30.01.1961
Neðri deild: 52. fundur, 81. löggjafarþing.
Sjá dálk 1321 í B-deild Alþingistíðinda. (1275)

131. mál, sala jarðanna Stokkseyri I--III með hjáleigum

Frsm. (Ágúst Þorvaldsson):

Herra forseti. Landbn. hefur haft mál þetta til athugunar, og mælir hún með því, að það verði samþykkt með einni breytingu, en álit n. og brtt. er á þskj. 282. Ég mun fara um brtt. og þetta nál. nokkrum orðum.

Nefndin sendi frv. til umsagnar landnámsstjóra og jarðeignadeildar ríkisins, og mæla báðir þessir aðilar með samþykkt þess. Umsögn landnámsstjórans er mjög ýtarleg, og með leyfi hæstv. forseta, mun ég lesa kafla úr henni, sem skýrir það vel fyrir hv. þdm., hvað hér er um að ræða af fasteignum ríkissjóðs, en landnámsstjóri segir svo:

„Stokkseyri er í fasteignamati 1922 metin sem þrjár lögbýlisjarðir, en í síðustu tveimur fasteignamötum er jörðin metin í einu lagi sem Stokkseyrarland. Frá 1922 hafa úr landi Stokkseyrar verið leigð ræktunarlönd á erfðaleigu til 33 aðila. Byggingarlóðir munu vera um 122. Enda þótt það sé ekki beint fram tekið í frv., verður að gera ráð fyrir, að söluheimildin nái til þessara sérleigðu landa og lóða þeirra, sem leigðar eru úr hinum sérmetnu Stokkseyrarjörðum I—III, og verður gengið út frá, að þessi skilningur á ákvæðum 1. gr. frv. sé réttur. Hjáleigur, sem í söluheimildinni felast, eru 15 að tölu. Af þeim eru 9 í ábúð, en 6 ábúðarlausar. Stokkseyrarland og hjáleigur eru metin að fasteignamati 1957 á 185100 kr. Auk þessa kemur svo til greina eignarhluti ríkisins í ræktunarlöndum, sem eru í sérleigu, og lóðum í sjálfu þorpinu, sem leigðar hafa verið til einstaklinga.

Í þessu sambandi skal á það bent, að umræddar hjáleigur eru sumar í kauptúninu sjálfu eða svo nærri því, að vænta má, að þær falli fyrr eða síðar undir áhrifasvæði skipulags kauptúnsins. Það verður því að teljast tvímælalaust hagfelldast og eðlilegast af þessum sökum, að hreppsfélagið sjálft hafi fullan eignar- og ráðstöfunarrétt á umræddum löndum, en jafnframt taki það á sig þær skuldbindingar, að því er tekur til þess réttar, er ábúendur á sérmetnum byggðum lögbýlisjörðum eiga gagnvart núv. jarðeiganda, ríkissjóði, og hafi ríkið lagt til húsabóta eða annarra umbóta á þessum jörðum, þá verður að telja eðlilegast, að þau verðmæti fylgi með í sölu jarðanna.

Með tilvísun til þessa mæli ég með, að frv. þetta verði samþykkt.

Pálmi Einarsson.“

Þetta var umsögn landnámsstjóra, og vil ég sérstaklega undirstrika, að skilningur hans á ákvæðum 1. gr. um, að söluheimildin nái til sérmetinna landa og lóða úr Stokkseyrartorfunni, sé réttur.

Hv. þdm. er kunnugt um það frá undanförnum þingum, að það fer sífellt í vöxt, að bæjarfélög og sveitarfélög, sem mynduð eru vegna þéttbýlis, reyna að ná kaupum á því landi, sem þau þurfa. Allmörg frv. hafa verið samþykkt um slíkt á undanförnum árum, og hirði ég ekkert að vera að rekja það. En með samþykkt slíkra laga hefur sú stefna Alþingis verið mörkuð, að eðlilegt væri, að þorp og bæir ættu sjálfir það land, sem þeir þarfnast. Landbn. hefur með áliti sínu um þetta mál framfylgt þeirri stefnu. En nú leggur hún til í brtt. þeirri, sem hún gerir við þetta frv. á þskj. 282, að enn betur en áður hefur verið gert, þegar samþykktar hafa verið sölur lands til sveitarfélaga, verði nú í þessum lögum um það búið. að sveitarfélagið geti ekki selt einstaklingum landið eða hluta þess.

Hv. 3. þm. Reykv., Einar Olgeirsson, hefur bæði við 1. umr. um þetta frv. og að ég ætla áður við meðferð annarra slíkra mála hér á það bent, að tryggilega þurfi að fyrirbyggja, að slíkar sölur sveitarfélaga geti átt sér stað.

Mér er sagt, að ákvæði, sem hafi átt að fyrirbyggja þetta, hafi af hálfu ríkisins verið sett inn í afsöl við afhendingu landsins, þegar hliðstæðar sölur til sveitarfélaga hafa verið gerðar og sú sem hér um ræðir. En nú hefur landbn. fallizt á ábendingu hv. 3. þm. Reykv. um það, sem vissulega er réttmætt, að setja þetta inn í lögin, og geri ég þá ráð fyrir því, að þetta verði að reglu við setningu slíkra laga framvegis. Brtt. er því um það, að hreppsnefndinni í Stokkseyrarhreppi sé með öllu óheimilt að selja öðrum en ríkinu land eða lóðir úr jörðum þeim, sem hér um ræðir. Ég verð að segja það fyrir mitt leyti, að ég tel, að það ætti að verða föst regla, eins og ég drap á áðan, í sambandi við svona lagasetningu, þegar í hlut eiga bæjar- eða sveitarfélög, að setja slík ákvæði. En þá finnst mér með öllu fyrirbyggt, að brask með landið geti átt sér stað. Ég vænti þess, að brtt. verði samþykkt og að síðan eigi málið greiða leið í gegnum þingið.

Ég vil leyfa mér enn fremur, með leyfi hæstv. forseta, að lesa hér úr umsögn jarðeignadeildar ríkisins um þetta mál, en þar segir svo:

„Heimildarlög til að selja Stokkseyrarhreppi allt land í ríkiseign í hreppnum eru hliðstæð lögum, sem hið háa Alþingi hefur áður afgreitt varðandi sölu ríkislands til sveitar- og bæjarfélaga. Má nefna lög um heimild til að selja land Vestmannaeyja, Kópavogs og Digraness, ríkislands á Eyrarbakka, Raufarhöfn o. fl. Ráðuneytið hefur því ekkert við það að athuga, að frv. verði afgreitt sem lög.

F.h. ráðherra,

Sveinbjörn Dagfinnsson.“

Þannig eru þá þessar umsagnir, og ég þykist hafa gert nokkra grein fyrir áliti landbn, og leyfi mér að svo mæltu að leggja til, að málið fái að ganga fram og að því verði vísað nú að þessari umræðu lokinni til 3. umr.