17.01.1961
Neðri deild: 45. fundur, 81. löggjafarþing.
Sjá dálk 1320 í B-deild Alþingistíðinda. (1272)

131. mál, sala jarðanna Stokkseyri I--III með hjáleigum

Einar Olgeirsson:

Herra forseti. Ég vil taka undir það frv., sem hér er fram komið um að heimila ríkisstj. að selja Stokkseyrarhreppi það land, sem ríkið á þar. Það er ekki nema eðlileg viðleitni hjá hreppsfélögum og bæjarfélögum að eignast sjálf jarðirnar, sem byggð manna er þar reist á. En ég hef minnzt á það áður, þegar svona mál hafa verið hér til meðferðar, að það væri rétt, jafnvel þótt það hafi ekki veríð gert undanfarið, að taka upp þann sið í sambandi við svona lagasetningu að láta þá kvöð fylgja, þegar ríkið selur í hendur hreppsfélögum eða bæjarfélögum jarðir, að bæjarfélögin eða hreppsfélögin megi ekki selja slíkt aftur. Það er ómynd, sem stórkostlegt tjón hefur hlotizt af á Íslandi, að lóðir í helztu bæjarfélögum landsins skuli vera einstakra manna eign. Það er tjón, sem atvinnulífið fær ekki bætt, þegar sá háttur er yfirleitt upp tekinn. Við höfum ekki sízt fengið á þessu að kenna hér í Reykjavik. Ég man alltaf eftir því, — það er víst einasta fasteignamatið, sem eitthvað var að marka hér í Reykjavík. 1932, þá voru, ef ég man rétt, öll hús í Reykjavík metin á 68 millj. kr. og allar lóðir á 32 millj. M.ö.o.: lóðirnar, sem raunverulega höfðu ekki kostað neitt, þær eru metnar til hálfs á við alla húsaeign, allt það, sem mennirnir hafa gert til þess að byggja bæinn upp.

Það er gefið með hvern einasta bæ, þó að hann sé upphaflega ekki nema lítið hreppsfélag, eins og Reykjavík einu sinni var, þá hleypur svo mikið braskverð í þessar lóðir, að það íþyngir síðan öllu atvinnulífinu, veldur dýrtíð hvað snertir húsbyggingar og leggst þungt á verzlunarlífið og framleiðslulífið í heild. Þess vegna var það alltaf óhapp, að Reykjavíkurbær skyldi sjálfur missa mikið af þeim lóðum, sem hann upphaflega átti, þó að seinna hafi fyrir viturlega forgöngu verið breytt þarna til og bærinn farið að kaupa meira og meira af lóðum. Sömu sögu var að segja af Akureyri, þar sem það var þó tekið upp enn þá fyrr að reyna að kaupa lóðirnar, þannig að bærinn átti sjálfur alla byggðina. Og það vita allir, sem þekkja þróun þessara kaupstaða, hvað dýrmætt þetta er.

Við vitum ekkert, hvaða kaupstaðir það eru, sem eiga eftir að vaxa. En hitt vitum við, að þjóðin á eftir að vaxa mikið, og það getur eins orðið á Stokkseyri og annars staðar, að á næstu áratugum verði þær lóðir, sem nú eru máske metnar lágt, alldýrmætar. Ég held þess vegna, að það væri rétt fyrir okkur, jafnvel þótt við hefðum ekki gert það við þau lagafrv., sem hv. 1. flm. taldi upp nú áðan, að við hefðum verið að afgreiða á síðustu árum, — þá held ég, að það væri rétt, að sú nefnd, sem fær þetta til athugunar, íhugaði vel, hvort við ættum ekki að taka þennan sið upp. Þetta er ekki sagt vegna þess, að ég vilji setja Stokkseyrarhrepp þarna í neitt aðra aðstöðu en aðra. Ég gæti vel hugsað mér, að ef samkomulag yrði um að bæta því við þessi lög, þá yrði um það jafnvel samkomulag seinna meir að bæta því inn í lög að banna bæjarfélögunum að selja jarðirnar eða lóðirnar. Það gæti þá í hæsta lagi verið, að til þyrfti alveg sérstakt leyfi ríkisins eða ríkisstjórnarinnar. Það er vitanlegt, að ríkisstj. selur bæjunum og hreppsfélögunum sínar jarðir á svona stöðum ekki í neinu gróðaskyni, heldur til þess að veita betri aðstöðu fyrir viðkomandi hreppsfélag. Og það er engum efa bundið, að fyrir hreppsfélagið og alla framtíð þess er langæskilegast, að slíkar lóðir séu ekki seldar, heldur leigðar. Ég vildi þess vegna aðeins við þessa umr. mega beina því til þeirrar n., sem málið fer til, að hún athugaði það gaumgæfilega, hvort ekki væri rétt að gera þessa breytingu á.