03.02.1961
Efri deild: 52. fundur, 81. löggjafarþing.
Sjá dálk 1340 í B-deild Alþingistíðinda. (1326)

158. mál, sóknargjöld

Ásgeir Bjarnason:

Herra forseti. Hv. 6. þm. Norðurl. e. tók vinsamlega á mínu máli, að ég ætla. Hins vegar telur hann ýmsa annmarka á því, að það verði hægt nú að ráða bót á þeim fjárhagsörðugleikum, sem hinir fámennu söfnuðir úti á landi eiga við að stríða í sambandi við sín kirkjumál, og slíkt muni ekki kleift undir meðferð þess máls, sem nú liggur fyrir Alþingi, og það má vel vera. En einhvern veginn er það nú þannig, að þó að bæði synodus og kirkjuþing og aðrar ráðstefnur hinna trúræknu manna landsins hafi á undanförnum árum og áratugum fjallað um fjárhagsmál kirkjunnar, þá virðist ekki þar hafa komizt á viðunandi lausn. Og skal ég ekki neitt fara út í þá sálma, af hverju slíkt kann að stafa. En það, sem kann að valda því sérstaklega, að gjöldin í fjölmennu söfnuðunum eru hærri en þar, sem þeir eru fámennari, eru einkum tvær ástæður: í fyrsta lagi það, að kirkjunum og öllu, sem þar að lýtur, er betur við haldið en hjá hinum fámennari söfnuðum úti á landi, og auk þess að öllum jafnaði meiri og betri fjárhagsmöguleikar hjá þeim söfnuðum en í fámennu söfnuðunum. Og eigi að koma kirkjum í svipað horf víða hjá hinum fámennari söfnuðum og nú á sér stað í þéttbýlinu, þá kostar það svo mikið fjármagn, að slíkt er útilokað nema með einhverjum nýjum fjáröflunarleiðum, sem hinir fámennu söfnuðir hafa alls ekki tiltækilegar, eins og nú standa sakir. Og það eru þessi mál, sem mér datt í hug að n. tæki að einhverju leyti til athugunar, og varpaði því áliti fram, að þessi mál gætu því frekar komið til umræðu nú en verið hefur, þótt það sé ekki úr þeim hægt að bæta nú í augnablikinu, en aftur á móti í náinni framtíð. Við vitum, hver þróunin hefur verið í þessum efnum, að fólkinu hefur farið sífækkandi í sveitum landsins og þar af leiðandi gjaldendum hinna fámennu sókna víðs vegar um landið og kirkjurnar af þeim sökum vanræktar og það mikið fram yfir það, sem er í þéttbýlinu, og auk þess er gjaldgeta þess fólks oft mjög af skornum skammti, ekki sízt þegar borið er saman við hinar ýmsu fjáröflunarleiðir, sem tiltækilegar eru í þéttbýlinu. Ég vænti þess, að nefndin ræði þessi mál, þannig að þau gætu frekar komið fram á sjónarsviðið og bæði kirkjuþing og aðrar ráðstefnur hinna bezt lærðu og trúuðu manna landsins mættu sjá það, að Alþingi mundi ekki sem slíkt standa í vegi fyrir því, að reynt yrði að bæta úr í þessum efnum, þegar til þess kasta kemur.