23.03.1961
Efri deild: 80. fundur, 81. löggjafarþing.
Sjá dálk 1301 í B-deild Alþingistíðinda. (1232)

217. mál, landnám, ræktun og byggingar í sveitum

Landbrh. (Ingólfur Jónsson):

Herra forseti. Frv. það, sem hér er um að ræða, er samið af landnámsstjóra, og er með því ætlazt til, að nokkur leiðrétting sé gerð á því, sem orðið hefur í verðlagsbreytingum á s.l. árum. Frv. fer fram á það að hækka að nokkru styrki til nýbýla og jarðræktar þeirra, sem skemmst eru á veg komnir á því sviði.

Það er samkv. 1. gr. lagt til að hækka framlögin. Þar sem framkvæmdakostnaður við framræslu og ræktun, girðingar og neyzluvatnsveitur í byggðahverfum hefur aukizt tilsvarandi og framkvæmdir einstaklinga, mundi framlagshækkun sú, sem hér er gert ráð fyrir, vart standa undir meiri hækkun en sem svarar 15–20 þús. kr. á býli einstaklinga, eða að framlagið hækkaði úr 36 þús. kr. í 50–55 þús. kr. á býli, miðað við sömu býlatölu og verið hefur í styrkjakerfinu á undanförnum árum. Landnámsstjóri telur, að ef þetta frv. verður lögfest, þá muni vera mögulegt að halda uppi styrkjakerfi til nýbýla á nokkurn veginn sama hátt og verið hefur að undanförnu.

Í 2. gr. frv. er gerð till. um tilsvarandi hækkun á framlagi til byggingar íbúðarhúsa á nýbýlum. Framlagið er nú 25 þús. kr. á íbúðarhús. Frá því að það ákvæði var bundið með lögum, hefur byggingarkostnaður þeirra hækkað sem afleiðing tveggja efnahagsráðstafana. Sú hækkun nemur allt að 100 þús. kr. á hús með 90 fermetra gólffleti á einni hæð. Með hliðsjón af þessu er lagt til, að framlag til þeirra hækki um 15 þús. kr. á íbúðarhús, og til þess að standa undir þeirri hækkun hækki framlög á þessum lið til landnáms ríkisins um 500 þús. kr., úr 1.5 millj. í 2 millj. kr. En samkvæmt 1. gr. frv. er lagt til, að hækkunin verði úr 5 millj. í 6.5 millj. kr. til framræslu og ræktunar lands á nýbýlum.

Ákvæðið í 3. gr. frv. er í rauninni ekki annað en afleiðing af lögum, sem samþ. voru á s.l. ári. Með þessu frv, er gert mögulegt að fullnægja þeim lagabókstaf. Það er um 1.5 millj. kr. hækkun vegna ákvæða 38.–41. gr. laganna, þ.e. afleiðing þess, sem samþ. var með lögum nr. 49 frá 11. júní 1960, framlög til þeirra bænda, er komust í erfiðleika vegna íbúðarhúsabygginga á jörðum sínum.

Í ljós hefur komið hin síðari ár, að mikil hætta er á, að jarðir, sem búið er að rækta og byggja peningshúsakost á, hafi ekki mannsæmandi íbúðarhús og geti farið í eyði, af því að eigendur treysti sér ekki til uppbyggingar íbúða. Lán til íbúðarhúsa hafa verið lág í hlutfalli við kostnað og nema nú ekki nema 25% af kostnaðarverði. Þetta er náttúrlega ekki alveg rétt, því að þegar miðað er við 25% af kostnaðarverði, þá er miðað við 75 þús. kr. lán á íbúðarhús, eins og var á s.l. ári. En nú hefur þetta verið hækkað upp í 90 þús., þannig að prósenttalan hækkar nokkuð, en er þó eigi að síður aldrei meira en sem svarar 1/3 af kostnaðarverði íbúðarhúss.

Það er þess vegna ljóst, að þetta er of lítið fyrir fátæka bændur til þess að geta komið upp íbúðarhúsi á þeirri jörð, sem þeir búa á, og frv. gengur þess vegna í þá átt að styrkja þá, sem verst eru settir, í þrenns konar skilningi. Það er í því að koma undir sig fótunum fyrir þá, sem byrja á því að brjóta land og koma upp nýbýlum. Það er í öðru lagi að hækka styrki til íbúðarhúsabygginga. Og það er í þriðja lagi að fullnægja þeim lagabókstaf, sem samþ. var hér á s.l. ári.

Þetta frv., ef að lögum verður, felur í sér 3 millj. kr. hækkun á styrkjum til þeirra bænda, sem verst eru settir, og að áliti landnámsstjóra og annarra, sem til þessara mála þekkja, er þetta nauðsynlegt. Þess vegna er frv. flutt, og þess vegna er nauðsynlegt, að það verði að lögum nú á þessu þingi, þótt það sé nokkuð seint fram komið. En þar sem orðið hefur samkomulag um það í ríkisstj. að flytja þetta frv., leyfi ég mér að ætla, að það geti orðið að lögum á þessu þingi.

Ég tel ekki ástæðu til að fara fleiri orðum um frv., vegna þess að það skýrir sig sjálft ásamt grg., og ég vil leggja til, að því verði vísað til 2. umr. og hv. landbn., en ég leyfi mér að leggja áherzlu á, að hv. landbn. geri svo vel að hraða störfum sínum, þannig að það verði unnt að taka frv. til 2. umr. á morgun. Það eru ekki nema fáir dagar eftir af þinginu, og ég hef ekki hugmynd um, að nokkur hafi áhuga fyrir því að tefja fyrir málinu. Ég vil þess vegna mælast til þess, að hv. landbn. taki málið strax til meðferðar í dag, svo að það verði unnt að taka málið til 2. umr. á morgun.