03.02.1961
Efri deild: 52. fundur, 81. löggjafarþing.
Sjá dálk 1339 í B-deild Alþingistíðinda. (1325)

158. mál, sóknargjöld

Magnús Jónsson:

Herra forseti. Það voru aðeins örfá orð út af athugasemd hv. 1. þm. Vesturl. Eins og lýst hefur verið hér og hann tók réttilega fram, er þetta frv. samið og samþykkt af kirkjuþingi og flutt hér inn í Alþingi af hæstv. kirkjumrh., ekki beinlínis sem hans mái, heldur vegna þess að hann taldi það rétt, þar sem kirkjuþingi er veitt sérstaða af Alþingi til þess að fjalla um mál kirkjunnar, að þá fengju ályktanir þess, sem eðli málsins samkvæmt þurfa staðfestingar á Alþingi, að fá að koma inn á Alþingi og það væri svo hverju sinni að sjálfsögðu eftir mati þingmanna, hverja úrlausn þeir vildu veita í þeim efnum.

Það vill nú svo til, að ég hafði nokkuð með þetta mál að gera, áður en það var lagt fyrir kirkjuþing, vegna þess að ég átti sæti í nefnd hér í Reykjavík, í safnaðaráði, sem undirbjó þetta mál. Það var þar rannsakað sérstaklega, af þeirri nefnd, hve tilkostnaður hefði vaxið við söfnuði hér í Reykjavík, og það kom í ljós, að til þess að auðið væri fyrir suma þessa söfnuði að standa undir sínum rekstrarkostnaði, þá væri óumflýjanlegt að hækka gjöldin allt að því marki, sem hér er lagt til. Það þykir hins vegar ástæðulaust, eins og fjhn. leggur til, að lögfesta, að það skuli verða hækkun á þessum gjöldum í öllum tilfellum, þó að söfnuðir telji sig ekki þurfa þess, og því er lágmarkið fellt niður.

En varðandi þær aths., sem hv. 1. þm. Vesturl. varpaði hér fram og óskaði sérstaklega eftir að nefndin tæki til athugunar við meðferð málsins hér í þinginu, þá hygg ég, að það sé miklu flóknara og vandasamara mál um að ræða heldur en sé hægt að búast við að verði afgert með þessu frv. hér.

Það vill nú svo til, eftir því sem ég bezt veit, að þá eru gjöldin hæst þar, sem söfnuðirnir eru fjölmennastir, þannig að það er í a.m.k. mjög mörgum tilfellum svo, að í hinum minni söfnuðum er alls ekki notað hámark gjaldanna. Og það hefur, eins og ég sagði, komið í ljós einmitt í hinum fjölmennustu söfnuðum, að þar þarf gjaldið að fara upp í þetta hámark, til þess að þeir fái risið undir sínum kostnaði. Ef því ætti að hugsa sér þá leið, sem mér finnst helzt vaka fyrir hv. 1. þm. Vesturl., að það eigi að miða kirkjugjöldin við það, að settur verði á laggirnar einhver almennur sjóður, sem kirkjugjöldin renni í, og síðan sé þeim úthlutað eftir einhverjum reglum til hinna einstöku kirkna, þá mundi afleiðingin að sjálfsögðu verða sú, að það yrði að leggja hærri gjöld á almenning en nú er talið að þurfi til þess að standa undir þessum kostnaði í fjölbýlinu. Ef sem sagt það er ætlunin, að íbúar fjölbýlisins styðji á þennan hátt að kirkjum í strjálbýlinu, sem ég skal ekki fella neinn dóm um, hvort rétt er, þá þyrfti að sjálfsögðu að fara fram á því víðtæk athugun, hver er heildarkostnaður við kirkjur yfirleitt í landinu og hvernig ástatt er með hina fámennari söfnuði í því sambandi, og síðan yrði að hækka þessi gjöld meira en gert er í þessu frv. hér, vegna þess að með þeim gjöldum, sem hér er gert ráð fyrir, er aðeins miðað við það, sem þéttbýlissöfnuðirnir þurfa til sinnar eigin framfærslu, ef svo mætti segja, og ekki um það að ræða, að það verði hægt að leggja á þá neinar kvaðir eða safnaðargjöld þeirra í því skyni að leggja til hinna fámennari kirkjusókna. Mér sýnist því, hvað sem segja má um hugmynd hv. þm., að þá sé það algerlega útilokað, vegna þess að það þurfi svo mjög mikla athugun og rækilega, að fara nú í sambandi við þetta frv. að taka upp alveg nýja skipan á kostnaði við kirkjur og viðhald þeirra og annan kirkjukostnað. Og ég teldi það í rauninni algerlega óeðlilegt, að farið yrði á Alþingi að fyrra bragði að lögfesta einhverjar slíkar reglur, sem fælu í sér gerbreytingu á því skipulagi, sem verið hefur, án þess að það hefðu komið fram frá kirkjunnar mönnum sjálfum raddir í þá átt og það mál tekið fyrir með eðlilegum hætti á kirkjuþingi. Þar sýnist mér að sé hinn rétti vettvangur til þess að hefja umræður um þessa hugmynd, sem ég, eins og ég áðan sagði, skal ekki fella neinn dóm um. Þetta er algerlega ný hugmynd, hygg ég vera, að taka upp slíkar aðferðir, einhvers konar jöfnun sóknargjalda um land allt til þess að aðstoða þá söfnuði, sem verst eru settir. En eigi slík skipan á að koma, þá tel ég vera það eina rétta og eðlilega, að það mál sé tekið fyrst upp meðal kirkjunnar manna og þá á kirkjuþingi og fengin þar afstaða til þess máls, áður en það yrði lögfest hér á Alþingi. Þótt þetta frv. nú yrði lögfest, felur það ekki í sér neina breytingu á skipan þessara mála, heldur aðeins skapar skilyrði til þess, að söfnuðirnir geti á sómasamlegan hátt staðið undir sínum tilkostnaði. Þetta gjald er ekki heldur lögfest, eins og menn vita, heldur er það aðeins heimild, þannig að safnaðarfundir á hverjum stað hafa það á sinu valdi innan þessara marka, að hve miklu leyti þeir vilja nota þá heimild til að leggja á sóknargjöld, sem hér er gert ráð fyrir.