12.12.1960
Efri deild: 34. fundur, 81. löggjafarþing.
Sjá dálk 1335 í B-deild Alþingistíðinda. (1305)

115. mál, réttindi og skyldur hjóna

Frsm. (Bjartmar Guðmundsson):

Herra forseti. Eftir lögum nr. 4 26. febr. 1946 er heimilt að selja ábúendum jarðeignir ríkisins, hafi þeir haft þar ábúð 3 ár eða lengur. Þó er þetta bundið vissum skilyrðum, t.d. þeim, að umsóknum fylgi meðmæli hreppsnefndar á hverjum stað, sýslunefndar undir sumum kringumstæðum, ef sérstaklega stendur á, og jafnvel Búnaðarfélags Íslands, ef jörðin er talin vel fallin til skiptingar eða nota í þágu almennings. Þá eru og ákvæði um, að undan skuli skilja við sölu námur og vatnsréttindi umfram það, sem er til heimilisnota af slíku, og enn, að jörðin skuli vera gerð að óðalseign eftir sérstökum lögum þar um. Hins vegar eru ekki lagaákvæði um sölu á jarðeign ríkisins, sem verið hefur í ábúð sama manns skemur en 3 ár eða í eyði, og er því talið, að þar um þurfi sérstök heimildarlög hverju sinni, og virðist sem svo, að inn í jarðasölulögin frá 1946 þyrfti að bæta ákvæði um þetta, svo að ekki þyrfti á hverju árí að fara með sölumál smájarða fyrir Alþ. og þvæla þeim þar í gegnum sex umr.

Að því er snertir sölu Þorsteinsstaða í Höfðahverfi, Grýtubakkahreppi, er það að segja, að þetta er smájörð, nú í eyði, og er áður búið að leggja hluta landsins undir nýbýlið Áshól, sem stendur við jaðar Þorsteinsstaðalands, byggt út úr prestssetrinu Laufási. Hreppsnefndin í hreppnum telur, að land það, sem enn telst til Þorsteinsstaða, verði bezt notað með því að selja það tveim nábúum Þorsteinsstaða, bændunum í Yztuvík og á Áshóli, öðrum tiltekinn hluta, 25 dagsláttur, hinum það, sem þá er eftir. Sama er álit landnámsstjóra og stjórnarráðsfulltrúans í jarðeignadeild ríkisins. Landbn. þessarar hv. d. leggur til, að þetta verði gert og frv. samþ. með smávægilegri breyt., sem fylgir í nál. á þskj. 303. Einboðið er, að nánar verði fram tekið í afsali um forkaupsrétt ríkisins að landinu, ef til kemur, að ríkið vilji kaupa það aftur.

Legg ég nú til, að málinu verði að lokinni þessari umr. vísað til 3. umr.