13.12.1960
Neðri deild: 36. fundur, 81. löggjafarþing.
Sjá dálk 70 í B-deild Alþingistíðinda. (144)

133. mál, almannatryggingar

Í 17. gr. eru gerðar nokkrar breytingar á barnalífeyrisgreiðslunum. Þar var í gildi skerðingarákvæði, þannig að ef ekkja með börn naut barnalífeyris, þá gat hún átt það á hættu, ef hún giftist aftur, að þurfa að lenda í því, ef síðari maður hennar var vel efnum búinn, að barnalífeyririnn félli niður. Það er afnumið með þessari grein:

Þá eru enn nokkur ný ákvæði í gr. um, hvernig með skuli fara, þegar ekkill á að sjá fyrir börnum, eða ég vildi segja, að aðalkjarninn væri sá, að hann nyti sömu bóta og ef konan yrði öryrki eða móðir barnanna yrði öryrki.

Þetta eru raunar aðalatriði frv.

Ég sé svo ekki ástæðu til að rekja þetta mál frekar. Það er ákaflega einfalt og búið að vera á döfinni æði lengi. Ég skal í því sambandi nefna. að í almannatryggingalögunum frá 1946 ér ekki gert ráð fyrir því, að þessi skerðing á ellilífeyrisgreiðslunum standi nema í fimm ár. En það varð nú úr, að sá frestur var ekki fimm ár, heldur tíu ár, og svo er þetta enn tekið upp í almannatryggingalögunum frá 1956, þannig að þar er bætt enn fimm árum við, eða ekki gert ráð fyrir því, að þetta afnám skerðingarinnar komi til framkvæmda fyrr en í ársbyrjun 1961. M.ö.o.: því hefur verið frestað æ ofan í æ að afnema þessi skerðingarákvæði og nú fyrst horfið að því í fullri alvöru að gera það.

Ég get nú ekki, eins og liggur í hlutarins eðli, gefið nákvæmar upplýsingar um kostnaðinn við þessa framkvæmd. Það er gert ráð fyrir því, að hann verði eitthvað rúmar 20 millj., kannske 22 eða þar í kring, og að verulegum hluta greiddur úr ríkissjóði, en áætlunartala um þetta hefur þegar verið tekin inn í fjárl. eða var tekin upp í fjárlagafrv., og samþykkt þessa frv. breytir þess vegna engu um fjárþörf almannatrygginganna fram yfir það, sem gert er ráð fyrir í sjálfu fjárlagafrv. Ég hefði því talið það skemmtilegt og raunar æskilegt, að frv. hefði getað orðið afgr. fyrir áramótin, þegar þetta á að koma til framkvæmda, og vildi beina því til hv. nefndar, sem frv. fær til athugunar, hvort hún sæi sér ekki fært að flýta afgreiðslu málsins svo, að þetta gæti orðið.

Ég vil svo leyfa mér að leggja til, að frv. verði að lokinni þessari umr., herra forseti, vísað til hv. heilbr.- og félmn.