundi þurfa, til þess að það næðist inn, og engum finnst víst heppilegt að byrja neinar nýjar söluskattaaðferðir.

Ég held þess vegna, að það væri ákaflega æskilegt, ef menntmn. vildi athuga, hvort það gæti ekki heldur orðið samkomulag um að setja einhvern ofur lítinn skatt á þessar tekjur, sem þessi kvikmyndahús raunverulega fá af þessum happdrættum. Það væri ekki nema eðlilegt, að þau væru látin hjálpa eitthvað til að efla fræðslumyndasafn ríkisins meira en þau gera með skemmtanaskattinum, — og eitthvað af þeim mun undanþegið þeim skatti. Ég held þess vegna, að það mundu bæði verða öruggari og sanngjarnari tekjur, sem fengjust með því móti.

Svo er hitt. Ég held, að ég hafi tekið rétt eftir, að hv. form. menntmn. hafi sagt, að meiningin væri, að það yrði þá skattur líka á fræðslumyndasafn ríkisins eða þess útlán, þegar til þess kæmi. Er nú ekki rétt af okkur að reyna að komast hjá því? Er ekki rétt af okkur, einmitt vegna þess að hér er um hreina menningarstarfsemi, hreina uppeldisstarfsemi að ræða, að við ýtum undir það, að einmitt þessar fræðslumyndir séu lánaðar út, okkur þyki vænt um, að það séu sem flestir í landinu, sem hefðu áhuga á að fá slíkar fræðslukvikmyndir lánaðar frá fræðslumyndasafninu, og við værum yfirleitt ekki að setja skatt á þær?

Ég held, að við verðum að líta svo á, að fræðslukvikmyndir séu bókstaflega einn þáttur í skólakerfi, jafnvel þótt það skólakerfi sé líka fyrir þá fullorðnu. Margt í okkar skólakerfi er gamaldags, þó að það fari batnandi hjá okkur, og engum efa er bundið, að það eru fáir hlutir, sem hafa önnur eins áhrif á fólk og einmitt kvikmyndir, bókstaflega uppeldisáhrif þeirra, hvort sem við viljum nú telja þau til góðs eða ills. En a.m.k. þegar við erum oft að ræða um slæm áhrif af smekklausum eða siðspillandi kvikmyndum, þá ættum við að ýta því meira undir, að þær myndir, sem fyrst og fremst eru til fræðslu og menningar, yrðu sem mest og sem víðast sýndar, og þess vegna um leið gera það sem allra ódýrast fyrir alla aðila að fá þær.

Ég vil eindregið óska eftir því, ef hv. menntmn. hefði ekki sérstaklega á móti því, að þetta mál væri athugað betur, — það ætti ekkert að þurfa að tefja frv., — hvort það gæti orðið samkomulag um eitthvað í slíkum efnum, sem gæfi fræðslumyndasafni ríkisins heldur meiri tekjur, en færi ekki inn á þá leið að hefja þessa skattlagningu á félagsmálastarfsemi í landinu. Ef hv. menntmn. og hæstv. forseti gætu orðið við því, þá vildi ég helzt leggja til, að málinu væri frestað núna til þess rétt að freista þess, hvort slíkt samkomulag næðist þá.