20.03.1961
Efri deild: 76. fundur, 81. löggjafarþing.
Sjá dálk 1364 í B-deild Alþingistíðinda. (1391)

182. mál, afhending Þingeyjar í Skjálfandafljóti

Bjartmar Guðmundsson:

Herra forseti. Ég mun láta það afskiptalaust, hvort einn eða annar greiðir þessari brtt. atkv. eða ekki, en ég tel rétt, að ég, sem er þessum málum kunnugur, gefi ofur litla skýringu á því, hvers vegna þetta frv. er fram komið.

Það var á sýslufundi 1957, að sýslumaðurinn í Þingeyjarsýslu, sem þá var nýkominn þar að embætti, hreyfði því, hvort það væri ekki viðeigandi, að sýslan næði eignarhaldi á Þingey, sem er dálitið sögukunnur staður og öll sýslan — Þingeyjarsýsla — ber nafn af. Þessi hugmynd fékk þá strax góðar undirtektir á fundinum, og var rætt um það, þó að óljóst væri þá og nokkuð í þoku, að þarna gæti máske komið einhvers konar héraðsgarður, skógrækt eða eitthvað slíkt, og þó vakti það sérstaklega fyrir sýslunefndarmönnum að varðveita þarna þær fornminjar, sem enn sjást eftir þinghald á Þingey. Og á þessum fundi var sýslumanninum falið að leita þess að fá eignarhald á eyjunni gegnum löggjöf, og komu bæði fram raddir um það á fundinum, að eðlilegt væri, að sýslan fengi að kaupa eyjuna, einnig það, að vel gæti komið til mála, að ríkið afhenti hana endurgjaldslaust. Ég hygg, að sýslumaðurinn hafi þá þegar leitað þess við þáverandi þm. S-Þ., að hann flytti frv. um þetta á Alþingi, hvað ekki varð, og ég hygg, að hann hafi leitað þess tvisvar, ef ekki þrisvar, að þessi hv. þm. flytti um þetta frv. Nú í haust mun honum hafa verið farið að leiðast það að leita til þessa þm. án árangurs og leitaði því til annarra þm. um þetta, eins og fram hefur komið hér á því þskj., sem þetta frv. er flutt á. Og ég hygg, að þegar hv. þm. S-Þ. á sínum tíma var falið að flytja þetta mál, þá hafi honum algerlega verið í sjálfsvald sett um það, hvort hann flytti þetta sem frv. um sölu eða um afhendingu endurgjaldslaust. Og enn var þessum hv. þm. boðin þátttaka í flutningi á þessu frv. nú á þessu þingi, en hann vildi ekki vera þar með. Þess vegna hefði mér fundizt það vera eðlilegra, að hann hefði komið þeim ákvæðum inn í frv., — ég hygg, að honum hefði verið það í lófa lagið í upphafi, — að ríkið afhenti þessa eign endurgjaldslaust, en ekki með sölu. Hins vegar vil ég segja það, að ég tel það í raun og veru engu máli skipta, hvort þar er um sölu eða gjöf að ræða, því að þarna er um svo litla fjárhæð að gera. Þessi eyja er virt á 1400 kr. að fasteignamati, og í lögum frá 1946, um sölu þjóðjarða, er gert ráð fyrir því, að þær séu seldar yfirleitt með fasteignamati. Og nú gerir þetta frv. ráð fyrir því, að tillit sé tekið til við mat á eigninni, hvað hugmynd sýslunnar er að gera með hana, svo að mér þykir ekki líklegt, að mat á henni fari fram yfir 1400 kr. Þess vegna tel ég það í sjálfu sér algert aukaatriði, hvort eyjan er gefin eða seld svona lágu verði. Hitt er svo aftur annað mál, að ég hef heyrt það á ýmsum hv. alþm., að þeim finnist munu vera skapað fordæmi, ef þarna sé farið inn á þá braut, að ríkið gefi fasteignir, en selji ekki. Það er aðeins þess vegna, sem sumir af þeim eru frekar á móti því að mæla með þessari brtt.

Ég þykist þá hafa gert nokkra skýringu á því, hvernig þetta frv. er fram komið og aðdraganda þess, og mun að sjálfsögðu, eins og ég hef þegar sagt, telja það hreint aukaatriði, hvort hér er um sölu eða afhendingu án endurgjalds að ræða.