20.03.1961
Efri deild: 76. fundur, 81. löggjafarþing.
Sjá dálk 1365 í B-deild Alþingistíðinda. (1392)

182. mál, afhending Þingeyjar í Skjálfandafljóti

Karl Kristjánsson:

Herra forseti. Hv. 10. landsk. þm. gaf hér það, sem hann kallaði skýrslu um þetta mál, og vildi þá stíla hana á þá leið að gera mig að einhverju leyti tortryggilegan með afstöðu mína í málinu. Mér finnst það dálitið skrýtið og í raun og veru undarlegt, að hann skuli vera svo ókunnugur þessu máli sem hann virðist vera.

Ég gat þess, þegar ég talaði hér við 1. umr. málsins, að ég hefði stofnað til þess í haust, að sýslumaðurinn færi með mér í Þingey til þess að athuga hana, enn fremur hefði ég þá fengið tvo þá bændur, sem eiga part af eynni, til þess að fara þangað líka. Með því að gera þetta vildi ég bæði kynnast eynni sjálfur og að sýslumaðurinn gæti líka kynnzt henni, því að hann hafði aldrei þangað komið fyrr. Í öðru lagi vakti það fyrir mér að eyða ágreiningi heima fyrir, sem hafði komið upp í þessu máli og var sprottinn af því, að upphaflega, þegar sýslufundur samþykkti, eins og hv. 10. landsk. gat um, á fyrsta ári núv. sýslumanns okkar Suður-Þingeyinga að óska eftir að eignast eyna, þá var líka tekið fram að óska þess, að ríkið tæki eyna eignarnámi handa sýslunni, að því leyti sem hún er í eigu bændanna, sem hafa haft þar not um langan aldur. Og það var fyrsta stigið í þessu máli að grennslast eftir því hjá þáv. ríkisstj., og það. gerði ég, hvort hún teldi, að málið horfði þannig við, að eðlilegt væri, að ríkið tæki eignarnámi fjórða hluta eyjarinnar handa héraðinu.

Ég fékk þau svör, að þeir, sem þá fóru með þessi mál, teldu, að þannig yrði málið varla rekið. Hitt væri það, að héraðið gæti kannske fengið eignarnámsheimild með lögum, ef það væri í samræmi við stjórnarskrárákvæði, sem um það gilda, að megi taka eignarnámi, ef almenningsheill krefur. Nú grennslaðist ég eftir því hjá lögfræðingum, hvort þeir mundu telja, að ef ætti að gera Þingey að þjóðgarði, þá krefðist þess almenningsheill, þannig að hægt væri að ætlast til þess, að eignarnámsheimild fengist til þess að taka hana til þeirra nota af bændum. Og mér skildist á lögfræðingunum, að þeir teldu þetta mjög vafasamt. Þá fór ég að reyna að beita mér fyrir því, að samkomulag gæti náðst við bændurna, þ.e. milli bændanna og sýslumannsins í Þingeyjarsýslu, sem ég hef nú yfirleitt mjög gott samstarf við. Hef ég unnið að því, að samkomulag næðist, og m.a. var ferðin í haust farin til þess að fá viðræður um þetta við bændurna, viðræður á milli sýslumannsins og þeirra, og mér fannst málinu þoka mikið fram þá til sátta. Um það getur verið að ræða, að þeir selji eða láti á einhvern, hátt af hendi þann fjórðung eyjarinnar, sem þeir eiga. Enn fremur gæti verið um það að ræða, að eynni yrði skipt, því að sem héraðsgarður þarf hún ekki að vera öll, hún er það stór. En þá er það til óþæginda, að eyjan er ekki hlutuð sundur. Hún er sameign ríkisins og þessara bænda, og það liggur ekki ljóst fyrir, hvernig ætti að skipta, því að gróðurfarið í eynni er ákaflega misjafnt. Eðlilegt væri, að bændurnir fengju sneið af eynni undan löndum sínum, en þannig er gróðurfarið þar, að þeir munu telja, að þeim sé minna virði að fá slíka sneið en einhver önnur skipti.

Nú vildi ég fresta þessu máli enn til þess að reyna að koma á fullum sættum í því, svo að allir aðilar gætu orðið ánægðir, og ég lagði það til, að þjóðminjavörður yrði fenginn til að koma norður næsta sumar til þess að líta á eyna og ræða þessi spursmál með okkur, og ég talaði um þetta við þjóðminjavörðinn, þegar ég kom hingað suður til þings, og hann tók því vel að koma norður næsta sumar, en sjálfsagt er að koma þangað að sumri til þess að geta gert sér grein fyrir gróðurfarinu sem bezt. Enn fremur taldi ég, að hann ætti sérstakt erindi, eins og ég gat um við 1. umr., til að lesa úr því, hvað væru minjar eftir þinghaldið og hvað væru leifar af gömlum bæ og húsum hans, bæði bæjarhúsum og peningshúsum, sem var um skeið þarna á eynni byggður ofan í þingstaðinn. Það er ekki nema fyrir fræðimenn að lesa það sundur.

Af þessum ástæðum hef ég dregið að beita mér fyrir málinu með flutningi frv. Hitt skal ég upplýsa, að Jóhann Skaftason sýslumaður skrifaði mér, um leið og hann skrifaði hv. forseta Sþ., 5. landsk. þm. (FS), og bað hann fyrir málið, og spurði mig að því, hvort mér þætti það nokkuð verra, þó að hann bæði hann þá að sýna málið nú í Alþingi. Ef mér þætti það að einhverju leyti móðgun við mig, þá vildi hann láta það falla niður. Vitanlega taldi ég það enga móðgun við mig, en ég hafði hugsað mér, að næsta sumar yrði þrætum lokið um þessa eign, sáttum komið á milli bændanna og sýslunnar og áætlun gerð um þessa framkvæmd, svo að fyrir næsta Alþingi gæti málið legið miklu hreinna en það liggur nú.

En þegar frv. kom fram, var fram komið hvort sem var, þá sýndist mér einboðið að leggja fram brtt. um það, að sýslan fengi landið til umráða og eignar ókeypis með þeim skilyrðum, sem fram eru tekin í brtt. mínum. Ég get ekki séð, að það gæti skapað nokkurt fordæmi, þó að ríkið afhenti þessa eign á þann hátt, því að það munu ekki vera margir staðir, sem geyma þannig sögulegar minjar frá þjóðveldistímanum, að það sé hætta á því, að margir gangi fram og telji sig hafa rétt í skjóli þess, ef Alþingi samþykkir nú að láta Þingeyinga hafa þann hluta Þingeyjar, sem ríkið á, án þess að þeir greiði fyrir það, þegar þessi er tilgangurinn með því að biðja um landið.

Ég vænti þess, — ég tek það aftur fram, — að ég vænti þess, að hv. þm. telji sanngjarnt að samþykkja brtt. mínar, og ég skil eiginlega ekkert í því, að nokkur a.m.k., sem er kunnugur þarna heima og stendur að málum t.d. sem Þingeyingur, hafi ástæðu til að vera á móti því.