10.10.1960
Sameinað þing: 0. fundur, 81. löggjafarþing.
Sjá dálk 13 í B-deild Alþingistíðinda. (14)

Landhelgismálið

Forsrh. (Ólafur Thors):

Herra forseti. Eins og hv. Alþ. er kunnugt, lýsti ríkisstj. því yfir hinn 10. ágúst s.1., að hún væri reiðubúin til að verða við tilmælum brezku stjórnarinnar um að taka upp viðræður milli ríkisstjórna landanna um deilu þá, sem er um aðstöðu brezkra fiskiskipa á Íslandsmiðum. Virtist ríkisstj. einsætt, að kanna bæri til hlítar öll úrræði, sem koma mættu í veg fyrir áframhaldandi árekstra á Íslandsmiðum, auk þess sem vinna þyrfti að framgangi ályktunar Alþingis frá 5. maí 1959, og taldi því þegar af þeim ástæðum rétt að verða við tilmælum um viðræður.

Jafnframt ítrekaði ríkisstj. við brezku ríkisstj., að hún teldi Ísland eiga ótvíræðan rétt að alþjóðalögum til þeirrar fiskveiðilögsögu, sem ákveðin hefur verið. Viðræður við brezku stjórnina hafa nú staðið yfir í viku. Í þeim viðræðum hefur það gerzt, að Íslendingar Hafa skýrt sjónarmið sín og þarfir á grundvelli ályktunar Alþingis. Hafa Bretar sömuleiðis gert grein fyrir sínum sjónarmiðum. En lengra eru viðræðurnar ekki komnar, enda var viðræðutíminn ákveðinn af hálfu ríkisstj. með það fyrir augum, að unnt væri að hafa samráð við Alþingi, áður en úrslitaákvarðanir væru teknar um málið.

Út af því, sem sagt hefur verið um gefin loforð í hv. utanrmn., þá minni ég á, eins og ég þegar hef tekið fram, að enn hafa viðræður snúizt um það, að aðilar útskýrðu afstöðu sína til málsins. Og hefur slíkt að sjálfsögðu ekki gefið sérstakt tilefni til, á þessu stigi málsins, að kveðja utanrmn. saman.

Vænti ég, að þessar skýringar fullnægi alvel þeim fsp., sem hér hafa komið fram.