23.01.1961
Efri deild: 46. fundur, 81. löggjafarþing.
Sjá dálk 1318 í B-deild Alþingistíðinda. (1264)

121. mál, sementsverksmiðja

Frsm. (Björn Jónsson):

Herra forseti. Þetta frv. er komið frá hv. Nd., þar sem það hlaut einróma samþykki. Það felur i sér þá einu breytingu á lögum um sementsverksmiðju ríkisins, að í stað þess að samkvæmt núgildandi lögum ber ráðherra að skipa þrjá menn í stjórn verksmiðjunnar og tilnefna einn þeirra sem formann hennar, þá er gert ráð fyrir því í þessu frv., að stjórn verksmiðjunnar verði skipuð fimm mönnum, sem sameinað Alþingi kýs með hlutfallskosningu til fjögurra ára í senn, en atvmrh. skipi síðan formann verksmiðjustjórnar úr þeim hópi. Þessi breyting er í samræmi við það, sem nú má teljast orðin algild regla um öll meiri háttar atvinnufyrirtæki, sem eru í eigu ríkisins, að stjórnir þeirra eru kjörnar á Alþingi með hlutfallskosningu. Með þeim hætti má líka ætla, að meiri festa skapist um rekstrarhætti fyrirtækjanna heldur en ef stjórnir þeirra eru einungis á ábyrgð einstakra ráðherra, sem koma og fara jafnvel með stuttu millibili.

Fjhn, þessarar deildar hefur haft frv. þetta til athugunar og er öll sammála um að mæla með samþykkt þess.