06.12.1960
Neðri deild: 33. fundur, 81. löggjafarþing.
Sjá dálk 1296 í B-deild Alþingistíðinda. (1204)

42. mál, fræðslumyndasafn ríkisins

Frsm. meiri hl. (Benedikt Gröndal):

Herra forseti. Út af fyrsta atriðinu, sem hv. 3. þm. Reykv. færði fram gegn þessari brtt., að formið á henni sé ófært, vil ég aðeins benda á, að ég tel þegar nokkur fordæmi, og mér dettur strax í hug, að menntmrh. hefur vald til þess að ákveða afnotagjald útvarps. Er þar ekki um minna atriði að ræða en það, sem hér kemur til, svo að ef einhverjir stórhættulegir menn eru menntamálaráðherrar, sem vildu misbeita slíku valdi, þá gætu þeir vissulega lagt þungar byrðar á þjóðina gegnum það gjald, í samanburði við það, sem til greina kæmi í sambandi við kvikmyndir.

Um allt það, sem hv. þm. sagði um þýðingu kvikmynda í félagsstarfsemi nútímans, er ég honum hjartanlega sammála. Það er einmitt þessi skilningur á því nýja hlutverki, sem kvikmyndir og önnur slík tæki hafa í okkar félagslífi, sem því veldur, að þetta frv. er fram komið og tilraunir eru gerðar til þess að koma fræðslumyndasafni hér á fastari grundvöll. Ég hef dálitla reynslu af þessum efnum, því að um nokkurra ára skeið stjórnaði ég allmikilli kvikmyndadreifingu á vegum samvinnufélaganna hér á landi. Og reynslan er sú, að það er ekkert á þessu sviði til, sem fólkið vill frekar sjá en íslenzkar kvikmyndir og þar næst kvikmyndir með íslenzkum texta. Einmitt þessi tvö atriði eru liðir d og g í 2. gr. frv., þar sem talið er upp hlutverk þessa fræðslumyndasafns. Ef þetta fræðslumyndasafn getur gert eitthvað á þessu sviði, þá er það ómetanlegt.

Eins og nú standa sakir, er það meiri eða minni tilviljunum háð, hvað einstök félög eða einstakir menn geta áorkað í gerð íslenzkra kvikmynda. Hins vegar vil ég fullyrða, að yfirgnæfandi meiri hlutinn af þeim kvikmyndum, þeim mjófilmum, sem eru lánaðar og leigðar út hér, eru útlendar kvikmyndir með erlendum textum. Þess vegna vildi ég biðja menn að hugsa ekki það, sem hér er verið að tala um. sem skatt og draga þar með inn í þetta mál allar þær tilfinningar, sem fylgja í hvert skipti, sem nefndur er nýr skattur. Hér er um það að ræða, hvort við eigum að láta þessa dreifingu á mjófilmum, — það eru þúsundir kvikmynda lánaðar út á ári, — hvort við eigum að láta dreifinguna bera ofur lítið gjald, sem rennur í sjóð fræðslumyndasafnsins til þess að gera því fjárhagslega kleift að láta gera íslenzka texta við útlendar kvikmyndir og gera íslenzkar kvikmyndir og skapa þannig með nýrri eign íslenzkra kvikmynda nýja möguleika til þess að auðga félagslíf okkar með betri myndum en áður. Ég held, að félög, sem borguðu slíkt gjald fyrir leigu á kvikmynd, væru bókstaflega að stuðla að því, að þau sjálf gætu fengið eitthvað betra en það, sem erlend sendiráð lánuðu þeim, eftir tvö eða þrjú ár.

Einhvern tíma hefðu menn sagt, að hér væri á mjög takmörkuðu sviði um lítið sjálfstæðismál að ræða, hvort við eigum að hafa ráð á að velja sjálfir kvikmyndir og setja við þær íslenzkan texta, láta sjálfir gera þær kvikmyndir, sem við teljum að fólkið vilji sjá og eigi að sjá, eða hvort við eigum að sætta okkur við það, að 9/10 hlutar af þessum stórvaxandi þætti í félagslífi í landinu séu meira eða minna í höndunum á erlendum ríkjum. Það er um þetta að ræða. Ég vil því biðja menn að hugsa um þessa litlu tilfærslu, ekki sem einhvern voðalegan nýjan skatt, heldur aðeins það, hvort félagslífið sjálft á að leggja þarna örlítið i sjóð. Mín reynsla af þessu er sú, að oft megi segja, að menn beri meiri virðingu fyrir því, sem þeir þurfa að borga örlitið gjald fyrir, heldur en hinu, sem fleygt er í þá frítt. Það er orðið svo mikið, sem fleygt er fyrir hvers manns dyr hér af prentuðu máli og öðrum slíkum hlutum, að virðingin er orðin dálítið bundin því, að það sé frumkvæði einstaklingsins sjálfs eða félagsins, sem ræður því, hvað hann fær, og að örlítið komi í staðinn, þannig að 50–100 kr. fyrir lán á einni kvikmynd er hreint ekki neinn skattur.

Þannig er þetta hugsað, og af þessum sökum tel ég alls ekkert óeðlilegt við að reyna að endurskipuleggja dreifingu á mjófilmum og kyrrmyndum og öðru skyldu efni í landinu á þann hátt, að menn leggi örlítið af mörkum, þegar þeir fá kvikmynd, sem getur svo bjargað einum fundi í félaginu, og gjaldið renni til að hjálpa kvikmyndasafni ríkisins eða fræðslumyndasafni til að koma upp myndum með íslenzkum texta og af íslenzkum efnum, sem síðar gætu gert þessu sama félagi kleift að fá eftir 2 ár góða íslenzka kvikmynd. Ég þekki reynsluna af því, þegar hægt var að bjóða myndir eins og samvinnumyndina „Viljans merki“ eða litmyndirnar, sem Skaftfellingafélagið hefur látið taka af lifnaðarháttum fyrr, og annað slíkt. Nú fyrir skömmu gengu þingeyskir bændur um salina hér í kringum okkur, milli nefnda og þingmanna, og báðu um, að einhverjir tækju upp það mál að gera íslenzka þjóðháttakvikmynd. Þetta er stórkostlegt menningarmál, og ekki aðeins það, heldur hef ég reynslu fyrir því, að það mega vera merkilegar útlendar myndir, sem fólk hér vill heldur fá til að sýna á sínum samkomum en slíkar íslenzkar kvikmyndir. Ég sé því enga ástæðu til þess að amast við þessari hugmynd, og hélt ég, að hún væri minni og sjálfsagðari en svo, að hún þyrfti að kosta þessar umr., þó að þær séu út af fyrir sig fróðlegar.

Hv. þm. sagði undir lokin, að þetta gjald mundi koma líka á fræðslumyndasafn ríkisins. Það er einmitt þar, sem hugsanakeðjan byrjar, vegna þess að í frv., sem við erum allir sammála um, er gert ráð fyrir þeim möguleika í 5. gr. Þar segir, að menntmrn. geti í reglugerð sett fyllri ákvæði um starfsemi og rekstur safnsins, m.a. kveðið á um meðferð, vörzlu, útlán eða leigu mynda og tækja. Þetta var í frv. frá byrjun og eitt af því, sem við erum allir sammála um, og við sjáum, að þetta safn getur varla sett smágjald fyrir leigu til ýmissa aðila á kvikmyndum, ef aðrir aðilar, sem hafa nægilegt fjármagn og kannske önnur sjónarmið en þetta fræðslumyndasafn okkar eigin ríkis, mega í samkeppni lána út kvikmyndir fyrir ekki neitt. Þetta er m.a. til þess að skapa þessu nýja myndadreifingarkerfi möguleika á því jafnrétti, að ef það verður talið nauðsynlegt að framkvæma þetta greinarákvæði um, að safnið sjálft leigi út myndir, þá sé svipað kerfi haft um aðra aðila.

Ég sé enga ástæðu til annars en verða við óskum hv. þm. um að fresta atkvgr. eða ljúka ekki umr., þannig að menn geti hugsað þetta örlítið meira. Þetta er ekki mál, sem liggur svo mikið á, og ég vil því mæla með ósk hans um það, að atkvgr. verði frestað.