20.03.1961
Efri deild: 76. fundur, 81. löggjafarþing.
Sjá dálk 1299 í B-deild Alþingistíðinda. (1221)

42. mál, fræðslumyndasafn ríkisins

Frsm (Auður Auðuns):

Herra forseti. Svo sem fram kemur í aths. við frv. þetta, voru fyrstu lög, sem sett voru hér á landi um kennslukvikmyndir, frá árinu 1937.

Það er alkunna, hve kvikmyndir, tónbönd og reyndar kyrrmyndir líka ryðja sér æ meir til rúms við kennslu, og notkun þeirra hefur stóraukizt einnig í öðru sambandi. Kennslumyndasafnið er nú, að ég ætla, undir stjórn fræðslumálaskrifstofunnar, og við það munu vera starfandi tveir menn.

Það er sjálfsagt orðið tímabært og vei það að endurskoða þær reglur, sem gilda um kennslukvikmyndasafnið. Með þessu frv. um fræðslumyndasafn ríkisins, ef að lögum verður, verða settar nýjar reglur um safnið, verksvið þess aukið og því sett sérstök stjórn.

Fræðslumyndasafninu er ekki ætlað að vera einskorðað við skóla og kennslumál. Í 2. gr. frv. ræðir um hlutverk safnsins. Því er m.a. ætlað að efla íslenzka kvikmyndagerð og þá fyrst og fremst menningar- og fræðslukvikmyndagerð og stuðla þar að framförum í tækni og kunnáttu um myndatökur. Einnig er safninu ætlað það hlutverk að útvega hljómplötur og tónbönd til notkunar við fræðslu og félagslíf í skólum.

Í 2. gr. er hlutverk safnsins talið upp í 7 stafliðum: Ég vil í þessu sambandi minnast á f-lið, þar sem segir, að hlutverk safnsins skuli m.a. vera að hafa samráð við menntamálaráð Íslands um gerð fræðslu- og menningarmynda.

Í athugasemdum við frv. er m.a. að því vikið, að nauðsynlegt sé að kvikmynda ýmsa þjóðlífshætti og vinnubrögð, sem eru að hverfa með þjóðinni. Því minnist ég á þetta, að til menntmn, beggja þingdeilda, að ég ætla, hefur borizt erindi frá nokkrum mönnum, þar sem þeir fara fram á það, að menntamálanefndir beiti sér fyrir því, að á fjárlögum verði veitt fé til að hefja kvikmyndun á þjóðháttasögu Íslendinga. Það virðist falla beint undir hlutverk fræðslumyndasafns ríkisins, eins og það kemur fram í 2. gr. frv., að beita sér fyrir töku slíkra mynda. Ég vildi láta þessa getið vegna þess, að erindi þetta hefur legið hjá menntmn. og verið þar vilji til þess að greiða fyrir þessu, en virðist sem því máli sé að því leyti komið í höfn, að gerð slíkra mynda fellur einmitt undir f-lið 2. gr. frv.

Með frv. er lagt til, að fjárveiting til fræðslumyndasafnsins skuli eigi vera lægri árlega en sem svarar 4% af skemmtanaskatti umliðins árs. Það munu vera nú 250 þús. kr., sem ætlaðar eru til safnsins á fjárlögum.

Eins og fram kemur í nál., hefur menntmn. lagt til, að frv. verði samþykkt, þótt einstakir nm. áskilji sér rétt til að flytja brtt. eða fylgja brtt., sem fram kunna að koma. Ég vísa að öðru leyti til aths. við lagafrv. og sé ekki ástæðu til þess að fjölyrða um það írekar að svo komnu.