03.02.1961
Efri deild: 52. fundur, 81. löggjafarþing.
Sjá dálk 1345 í B-deild Alþingistíðinda. (1329)

158. mál, sóknargjöld

Frsm. (Ólafur Björnsson):

Herra forseti. Það eru aðeins örfá orð í tilefni af ræðu hv. 1. þm. Vesturl. Hann benti á það, — og um það atriði er ég honum í raun og veru alveg sammála, að sú hækkun á sóknargjöldum, sem þetta frv. gerir ráð fyrir, mundi verða ófullnægjandi til þess að leysa fjárhagsvandamál ýmissa hinna fámennu safnaða úti á landi. Ég tel ekki vafa á því, að þetta muni vera rétt. En í framhaldi af þessu benti hann á það, og undir það hafa tekið tveir aðrir hv. þm., sem hér hafa talað, að rétt væri, að nefndin tæki það til athugunar, að mér skildist á milli umræðna, á hvern hátt væri hægt að ráða bót á því vandamáli. Það er nú svo a.m.k. að þessu sinni, að nefndin hefur aðeins skoðað það sem hlutverk sitt í sambandi við þetta mál að taka afstöðu til þeirra tillagna, sem gerðar hafa verið frá kirkjuþingi um þetta atriði. Það er aðeins farið fram á það, að heimilað verði að hækka sóknargjöldin upp í 100 kr. á mann. Í upphaflega frv. var að vísu gert ráð fyrir því, að lágmarkið í sóknargjöldum, sem áður hafði verið, hækkaði líka, en það töldum við ástæðulaust, þar sem hinir einstöku söfnuðir hafa í hendi sinni að fara upp í hámarkið, ef þeir telja þess þörf. Telji söfnuðirnir, að slíks sé ekki þörf, þá er vitanlega ástæðulaust að skylda þá til þess, og skilst mér í rauninni, að um þetta atriði sé ekki neinn ágreiningur. Hitt, hvernig leysa eigi svo með einhverjum öðrum hætti fjárhagsvandamál þessara safnaða, er miklu víðtækara mál, og kemur þar að sjálfsögðu margt til greina. En ég hef litið þannig á, að verkefni fjhn. í sambandi við þetta væri eingöngu það að taka afstöðu til till., sem kirkjuþing þegar hefur gert.

Varðandi svo hitt stærra málið, sem auðvitað þarf sinnar úrlausnar líka, þá má auðvitað að mínu áliti deila um vinnubrögð í sambandi við það. Ég veit nú satt að segja ekki, hvort eðlilegt er, að fjhn. taki það upp á sínar eigin spýtur að gera till. í því efni.

Mér finnst, að áður sé eðlilegt, að einhverjar till. komi frá þeim aðilum, sem þessi mál fyrst og fremst snerta, og þá frá kirkjuþingi. Það tel ég eðlilega málsmeðferð. En hvað sem öðru líður, mun nefndin, þegar hún næst heldur fund, ræða þær ábendingar, sem hér hafa komið fram, hvort sem hún mundi telja það í sínum verkahring að gera frekara í þessu máli að svo stöddu en að taka afstöðu til þess máls, sem fyrir hana hefur verið lagt.