02.12.1960
Neðri deild: 31. fundur, 81. löggjafarþing.
Sjá dálk 1348 í B-deild Alþingistíðinda. (1345)

117. mál, ábúðarlög

Gísli Jónsson:

Herra forseti. Ég var ekki staddur hér á þingi í fyrra, þegar þetta mál var hér til umr., og í framsögu hv. frsm. kom ekki fram neitt sérstakt, sem upplýsti málið. Hins vegar er hér um allmikinn lagabálk að ræða. Tekur það nokkurn tíma að kynna sér það til hlítar, svo að það sé hægt að ræða um einstök atriði. En ég vil þó leyfa mér á þessu stigi málsins að beina þeirri spurningu til hv. landbn., hvort hún sæi sér ekki fært að athuga nánar kafla um byggingu jarða, 2.–5. gr., og einnig kaflann um ábúðartíma og eftirgjald, 9.–18. gr. Skal ég hér með fáum orðum skýra frá því, hvers vegna ég tel, að þetta sé nauðsynlegt.

Eins og kunnugt er, er samkvæmt núgildandi lögum og einnig samkv. ákvæðum í því frv., sem hér liggur fyrir, gefin heimild til sveitarstjórna að gera sérstakar ráðstafanir til þess að koma jörðum, sem eru í eyði, í byggð, en þetta er þó ekki lagt sem ófrávíkjanleg skylda á sveitarstjórnir. Nú er það vitað, að fjöldi jarða, einkum og sér í lagi þeirra jarða, sem hafa mikil hlunnindi, hvort heldur um er að ræða æðardún, selveiði eða önnur slík hlunnindi, hefur einmitt farið mjög mikið í eyði vegna þess að þetta ákvæði l. hefur ekki verið notað af viðkomandi sveitarstjórnum, og ber þar ýmislegt til. M.a. veigra þær sér við að ganga á rétt skyldmenna eða kunningja, eins og oft vill verða, og ýmislegt annað, sem veldur því, að sveitarstjórnir, sem þó sitja ekki oft og tíðum nema ákveðið kjörtímabil, taka ekki á sig þá erfiðleika, sem því fylgja, að lögunum sé framfylgt. En ég tel einmitt þess vegna, að það sé alveg óhjákvæmilegt að kveða miklu nánar á um þessi atriði í frv., annaðhvort með því að leggja þessa kvöð á sveitarstjórnirnar beinlínis eða að ákveðnum aðilum, sem mundu vilja byggja þessar jarðir, væri heimilt að tryggja sér ábúð eftir ákveðnum, föstum reglum. Mér þætti ekkert óeðlilegt, að það ákvæði yrði sett inn í lögin, að ef maður hefði ekki byggt jörð þannig, að hún væri nytjuð af þeim aðila, sem býr á jörðinni, í s.l. 5 ár eða jafnvel styttri tíma, þá skuli hann verða að lúta því sem jarðeigandi annað tveggja að hýsa jörðina upp og byggja hana eða selja hana við þreföldu fasteignamatsverði, svo sem jarðir eru nú metnar til skatts. Gæti það þá orðið til þess, að viðkomandi aðilar hugsuðu meira um jarðirnar en gert er.

Mér er vel kunnugt um, að meginhluti af jörðum á Breiðafirði hefur einmitt farið í eyði vegna þess, að þær hafa ýmist verið nytjaðar af eigendunum, sem búa ekki á jörðunum, eða leigðar öðrum aðilum, sem ekki heldur búa á jörðunum og nytja þær að fullu, og eftirgjaldið miðað við það, sem hægt er að rányrkja jarðirnar með dúntekju og selveiði, en jarðirnar sjálfar látnar grotna niður bæði að húsum og jarðabótum. Og það segir sig sjálft, að þegar þannig er búið að fara með jörð og siðan á að fara að taka hana á ný til þess að byggja upp á henni og rækta að nýju vegna vanrækslu þeirra eigenda, sem hafa haft margfaldar tekjur af jörðunum, eins og ég veit að þeir hafa haft, þá þarf ríkissjóður m.a. að leggja fram allmikinn hluta, bæði í hagkvæmum lánum og jarðabóta- og húsastyrkjum, til þess að koma slíkum jörðum í ábúð, og tel ég, að það sé ekki heppilegt fyrirkomulag hvað snertir þessar eignir.

Það sama gildir raunverulega um ábúðartíma og eftirgjald, að þó að það sé til þess ætlazt, að landsetinn njóti fullra húsabóta frá landsdrottni, þá er venjan sú, að fjöldi bænda, sem býr á leigujörðum, verður sjálfur að kosta að fullu og öllu húsakost og situr þar í mjög hárri leigu, þegar tekið er tillit til þess, að hann verður sjálfur að standa undir öllum þeim kostnaði, sem því fylgir að byggja bæði peningshús og íbúðarhús. Ég þekki m.a. allmörg dæmi, þar sem bændur verða að greiða leigur, sem metnar voru á sínum tíma með fullum húsakosti, en hafa svo sjálfir orðið að byggja upp að fullu og öllu á jörðunum, bæði hvað snertir peningshús og íbúðarhús, án þess að leiguafgjöldin væru lækkuð. Ég tel því rétt, að sett verði inn í frv. ákvæði um það, að ef landeigandi vill ekki hýsa jörð, eftir því sem nauðsynlegt er og krafa er gerð um á hverjum tíma, bæði fyrir menn og skepnur, þá sé hann skyldugur til þess að selja ábúanda jörðina með þreföldu fasteignamati eða þann hluta hennar, sem hann sjálfur á, sem oftast er ekki annað en landið í mismunandi rækt.

Þetta þótti mér rétt að láta koma fram á þessu stigi málsins og vænti þess. að hv. landbn. taki þessi mál til athugunar. Mér þykir rétt að geta þess, að ég hef rætt um þetta við landnámsstjóra, og er ekki úr vegi, að n. hefði um það samráð við hann, því að hann er manna kunnugastur þessum málum, og þá væri einnig gott, ef það væri tekið til athugunar, hvaða leiðir væri hægt að fara til þess verulega að lækka leigu af þeim jörðum, sem hafa mikil hlunnindi og þar sem svo er ástatt, að landeigendur taka svo að segja öll hlunnindi eða öll verðmæti hlunnindanna og skilja svo bændurna eftir með erfiðið til þess að hirða hlunnindin og hirða um jarðirnar að öðru leyti. Ég er að sjálfsögðu fús til þess að ræða við n. um þessi atriði, ef hún óskar þess, en vænti hins vegar, að hún taki þessar ábendingar til athugunar, áður en málið fer út úr þessari hv. deild.