05.12.1960
Neðri deild: 32. fundur, 81. löggjafarþing.
Sjá dálk 1310 í B-deild Alþingistíðinda. (1252)

121. mál, sementsverksmiðja

Flm. (Einar Olgeirsson):

Herra forseti. Við hv. 4. landsk. þm. (HV) og ég höfum leyft okkur að flytja hér á þskj. 161 frv. um, að nokkur breyting verði gerð á lögunum um sementsverksmiðju og þá einvörðungu í þá átt, að við leggjum til, að stjórn sementsverksmiðjunnar verði öðruvísi skipuð en nú er.

Sementsverksmiðjan er, eins og öllum hv. þm. er kunnugt, við hliðina á áburðarverksmiðjunni eitt stærsta fyrirtæki landsins og er ótvíræð ríkiseign. Hingað til hefur samkv. 4. gr. l. málum verið þannig skipað um stjórn verksmiðjunnar, að ráðherra hefur útnefnt þrjá menn í stjórn hennar og þar með alla stjórnina. Það, sem við leggjum til að gert verði, er að skipa þessa stjórn fimm mönnum, sem kosnir séu af sameinuðu Alþingi til 4 ára í senn, en atvmrh. skipi einn þeirra formann verksmiðjustjórnar.

Í fyrsta lagi álítum við það almennt rétt um þessi stóru ríkisfyrirtæki, eins og áburðarverksmiðjuna, síldarverksmiðjurnar og aðrar slíkar, að stjórnir séu kosnar af Alþingi. Það tryggir allt öðruvísi festu í stjórn þessara stóru ríkisfyrirtækja heldur en að þær ríkisstjórnir, sem sífellt eru að breytast, skipi þá menn, sem þarna eiga að stjórna, og tryggir líka um leið á margan annan hátt allt öðruvísi og sterkara samhengi gegnum áratugina í stjórn slíkra verksmiðja, auk þess sem það er visst jafnréttisatriði.

Þetta er ekki í fyrsta skipti sem frv. um þetta er flutt hér á hinu háa Alþingi. Á þinginu 1958–59 fluttu þeir Jóhann Hafstein, núv. hæstv. forseti okkar deildar, og Ingólfur Jónsson, núv. hæstv. landbrh., frv. sama efnis, sem varð ekki útrætt á því þingi. Þeirra rök voru hin sömu og okkar nú, að það sé rétt að hafa svipaðan hátt á um stjórn þessarar verksmiðju og er um flest önnur af slíkum stórum ríkisfyrirtækjum, sérstaklega þegar um framleiðslufyrirtæki er að ræða.

Það hins vegar, að við álítum alveg sérstaka ástæðu fyrir utan það, sem almennt er rétt við það og fram hefur komið áður, þegar þetta mál hefur verið flutt hér á Alþingi, — það, sem við álítum að geri þetta sérstaklega brýnt nú, að að því sé horfið að breyta svona til, það er, að það er að skapast hættulegt ástand fyrir sementsverksmiðjuna, sem nauðsynlegt er að Alþingi horfist í augu við og að okkar áliti útheimtir það, að sett sé yfir sementsverksmiðjuna stjórn, sem geti verið skipuð öllum flokkum Alþingis, þannig að Alþingi fari sjálft að taka beina ábyrgð á rekstri þessarar verksmiðju. Auk þeirrar almennu ástæðu, sem fyrir er og fyrir hefur verið raunverulega undanfarið, að samræma stjórn þessarar verksmiðju því, sem er um önnur stór ríkisfyrirtæki, þá eru enn fremur þessar sérstöku ástæður fyrir hendi, og ég mun nú fara nokkru nánar út í þær sérstöku ástæður og það ástand, sem nú hefur skapazt fyrir sementsverksmiðjuna.

Sannleikurinn er, að viðreisnin, eins og núverandi stjórnarpólitík hefur verið kölluð, hefur haft mjög þungbærar afleiðingar fyrir sementsverksmiðjuna og þann iðnað, sem hún fyrst og fremst framleiðir fyrir, byggingariðnaðinn, og það er rétt, að hv. alþm. horfist í augu við, hvílík vandamál það eru, sem þar liggja fyrir. Í fyrsta lagi hefur orðið allstórfelld hækkun vegna gengislækkunarinnar raunverulega á sjálfri sementsverksmiðjunni og enn fremur á þeim vörum, sem hún framleiðir. Sementsverksmiðjan var upphaflega reiknuð að kosta sínar 135 millj., held ég það hafi verið með seinustu tölunum, sem við heyrðum, en af þeim skuldabréfum, sem sementsverksmiðjan hefur samkv. hennar efnahagsreikningi, þá eru um 100 millj. hjá Framkvæmdabankanum, sem eru útlend lán og hafa þess vegna meira en tvöfaldazt í verði, þannig að ég býst við, að nú sé sementsverksmiðjan almennt metin á 245 millj. kr. og vegna gengislækkunarinnar hafi sem sé um leið hennar skuldir næstum því tvöfaldazt, og það hefur aftur skapað fyrir hana þá erfiðleika, að hún verður nú að reikna miklu hærra en áður það sement, sem hún selur. M.ö.o.: viðreisnin og gengislækkunin hafa haft mjög hættulegar afleiðingar fyrir afkomu verksmiðjunnar reikningslega séð, og auk þess hefur þetta orðið til þess, að sementsverksmiðjan hefur orðið að hækka verðið á sinni framleiðslu mjög mikið. Í Hagtíðindunum frá ágúst í ár er tekið fram, þegar rætt er um vísitölu byggingarkostnaðar, að meðal þeirra efnisliða, sem hækka einna mest eða um 50–75%, eru timbur, járn og sement. Það er vitað, að sementið hefur hækkað um yfir 50%. Og þegar athuguð er vísitala byggingarkostnaðar, þá sést það, þegar borin er saman vísitala sú, sem gildir nú frá júní 1960, við vísitölu byggingarkostnaðar í febrúar, að þá hafa allir efnisliðirnir hækkað stórkostlega. Hvað vísitölu snertir hefur sement, steypuefni, einangrunarefni og grunnrör hækkað úr 115 upp í 154, timbrið hækkað úr 134 upp í 206, en hins vegar vísitalan fyrir alla vinnu, trésmiði, múrvinnu, verkamannavinnu og allt annað slíkt, hefur lækkað stórkostlega, lækkað yfirleitt úr 128 niður í 116, þannig að sem bein afleiðing af gengislækkuninni hefur sementið hækkað mjög tilfinnanlega og þar með líka skapazt aðrar afleiðingar, sem verða jafnvel enn hættulegri fyrir sementsverksmiðjuna en nokkurn tíma sjálf hækkunin, sem framkölluð hefur verið með gengislækkuninni.

Það, sem sérstaklega gerir þetta allt saman svona hættulegt, er sú kreppa, sem viðreisnin svokallaða hefur skapað. Það er alveg greinilegt af öllu því, sem við sjáum í kringum okkur nú, að það blasir við okkur kreppa í atvinnulífinu, sem við höfum ekki horfzt í augu við um alllangan tíma. Þegar sementsverksmiðjan var reist, voru menn bjartsýnir. Menn voru fyrst og fremst að hugsa um, að við gætum framleitt það, sem við þyrftum til þess að byggja okkur hús hér innanlands, og fyrsta árið, sem sementsverksmiðjan starfaði, var það svo, að allt, sem hún framleiddi, var jafnóðum rifið út til þess að byggja hér nýjar og góðar íbúðir yfir landsmenn. Ástandið, sem nú blasir við, er það, að allar þessar byggingar eru að stöðvast, og þar með skapast fyrir sementsverksmiðjuna, svo að ég tali nú ekki um fyrir fólkið almennt, alveg ný og mjög erfið viðhorf í okkar landi. Ég veit, að menn hafa ofur lítið verið að athuga þetta nú undanfarið. T.d. hvað einkabyggingarnar snertir, þá er það svo, að þar sem verið er að byggja hér í Reykjavík, við skulum segja í einu aðalbyggingarhverfinu, Háaleitishverfinu, þar eru um 2/3 af öllum byggingunum stöðvað, búið að loka þar öllu og ekki haldið áfram. Þar er ástandið orðið þannig t.d. hvað verkamennina snertir, að trésmiðirnir telja almennt, að það muni verða nokkuð nóg fokk fyrir sig fram undir jólin, fram undir nýárið jafnvel, en yfirleitt ekkert víst eftir nýárið. Af þeim lóðum og húsum, sem úthlutað var í ágúst, hefur verið byrjað á einu í Háaleitishverfinu. Þeir menn, sem undanfarið hafa verið að gera það að sinni atvinnu, — haft sérstakt framtak í þeim efnum, hvernig sem menn annars vilja nú á það líta, — þeir, sem fengizt hafa við að byggja íbúðir og selja, 4 aðilar, sem við þetta hafa fengizt undanfarið, eru hættir, telja algerlega vonlaust að selja íbúðir. Einn þessara manna hefur t.d. 23 íbúðir óseldar, hefur síðan um áramót selt 2. Við höfum nýlega séð auglýst í blöðunum og sagt frá því, að fokheldar íbúðir hafi verið boðnar upp og seldar undir því verði, sem kostaði að reisa þær.

M.ö.o.: það er það, sem við kölluðum í gamla daga, beint kreppa komin í þennan byggingariðnað.

Menn geta litið mismunandi á, að hvað einkabyggingarnar snertir, þá þyrfti þar gjarnan að hafa ýmsan annan hátt á, og sumir gætu máske álitið, að það gæti verið upphafið að því að skapa þarna betri og réttari aðferðir en víða hafa gilt. En það er þá a.m.k. nokkuð harðvítug hrossalækning, sem hér væri á ferð, ef það er meiningin, og bólar a.m.k. ekki enn á því, að það eigi að taka þar upp neinar nýjar aðferðir, meiri samvinnu í þeim byggingum en verið hefur, enda væri það sízt í samræmi við þá pólitík, sem almennt er boðuð um einkaframtakið í þeim efnum. En hvað snertir sem sé einkabyggingarnar, þá virðist þarna stöðvun að meira eða mínna leyti vera komin á, og þar sem hún er ekki komin á, þar vofir hún yfir. Það er eins og deyðandi hönd viðreisnarinnar hafi gripið þarna um og sé að stöðva þessa hluti, þar sem áður var tiltölulega blómlegt atvinnulíf.

Hvað þær opinberu byggingar snertir, þá er það a.m.k. svo hér í Reykjavík, að skólabyggingarnar og spítalabyggingarnar virðast vera að stöðvast, hvort sem það á að vera til langs tíma eða ekki. Mér er sagt t.d., að hér í bæjarsjúkrahúsinu í Reykjavík vinni enginn múrari nú, og almennt virðist vera beinlínis atvinnuleysi fram .undan, m.a. alveg sérstaklega hjá stéttum eins og trésmiðum, múrurum og öðrum slíkum, sem undanfarin ár hafa þó yfirleitt haft yfrið nóg að gera.

Þessir hlutir þýða frá sjónarmiði sementsverksmiðjunnar, að þarna er fram undan markaðskreppa. Það er svo greinilegt, að þetta almenna kreppuástand, sem er að skapast hér í landinu, þessi viðreisnarkreppa, hún er ekki aðeins að birtast verkamönnunum, fagmönnunum, í stöðvun á því, sem þeir hafa unnið við á undanförnum árum, heldur kemur hún nú líka fram gagnvart þessu stóra ríkisfyrirtæki í markaðskreppu. Ég hef aflað mér nokkurra upplýsinga um, hvernig útlitið er fyrir sementsverksmiðjuna í þessum efnum. 1958, frá því í ágúst, þegar hún tók til starfa, seldi hún á því ári 30 þús. tonn, 1959 voru seld 84300 tonn, og nú 1960 er búizt við, að alls verði seld 70 þús. tonn á innanlandsmarkaðinum. Ef við viljum af þessum tölum reyna að gera okkur grein fyrir sjálfri framleiðslunni og hvernig aðstaðan er þar, þá mun líklega mega reikna með, að um 15 þús. smálestir af sementi hafi verið birgðir sementsverksmiðjunnar nú um áramótin, þannig að það væri máske ekki alveg rangt að reikna með, að af framleiðslu ársins 1960 seljist nú á innanlandsmarkaði um 55 þús. tonn. Þá hefur verið gerður samningur um — og er verið að byrja að framkvæma hann — að selja til Bretlands um 20–25 þús. smál. af sementi. Þar koma strax fram vandræðin hvað verðið snertir og baráttuna um það fyrir sementsverksmiðjuna. Verðið, sem sementsverksmiðjan mun hafa selt fyrir nú undanfarið, miðað við fob: verð í skip á Akranesi, mun vera um 800 kr. smálestin. Það verð, sem sementsverksmiðjan mun raunverulega fá út úr sölunni til Bretlands miðað við fob. á Akranesi, mun vera um 450 kr. smálestin. Það er að vísu ekki alveg hálfvirði, en langt niður undir það. Sementsverðið hér í Reykjavík, útsöluverð, mun vera um 1120 kr. smálestin, var líklega um 735, ef ég man rétt, áður. Það hefur hækkað þá, eins og ég sagði áðan, um 50%.

Þetta, sem þarna horfir við, skapar stórkostleg vandræði fyrir sementsverksmiðjuna. Fram undan blasir við meiri eða minni stöðvun í byggingariðnaðinum, kreppa, sem færzt hefur nú yfir vegna stórkostlega minnkaðrar getu manna til þess að byggja sér íbúðir eða kaupa sér íbúðir, stórkostlega minnkaðrar aðstöðu manna til þess að byggja hús og ætla að selja þau, og fæstir hafa efni á að byggja þau til þess að ætla að leigja. Og vafalaust líka kemur þarna um leið nokkuð til greina erfiður eða versnandi fjárhagur hins opinbera, sem þýðir hlutfallslega minnkandi byggingarframkvæmdir af hálfu þess opinbera. Við þetta allt bætist svo sú stefna að hafa hækkað vexti í bönkum og dregið úr lánum þar, sem líka kemur mjög hart niður á byggingariðnaðinum. Afleiðingin af þessu kemur m.a. fram í því, að það munu vera óseldar nú birgðir frá sementsverksmiðjunni upp á 25–30 þús. smál.

Sem sé, sementsverksmiðjan liggur nú með um 25–30 þús. smál., sem hefur ekki verið hægt að selja. Eins og ég býst við, að öllum hv. alþm. sé ljóst, skapar þetta mjög erfið viðfangsefni fyrir þetta stóra fyrirtæki, sem þjóðin hefur tengt svo miklar vonir við. Þjóðin hafði skapað sér þetta fyrirtæki með það fyrir augum að geta notað framleiðslu þess til þess að byggja betur í okkar landi en mörgum öðrum löndum og búa þannig betur að fólkinu hvað íbúðir snertir. Þetta hafði verið gert á þeim tímum, þegar það sjónarmið var ráðandi, að við skyldum reyna sem mest að haga framleiðslunni með þarfir fólksins í landinu fyrir augum, t.d. að við skyldum framleiða sement, til þess að menn gætu byggt hús og búið í þeim húsum. Manni virðist að vísu þetta sjónarmið vera nokkuð eðlilegt, að menn reisi sementsverksmiðju til þess að framleiða sement til að byggja hús og til þess að fólk geti búið í þeim húsum. Og það er þetta sjónarmið, sem hefur yfirleitt valdið því, að menn hafa ráðizt í fyrirtæki á Íslandi eins og sementsverksmiðju. Hins vegar virðist nú vera að koma önnur stefna inn í íslenzk stjórnmál, að því aðeins skuli menn fá að byggja hús og reisa hús yfir sig, að einhverjir telji sig hafa gróðavon af því að ráðast í þess háttar framtak, og því aðeins skuli sementsverksmiðja rekin, að það sé hægt að gera sér einhverjar gróðavonir í sambandi við slíkt. Ég hef áður varað við því að gera sér slíkar hugmyndir um íslenzkan þjóðarbúskap og varað við hættulegum afleiðingum af öllu slíku. Og það er nú að koma í ljós hvað sementsverksmiðjuna snertir og þar með byggingariðnaðinn, að það er hættulegt að ætla að hverfa frá þeirri meginreglu að reka fyrst og fremst okkar þjóðarbúskap með það fyrir augum, að hann sé til þess nýtur, að fólkinu vegna hans framleiðslu

geti liðið betur. Vegna þessarar tilraunar, sem fyrir fram var dæmd til að misheppnast, en nú er gerð, að innieiða á ný einkaauðvaldið og þess gróðalögmál sem ráðandi í íslenzku atvinnulífi, þá er nú sementsverksmiðjan komin í kreppu, þá er byggingariðnaðurinn kominn í kreppu, og þá eru nú að stöðvast þær miklu byggingar, íbúðabyggingar Íslendinga, sem fyrir nokkrum árum meira að segja ollu því, að Sjálfstfl. setti það upp sem sitt mark, að hver fjölskylda skyldi sjálf eiga sína íbúð.

Ég held þess vegna, að þegar við horfumst í augu við þetta ástand, að sementsverksmiðjan hefur neyðzt til þess að selja út úr landinu 2025 þús. smál. af sementi fyrir allt að því hálfvirði á móts við það, sem Íslendingar hafa orðið að borga, þegar hún í öðru lagi liggur með 25–30 þús. smál. af sementi, sem hún veit ekki, hvar eigi að selja, þegar í þriðja lagi byggingariðnaðurinn í kringum okkur alls staðar er að stöðvast, þannig að hvergi lítur út fyrir, að neitt fari batnandi viðvíkjandi þessum efnum, þá er óhjákvæmilegt, að Alþingi láti til sín taka um, hvernig þarna eigi að breyta til. Það er engum efa bundið, að það, sem fyrst og fremst veldur allri þessari stöðvun í byggingariðnaðinum, er sjálf gengislækkunin og afleiðingar hennar. Okkur var að vísu sagt hér, þegar gengið var fellt, að það mundu aldrei verða meiri verðhækkanir af því en að um einstaka vörutegundir mundi þetta komast upp undir 40–50%, í einstaka undantekningartilfellum. En það hefur farið svo t.d., að timbur hefur hækkað raunverulega um 70%, og ég býst við, að það muni vera þannig um timbur núna, að hér sé yfirleitt allt fullt af timbri, og hér dynja yfir auglýsingarnar daglega frá timbursölunum um, að það sé nóg til af öllum mögulegum meira eða mínna dýrum efnum. Það mun vera þannig hér í Reykjavík a.m.k. nú, að slík efni, sem voru rifin út jafnóðum alveg fram á mitt þetta ár, þau liggja nú, þannig að það er yfrið nóg af þeim, en enginn hins vegar til þess að kaupa þau. Sumir hlutir, sem til bygginganna þarf, eins og t.d. miðstöðvar, hafa hækkað um 75–80%. Gler hefur hækkað um 85–90%, saumur nokkuð svipað, þannig að á öllum þessum sviðum, sem byggingarnar snerta, — það er ekki bara sementshækkunin, sem gerir svona erfitt fyrir um byggingariðnaðinn, — á öllum þessum sviðum hefur jafnvel hækkað enn þá meira en nokkurn tíma sementið, þannig að þarna er alveg bein kreppa á ferðinni, kreppa, sem er heimatilbúin og við þurfum sjálfir fyrst og fremst að glíma við og getum sjálfir læknað með réttri stefnu.

Um sementsverksmiðjuna er það svo tæknilega séð, að það er afar miklum erfiðleikum bundið að ætla raunverulega að draga úr framleiðslu hennar. Þessi stóru fyrirtæki, eins og áburðarverksmiðjan og sementsverksmiðjan, eru tæknilega þannig gerðar, að þær eru hugsaðar að ganga svo að segja allan sólarhringinn, vélarnar í þeim, eða a.m.k. ganga nokkurn veginn stöðugt, nema þann tíma, sem hentugt er að nota til hreinsunar og annars slíks, þannig að það er mikill kostnaðarauki, sem fylgir því að verða að draga úr framleiðslu í sementsverksmiðjunni, jafnvel kannske hentugast frá hreinu rekstrarsjónarmiði að stöðva alveg framleiðslu um tíma, sem er líka ákaflega erfitt, vegna þess að það mundi undir flestum kringumstæðum þýða, þegar fólki þar væri sagt upp, að það dreifist í allar mögulegar aðrar atvinnugreinar til að reyna að afla sér vinnu, og þá er helmingi erfiðara fyrir sementsverksmiðjuna, þegar hún færi af stað aftur, að afla sér vinnuafls, sem er orðið vant við að vinna þar. Það er svo, eins og við vitum, með slíkar verksmiðjur, að verksmennirnir, sem í þeim vinna, þurfa nokkurn tíma til að þjálfast, og fyrir verksmiðjuna hefur það ákaflega mikið að segja, að fólkið, sem vinnur þar, sé orðið vant við starfið. Afköstin eru þá miklu betri, og það að þurfa að segja slíku fólki upp og dreifa því í aðrar iðngreinar og missa það máske að miklu leyti alveg, það hefur ákaflega slæmar afleiðingar fyrir áframhaldandi rekstur verksmiðjunnar. Þess vegna er afskaplega brýnt, að hægt sé að halda fullum rekstri verksmiðjunnar áfram.

Nú höfum við séð nokkuð skrifað um það í blöðin, án þess að um það muni nokkuð vera ákveðið enn þá, að rætt hafi verið um, að ríkisstj. reyndi að einhverju leyti að bjarga út úr þessari kreppu með því t.d. að kaupa allmikið sement til að steypa veg suður í Keflavík, og enn fremur munu ýmsir bæir úti um land hafa farið fram á það við sementsverksmiðjuna, hvort ekki væri hugsanlegt að fá lánað sement hjá henni til þess að geta steypt götur í ýmsum bæjum, og frá sjónarmiði sementsverksmiðjunnar er ákaflega eðlilegt, að fyrst og fremst sé athugað, hvaða möguleikar séu í þessum efnum til að halda framleiðslunni áfram, til hvers svo sem sú framleiðsla sé notuð. Ég dreg sízt í efa nauðsyn þess að steypa hér ýmsa þjóðvegi á Íslandi og ýmsa vegi í bæjunum líka, það er mjög þarft og gott. En ekki var það nú það, sem okkur fyrst og fremst hafði dreymt um í sambandi við sementsverksmiðjuna, að við yrðum að stórminnka allt, sem ætti að fara til íbúðarhúsa, en setja því meira í að steypa vegina, raunverulega fyrst og fremst frá því sjónarmiði máske að bjarga sementsverksmiðjunni. Og eins er hitt, ef það ætti að verða einhver regla að fara að selja sement út úr landinu næstum því fyrir hálfvirði til Breta og jafnvel Iíka, þó að það væri til annarra útlendinga, þá mundi flestum Íslendingum finnast hálfhart að hafa skapað sér verksmiðju til þess fyrst og fremst að selja útlendingum sementið úr henni fyrir hálfvirði, en fá það ekki sjálfir til þess að geta byggt sér hús úr því.

Ég býst þess vegna við, að sementsverksmiðjan standi frammi fyrir allmiklum erfiðleikum núna, og það er nauðsynlegt, að menn taki höndum saman um að reyna að leysa slíka erfiðleika á þann hátt, sem í senn sé hentugastur fyrir svo stórt þjóðþrifafyrirtæki sem sementsverksmiðjan er og beztur fyrir landsbúa, bæði hvað snertir þeirra íbúðarhúsaþörf og þeirra þörf á steinsteyptum vegum. Ég held þess vegna, að það væri ákaflega heppilegt, að einmitt nú, þegar sementsverksmiðjan á víssan hátt á við nokkra kreppu að etja, þá yrði sú breyting, sem almennt hefði verið rétt á hvaða tíma sem væri, að koma á stjórn í sementsverksmiðjunni, sem Alþingi kysi, og það væru 5 fulltrúar, eins og hér er lagt til, þá mundu það vera fulltrúar frá öllum flokkum þingsins, — þá held ég, að það væri einmitt heppilegt, að slíkt væri gert nú, þegar sementsverksmiðjan á í nokkrum erfiðleikum og nauðsynlegt er að reyna að sameina kraftana, sem leysa þá erfiðleika, líka á þann hátt, að sem minnst deila geti orðið þar um, og að tillit sé tekið til alhliða hagsmuna landsmanna í því efni. Ég held þess vegna, að þetta frv., sem líka átti fullan rétt á sér, þegar það var flutt fram af flm. þess 1958, eigi nú ekki síður rétt á sér, og vil mega vona, að hv. þd. geti sameinazt um að samþykkja það, og vil gera það að mínni tillögu, að að lokinni þessari umr. verði því vísað til 2. umr. og hv. fjhn.